Beint í efni

Varnarmúr íslenskunnar: Fimmtíu ár með Þórarni Eldjárn

Varnarmúr íslenskunnar: Fimmtíu ár með Þórarni Eldjárn
Höfundur
Þórarinn Eldjárn
Útgefandi
Gullbringa
Staður
Reykjavík
Ár
2024
Flokkur
Ljóð
Varnarmúr íslenskunnar: Fimmtíu ár með Þórarni Eldjárn
Höfundar
Þórarinn Eldjárn,
 Þórarinn Már Baldursson
Útgefandi
Gullbringa
Staður
Reykjavík
Ár
2024
Flokkur
Ljóð
Varnarmúr íslenskunnar: Fimmtíu ár með Þórarni Eldjárn
Höfundur
Þórarinn Eldjárn
Útgefandi
Gullbringa
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Smásögur
Höfundur umfjöllunar
Þorvaldur S. Helgason

Mín fyrstu kynni af ljóðlist voru að öllum líkindum í gegnum skáldskap Þórarins Eldjárns, nánar tiltekið barnaljóðin. Fyrsta barnaljóðabók höfundar, Óðfluga (1991) kom raunar út sama ár og ég fæddist og var hún fastur liður í bókmenntalegu uppeldi mínu ásamt öðrum bókum sem systkinin Þórarinn og Sigrún Eldjárn unnu saman um þetta leyti; svo sem Heimskringlu (1992) og Halastjörnu (1997). Mér var því ljúft og skylt að taka að mér það verkefni að skrifa um skáldskap Þórarins Eldjárns í tilefni 50 ára höfundarafmælis hans. Þórarinn Eldjárn hefur verið einn af burðarstólpum íslenskrar ljóðlistar allt frá því fyrsta bók hans, hin hæversklega titlaða Kvæði, kom út 1974. Sú bók naut fádæma vinsælda á sínum tíma og var endurprentuð minnst fjórum sinnum (sjö sinnum ef taldar eru með endurprentanir í safnritum). Ætlunin hér er þó ekki að endursegja ritferil og höfundarverk Þórarins (fyrir slíkt bendi ég góðfúslega annars vegar á grein Eysteins Þorvaldssonar, „Að miðla lífinu til okkar“, og hins vegar á grein Þorgeirs Tryggvasonar, „Listin að bjarga verðmætum“, sem báðar eru aðgengilegar hér á Bókmenntavefnum) heldur að reyna eftir bestu getu að varpa ljósi á stöðu hans sem rithöfundar á 50 ára höfundarafmælinu.

Það fyrsta sem blasir við er litið er yfir ritaskrá Þórarins Eldjárns árið 2024 hlýtur að vera hversu gríðarlega afkastamikill höfundur hann hefur verið á sinni 50 ára starfsævi. Þórarinn hefur þann kost umfram marga aðra höfunda af sinni kynslóð að hann státar af mjög aðgengilegri vefsíðu þar sem finna má upplýsingar um öll hans helstu verk. Samkvæmt ritaskránni þar eru frumsamdar bækur Þórarins 48 talsins en útgefin verk hans slaga hátt upp í 100 ef allt er talið með svo sem þýðingar, hljómdiskar, leikrit og samstarfsverk. Höfundur sem gefur út framsamið verk nánast á hverju ári í hálfa öld hlýtur að teljast nokkuð afkastamikill en það er auðvitað fjarstæða að dæma rithöfund út frá afköstunum einum og því nærri lagi að spyrja, hver hafa áhrif allra þessara verka verið? Til að svara því mætti til dæmis benda á þau ýmsu verðlaun og viðurkenningar sem Þórarinn hefur hlotið fyrir skrif sín, þ.á.m. Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar 1998, Borgarlistamaður Reykjavíkur 2008 og Verðlaun sænsku akademíunnar fyrir útbreiðslu sænskrar menningar erlendis 2013. En ef til vill er óþarfi að leita langt yfir skammt og nægir kannski að vísa til orða Sjóns sem ritar káputextann á nýútkomnu ljóðaúrvali Þórarins, 100 kvæði (2024), sem spannar hundrað ljóð frá 50 ára ferli skáldsins, hvar hann endar á að segja: „Ljóðlist Þórarins Eldjárns er íslensk klassík“.  En ef ljóðlist Þórarins Eldjárns er íslensk klassík, eins og Sjón vill meina, hvað er það þá nákvæmlega sem gerir hana klassíska? Til þess að svara því þurfum við augljóslega að fara í ferðalag um skáldskap Þórarins.

Samþætting hins hefðbundna og nútímalega

Eitt af því sem hefur einkennt skáldskap Þórarins Eldjárns allt frá hans fyrstu ljóðum er samþætting hefðbundins kveðskapar við nútímaleg viðfangsefni. Þetta sést glöggt í fyrstu ljóðabók skáldsins, Kvæði (1974), þar sem skáldið yrkir meðal annars um fígúrur úr dægurmenningu á borð við Tarsan, Möve-reiðhjól og Palla sem var einn í heiminum. Síðastnefnda kvæðið heitir eftir hinni heimsþekktu barnabók frá 1942 eftir Jens Sigsgaard og tekur form sonnettu þar sem höfundur túlkar vandkvæði Palla með fáguðu og existensíalísku ljóðmáli:

Ó, Palli minn, í dauðum hlutaheimi
þú hringlaðir á tilgangslausu sveimi.

(„Palli var einn í heiminum“)

Þetta kvæði, ásamt ýmsum öðrum, má finna í hinu áðurnefnda og nýútkomna ljóðaúrvali 100 kvæði. Bókin er bæði aðgengileg og eiguleg, innbundin í sinnepsgula strigakápu með áþrykktri teikningu af andlitsdráttum skáldsins. Bókin inniheldur flest af þekktustu kvæðum Þórarins Eldjárns valin af Kristjáni Þórði Hrafnssyni en helsti galli hennar er þó sá að hvergi er tekið fram í efnisyfirliti úr hvaða bókum kvæðin eru fengin.

Annað sívinsælt kvæði Þórarins Eldjárns sem einnig er að finna í safnbókinni er „Sveinbjörn Egilsson“. Kvæðið er einskonar karakterstúdía af guðfræðingnum, skáldinu og þýðandanum Sveinbirni Egilssyni sem dregin er af lýsingu frá syni Sveinbjörns, Benedikt Gröndal, úr skáldævisögu hans Dægradvöl. Um er að ræða einkar myndrænt og skemmtilegt ljóð þar sem Hómersþýðandanum Sveinbirni er lýst sem hálfgerðri ofurhetju eða í það minnsta þjóðsagnapersónu sem „stökk og flaug um loftin dökk“. Þarna kemur hin tæra orðsnilld Þórarins bersýnilega í ljós í flugbeittum línum á borð við:

Sveinbjörn tróð hin tæru loft
sem tímavilltur helíkopt.

(„Sveinbjörn Egilsson“)

Í bókinni má einnig finna kvæði úr nýjustu bókum Þórarins, svo sem ljóðabókinni Hlustum frekar lágt sem kom út 2023 og inniheldur eftirfarandi stöku:

Þétting

Heill vetur býr í einum köldum klaka
í krækiberi heilt sumar athvarf hlaut.
Heila sögu segir einföld staka
súputeningur rúmar vel heilt naut.

Þarna mætti segja að höfundur fangi gullgerðarlist skáldskaparins á fullkominn hátt; þeirri tæru eimingu sem á sér stað þegar skáld sem hefur jafn fáguð tök á ljóðmálinu og Þórarinn gerir tekur stóra hugmynd og skilar henni af sér í einni stuttri stöku sem rúmar hana fullkomlega. Um er að ræða eins konar sjálfssögu (e. metafiction), ljóð sem vísar í sjálft sig og uppruna sinn og gerir það á sama tíma að umfjöllunarefni sínu.

Glittir inn í kviku

Þórarinn Eldjárn er í essinu sínu þegar hann yrkir um persónur eða fyrirbæri úr menningarsögunni á sinn galsakennda og húmoríska hátt. Eins og Þorgeir Tryggvason bendir réttilega á í yfirlitsgrein sinni um verk skáldsins „Listin að bjarga verðmætum“ frá 2021 þá er Þórarinn „ekki tilfinningalega nærgöngult skáld, þó honum liggi ýmislegt á hjarta“. Hins vegar má í stöku kvæðum sjá glitta inn í hjarta höfundarins og þá verða þau augnablik líka þeim mun dýrmætari þegar lesandinn verður þeirra var. Þetta má sjá í tveimur minningarljóðum sem bæði eru prentuð í 100 kvæði. Það fyrra „Orðið okkar starf“ yrkir skáldið í minningu föður síns Kristjáns Eldjárns, fornleifafræðings og þriðja forseta lýðveldisins. Þar fangar skáldið á tregafullan hátt þá tilfinningu sem allir sem misst hafa ástvin kannast við; að vilja ræða eitthvað við manneskju sem ekki er lengur partur af jarðlífinu:

Að það samtal verður ekki
að þeirri spurningu
verður ekki svarað

Annað sambærilegt ljóð þar sem skáldið opnar glugga inn að kviku ber heitið „PS : SP“ og er ort til minningar um skáldvin Þórarins, stórskáldið Sigurð Pálsson sem lést 2017. Þar má finna eftirfarandi íðilfagra ljóðmynd sem hljómar eins og eitthvað sem hefði hæglega getað sprottið frá Sigurði sjálfum:

Ástmögur sólarinnar
las okkur ávexti jarðar
læsari en aðrir.

Athygli vekur að bæði þessi ljóð, auk annarra minningarljóða, eru óbundin. Spyrja mætti hvort skáldinu sé tamara að vera persónulegt í óbundnu máli en bundnu? Sennilega er þó hægara sagt en gert að finna svör í verkum skáldsins.

Slitur af minningum

En þótt Þórarinn Eldjárn sé sjaldan persónulegur í kvæðum sínum er þó ekki þar með sagt að hann sé ópersónulegur höfundur. Ein af nýlegum bókum hans, Tættir þættir (2022), sýnir glöggt að Þórarinn hefur ýmsar skemmtilegar sögur að segja frá sinni ævi en bókin hefur að geyma 37 esseyjur sem samanstanda m.a. af reynslusögum, minningum og gamansögum um hina og þessa karaktera sem Þórarinn hefur kynnst í gegnum tíðina. Tættir þættir er létt og skemmtileg bók aflestrar sem gaman er að grípa inn í, ekki endilega bók sem maður þarf að lesa frá upphafi til enda, þar sem frásögnin er ekki línuleg. Bókin inniheldur margar forvitnilegar frásögur úr lífi skáldsins, til dæmis er þar að finna nokkrar bráðskemmtilegar sögur af Bessastöðum frá forsetatíð Kristjáns Eldjárns og sögur um persónuleg kynni skáldsins af listamönnum á borð við Halldór Laxness, Hrafn Gunnlaugsson og Sigurð Pálsson. Tættir þættir minnir þannig að sumu leyti á minningaþríleik hins síðarnefnda; Minnisbók, Táningabók og Bernskubók, þótt formið sé um margt frábrugðið. Á meðan minningabækur Sigurðar sverja sig meira í ætt við klassískar endurminningar sem skrifaðar eru sem ein samfelld frásögn, þá sverja þættir Þórarins sig á stundum í ætt við þjóðlegan fróðleik, stuttir þættir um afmörkuð atvik þar sem eftirminnilegar persónur, bæði þekktar og óþekktar, koma við sögu. Það sem bækur Sigurðar og Þórarins eiga þó sameiginlegt er að þær draga upp ljóslifandi lýsingar af þeim tíðaranda sem ríkti á mótunarárum þessa tveggja skálda og lýsa þeirri menningu og þeim persónum sem höfðu áhrif á þá. Þórarinn hefur þannig bæst í ört stækkandi hóp skálda af sinni kynslóð (stundum kölluð „fyndna kynslóðin“ í hálfkæringi) sem ritað hafa endurminningar sínar en auk þeirra Sigurðar hafa Pétur Gunnarsson í Veraldarsaga mín og nú síðast Steinunn Sigurðardóttir í Skálds sögu, einnig skrifað um sín mótunarár á 7. og 8. áratugnum, þennan tíma sem átti eftir að hafa mikil áhrif á íslenskar bókmenntir eins og sést af verkum þessara skálda.

Fyrir börn og fullorðna

Mig langar að enda þessa umfjöllun um skáldskap Þórarins Eldjárns þar sem ég hóf hana á umfjöllun um barnaljóð skáldsins. Fyrsta barnaljóðabók Þórarins, Óðfluga, kom eins og áður sagði út 1991, og hafði Þórarinn því verið starfandi rithöfundur í tæp 20 ár áður en hann lagði fyrir sig þessa bókmenntagrein. Það verður að teljast mikill fengur fyrir íslenskar bókmenntir að Þórarinn hafi ákveðið að byrja að yrkja fyrir yngstu kynslóðina og í dag, 33 árum og hátt í 20 bókartitlum síðar, má hæglega fullyrða að Þórarinn Eldjárn er eitt fremsta skáld sem ort hefur fyrir börn á íslenska tungu. Fyrstu þrjár barnaljóðabækur Þórarins og Sigrúnar systur hans; Ófluga, Heimskringla og Halastjarna, eru auðvitað löngu orðnar klassík í íslenskri barnaljóðlist og munu vonandi erfast áfram til næstu kynslóðar, nú þegar mín kynslóð er farin að fjölga sér eins og gorkúlur. Ljóð á borð við „Símalandi í Símalandi“, „Tanngómatangó“, og „Tölvuleikur“ voru ekki bara ein af mínum fyrstu kynnum af íslenskri ljóðlist, heldur voru þessi ljóð eftir á að hyggja einn af mínum fyrstu vitnisburðum um að ljóð gætu í senn verið fyndin, frumleg og tekið fyrir samfélagsleg málefni á hátt sem er börnum bæði aðgengilegur og fræðandi. Síðastnefnda ljóðið, „Tölvuleikur“, er nefnilega dæmi um ljóð sem hefur á þeim rúmu þremur áratugum sem liðin eru frá því það kom fyrst út öðlast jafnvel enn meira sannleiksgildi. Þar er dregin upp mynd af ungum dreng sem situr límdur fyrir framan tölvuskjáinn að spila leikinn „Drepum og drepum og drepum án miskunnar“:

Með lafandi tungu við tölvuna sat hann
og tökkunum hamaðist á
en faðir hans þurfti á meðan að mata hann
og mamman bar kopp til og frá.

Fá ljóð hafa stimplað sig svo rækilega inn í undirmeðvitund mína eins og „Tölvuleikur“ að ég þegar ég las ljóðið loks aftur, nú sem fullorðinn maður, mundi ég nákvæmlega tilfinninguna sem hafði gripið mig þegar ég las það fyrst, í kvöldlestrinum með mömmu fyrir um það bil kvartöld. Óttinn um að ég væri á einhvern hátt þessi drengur sem sæti fastur og hjálparvana við tölvuskjáinn, tilfinning sem grípur mig enn sterkar í dag, þegar ég sit límdur við tölvu- eða símaskjáinn langt fram eftir kvöldi.

Þá loksins kviknuðu í kollinum perur:
Hann kveinaði af skelfingu og fann
að innan í tölvunni voru verur
sem voru að leika með hann.

Allt og sumt

Þórarinn Eldjárn hefur þann sjaldgæfa hæfileika meðal höfunda að geta ort fyrir börn eins og þau séu jafningjar hans. Þetta sést glöggt í nýjustu barnaljóðabók Þórarins, Dótarímum, sem kom út á þessu ári með myndum eftir nafna hans, Þórarin Má Baldursson. Bókin skiptist í tíu langar rímur sem eru ortar undir jafnmörgum bragarháttum og má þar finna hætti eins og ferskeytt, dverghent, braghent og stefjahrun. Ólíklegt er að börnin sem lesa þessa bók muni þekkja mun á öllum þessum bragarháttum en það er þó gaman að sjá barnabók koma út árið 2024 sem er jafn andlega hvetjandi og Dótarímur. Rímurnar fjalla, eins og titillinn gefur til kynna, allar um dót og hluti úr nærumhverfi barna eins og bangsa, kubba, Playmo, iPad og svo einnig hluti sem ættu að standa börnum nær en gera það því miður ekki alltaf á 21. öldinni, eins og bækur og íslenskuna. Í rímunni um bækur má t.d. finna eftirfarandi tvö erindi sem ættu að vera foreldrum leiðarvísir í jólagjafaleitinni 2024:

Bækur eru besta dót
bregðast okkur varla.
Ein er falleg, önnur ljót
allar þó af sömu rót.

Er að finna inni í þeim
ýmsar góðar leiðir.
Inn í sál og út í geim
opnast sýn í nýjan heim.

(„Bækur“)

Í rímunni um íslenskuna má svo finna eftirfarandi hvatningarorð til okkar ástkæra og ylhýra tungumáls, sem svo margir í dag segjast vilja vernda og slá skjaldborg um en svo fáir virðast vilja leggja raunverulega rækt við með kennslu og skapandi hugsun.

Ævinlega hér í heimi
hún er okkar mál.
Ung og forn hún ávallt geymi
okkar þjóðarsál.

Hún er okkar orkuhlaða
okkar varnarmúr
okkar trausta undirstaða
okkar forðabúr.

(„Íslenskan“)

Það eru fáir íslenskir höfundar sem hafa barist jafn ötullega fyrir varðveislu og endurnýjun íslenskunnar með skáldskap sínum og Þórarinn Eldjárn. Með orðsnilld sinni, leikgleði og fádæmalausri stílgáfu hefur Þórarinn sýnt og sannað á sínum 50 ára ritferli að hann er eitt af okkar höfuðskáldum. Rétt eins og íslenskan er „varnarmúr“ og „undirstaða“ þjóðarsálarinnar, eins og segir í kvæðinu hér á undan, mætti segja að skáldskapur Þórarins Eldjárns sé hluti af varnarmúr íslenskunnar, svo ríkan þátt hefur hann spilað í íslenskri bókmenntasögu undanfarna hálfa öld. Ljóðlist Þórarins er auðvitað misjöfn, eins og ljóðin í safnbókinni 100 kvæði sýna, sem spanna allt frá hinu lágkúrulega til hins háfleyga. En þannig eru líka stórskáld, á einni stundu jafn djúp og stöðuvatn en á annarri stundu jafn grunn og undirskál. Leyfum Þórarni sjálfum að eiga síðasta orðið með ljóðinu „Allt og sumt“ úr samnefndri ljóðabók sinni frá 2022 sem fangar á svo dásamlegan hátt afstöðu skáldsins til sinna eigin verka:

Allt og sumt

Ég hef ort heitt og kalt,
um hátt og lágt – sprækt, hrumt.
Ort hef ég um allt
en þó mest um sumt.

 

Þorvaldur S. Helgason, nóvember 2024.