Æviágrip
Ævar Þór Benediktsson rithöfundur, leikari og fjölmiðlamaður er fæddur 9. desember 1984. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 2014 og prófi úr leiklistardeild Listaháskóla Íslands 2020. Frá útskrift hefur hann leikið bæði á sviði og í sjónvarpsþáttum en einnig framleitt sitt eigið efni fyrir útvarp og sjónvarp.
Ævar sendi frá sér smásagnasafnið Stórkostlegt líf herra Rósar og fleiri sögur af ótrúlega venjulegu fólki árið 2010 en frá árinu 2011 hefur hann einbeitt sér að barna- og unglingabókum og er einn afkastamesti og vinsælasti höfundur landsins á því sviði. Uppsetning texta og leturgerð í mörgum bóka Ævars tekur mið af því að ekki eiga allir auðvelt með lestur og sumir eru lesblindir.
Sjónvarpsþættirnir Ævar vísindamaður sem voru sýndir á RÚV árin 2013-2015 nutu mikilla vinsælda, en þar skoðaði hann og skýrði hin ýmsu undur veraldar með aðstoð annarra vísindamanna.
Árin 2014-2019 stóð Ævar fyrir lestrarátaki meðal íslenskra grunnskólabarna þar sem verðlaunin voru að verða persóna í bókum hans um bernskubrek Ævars vísindamanns.
Leikrit eftir Ævar hafa ratað á svið Þjóðleikhússins með yfirskriftinni Þitt eigið leikrit, árið 2019 var sett upp leikritið Goðsaga og ári síðar leikritið Tímaferðalag.
Ævar hefur stjórnað lagavali og verið kynnir á tónleikunum Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Hann hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir verk sín á sviði barnamenningar.
Um höfund
Ótrúleg ævintýri — umfjöllun um höfundarverk Ævars Þórs Benediktssonar
Í skáldverkum Ævars Þórs Benediktssonar er hasar, húmor og ótrúlegum ævintýrum fléttað saman við fróðleik, vísindi og svolítinn hrylling. Ævar Þór hefur skrifað skáldsögur, smásögur og fræðiefni fyrir börn og unglinga, auk þess að semja leikverk og stjórna sjónvarps- og útvarpsþáttum. Hann hefur verið ötull talsmaður lestrar í öllu starfi sínu og lagt áherslu á að hvetja börn til að lesa sem mest. Ævar Þór hefur starfað með ýmsu myndlistafólki í verkum sínum, en myndirnar sem prýða bækur hans eru bæði til þess fallnar að auka aðgengi lesandans að efninu og gæða persónur í bókunum lífi.
Í umfjöllun um verk Ævars Þórs er ekki hægt að láta hjá líða að nefna Ævar vísindamann, ljóshærðan og gleraugnaprýddan í hvítum rannsóknarstofusloppi, sem Ævar Þór hefur leikið í sjónvarpi og útvarpi og sem kemur reglulega fyrir sem persóna í bókum hans. Ævar vísindamaður birtist upphaflega á skjám landsmanna í Stundinni okkar, þar sem hann var með stutt innslög, en stýrði svo sínum eigin barna- og unglingaþætti á RÚV. Fjórar þáttaraðir voru framleiddar af þættinum, sem hét einfaldlega Ævar vísindamaður, þar sem Ævar vísindamaður gerði ýmis konar tilraunir, hitti fræðimenn og kynnti vísindi og vísindafólk fyrir ungum áhorfendum.
Þín eigin - pælingin
Þín eigin þjóðsaga er fyrsta skáldsaga Ævars Þórs. Hún kom út árið 2014 og er að auki fyrsta bókin í bókaflokki þar sem lesandinn ræður sjálfur förinni í sögunni. Sex bækur til viðbótar hafa komið út í flokknum: Þín eigin goðsaga (2015), Þín eigin hrollvekja (2016), Þitt eigið ævintýri (2017), Þitt eigið tímaferðalag (2018), Þinn eigin tölvuleikur (2019) og Þín eigin undirdjúp (2020). Þín eigin bækurnar eru ætlaðar lesendum sem hafa náð ágætum tökum á lestri, um það bil frá 9-10 ára aldri en einnig hafa komið út léttlestrarbækur sem byggja á sömu hugmynd, þar sem einn þráður úr lengri bókunum er tekin fyrir í styttri útgáfu fyrir yngri lesendur. Léttlestrarbókaflokkurinn ber titilinn Þín eigin saga, og bækurnar í honum eru Búkolla (2018), Börn Loka (2018), Draugagangur (2019), Piparkökuhúsið (2019), Risaeðlur (2020) og Knúsípons (2020), en sú síðastnefnda byggir á Þinn eigin tölvuleikur og því líklegt að léttlestrarbók úr Þín eigin undirdjúp sé væntanleg.
Frásagnaraðferðin sem notast er við í Þín eigin bókunum byggir á þekktri formúlu þar sem lesandinn er í aðalhlutverki og velur hvernig sagan fer. Bækur af þessum toga nutu þó nokkurra vinsælda á 8. og 9. áratug síðustu aldar og kallast á ensku „gamebook“, eða „leikbók“ á íslensku. Í Þín eigin bókunum er notast við annarrar persónu frásögn, eins og formúlan gerir ráð fyrir. Lesandinn er ávarpaður, „þú“, og verður þar með sjálfur aðalpersóna sögunnar og virkur þátttakandi í öllu sem fer fram. Öll orðanotkun í kringum aðalpersónuna er auk þess algerlega kynhlutlaus og styður þannig enn fremur við þann möguleika að hver sem er geti verið hetjan í sögunni.
Í upphafi hverrar bókar er sögusviðið kynnt, aðalpersónan rambar óvænt inn í ævintýri og þarf að ákveða hvernig hún vill að sagan þróist áfram. Í lok fyrsta kafla er algengt að henni séu boðnir þrír valkostir, þó einnig komi fyrir að þeir séu töluvert fleiri, og lesandinn flettir á uppgefna síðu til að halda áfram lestrinum. Sagan kvíslast svo aftur í meginþræði innan hverrar sögulínu, jafnvel oftar en einu sinni og heldur áfram að greinast í fleiri mögulegar sögur eftir því sem lengra er lesið. Söguþræðirnir eru misflóknir, sumir eru stuttir og enda fljótlega en aðrir geta haldið áfram að skiptast upp, eða jafnvel farið í lykkju aftur í fyrri valmöguleika.
Valkostirnir sem aðalpersónan stendur frammi fyrir í gegnum Þín eigin bækurnar geta verið ýmiskonar. Hún þarf að velja hvort hún ætli að fylgja persónum sem hún hittir eða forðast þær, hvort hún ætli að beygja til hægri eða vinstri, hvort hún ætli að fara upp í faratæki eða hlaupa burt, hvort hún ætli að ráðast til atlögu við skrímsli og óvætti eða fela sig. Stundum kemst hún óhult áfram, stundum endar hún heima hjá sér eða á öðrum öruggum stað, en mjög oft deyr hún á einhvern hroðalegan hátt. Þegar það gerist er sagan búin og þarf að byrja upp á nýtt eða bakka aftur að síðasta stað þar sem sagan kvíslaðist í sundur og velja aftur. Ekki er alltaf auðvelt að sjá hvaða valkostur leiðir af sér lengstu söguna og hverjir leiða aðalpersónuna í gildru, en yfirleitt er reglan þó sú að ef lesandinn velur að skilja aðrar persónur eftir í lífshættu fer illa fyrir henni. Reyndar tekst henni stundum að komast heim til sín, en er þá þjökuð af samviskubiti um aldur og ævi.
Þó að bækurnar fylgi allar sömu grunnhugmynd eru þær engu að síður töluvert ólíkar. Í hverri þeirra er tekin fyrir ákveðin bókmenntategund sem er grundvöllur söguþráðanna og þræðirnir eru spunnir í kringum. Þannig fylgir Þitt eigið ævintýri sígildum ævintýrum um nornir og úlfa, grísi og piparkökuhús og frásögnin er nokkuð trú ævintýrunum, en skáldað er í eyðurnar til að tengja sögurnar saman og gera að heildstæðri frásögn, óháð því hvaða leið lesandinn velur í gegnum bókina. Í Þín eigin hrollvekja verða til nýjar sögur í kringum þekkt hrollvekjufyrirbæri eins og vampírur, varúlfa og uppvakninga, sem haga sér samt að mestu leyti eins og hefðin gerir ráð fyrir. Bækurnar eru annars mjög mislangar og kaflarnir í þeim eftir því. Í Þín eigin goðsaga eru kaflarnir þannig til dæmis oft lengri en í hinum bókunum, enda goðsögurnar teknar nokkuð ítarlega fyrir í gegnum söguna. Umfjöllunarefnin bjóða upp á að ýmsum fróðleik sé fléttað inn í allar sögurnar, svo sem í sögum af ásum og ásynjum í goðsögunum, þegar aðalpersónan hittir fyrir frægar persónur í Þín eigin þjóðsaga eða þegar hún lendir á sögulegum slóðum í Þitt eigið tímaferðalag, lærir að búa um múmíur eða skera út öndvegissúlur.
Sögumaður allra bókanna er höfundurinn sjálfur, en hann kynnir í upphafi hverrar bókar hvernig sagan virkar auk þess að gefa ýmis góð ráð um framhaldið. Neðanmáls í textanum eru reglulega orðskýringar, þar sem höfundurinn skýrir út flókin orð, oft á fyndinn hátt og með því að flétta algerlega ótengdum dæmisögum saman við skýringarnar. Í lok hverrar bókar er svo skýringakafli þar sem hægt að er að kynna sér nánar helstu persónur eða önnur mikilvæg atriði sem tengjast bókmenntategundinni sem er tekin fyrir. Rödd sögumanns er oft gamansöm og glettin, jafnvel þegar hann lýsir hryllilegum dauðdaga og ömurlegum endalokum aðalpersónunnar.
Bækurnar eru allar myndskreyttar af Evana Kisa, sem teiknar kápur lengri bókanna auk mynda með skýringunum í lok bókanna. Á kápunum er undirstrikað að hetjan í sögunni er lesandinn sjálfur með því að sýna aftan á tvö börn, sem eru á leið inn í ævintýraheim bókarinnar. Myndirnar eru afar litríkar og fullar af smáatriðum sem ægir saman og gefa þannig til kynna að hér sé á ferðinni ævintýraleg frásögn þar sem er alltaf eitthvað að gerast. Léttlestrarbækurnar eru ríkulega myndskreyttar í sama stíl. Þar er smærri myndum, sem draga fram ákveðin atriði í sögunum dreift um textann, auk þess sem stórar litmyndir varpa ljósi á söguþráðinn.
Þín eigin - sögurnar
Bókmenntategundirnar sem teknar eru fyrir í Þín eigin bókunum eru mjög ólíkar þó bækurnar byrji nánast allar í hversdagsheimi söguhetjunnar. Í lok fyrsta kafla hetjan í aðstæðum sem leiða hana inn í heim ævintýranna. Í Þín eigin Þjóðsaga er hún stödd á áramótabrennu, en henni leiðist og hún ráfar eitthvað burt. Hún týnist í snjónum og þar sem hún leitar að leiðinni aftur til baka getur hún valið um að fara aftur í áttina sem hún kom úr eða freista þess að finna aðra leið heim. Hún þvælist í kjölfarið um og rekst á ýmsar þjóðsögur og þjóðsagnaverur. Hún getur hitt Sæmund Fróða á skipi á leið til Þýskalands, haldið í Svartaskóla og hitt kölska eða ferðast um Þýskaland og tekið þátt í að særa upp dauða menn. Hún getur rekist á nykur og látið plata sig ofan í á eða sloppið með naumindum, hitt jólasveina og hjálpað þeim að ræna og rupla af bæjunum í kring eða reynt að fá gistingu í hlöðu með talandi kúm. Hún getur einnig slegist í för með Búkollu og Karlssyni, reynt að hafa betur í samskiptum við álfa og ýmislegt fleira.
Þín eigin Goðsaga hefst þar sem aðalpersónan er í lautarferð með foreldrum sínum og ákveður að skella sér í göngutúr á meðan þau hvíla sig. Hún röltir inn í þéttan skóg þar sem hún hittir fyrir nornirnar Urði, Verðandi og Skuld, sem bjóða henni að velja hverri þeirra hún vilji fylgja. Þær halda svo hver um sig af stað með aðalpersónuna í heim norræna goðafræða og hún fær möguleika á að kynnast Óðni alföður ungum og verða vitni að því þegar heimurinn og mannfólkið er búið til, eða kynnast Þór, Loka og börnum hans Fenrisúlfinum, Miðgarðsorminum og Hel. Velji hún Skuld (sem vill samt helst ekki verða fyrir valinu) fær hún að kynnast sögum af enn fleiri ásum og ásynjum og upplifa Ragnarök.
Heimsins leiðinlegasta barnapía er mætt til að passa aðalpersónuna í Þín eigin hrollvekja. Barnapían, Lovísa, sendir hana eldsnemma í rúmið en aðalpersónan er frekar ósátt og stelst til að fara á netið í leit að leið til að ná sér niður á henni. Hún rekst á heimasíðu sem býður upp á heimsenda hefnd með hrollvekjuþema og ákveður að slá til, valið stendur milli þess að fá send skrímsli, reimleika eða láta dauða lifna við. Það er þó oftar en ekki aðalpersónan sjálf sem þarf að takast á við hryllinginn sem vefsíðan sendir, en í flestum söguþráðunum týna Lovísa og ýmsir aðrir tölunni jafnóðum. Í Þitt eigið ævintýri er aðalpersónan aftur á göngu úti í skógi en villist þegar umhverfið breytist skyndilega. Hún finnur brauðmolaslóð í skóginum og heyrir urr einhvers staðar nálægt og þarf að reyna að átta sig á því hvað er best að gera í stöðunni. Hún getur fylgt brauðmolaslóðinni í aðra hvora áttina, eða reynt að komast að því hvaðan urrið kemur. Valmöguleikarnir leiða hana inn í ýmis þekkt ævintýri, um Hans og Grétu og nornina í piparkökuhúsinu, Jóa og baunagrasið, Rauðhettu, grísina þrjá, Þyrnirós, Garðabrúðu og ýmis önnur ævintýri. Aðalpersónan verður ýmist aukapersóna í ævintýrunum og gefst þá tækifæri á að verða að liði og bjarga málunum (eða skemma fyrir), eða þá tekur hún að sér hlutverk aðalpersónunnar úr ævintýrinu, en hagar sér þá yfirleitt ekki eins og hún átti að gera.
Þítt eigið tímaferðalag hefst á óvæntri afmælisveislu sem er haldin fyrir aðalpersónuna. Hún fær tímavél í afmælisgjöf frá leyndum gesti og getur notað hana til að ferðast aftur í tímann, nú eða skoða sig um í framtíðinni. Hún getur valið um að fara aftur á tíma risaeðlanna, fara til Egyptalands til forna og búa um múmíur, fara til Rómaveldis og heimsækja hringleikahús, heimsækja víkingatímann og sigla með Ingólfi Arnarsyni, eða fara fram í tímann og sjá Ísland eftir 100 ár og aftur eftir 1000 ár þar sem heimurinn er gjörbreyttur. Hún getur líka valið um að fara bara þrjá klukkutíma aftur í tímann og komast að því hver gaf henni tímavélina, eða jafnvel ferðast aftur í tímann til að koma í veg fyrir að hún sjálf verði til. Í gegnum söguna koma upp ýmis algeng vandamál tengd tímaflakki, svo sem hvað gerist ef tímaferðalangurinn fer að skipta sér af fortíðinni eða ef hann skilur óvart eitthvað eftir sem getur breytt sögunni, hvernig hann á að snúa sér til að rekast ekki á sjálfan sig í annarri tíma-útgáfu eða hvernig á að forðast að lenda í endalausri tímalykkju.
Sögusviðið í Þín eigin Undirdjúp er kafbátur sem aðalpersónunni er boðið um borð í og þegar hún þiggur boðið kemst hún að því að henni er ætlað að vera háseti í kafbátnum. Skipstjórarnir eru þrír, en þeir eru allir með ólík plön fyrir kafbátinn og það er undir aðalpersónunni komið að ákveða hver þeirra fái að ráða förinni. Einn skipstjórinn vill leita að fjársjóði, annar vill leita að risastóru sæskrímsli og sá þriðji vill fara í Bermúda þríhyrninginn að taka upp heimildarmynd. Allir valkostirnir eru bæði hættulegir og heillandi og gefst tækifæri til að heimsækja Atlantis, hitta stórhættulegan risakolbrabba, festast á eyðieyju eða í draugaskipi og ýmislegt fleira. Sagan er meðal annars innblásin af skáldsögu Jules Verne, Sæfarinn (1870), en líka af þekktum flökkusögum og ýmsum öðrum sögum af sæfarendum.
Þinn eigin tölvuleikur er töluvert lengri en fyrri bækurnar enda er formúlan í henni aðeins flóknari. Í upphafi sögunnar hefur aðalpersónan sogast inn í tölvuleik og ef hún vill sleppa aftur út úr leiknum þarf hún að spila hann. Í tölvuleiknum eru fimm borð og það þarf að klára þau öll til að komast að lokaborðinu, en aðalpersónan þarf sjálf að vera leikmaðurinn og spila öll borðin. Hún fær bara eitt líf og ef hún tapar deyr hún í alvöru. Í hverju borði þarf hún að finna sérstakan lykil sem mun koma að notum í lokaborðinu og er þannig nauðsynlegt fyrir hana að spila öll borðin til að vita hvað hún á að gera með lyklana. Borðin fimm eru sýnishorn af algengum tölvuleikjum, allir á móti öllum, bendiborð, fótboltaborð, hopp og skopp-borð og prinsessuborð. Þó að aðalpersónan sé flinkur tölvuleikjaspilari sem hefur prófað flestar tegundir af leikjum er allt annað að vera sjálf „kallinn“ sem þarf að komast í gegnum borðin og hættur leynast ótrúlega víða. Þegar aðalpersónan hefur lokið við eitt borð býðst henni að færa sig í næsta og svo koll af kolli þangað til öll eru búin og bara lokaborðið eftir. Stundum lendir hún á byrjunarreit og þarf að gera allt aftur, eins og þegar hún gleymir að finna lykilinn í borðinu eða ákveður að hann skipti ekki máli. Innan borðanna er svo hægt að lenda í alls konar vandræðum og ekki hægt að treysta á neinn nema sjálfan sig.
Lestrarátak og bernskubrek Ævars vísindamanns
Í bókaflokknum Bernskubrek Ævars vísindamanns kynnast lesendur Ævari vísindamanni ungum, en í upphafi fyrstu bókarinnar, Risaeðlur í Reykjavík (2015), er Ævar alveg að verða 11 ára. Bækurnar í bókaflokknum komu hver um sig út í kjölfarið á lestrarátaki sem Ævar vísindamaður stóð fyrir árlega á árunum 2014-2019. Nemendur í grunnskólum landsins voru þá hvattir til að lesa sem mest og skrá lesturinn á þar til gerða miða, sem þeir skiluðu svo inn á skólabókasafnið sitt. Í lok hvers átaks var miðunum safnað saman og fimm lesendur dregnir úr potti, sem fengu í verðlaun að vera gerðir að persónum í næstu bók um bernskubrek Ævars vísindamanns. Bækurnar eru myndskreyttar af Rán Flygenring og eru prentaðar með sérstöku letri, dyslexie, sem auðveldar lesblindum lesturinn, en letrið er einnig notað í bókaflokknum Þín eigin saga og fleiri bókum Ævars.
Í Risaeðlur í Reykjavík (2015) er afmæli Ævars framundan en hann ætlar ekki að halda upp á það því hann hefur engan áhuga á veislum og svo finnst honum ólíklegt að nokkur myndi mæta. Foreldrar hans ákveða engu að síður að halda partí fyrir hann og bjóða öllum bekknum hans. Aðeins þrír gestir mæta í afmælið og veislan er framan af frekar vandræðaleg, þangað til krakkarnir fara að skoða sig um í húsinu hans Ævars og rekast á risaeðluegg sem hafa varðveist í skrítnum hraunmolum í kjallaranum. Þau ákveða að láta eggin klekjast út í herberginu hans Ævars og það tekst, úr eggjunum koma alvöru risaeðlur. Ævar og nýju vinir hans ákveða að sjá um risaeðlurnar í sameiningu og til að byrja með gengur það afskaplega vel, eða alveg þangað til eðlurnar verða svo stórar að það er orðið erfitt að fela þær fyrir nágrönnunum. Þegar nokkrum þeirra tekst að sleppa úr garðinum hjá Ævari verða vinirnir að reyna að ná þeim aftur áður en allt verður vitlaust.
Í Vélmennaárásinni (2016) er komið sumarfrí og Ævar er búinn að skrá sig í ótrúlega spennandi sumarskóla þar sem hann ætlar að læra tölvuleikjaforritun ásamt fullt af öðrum krökkum. Á kynningu fyrir skólann verður reyndar ljóst að þessi skóli er afar óvenjulegur og þegar námskeiðið hefst fara mjög dularfullir hlutir að gerast. Skólastýran Sæborg er meiriháttar grunsamleg og kennararnir skrítnir. Þegar ein úr nemendahópnum hverfur sporlaust taka Ævar og nokkrir félaga hans sig saman og fara að rannsaka málið. Þau komast að því að skólinn er rekinn af gervigreind sem gengur ekkert gott til.
Í þriðju bókinni, Gestir utan úr geimnum (2017) tekur Einstein, kötturinn hans Ævars, upp á því að hverfa sporlaust. Þegar Ævar ætlar að fara að lýsa eftir honum í hverfinu sér hann að Einstein er ekki eina gæludýrið sem er horfið. Fjölmörg börn eru úti að leita að gæludýrunum sínum og Ævar og nokkrar stelpur sem hann hittir stofna samtök með það að markmiði að komast til botns í málinu. Þau ákveða að hittast í Öskjuhlíðinni til að ráða ráðum sínum en þar verða þau vitni að ótrúlegum atburði. Geimskip brotlendir á Perlunni. Þau leggja á flótta heim til einnar úr hópnum en komast fljótlega að því að þau hafa verið elt. Geimvera vill ná sambandi við þau og þeim líst ekkert á blikuna. Geimveran er hins vegar ekki endilega það hættulegasta sem þau þurfa að glíma við. Svartklætt fólk með skuggalegar fyrirætlanir er líka á sveimi í Öskjuhlíð og spurning hverjum þau eru að reyna að ná.
Í næstu bók, Ofurhetjuvíddinni (2018), er Ævar nýfluttur og byrjaður í nýjum skóla. Honum gengur illa að eignast vini og sökkvir sér í staðinn í lestur. Hann hefur dottið ofan í bók sem fjallar um ólíkar víddir veruleikans og þegar tveir aðal eineltisseggir bekkjarins ætla að taka Ævar fyrir gerist svolítið alveg óvænt. Ævari er skyndilega kippt inn í aðra vídd. Fljúgandi stelpa bjargar honum frá því að hrapa til jarðar en hann kemst fljótt að því að í þessari vídd eru allir með ofurkrafta. Bjargvættur Ævars kynnir hann fyrir félögum sínum og á meðan Ævar reynir að fela fyrir þeim að hann hafi enga ofurkrafta sjálfur segja þau honum bæði frá ofurkröftunum og frá raunum sínum. Ofurhetjurnar eiga sér nefnilega erkióvin sem er kallaður Einherjinn og hefur þann hæfileika að rugla ofurhetjur og gera allt óskýrt. Hetjur hafa verið að hverfa og nýju félagar Ævars eru viss um að hann eigi einhverja sök í málinu. Ævar slæst í för með þeim í baráttunni gegn illmenninu en það kemur í ljós að Einherjinn er enginn annar en Ævar sjálfur úr annarri vídd, og þessi Ævar er enginn venjulegur vísindamaður heldur brjálaður vísindamaður.
Óvænt endalok (2019) er lokabókin í seríunni og þar fléttast saman ýmsir þræðir úr öllum fyrri sögunum þegar Einherjanum hefur tekist að komast yfir í venjulegu víddina hans Ævars. Hann ætlar að leggja undir sig heiminn og til þess ætlar hann að nota allar verurnar, dýrin og tæknina sem Ævar og félagar hans hafa glímt við í gegnum hinar sögurnar. Hinn illi Einherji heimsækir Ævar til að monta sig á þeim illverkum sem hann er með í pípunum og þegar Ævar áttar sig á alvarleika málsins sér hann að hann verður að bregðast við og bjarga heiminum frá sjálfum sér og algerri glötun.
Sögurnar um hinn unga Ævar vísindamann og félaga hans eru spennandi og fullar af óvæntum snúningum. Í hverri bók glímir Ævar við fyrirbæri sem er annað hvort nánast óhugsandi eða ósigrandi en tekst með samstarfi við vinina sem hann kynnist að komast farsællega frá þeim öllum. Ævar er samt ekki fullkominn frekar en flestir, hann er stundum ófélagslyndur og einrænn, stundum fúll á móti og stundum alger hræðslupúki, sem lendir bara alveg óvart í alls konar klikkuðum aðstæðum. Foreldrar hans koma reglulega við sögu og eru oft nokkuð kómísk, mamma hans var einu sinni á þingi og vön að heyra fáránlegar hugmyndir, að fá fólk til að skipta um skoðun og tala þótt enginn hlusti og pabbi hans var einu sinni í hljómsveit, talar aðeins of hátt og heldur að það sé sniðugt að syngja allt sem honum finnst mikilvægt eða merkilegt. Sögurnar eru lúmskt fyndnar og samskipti Ævars og foreldra hans eiga stóran þátt í því, en einnig viðbrögð Ævars við allskonar aðstæðum sem hann lendir í.
Bækurnar eru afar myndrænar og ríkulega myndskreyttar og myndirnar sýna Ævar í hinum ýmsu aðstæðum, en einnig aukapersónur og önnur helstu atriði svo sem risaeðlur, geimverur og ofurhetjur. Myndirnar eru yfirleitt fullar af hreyfingu og hasarinn áberandi. Letrið kallast á við hraðann sem verður til í myndunum. Stundum er það blásið upp og stækkað til að leggja áherslu á eitthvað alveg svakalegt, eða þá er textanum snúið á hlið, hann hrynur niður síðurnar eða skoppar yfir þær. Stundum, ef er mikið myrkur, eins og inni í geimskipi til dæmis, er litunum snúið við þannig að textinn verður hvítur og síðurnar svartar.
Úr ýmsum áttum
Þó að margar af bókum Ævars Þórs séu hluti af bókaflokkum hefur hann einnig skrifað sjálfstæðar bækur, bæði skáldskap og fræðilegt efni. Umhverfis Ísland í 30 tilraunum sem kom út árið 2014 er ferða- og tilraunahandbók fyrir börn og unglinga. Í henni fer Ævar vísindamaður hringinn í kringum Ísland með lesandanum, stoppar á ýmsum stöðum víðsvegar um landið og kynnir umhverfið fyrir lesandanum. Í lok hvers stopps á ferðinni er svo gerð vísindatilraun, sem hægt er að framkvæma heima (eða á ferðalagi) með nokkuð einföldum og áhættulausum hætti. Bókin er myndskreytt og myndirnar af Ævari vísindamanni eru líkt og Bernskubrek Ævars vísindamanns teiknaðar af Rán Flygenring.
Sleipnir og stórhættulega fjölskyldutréð (2018) segir frá áttfætta hestinum Sleipni, sem býr í Ásgarði með goðum og görpum. Hann lifir áhyggjulausu lífi en finnst samt frekar leiðinlegt að vera öðruvísi en aðrir hestar. Þegar Miðgarðsbarnið Embla býðst til að fara með honum í spennandi ævintýraför ákveður hann að slá til og þau halda saman yfir regnbogabrúnna Bifröst, þar sem hann fær að kynnast bæði uppruna sínum og stórhættulegum systkinum sínum. Inn í söguna fléttast frásagnir af lífinu í Ásgarði og ýmsar þekktar sögur úr goðafræðinni, en það kemur líka í ljós að Embla er ekki öll þar sem hún er séð. Sleipnir er hluti af lestrarhvetjandi verkefni Bókmenntaborgarinnar, sem hefur gert hann að sérstökum lestrarfélaga barna. Sagan er skrifuð fyrir Bókmenntaborgina og er myndskreytt af Gunnari Karlssyni. Bókin er aðeins aðgengileg á prentuðu formi á bókasöfnum grunnskóla en er einnig til sem hljóðbók og er aðgengileg í hlaðvarpi í upplestri höfundar.
Stórhættulega stafrófið (2019) er myndabók fyrir börn og segir frá Fjólu, sem er sjö ára og er í sumarfríi. Henni leiðist frekar mikið og hún ákveður að þar sem hún getur ekki stytt sér stundir við lestur, því hún er svolítið hrædd við að læra að lesa, ætlar hún að halda tombólu. Hún hefst þegar handa við að safna dóti á tombóluna og ákveður að prófa að ganga sérkennilega götu sem heitir Stafrófsstræti í leit að dóti. Í Stafrófsstræti eru húsin öll í laginu eins og bókstafir og á göngu sinni um þessa skrítnu götu hittir Fjóla alls konar fólk og furðuverur. Hún fær ýmislegt misgagnlegt dót til að selja en þegar hún er búin að safna nógu á tombóluna og ganga allt Stafrófsstrætið kemst hún að því að hún er ekki lengur hrædd við stafina. Á hverri síðu, við hvert stafahús, hafa Fjóla og lesandinn kynnst nýjum staf, annars vegar í gegnum textann sem er byggður upp í kringum stafinn og hins vegar í myndunum, þar sem er að finna fjölmargar myndir af ýmsum hlutum sem byrja á stafnum. Bókin er myndskreytt af Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur og er prentuð með leturgerðinni dyslexie. Auk bókstafstengdu myndunum má finna Ævar vísindamann sjálfan víðsvegar um bókina og fær hann þannig lítið aukahlutverk í sögunni. Aftast í bókinni er listi í stafrófsröð yfir öll orðin sem koma fyrir á myndunum og þannig hægt að skoða myndirnar með listann til hliðsjónar og kynnast jafnvel enn fleiri orðum.
Hryllilega stuttar hrollvekjur (2020) er smásagnasafn fyrir börn og unglinga með stuttum, hrollvekjandi sögum af ýmsum toga. Bókinni er skipt í þrjá kafla eftir því hversu hryllilegar sögurnar eru: “vont”, “verra” og “verst”. Höfundurinn sjálfur er sögumaðurinn í smásögunum og skrifar einnig inngang í upphafi bókarinnar, þar sem hann tekur fram að það sé að sjálfsögðu huglægt mat hvers og eins hvað sé ógeðslegast og alls ekki víst að allir séu sammála. Hann tekur líka fram að ein sagan í bókinni sé sönn og heldur lesandinn inn í bókina með það í huga hver af sögunum það gæti verið. Sögurnar í bókinni eru bland af sígildum hryllingssögum svo sem af óhugnanlegu andliti á glugga, frásögn af því að vera grafinn lifandi, sögu af uppvakningum og vampírum, en einnig óvenjulegri sögum svo sem af tannlæknaheimsókn sem fer hræðilega úrskeiðis og af stelpu sem fær garnaflækju þegar hún vill ekki hætta að velta sér niður brekku. Sumar sögurnar eru blóðugar og ógeðslegar, aðrar draugalegar, enn aðrar meira í átt að sálfræðitryllum. Bókin er myndskreytt af Ágústi Kristinssyni og er sem fyrr notast við letrið dyslexie.
Að lokum
Skáldsögur Ævars Þórs einkennast af miklu fjöri og spennu, söguhetjur lenda í alls konar ótrúlegum og hættulegum aðstæðum sem þær þurfa að koma sér úr, og tekst það oft með hjálp góðra vina eða annarra aðstoðarmanna. Myndirnar sem prýða bækurnar og sérstök leturgerð sem auðveldar lesblindum lesturinn eru mikilvægar í því samhengi og sjá til þess að textinn verði ekki yfirþyrmandi fyrir ungan lesanda. Í sögunum er sjaldan dauð stund og auk þess reglulega hrist upp í lesandanum með svolitlum hryllingi eða ógeði. Gubb er til dæmis reglulega til umfjöllunar og ekki óalgengt að persónum verði svo um það sem er að gerast að þær gubbi smá, oft á skóna hjá einhverjum öðrum eða á álíka óheppilegan stað. Í Þín eigin bókaflokknum verður ljóst að það er hægt að deyja á ótrúlega margskonar fáránlegan, fyndinn, flókinn og ógeðslegan hátt og hrollvekjurnar í Hryllilega stuttum hrollvekjum eru oft bæði hræðilegar og ógeðslegar, eins og gera má ráð fyrir. Vísindi og alls konar fróðleikur leika einnig stórt hlutverk í bókunum, í Þín eigin bókaflokknum eru ýmsar bókmenntategundir kynntar fyrir lesendum og farið ítarlega í uppbyggingu og atburði í þekktum þjóðsögum, goðsögum, hrollvekjum, ævintýrum og tölvuleikjum. Þá eru undirdjúpin og hugmyndir um tímaferðalög einnig skoðuð af nokkurri nákvæmni. Í Bernskubrekum Ævars vísindamanns er fróðleikurinn tengdur því sem Ævar vísindamaður er að glíma við á hverri stundu, hvort sem það eru risaeðlur, jarðvísindi, hátækni, geimurinn eða hliðstæðar víddir.
María Bjarkadóttir, mars 2021
Til þessara greinaskrifa hlaut Bókmenntavefurinn styrk frá
[[{"fid":"7581","view_mode":"default","fields":{"format":"default","field_file_image_alt_text[is][0][value]":"Miðstöð íslenskra bókmennta","field_file_image_title_text[is][0][value]":false},"type":"media","field_deltas":{"2":{"format":"default","field_file_image_alt_text[is][0][value]":"Miðstöð íslenskra bókmennta","field_file_image_title_text[is][0][value]":false}},"attributes":{"alt":"Miðstöð íslenskra bókmennta","class":"media-element file-default","data-delta":"2"}}]]
Greinar
UM EINSTÖK VERK
STÓRHÆTTULEGA STAFRÓFIÐ
Helga Birgisdóttir: "Nýmóðins stafrófskver" (ritdómur)
Börn og menning 2019; 34 (2): bls. 20-22
STÓRKOSTLEGT LÍF HERRA RÓSAR OG FLEIRI SÖGUR AF ÓTRÚLEGA VENJULEGU FÓLKI
Ásta Gísladóttir: "Bragðgott bókasushi" (ritdómur)
Spássían 2010; 1 (vetur): bls. 49
Verðlaun
VERÐLAUN
2022 – Hvatningaverðlaun Fræðsluráðs Reykjanesbæjar fyrir verkefnið Skólaslit
2017 – Edduverðlaunin, besta barna– og unglingaefnið: Ævar vísindamaður
2016 – Bóksalaverðlaunin, 2. sæti fyrir bestu íslensku barnabókina: Þín eigin hrollvekja
2016 – Edduverðlaunin, besta barna– og unglingaefnið og besti lífsstílsþáttur: Ævar vísindamaður
2015 – Bóksalaverðlaunin, 3. sæti fyrir bestu íslensku barnabókina: Þín eigin goðsaga
2015 – Bókaverðlaun barnanna: Þín eigin þjóðsaga
2015 – Edduverðlaunin, besta barna– og unglingaefnið: Ævar vísindamaður
2014 – Bóksalaverðlaunin, besta íslenska barnabókina: Þín eigin þjóðsaga
2007 – Sigurvegari Örleikritasamkeppni Borgarleikhússins fyrir örverkið Smit.
2007 – Sigurvegari Ljósvakaljóða, stuttmyndahandritakeppni á RIFF fyrir handritið Ævintýri á gönguför
ÝMSAR VIÐURKENNINGAR
2022 – Vorvindaviðurkenning IBBY fyrir verkefnið Skólaslit
2018 – Vorvindaviðurkenning IBBY fyrir framlag til barnamenningar á Íslandi
2017 – Valinn sem einn af Aarhus39, 39 bestu barnabókahöfundum Evrópu yngri en 39 ára
2017 – Fjölmiðlaverðlaun umhverfis– og auðlindaráðuneytisins: Ævar vísindamaður
2017 – Viðurkenning frá samtökum móðurmálskennara
2014 – Fræðslu– og vísindaviðurkenning Siðmenntar: Ævar vísindamaður
2009 – Vorvindar, viðurkenning IBBY–samtakanna fyrir framlag til barnamenningar á Íslandi, fyrir útvarpsþáttinn Leynifélagið á Rás 1, sem Ævar vann að ásamt öðrum
2021 - Sendiherra barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, til tveggja ára, leggur áherslu á réttindi barna til menntunar og menningar.
TILNEFNINGAR
2022 – Foreldraverðlaun Heimilis og skóla: Skólaslit
2020 – Gríman, barnasýning ársins: Þitt eigið leikrit 2: Tímaferðalag
2019 – Gríman, barnasýning ársins: Þitt eigið leikrit: Goðsaga
2018 – ALMA–lestrarhvatningarverðlaunin (Promoter of Reading)
2018 – Foreldraverðlaun Heimilis og skóla: Lestrarátak Ævars vísindamanns
2018 – Edduverðlaun, mannlífsþáttur ársins: Ævar vísindamaður
2017 – Íslensku bókmenntaverðlaunin, besta barna– og unglingabókin: Þitt eigið ævintýri
2016 – Íslensku bókmenntaverðlaunin, besta barna– og unglingabókin: Vélmennaárásin
2011 – Gríman, barnasýning ársins: Hvað býr í Pípuhattinum?
Skólaslit 3 : Öskurdagur
Lesa meiraSkólaslit 3: Öskurdagur eftir Ævar Þór Benediktsson er seinasta Skólaslita-bókin.Þín eigin saga 10: Nýi nemandinn
Lesa meiraÞín eigin saga: Nýi nemandinn fjallar um krakka, kennara, snareðlu í hettupeysu − og ÞIG. Því þú ræður hvað gerist!. . Mundu bara að ef sagan endar illa má alltaf reyna aftur – það eru mörg mismunandi sögulok!Skólaslit 2 : Dauð viðvörun
Lesa meiraEn þegar hann horfði betur sá hann að það var eitthvað mikið að þeim. Þau voru alblóðug. Munnarnir opnir. Húðin rifin og tætt. Sár alls staðar. Augun sjálflýsandi. Síversnandi veðrið virtist ekki hafa nein áhrif á þau. Þau stóðu á víð og dreif um veginn, slefandi svörtu slími, næstum eins og þau væru að bíða eftir einhverju.Strandaglópar! (næstum því) sönn saga
Lesa meiraHér segir Ævar Þór Benediktsson okkur söguna af því þegar afi hans varð strandaglópur á Surtsey ásamt vini sínum. Félagarnir standa frammi fyrir ýmsum áskorunum áður en þeim er loksins bjargað. Hér má einnig finna upplýsingar um eldfjöll, íslenska menningu og norræna goðafræði. Sagan er fyndin, fjörleg og næstum því alveg sönn.Þín eigin saga 9: Veiðiferðin
Lesa meiraÞín eigin saga: Veiðiferðin fjallar um hugrakkan þrumuguð, hrikalega hræddan jötun, glorhungraðan orm − og ÞIG – því þú ræður hvað gerist!Þín eigin saga 8: Sæskrímsli
Lesa meiraÞín eigin saga: Sæskrímsli fjallar um hættulega ferð niður í undirdjúpin. Það eru sæskrímsli alls staðar og ÞÚ ræður hvað gerist!. . Mundu bara að ef sagan endar illa má alltaf reyna aftur – það eru mörg mismunandi sögulok!