Ragna Sigurðardóttur er afkastamikill höfundur sem hefur fengist við skáldsögur, smásögur, ljóð og þýðingar en Vetrargulrætur er fjórða smásagnasafn hennar. Myndlistarbakgrunnur Rögnu skín í gegn í verkinu: Mynd eftir hana prýðir bókarkápuna og sögumenn fjögurra af fimm frásögum bókarinnar eru myndlistafólk. Þó myndlist sé ekki aðalviðfangsefni smásagnasafnsins er hún eitt af þeim þemum sem tengir sögurnar saman. Fyrri verk Rögnu hafa komið inn á viðhorf til náttúru, menningar, kvenímynda og hlutverks kvenna (sjá https://www.islit.is/vidtol-vid-hofunda/nr/1084) en þessi viðfangsefni má einnig greina í nýjasta verki hennar. Staða kvenna, list og náttúra eru sterkir þræðir í frásögnunum, auk þess sem litir og sjálfsmyndir sögupersónanna hafa stórt hlutverk.
Frásagnir smásagnasafnsins eru fimm talsins og gerast á ólíkum tímum, árið 2019, 1991, 1953, 1937 og 1779. Sögurnar eru allar fyrstu persónu frásagnir og oft og tíðum svo persónulegar að þær minna á dagbókarskrif. Þetta eru sögur af leyndarmálum, atburðum og tilfinningum sem sögumenn treysta fáum eða engum fyrir þar sem minnimáttarkennd og skömm er ekki langt undan. Hver saga hverfist í kringum einum afmarkaðan atburð sem átt hefur sér stað í nálægri fortíð; sagt er frá aðdraganda atburðarins, sálrænni flækju sögumannsins, þróun mála og að lokum stöðu mála í samtíma sögumanns. Það hvernig sögumenn færa frásögn sína stundum úr þátíð í nútíð minnir lesendur á að tími frásagnanna er flæðandi og að þó innri sögutíminn hafi leitt til ákveðinnar lausnar við sögulok er lífið hverfult og allt getur gerst.
Ég horfði á hana og á því andartaki var ég hamingjusamur. Ég gerði í því að njóta þess því ég vissi að það tæki enda eins og allt. Ég var meðvitaður um að við vorum ung og áttum allt framundan og samtímis vissi ég að sá tími kæmi aldrei aftur, eitthvað annað tæki við. Þessi meðvitund um nútíðina sem var óumflýjanlega og sífellt að breytast í fortíð olli mér hugarangri. Það að njóta augnabliksins kemur samt ekki í veg fyrir að það líði hjá. (72)
Sjálfsskoðun sögumannanna má rekja til samskipta þeirra við samferðafólk sitt, nánara tiltekið við barn á frístundaheimili, kærustu, eiginmann, vinkonu og vin. Í „Ég skal bjarga þér“ er Hildur nýbyrjuð að vinna á frístundaheimili og á erfitt með að ná til einnar stúlku í hópnum. Samskiptaörðugleikarnir ögra sjálfsmynd hennar þar sem hún lítur á það sem sinn helsta kost hversu mikil barnagæla hún er. Við þessa krísu bætist söknuður hennar eftir þeirri tíð þegar hún gat treyst manni sínum fyrir öllu. Sögurnar „Vetrargulrætur“ og „Undirbúningur“ hverfast um samkeppni meðal listamanna og samskipti kynjanna og eiga það sameiginlegt að fjalla um gagnkynhneigð pör sem lagt hafa stund á myndlistarnám erlendis. Ytri aðstæður fá sögumennina Joris og Ástu til að líta inn á við og íhuga stöðu sína gagnvart mökum sínum. Joris finnst vinnudeyfð jafnt sem vinnugleði Veru, kærustu sinnar, ögra sér og Ásta upplifir að eiginmaður sinn, Finnur, líti ekki lengur á þau sem „jafningja í lífi og list“ (113). Í „Fræ í mold“ og „Ávöxtur hafgolunnar“ eru það samskipti við góða vini sem verða til þess að sögumennirnir líta í eigin barm. Höllu í „Fræ í mold“ reynist erfitt að gjalda Jóhönnu, vinkonu sinni, vinargreiða. Vinkonan er í tilvistarvanda og á bágt með að sætta sig við hlutskipti sitt; af því að amma hennar var gyðingur líta aðrir á hana sem gyðing þrátt fyrir að það sé ekki hluti af hennar eigin sjálfsmynd. Óvæntar aðstæður fá sögumann sögunnar „Ávöxtur hafgolunnar“, sem er ungur blindur sveitarómagi, til að „sjá“ stöðu sína í nýju ljósi. Hann harmar sjónleysið á hátt sem hann hefur aldrei fundið fyrir áður þegar kaupmaðurinn á eyrinni kemur sér upp aldingarði. Þegar vinur hans verður svo ástfanginn af stúlku og hefur í kjölfarið minni tíma fyrir hann verður það til þess að hann leggst í sjálfsskoðun og veltir fyrir sér örlögum sínum og framtíð. Það má segja að sjálfsmyndarkrísur sögumannanna kristallist í þeim einmanaleika og ósýnileika sem þau upplifa. Þau skortir öll nánd því samskipti þeirra við sína nánustu eru ekki eins og áður. Orð Ástu eru sterk: „Mér fannst hann vera að mála yfir mig. Yfir líf mitt hér í húsinu“ (117).
Sögurnar draga upp „sjálfsmyndir“ en einnig ótal aðrar myndir, enda sérstaklega myndrænar. Litir og fjarvera lita er áberandi. Í fyrstu fjórum sögunum eru sögumennirnir myndlistarmenn sem skynja lífið í litum, samanber orð Hildar: „Ég tengi fólk við liti. Breki er tær og telitur, Jóa er fjólurauð og glansandi“ (28). Þau skynja heiminn með augum myndlistarinnar, sem viðfangsefni og litasamsetningar. Í síðustu sögunni er sögumaðurinn aftur á móti blindur og því segja litir honum ekki neitt. Hann reiðir sig því á önnur skynfæri: Lykt, snertingu, bragð og heyrn. Ljós og skuggi koma einnig ósjaldan fyrir í gegnum listsköpun sögupersónanna, geðræna heilsu þeirra og veðrið, skammdegisdrungann og sólina þegar birtir til.
Í dagsbirtu verða allir litir sannir og sýna sitt rétta eðli. Í skæru sólskini blikna þeir og kvöldsólin magnar upp heita tóna sem engin innistæða er fyrir. Í skýjaðri dagsbirtu er blár bara blár og rauður bara rauður. (8)
Mikið er um náttúrulýsingar þar sem myndlistakonurnar í sögunum eiga það sameiginlegt að reyna að fanga birtu og landslag í verkum sínum. Gróður, plöntur og grænir fingur virðast einnig vera tákn fyrir þá drauma sem sögupersónur reyna að leggja rækt við. Vera í „Vetragulrætur“ vanrækir til dæmis hvítu rósirnar í bakgarðinum svo hún hafi meiri tíma fyrir listina; umhirða plantna virðist hins vegar samofin sköpunarferli vinkvennanna, Höllu og Jóhönnu, í „Fræ í mold“.
Titillinn „Vetrargulrætur“ fangar vel þá stemningu sem lestur smásagnasafnsins veitir. Uppsetning hans á bókarkápunni, þar sem orðið „Vetrargulrætur“ er brotið upp í: VETRAR – GUL – RÆTUR, styður einnig við margræðan lestur hans. Orðið „vetur“ fær mann til að hugsa um myrkrið og fjarveru ljóssins, „gulur“ er grípandi litur, einn af grunnlitunum, og „rætur“ vísa í landslag, plöntur og mikilvægi þess að vera með sterkar rætur til að geta gefið sköpunarkraftinum byr undir báða vængi. Með myndrænum frásögnum og grípandi söguþræði nær Ragna að fanga lesandann og bjóða honum með í spennandi ferðalag. Vetrargulrætur er fyrsta verk Rögnu sem undirrituð hefur lesið en ekki það síðasta.
Karítas Hrundar Pálsdóttir, desember 2019