Æviágrip
Andri Snær Magnason fæddist í Reykjavík þann 14. júlí 1973. Hann er Árbæingur í fjórða lið en rekur einnig ættir norður á Melrakkasléttu. Hann lauk stúdentsprófi af eðlisfræðibraut Menntaskólans við Sund árið 1993 og B.A. prófi frá Íslenskudeild Háskóla Íslands árið 1997. Lokaritgerð hans, Maður undir himni, fjallaði um ljóðskáldið Ísak Harðarson og var hún gefin út í ritröð Bókmenntafræðistofnunar Háskóla Íslands, Ung fræði, 1999. Andri Snær vann að verkefni fyrir Árnastofnun sem var tilnefnt til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands og í framhaldi af því kom út geisladiskurinn Raddir í samvinnu Smekkleysu og Árnastofnunar. Hann inniheldur upptökur íslenskra þjóðlaga sem safnað var umhverfis landið frá 1903 - 1973. Andri Snær hafði forgöngu um útgáfu bókarinnar Bók í mannhafið sem var fyrsta útgefna bók ársins 2000. Þetta er ljóðasafn nokkurra ungra höfunda, meðal annars Andra Snæs, sem ritstýrði verkinu. Bókin var ekki til sölu heldur er ætlast til að hún veltist um sem almenningseign.
Andri hefur sent frá sér bækur af ýmsum toga, meðal annars ljóðabækur, smásögur, skáldsögur og barnabækur. Barnabók hans og Áslaugar Jónsdóttur, Sagan af bláa hnettinum, hefur verið þýdd á fjölmörg mál. Leikrit byggt á bókinni var sett upp í Þjóðleikhúsinu 2001 og hefur einnig verið sýnt erlendis, m.a. í Lorraine Kimsa Theatre for Young People í Toronto í Kanada 2005. Leikrit Andra, Náttúruóperan, var sett upp af leikfélagi Menntaskólans við Hamrahlíð árið 1999 og hann samdi leiktextann í Úlfhamssögu sem Hafnarfjarðarleikhúsið setti á svið 2004. Leikrit hans og Þorleifs Arnarssonar, Eilíf hamingja, var frumsýnt á Litla sviði Borgarleikhússins í janúar 2007.
Andri Snær hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir verk sín, m.a. hlaut Sagan af bláa hnettinum Íslensku bókmenntaverðlaunin 1999 í flokki fagurbókmennta, fyrst barnabóka. Skáldsagan LoveStar fékk Menningarverðlaun DV í bókmenntum 2003 og Draumalandið: Sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana í flokki hand- og fræðibóka 2006 og Íslensku bókmenntaverðlaunin sama ár. Þar með varð Andri Snær fyrstur höfunda sem hlotið hafa verðlaunin í báðum flokkum. Óhætt er að segja að bókin hafi slegið í gegn og hélt Andri fjölda erinda víðs vegar um landið í kjölfar útgáfu hennar. Það sama má svo segja um bók hans Um tímann og vatnið (2019) þar sem bráðnun jökla og umhverfismál eru í brennidepli.
Mynd af höfundi: Christopher Lund.
Frá höfundi
Pistill frá Andra Snæ
Hvers vegna er ég rithöfundur? Ég er ekki alveg viss sjálfur, ég var skyndilega orðinn rithöfundur og ég hef leitað skýringa í uppeldi, erfðum, umhverfi og í afstöðu stjarnanna.
Ættir
Ég er ekki kominn af skáldum svo ég viti til. Samkvæmt Íslenskri erfðagreiningu get ég rakið ættir mínar til Egils Skallagrímssonar og Snorra Sturlusonar. Móðurafi minn er skurðlæknir, systir mín er heilaskurðlæknir, pabbi er lungnasérfræðingur, mamma er skurðstofuhjúkka, konan mín er hjúkrunarfræðingur, tengdamamma líka. Bróðir minn er tölvufræðinemi, kærastan hans er að læra hjúkrun. Mér er sagt að langalangamma hafi verið hagmælt og ég hef lesið ljóð sem hún orti til hjúkrunarfólks á elliheimilinu. Föðurættin er full af undarlegu fólki og þar gera menn yfirleitt engan greinarmun á skáldskap og veruleika. Afi tók til dæmis leigubíl frá Reykjavík til Neskaupsstaðar árið 1947 til að biðja ömmu og fór síðan einn í brúðkaupsferð norður á Melrakkasléttu. Móðuramma og afi fóru í tveggja vikna brúðkaupsferð upp á Vatnajökul 1954. Hæsta kennileitið á Kverkfjallahryggnum heitir Brúðarbunga eftir ömmu.
Tímaferðalög
Kannski er ég rithöfundur vegna þess að ég prófaði einu sinni að ferðast aftur í tímann. Sá sem ferðast aftur í tímann skoðar hluti og metur í allt öðru samhengi heldur en sá sem hefur aldrei rofið tengslin við samtíma sinn. Ég átti heima úti í Ameríku í sex ár, þangað til ég var níu ára gamall. Þar voru teiknimyndir á morgnana, fyrstu tölvuleikirnir voru spilaðir á heimilum og flestir gátu valið úr 30 sjónvarpsstöðvum, jafn mörgum útvarpsstöðvum og stundum héldu bekkjarfélagar mínir upp á afmælið sitt á McDonalds. Ég hafði óslökkvandi áhuga á skriðdýrum, pöddum og hvölum, uppáhalds sjónvarpsefnið var four o’clock movie sem voru ódýrar japanskar B-myndir um Godzilla eða risavaxin BLOB sem gleyptu heilu borgirnar. Unglingar reikuðu um verslunarmiðstöðvar og karlar horfðu á box og drukku bjór.
Ég flutti til Íslands 1981. Ég vissi alveg hvert ég var að fara, ég var að fara til fyrirheitna landsins þar sem sumrin voru svo frábær að jafnvel sjónvarpið tók sér frí. Ameríka þá var ekki ósvipuð Íslandi núna. Þegar ég flutti heim árið 1981 þá ferðaðist ég að minnsta kosti tíu ár aftur í tímann og þrátt fyrir að ég hafi verið ungur þegar ég lenti í þessu tímaflakki þá held ég að þetta hafi haft mótandi áhrif og allar breytingar á Íslandi frá 1980-1990 voru álíka spennandi og endursýning. Á meðan 70.000 manns fóru á opnun Kringlunnar og Davíð beit í BigMakkinn þá langaði mig ekki aftur til Ameríku. Ég ferðaðist lengra aftur í tímann og lagðist í gamlar bækur og þjóðsögur og þessi þrá sækir enn að mér.
Árið 1997 fyllti ég hausinn af söng löngu látinna kvenna og karla í Segulbandasafni Árnastofnunar og það var mjög nálægt raunverulegu tímaflakki.
Stjörnur
Ég er fæddur á Bastilludaginn 14. júlí 1973. Kannski blundar í manni byltingarmaðurinn. Ég er yfirleitt ekki ofbeldishneigður og hef sjaldan farið í slag en afstaða stjarnanna veldur því að stundum langar mig til að stinga höfðum stjórnmálamanna undir fallöxina. Ég reyni að beina slíkum tilfinningum í skynsamlegan farveg, helst skáldlegan en stundum á maður ekki orð og þá er aldrei að vita hvað gerist.
Útlagaárin
Ég ferðaðist aftur í tímann og ég var líka útlagi. Ég var útlagi í Ameríku í sex ár og líklega hef ég aldrei verið harðari Íslendingur en einmitt þá. Í Ameríku hreyfðum við ekki varirnar þegar stjörnuröndótti fáninn var hylltur að morgni, við sungum níðvísur um Jimmy Carter og ég man ennþá hina innilegu gleði þegar ég kom heim úr skólanum og systir mín hljóp fagnandi og hlæjandi á móti mér syngjandi: Reagan var skotinn! Reagan var skotinn! Þjóðsönginn íslenska kunnum við ekki en í staðinn var ,,Gekk ég yfir sjó og land" ígildi hans. Þá hríslaðist straumur um börnin og aðaltöffarinn hann Jói Ara sem seinna vann á Kaffibarnum og var alltaf í hverjir voru hvar, hann öskraði alltaf svo undir tók: Íslandinu BESTA! (Í staðinn fyrir góða). Ísland var fyrirheitna landið og einu sinni lenti ég næstum í slag við strák sem sagði að Ísland væri minna en Texas. Ég hef jafnað mig að mestu á þjóðerniskenndinni en ég held að þar liggi að einhverju leyti ástæðan fyrir því að ég lagði fyrir mig jafn gamaldags fög eins og íslenskan og bókmenntir eru.
Skóli og bækur
Ég var á eðlisfræðibraut í MS, útskrifaðist þaðan 1993 og prófaði að fara í læknisfræði um haustið og reyndi að gerast flugumferðarstjóri vegna þess að mér var sagt að þeir ynnu einn dag en ættu frí í viku og þá gæti ég notað tímann þar á milli til að skrifa. Ég féll á persónuleikaprófinu. Ég lauk BA-prófi í íslensku árið 1997, lokaritgerðin kom út árið 1999 og heitir Maður undir himni og fjallar um ljóð Ísaks Harðarsonar. Ég orti mitt fyrsta ljóð þegar ég var 11 ára, annað þegar ég var 15 en þá vann ég ljóðasamkeppni Ársels. Dómnefndin hélt að ég hefði stolið ljóðinu og það fannst mér mesta viðurkenningin, að ljóðið mitt hefði getað verið ort af alvöru skáldi. Ég samdi ljóð í menntaskóla og smásögur byrjaði ég að skrifa 19 ára. Núna er ég búinn að skrifa tvær ljóðabækur, smásagnasafn, fræðibók, barnabók, tvö leikrit, ljóðageisladisk með hljómsveitinni MÚM og vonandi er skáldsaga að fæðast þessa dagana.
Hugmyndir
Fyrir mér eru hugmyndirnar mikilvægastar, þær eru drifkrafturinn og stundum eru skrifin óttalegur þrældómur og oft langar mann mest til að blaðra bara út úr sér hugmyndunum. Stundum er freistandi að leggja frá sér skáldverk ef aðrar hugmyndir sækja fastar að manni. Geisladiskurinn Raddir var þannig hugmynd og Leitin að Mónu Lísu sem var verkefni fyrir Ferðamálaráð Íslands. En fljótlega fer mér að líða eins og Björk í bíómynd, ég fæ samviskubit vegna þess að ég veit að skáldagyðjan líður ekki of mikið framhjáhald. Það kemur alltaf að því að hún bankar í öxlina á mér, segir reiðilega að ef ég skríði ekki upp í til hennar aftur muni hún fara frá mér. Hún er að banka einmitt núna og þá er eins gott að koma sér að verki.
Andri Snær Magnason, 2001
Um höfund
Hér að neðan má finna tvær greinar um Andra Snæs. Sú fyrri er eftir Úlfhildi Dagsdóttur en sú síðari er eftir Maríu Bjarkadóttur.
„Eigðu góðan dag“ – um verk Andra Snæs Magnasonar
Í smásögunni „Þögn er gulli betri“ sem birtist í bókinni Engar smá sögur (1996) segir frá íslenskufræðingnum Magna sem hefur ákveðið að komast að því hvað sé í raun og veru til í málsháttum; hvort þeir standist og hvort þeir séu í raun réttir. Svo hann leggur upp í heilmikið rannsóknarverkefni þarsem hann mælir sannleiksgildi málshátta og kemst að því að þrátt fyrir að margir hverjir séu réttir þá eru þeir allnokkrir sem ekki geta talist sannspáir. Til dæmis verður ljóst eftir athugun að: „Fjarlægðin gerir fjöllin blá (á sumrin, annars eru þau hvít) og mennina mjög litla.“ Ekki er það síður merkari uppgötvun að „grasið væri nákvæmlega grænt báðum megin við læki ef gras óx á annað borð við þá sem var fremur sjaldgæft á þessu uppblásna landi.“
Sagan birtir vel þann leik með tungumál sem er einkennismerki skáldskapar Andra Snæs. Og það er ekki bara tungumál heldur einnig bókmenntir, goðsögur og þjóðsögur sem Andri gerir að yrkisefni sínu: Í smásagnasafninu Engar smá sögur segir frá Gunnlöðu og ástaleikjum hennar með ungum skáldum, en leikirnir enda allir með því að ungskáldin gubba í hin aðskiljanlegustu ker. „Sérkennarinn“ fjallar um óvænta skáldgáfu danska embættismannsins sem er jarðaður í grafreit Jónasar á Þingvöllum og í ljóðinu „Fuglinn trúr sem fer“ biður skömmustulegur þröstur um nánari lýsingu á englinum með rauða skúfinn. Í síðari hluta smásagnasafnsins, „Lögmál árstíðanna“, er spunnið útfrá goðsögunni um Babelturninn sem í meðförum Andra hefur breyst í tölvu; ljóðmælandi „Bíóferðarinnar“ úr bókinni Ljóðasmygl og skáldarán (1995) situr óvart fyrir aftan óþolandi mann með sundfit á milli fingranna, sem lyktar af rotnandi þangi og hlær á vitlausum stöðum í myndinni og í smásögunni af sjóaranum og hafmeyjunni er snúið upp á ævintýri og goðsögur af hafmeyjum.
Umræðan um bókmenntir birtist ekki aðeins í umfjöllunarefni Andra Snæs heldur einnig í markvissri notkun tilvitnana og vísana í bókmenntir, ævintýri og goðsögur sem byggja texta hans. „Ástin fiskanna er víst köld eins og sjálfir þeir,“ hugsar sjóarinn með sér þegar sambúðin við hafmeyjuna reynist rislág, en Ástin fiskanna er titill á nóvellu Steinunnar Sigurðardóttur og „gamall maður í gulum kjól gengur yfir grunlaus blómin á Austurvelli“ í sögunni um sumarið, en í ljóði Steins Steinarrs var það sólin. Í ljóðinu „Tanka um vorið á öðrum sumardegi“ skammar skáldið fuglana fyrir að trufla sig þegar það er „að reyna/að yrkja ljóð um vorið.“
Andri Snær lætur sér ekki nægja að vísa til annarra bókmennta heldur tengir hann einnig skáldskap sinn hinum daglega veruleika, en hann vakti mikla athygli fyrir útgáfu sína á ljóðabókinni Bónusljóð sem var styrkt af samnefndu fyrirtæki og til sölu í verslunum þess. Með tilliti til þessarar nálgunar Andra Snæs á samspil skáldskapar og veruleika er skemmtilegt að velta fyrir sér hvernig greina má ákveðin spor skáldskapar í ferli höfundarins, en segja má að lögmál frásagnarinnar hafi gert vart við sig þegar höfundurinn vann til Hinna íslensku bókmenntaverðlauna.
Lögmál frásagnarformúlunnar eru kunnug öllum þeim sem lesa mikið af bókum eða sjá mikið af bíómyndum. Það sem kannski færri gera sér grein fyrir er að þessi lögmál eru ekki bundin skáldskap heldur hafa þau heilmikil áhrif á okkar daglega líf, sem, þrátt fyrir skýr skáldskaparleg einkenni, telst sjaldnast með skáldskap. Og þessi formúla birtist einmitt svo skemmtilega í úthlutun hinna íslensku bókmenntaverðlauna árið 1999, þegar Sagan af bláa hnettinum eftir Andra Snæ Magnússon var valin til verðlauna í flokki fagurbókmennta. Barnabók hafði aldrei áður komist á blað í sögu verðlaunanna og kom valið mörgum á óvart; en í raun hafði þessu verið spáð í lögmáli frásagnarinnar. Frá því að til þessara verðlauna var stofnað hefur farið fram umræða um stöðu barnabóka í bókmenntasamfélaginu, og náði hún ákveðnu hámarki í kringum tilnefninguna 1998, þegar margir söknuðu bókar Þorvaldar Þorsteinssonar, Ég heiti Blíðfinnur en þú mátt kalla mig Bóbó. Í ljós kom að hún hafði aldrei verið lögð fram til verðlaunanna. Eftir þann æsing var því borðleggjandi að nú þyrfti að bæta barnabókum upp það einelti sem þær höfðu mátt þola, og þegar tilnefningin var í höfn gat ekkert komið til greina annað en úthlutun.
Nú er ég ekki að segja að það hafi bara verið vegna formúluhugsunar að Andri Snær og Blái hnötturinn voru verðlaunaðir, þvert á móti þá felur frásagnarformúlan almennt og iðulega í sér jákvæða og rökrétta niðurstöðu af því sem á undan er farið, ástfangin pör ná saman, illmennum er refsað og hetjur fá þá umbun sem þeim ber.
Þetta samspil bókmennta og daglegs lífs birtist svo að auki í því að Andri Snær hefur einnig haslað sér völl á sviði bókmenntaumræðu og hefur starfað ötullega að því að fjalla um íslenskan bókmenntaarf á nýjan og spennandi hátt og vakið þannig athygli á fjölbreyttum möguleikum íslenskrar menningar. Meðal annars hefur hann fjallað um nauðsyn þess að finna íslenskum menningararfi sýnilega táknmynd, sem hann vill að sé konungsbók Eddu. Andri bendir réttilega á að vegna skorts á aðgengilegum menningararfi í formi bygginga og minnismerkja þurfi eitthvað annað að koma í staðinn, og velur sér írska handritið Book of Kells sem fyrirmynd að verkefninu, en sú bók er einskonar lykiltákn írskrar menningartengdrar ferðaþjónustu og er skoðuð af fjölda manns daglega. Í þessari hugmynd birtist sá skemmtilegi hæfileiki Andra Snæs að tengja fortíð og nútíma, hið forna og hið nýja, en þetta samspil í tíma birtist einnig skemmtilega í verkum hans, sérstaklega hvað varðar úrvinnslu úr minnum goðsagna og þjóðsagna.
Eitt af verkefnum Andra Snæs var að vinna að útgáfu geisladisksins Raddir, sem geymir upptökur af kveðnum kvæðum, þulum og rímum og hefur hann í framhaldi af því verið virkur í að vekja athygli á slíkum kveðskap. Þess má geta að hvort sem þakka má Andra það beint hefur íslenskur rímnakveðskapur fengið óvænt brautargengi með tilkomu samstarfs kvæðamannsins Steinþórs I. Andersens og hljómsveitarinnar Sigur Rós.
Í sínum eigin verkum hefur Andri einnig vakið athygli fyrir vel heppnuð tengsl við aðra listamenn, árið 1999 gaf hann út ljóðadisk með tónlist eftir rafsveitina múm, en sú sveit hefur vakið mikla athygli erlendis fyrir einstaka og heillandi tónlist sína. Og ekki má heldur gleyma því að Sagan af bláa hnettinum vakti sérstaka athygli fyrir vel heppnaðar myndlýsingar Áslaugar Jónsdóttur og ég tel óhætt að segja að þessi verðlaunaúthlutun hafi ekki aðeins náð að beina sjónum fólks að mikilvægi myndlýsinga fyrir barnabækur, heldur hafi metnaður í slíkum útgáfum aukist. Hér á landi hefur ríkt nokkur hroki í garð myndefnis sem kemur vel fram í íslenska orðinu myndskreyting, þar sem myndefni sem fylgir texta er álitið skraut við textann, eitthvað til að gleðja augað og hvíla hugann í átökum við orðin. Það er gegn þessu viðhorfi sem Áslaug Jónsdóttir kallar myndir sínar myndlýsingar í Bláa hnettinum, en ekki myndskreytingar, enda er bókin sérlega gott dæmi um hvernig myndefnið er fléttað inn í textann og er í raun óaðskiljanlegt frá honum. Af öðrum slíkum bókum sem birst hafa síðan má nefna bækur Guðbergs Bergssonar, Allir í strætó (2000) og Hundurinn sem þráði að verða frægur (2001), með myndum Halldórs Baldurssonar, sögu Sindra Freyssonar, Hundaeyjan með myndum eftir Höllu Sólveigu Þorgeirsdóttur, og bók Auðar Jónsdóttur og Þórarins Leifssonar, Algert frelsi (2001), en sú bók var unnin í samvinnu höfundar og myndahöfundar.
Allt er þetta sérstaklega skemmtilegt með tilliti til umræðunnar um bóklestur barna sem lifnaði mjög þegar bækurnar um Harry Potter slógu í gegn og vilja margir meina að þær hafi vakið aukinn áhuga meðal barna á bókum. Vangaveltur þessar um börn og bækur sigla svo beint í kjölfarið á umræðum um gerbreytta stöðu bókarinnar í upplýsinga- og tæknisamfélaginu. Eitt af því jákvæða sem hefur gerst er að erfiðara er að hólfa umræðuna niður og bókmenntafræðingar og gagnrýnendur finna fyrir auknum þrýstingi í þá átt að opna umræðuna og auka á tengingar milli forma og sviða, eins og til dæmis milli texta og myndlýsinga. Öllu meira áberandi eru þó áhyggjur af stöðu bókarinnar, bóklestri og sjálfu ritmálinu á tímum auglýsingaskrums og margmiðlunar. Á móti kemur að margir hafa bent á að bókin hefur staðið af sér marga styrjöldina og að allar fregnir af dauða hennar hafi hingað til verið stórlega ýktar. Útvarp, kvikmynd, sjónvarp, vídeó, allt átti þetta að útrýma bókinni en hefur gengið illa. Nær væri að spyrja hvaða áhrif þessir miðlar hafi á bókmenntirnar sjálfar, viðfangsefni og tungumál. Til dæmis hefur verið bent á að þrátt fyrir að hefðbundinn bóklestur hafi vissulega farið minnkandi þá megi færa rök fyrir því að lestur og skriftir fari vaxandi með tilkomu netsins. Unga fólkið hefur tekið sér netið að hjarta og sækir sér þangað upplýsingar jafnt sem skemmtun, auk þess sem netið er vinsælt samskiptatæki sem margir nýta sér á fjölbreyttan hátt, allt frá venjulegum tölvupóstskrifum til spjallrása og sms-skilaboða. Því er haldið fram að með tilkomu netsins lesi unglingar og skrifi líklega meira en foreldrar þeirra, formið sé bara annað.
Það sem vekur eftirtekt mína er að þessi starfsemi hefur hingað til farið fram utan bókmenntanna og ekki skilað sér inn í þær á merkjanlegan hátt.
Ein undantekning á þessu áhugaleysi rithöfunda á stöðu bókarinnar í glysheimi auglýsinga og margmiðlunar er einmitt Sagan af bláa hnettinum. Sjálf sagan segir frá villibörnum sem búa á bláa hnettinum og fá heimsókn frá gleðigjafanum Gleði-Glaumi sem brátt nær að stela eilífri æsku þeirra í skiptum fyrir endalaust auglýsingaskrum. Og það eru ekki aðeins myndirnar heldur einnig meðferð leturs og leturgerðar sem eiga ríkan þátt í að drífa söguna áfram; leturbreytingar endurspegla atburði sögunnar og myndir fléttast inn í textann sem mikilvægur hluti hans. Þannig nýtir sagan sér miðlunarform nútímasamfélagsins, sem hún er þó jafnframt að deila á. Það eftirtektarvert að það er í barnasögu sem mesta og best heppnaða tilraunastarfsemin með skáldskaparformið fer fram, og var Sagan af bláa hnettinum hiklaust það verk ársins 1999 sem sýndi mesta nýsköpun og dirfsku. Auk þess höfðar sagan jafnt til barna og fullorðinna eins og allar góðar barnabækur eiga að gera.
Textinn er fullur af forvitnilegum undirtónum, til dæmis er eftirtektarvert að Andri Snær hikar ekki við að hafa persónur sínar blæbrigðaríkar; börnin í sögunni skiptast ekki í hefðbundna flokka góðra og vondra barna heldur eru aðalhetjurnar bæði góðar og grimmar. Þegar Gleði-Glaumur lendir á eyjunni á bláa barnahnettinum og býður börnunum að fljúga í krafti fiðrildadufts og eilífs sólarljóss hika börnin ekki við að gefa honum prósentur af æskubrunnum sínum, og þegar þau frétta að með því að negla sólina yfir eyjunni ríki eilíft myrkur og kuldi annarsstaðar á hnettinum láta þau sig það litlu skipta. Gamla lífið sem var svo fullt af einföldum töfrum er skyndilega orðið úrelt þegar flug og flott efni eins og teflon sem hrindir óhreinindunum frá eru annarsvegar. En að lokum sjá börnin að sér, neyslukóngurinn Gleði-Glaumur er gerður að kóngi – „Kóngur er eins og api í búri. Það þarf bara að gefa honum að borða og það er gaman að skoða hann en annars þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af honum“ – og snúa aftur til síns fyrra einfalda lífs, þarsem þau rota seli sér til matar og grilla þá í heilu lagi, milli þess sem þau finna óskasteina og horfa á einstakt flug fiðrildanna.
Sagan af bláa hnettinum er því greinilega stungin gagnrýni á neyslusamfélagið, samhliða því að vera meðvituð um að vera afurð þess. Það sama má segja um Bónusljóðin, en þau má bæði skoða sem ádeilu á neyslusamfélagið og sem ákveðna leið til að fella sig að siðum þess. Ljóðabókin er heildstæð og „lýsir guðdómlega gleðilegu ferðalagi í gegnum undraveröld nútíma stórverslunar“ eins og segir á bókakápu. Ferðin hefst í „Aldingarðinum“ en þar brýst frumeðli nútímamannsins fram í því að bruna með kerruna og safna og safna. Smjör drýpur úr hverri hillu, „Eva í aldindeildinni/freistast til að bíta/í safaríkt epli/á sértilboði“ og ungur maður upplifir alveg einstaka tilfinningu kókauglýsingarinnar þegar hann strýkst við „stúlkuna/sem raðar kókinu í hillur/með hvítum armi.“ Næst liggur leiðin í „Niflheim niður“ en þar festist ljóðmælandi bak við plasttjald kælisins, augnaráð sviðakjammans er ískalt en ljóðmælandi kannast þó ekki við að hafa sagt honum að „vopndauðir færu í Valhöll“. Maður með skegg „framleiðir/1000 skammta úr aðeins/5 fiskum“ og síðustu orð gulu hænunnar eru sem fyrr „ekki ég“. Í „Hreinsunareldinum“ verður ljóst að það er hreinlætisvörunum að þakka að Ísland er hreint og „miðað við bláa blóðið/í dömubindunum“ „eru allar konur prinsessur“, allavega „samkvæmt auglýsingum.“ Gömul sannindi, en alltaf góð. Að lokum gengur lesandi út um dyr Bónus/bókarinnar:
Og sjá! Þegar Pétur eða engillinn
hún Guðrún hefur rennt öllum
freistingunum gegnum geislann
og skráð þær á hið gullna kort
opnast gula hliðið og maður
labbar út með fulla pokana út í
óvissuna og lítur um öxl til þess
að sjá helgisvipinn og fjarrænt
brosið sem segir:
Eigðu góðan dag.
© Úlfhildur Dagsdóttir, 2002
Ekkert stöðvar hugmynd - umfjöllun um verk Andra Snæs Magnasonar
Verk Andra Snæs Magnasonar eru afar fjölbreytt, enda hefur hann spreytt sig á fjölmörgum bókmenntategundum frá því að hann hóf fyrst ritstörf. Hann hefur til dæmis skrifað skáldsögur, smásögur og barnabók, ort ljóðabækur, samið leikgerðir og skrifað samfélagsrýni. Í verkum hans má sjá tilraunir með bæði form og bókmenntagreinar; skáldsögurnar LoveStar og Tímakistan falla til dæmis undir vísindaskáldskap og fantasíu á meðan smásagnasafnið Sofðu ást mín er á raunsæislegum nótum. Andri Snær er margverðlaunaður fyrir verk sín og Sagan af að bláa hnettinum (1999) var til að mynda fyrsta barnabókin sem hlaut íslensku bókmenntaverðlaunin, en þau hefur hann einnig hlotið fyrir Draumalandið árið 2006 og Tímakistuna árið 2013, auk tilnefningar fyrir Lovestar árið 2002.
Hér verður fjallað um verk Andra Snæs og tekinn upp þráðurinn þar sem frá var horfið í grein Úlfhildar Dagsdóttur hér á að ofan. Í þessari grein verður farið yfir þau verk sem komið hafa út síðan sú grein var birt, að einhverju leyti með hliðsjón af eldri verkum höfundar.
Ef stemningsdeildin fengi frjálsar hendur
Í Draumalandinu (2006) rekur Andri Snær nokkrar af þeim hugmyndum sem liggja að baki dystópísku framtíðarsýninni í vísindaskáldsögunni LoveStar, sem kom út árið 2002. Sagan átti að segja frá stórfyrirtæki í framtíðinni:
Forstjóri fyrirtækisins átti að vera mesti frumkvöðull allra tíma, svokallaður raðfrumkvöðull sem stiklar frá einni hugmynd til annarrar. Í bókinni vildi ég búa til fyrirtæki sem vinnur eftir móttóinu „ekkert stöðvar hugmynd“ og siðfræðinni „ef ég geri það ekki gerir einhver annar það“ og sjá hvað gerðist. Ein meginstoðin í rekstri fyrirtækisins er LoveDeath, en LoveDeath gengur út á að skjóta látnu fólki út fyrir gufuhvolfið og láta það falla til jarðar sem stjörnuhrap. … Pælingin var að kanna hvað markaðsstjóri FM 957 myndi gera við dauðann ef hann fengi frjálsar hendur til að skapa meiri stemningu (Draumalandið, bls. 23)
Þessar hugmyndir eru í forgrunni í LoveStar sem fjallar um framtíðarsamfélag og frumkvöðulinn LoveStar sem hefur með hugsjónina að leiðarljósi tekist að umbylta daglegu lífi eins og við þekkjum það. Síðan hann fann upp leið til að handfrelsa mannkynið með fuglabylgjum, þeim sömu og fuglar nota til að rata, hefur samfélagið allt tekið stórkostlegum framförum.
Sögusviðið er að mestu Ísland, Reykjavík og svo Öxnadalur þar sem höfuðstöðvar LoveStar veldisins eru staðsettar. Þrátt fyrir framþróunina sem hugmyndir LoveStar hafa leitt til fyrir mannkynið er verki hans hvergi nærri lokið. Á hann sækja endalausar hugmyndir um hvernig megi enn frekar bæta lífið og þessum hugmyndum verður að fylgja eftir. Ef hann gerir það ekki gerir bara einhver annar það ̶ og þá líklega einhver með veikari siðferðiskennd en hann sjálfur.
LoveStar veldinu er ekkert óviðkomandi og markaðs- og stemningsdeild fyrirtækisins, íSTAR, hefur mjög vítt verksvið og mikil völd. Meginverkefni deildarinnar er að greina markhópa og búa til svakalegt stuð til að auka neyslu, ýmsum brögðum er beitt til að fá fólk til að kaupa meira og meira. Ástin er stór hluti af tilveru manna og fær sína eigin deild i fyrirtækinu, ástardeildina inLOVE þar sem fuglabylgjur eru notaðar til að reikna saman sálufélaga, sem er svo hægt að selja alls konar bráðnauðsynlegan varning og upplifanir. Önnur ástarsambönd eru bara til bráðabirgða og íSTAR sér til þess að allir séu hressir og til í að láta reikna sig. LoveDeath sér svo um dauðann og útfararþjónustu fyrir allan heiminn, þar sem búkum látinna er skotið út fyrir gufuhvolfið í litlum geimflaugum.
Dregin er upp nokkuð flókin og ítarleg mynd af samfélaginu sem LoveStar hefur byggt upp en þegar sagan hefst er LoveStar á leið heim úr sínum merkilegasta leiðangri hingað til, verkefni sem hefur átt hug hans allan er loksins að komast á réttan kjöl. Á sama tíma er veldi hans komið að þolmörkum og sérlega kappsamur stemningsdeildarmaður hefur fengið brjálaða hugmynd, sem meira að segja LoveStar finnst ganga of langt - en eins og LoveStar veit manna best er ekkert sem stöðvar hugmynd. Hún finnur sér alltaf farveg.
Inn í frásögnina af ferð LoveStar heim í Öxnadalinn fléttast annars vegar frásagnir af lífi og starfi LoveStar sjálfs og af þróun samfélagsins eftir að fuglabylgjur komu til sögunnar, en hins vegar ástarsaga Sigríðar og Indriða sem eru óreiknuð en ákveða að láta það ekki stjórna sér. Þau eru sannfærð um að hafa fundið sanna ást þrátt fyrir að hafa ekki fengið formlega staðfestingu á því. Þegar Sigríður er svo reiknuð saman við annan mann ákveða þau í fyrstu að spyrna við fótum og hunsa skilaboðin, en eins og algengt er í dystópíum hafa þróunin og framfarirnar snúist upp í andhverfu sína og frelsið er í raun blekking. Kerfið leyfir engar undanþágur. Hjá íSTAR er farið á fullt við að sjá til þess að allir fylgi fyrirmælum en uppreisn Sigríðar og Indriða gegn útreikningum inLOVE kemur upp um kerfisgalla og hrindir í kjölfarið af stað skriðu sem verður til þess að kerfið brennur á endanum yfir og heimsendir blasir við.
Í LoveStar líkt og í öðrum verkum Andra Snæs er töluvert um vísanir. Sagan sækir sem fyrr segir innblástur í bókmenntahefð dystópíunnar. Þar er yfirleitt lýst fyrirmyndarsamfélagi þar sem allt virðist fullkomið á yfirborðinu en enginn er í raun frjáls. Greina má áhrif þekktra slíkra verka á borð við 1984 eftir George Orwell en einnig vísanir í ýmis verk af allt öðrum toga svo sem Pilt og Stúlku Jóns Thoroddsens, kvæði Jónasar Hallgrímssonar, í íslenska þjóðsönginn, Samdrykkju Platóns og fleira og fleira. Vísanirnar gæða textann ákveðinni dýpt og oft á tíðum aukamerkingu sem er til þess fallin að varpa frekari ljósi á gallaða samfélagsgerðina í sögunni, á firringu mannsins og á hugmyndirnar sem fara úr böndunum.
Sextán árum eftir að bókin kom út virðist margt sem fyrir augu ber í framtíðarsamfélagi LoveStar furðulega kunnuglegt. Þannig má draga ýmsar hliðstæður milli tækniþróunar nútímans og þeirrar þróunar sem hefur átt sér stað í sögunni. Völd stórfyrirtækja og aðgangur að upplýsingum um allt og alla, sem geta svo af sér sérsniðnar auglýsingar á samfélagsmiðlum eiga til dæmis þónokkuð sameiginlegt með stefnu markaðsdeildarinnar íSTAR, markhópagreiningu hennar og auglýsingaherferðum. Eins og við vitum er nútímamaðurinn auk þess orðinn handfrjáls og lifir í sýndarheimi tækninnar á skuggalega svipaðan hátt og persónur LoveStar þó þar sé þróunin vissulega ýktari, já eða kannski bara lengra komin?
Uppskriftin að draumalandinu
Draumalandið er nokkuð frábrugðin skáldverkum Andra Snæs, en bókin hlaut meðal annars Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2006 í flokki fræðirita og bóka almenns efnis. Undirtitill bókarinnar er „Sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð“ og í henni greinir höfundur ýmis atriði í íslensku samfélagi, veltir fyrir sér hugsunarhætti landsmanna og stjórnmálamanna, þróun stjórnmála og stöðu landsins í alþjóðlegu samhengi. Hann fer vítt og breitt og byggir í gegnum umfjöllunina upp að meginatriðinu, sem er hörð gagnrýni á virkjanastefnu stjórnvalda sem þau halda til streitu á kostnað náttúru landsins.
Í bókinni er rakin umræðan í samfélaginu og rök stjórnvalda fyrir orkustefnunni og stefnu í atvinnumálum og færð fram mótrök ásamt tillögum að öðrum lausnum. Saga virkjana bæði innanlands og utan er rakin og þeirra fyrirtækja sem voru sem mest í umræðunni á þeim tíma. Inntakið má draga saman með þessum orðum þar sem höfundur veltir fyrir sér atvinnu- og efnahagsmálum og spyr sig hvers vegna:
framtíð þjóðar og forsenda hagvaxtar þarf að vera bundin við þennan eina möguleika: Að sökkva landi og slökkva á fossum til að bræða ál og framleiða hráefni en ekki að hanna, þróa, finna upp eða selja vörurnar sjálfar (Draumalandið, bls. 165).
Andri Snær heldur í Draumalandinu einnig áfram að kryfja eðli hugmynda, þó á nokkuð öðrum nótum en í LoveStar. Hann veltir fyrir sér tungumálinu og hvernig merking orða þróast, hvort orð skipti máli þegar er verið að selja fólki hugmynd og þá hvernig.
Í gegnum alla bókina eru notaðar heimildir til að rökstyðja umfjöllunina, vitnað í sjónvarpsviðtöl, fréttir og vefsíður sem hægt er að fletta upp. Sumar vefsíðurnar eru ennþá virkar, en ef ekki er hægt að skoða hið ágæta vefsafn Landsbókasafns, www.vefsafn.is til að finna afrit af síðunum eins og þær voru þegar bókin er skrifuð, hafi maður áhuga á að kynna sér þær betur. Þrátt fyrir að umfjöllunarefni og sjónarhorn sé ólíkt því sem sést í skáldsögum höfundar er notkun tungumálsins og myndmáls sem fyrr til þess fallið að vekja ímyndunarafl lesandans með myndrænni framsetningu
Við ókum Nesjavallaleiðina daglega eitt sumarið, vegurinn er beinn og flottur, meðfram honum liggja þráðbein háspennumöstur og hitaveitupípa eins og naflastrengir úr kviði jarðar sem næra borgina (Draumalandið, bls. 71).
Bókin er skrifuð skömmu fyrir bankahrunið og er þannig einnig athyglisverð heimild um umræðuna sem einkenndi samfélagið á þeim tíma, þegar virkjanaáform stjórnvalda voru áberandi í allri samfélagsumræðu, en allt virtist vera á uppleið og ekkert gæti farið úrskeiðis.
Aldrei aftur febrúar
Væri það ekki alger draumur að geta bara sleppt mánudögum og febrúar? Að geta beðið af sér allt sem er leiðinlegt og fúlt og þurfa ekki að eyða dýrmætum tíma í það? Í Tímakistunni (2013) er þessi hugmynd skoðuð ofan í kjölinn og hvaða afleiðingar það gæti haft í för með sér ef hægt væri að hlaupa yfir allt sem er ekki gaman.
Tveir þræðir fléttast saman í gegnum söguna og renna saman í lokin en sagan gerist í óþekktri borg, í óræðri framtíð. Meginþráðurinn, rammasagan, segir frá samfélaginu og atburðum í nútíma sögunnar þar sem stórfyrirtækið Tímex hefur látið slagorð eins og „MÁNUDAGUR TIL MÆÐU“ og „NÁÐIR ÞÚ ÁRANGRI Í DAG? EYDDUR TÍMI KEMUR ALDREI AFTUR!“ (bls. 13) dynja á fólki öllum stundum til að minna það á hversu miklum tíma það sóar. Hagfræðingar sem spá ömurlegri framtíð og stjórnmálamenn sem geta ekki komið sér saman um neitt setja svip sinn á daglegt líf fólks, sem er bugað af krepputali og tímaleysi. Þetta hljómar kannski kunnuglega fyrir margt nútímafólk, en Tímex er með lausn við vandanum. Þeim hefur tekist að þróa tímakistu sem passar akkúrat undir eina manneskju. Inni í kistunni er algert tíma-tómarúm og hægt að loka að sér og bíða eftir betri tíð án þess að sóa sekúndubroti af lífinu. Kistuna er hægt að stilla á ákveðinn tíma þannig að hún opnist aftur þegar kjöraðstæður eru komnar. Yfirkeyrt, stressað og þreytt fólk bítur á agnið, foreldrar sem hafa ekki tíma til að sinna börnum sínum, fólk sem vinnur of mikið, fólk sem líst ekki á aðstæður í samfélaginu. Eitt leiðir af öðru og æ fleiri ákveða að fara í kisturnar og bíða betri tíma, heimurinn leggst á endanum í dvala og náttúran ryður sér óheft leið inn í borgina sem grotnar smám saman niður.
Þegar sagan hefst vaknar stúlkan Sigrún upp úr tímakistunni sinni inn í þessa sofandi veröld. Örfá börn hafa vaknað óvænt úr dvalanum og þau safnast saman heima hjá gamalli konu, Svölu, sem er ólík öðrum sem þau hafa áður kynnst. Svala er sú eina sem fór ekki í tímakistu og hún hefur rannsakað ástandið sem ríkir í samfélaginu. Svala telur að hún sé búin að finna leið til að leysa heiminn úr álögunum, en til þess þarf hún aðstoð barnanna.
Hún segir börnunum söguna af prinsessunni af Pangeu, en sagan sækir innblástur bæði í hefð ævintýra og dæmisagna og er hinn meginþráður Tímakistunnar. Þar segir af Dímoni konungi sem vildi ekki að dóttir sín, Hrafntinna prinsessa, þyrfti að upplifa neitt sem væri leiðinlegt og til þess að það væri hægt þurfti hann að sigra tímann. Hann komst yfir töfrakistu þar sem tíminn stóð í stað og í hvert sinn sem eitthvað leiðinlegt gerðist, hvort sem það var bara vont veður eða stríð, var Hrafntinna sett í kistuna og látin bíða þar. Svo fór á endanum að enginn tími þótti nógu góður fyrir prinsessuna sem dvaldi, æ meir gegn vilja sínum, sífellt lengur í kistunni. Á meðan háði faðir hennar stríð víðs vegar um heiminn og stjúpa hennar hafði umsjón með velferð hennar. Stjúpa Hrafntinnu varð bitur og reið út í feðginin fyrir þær fórnir sem hún þurfti að færa og fann á endanum leið til að nýta Hrafntinnu í kistunni sér til framdráttar og auka völd sín í fjarveru Dímons. En allt fór á versta veg fyrir Dímon, Hrafntinnu og ríki þeirra sem hrundi og féll í gleymskunnar dá, þangað til löngu seinna þegar tveir vísindamenn grófu upp furðulega kistu, í henni var ung stúlka, sem virtist vera á lífi.
Bæði dæmisagan af Dímoni konungi og rammasagan eru til þess fallnar að vekja til umhugsunar um hvernig við nútímafólkið forgangsröðum í lífinu, hvað það er sem skiptir máli og hverju er fórnað til að komast yfir allt sem „þarf“ að gera. Í sögunni eru það börnin sem geta leyst heiminn úr álögunum, því þau ein skilja ennþá hvað er raunverulega mikilvægt. Þau vilja ekki bíða betri tíma, þeim er alveg sama hvort sé mánudagur eða febrúar. Þau vilja bara eiga notalegar stundir með foreldrum sínum og vinum, og að fullorðna fólkið slaki aðeins á og hætti að hlusta svona mikið á hagfræðingana sem gera ekkert annað en að valda áhyggjum og streitu. Hið sama er í raun uppi á teningnum í sögu Hrafntinnu, þar sem Dímon missir sjónar á því sem er hjarta hans næst. Hann missir af lífinu með dótturinni sem er honum allt því hann er of upptekinn við að eltast við draumóra.
Sagan endar á bjartsýnum nótum. Fullorðna fólkið kemur út úr kistunum sínum eins og birnir úr hýði og hefst handa við uppbyggingu samfélagsins að nýju. Börnin eygja von um betri framtíð með foreldrum sem hafa líklega lært sína lexíu og munu ekki láta neikvæðar fréttir og hagfræðinga hafa eins mikil áhrif á sig í framtíðinni.
Smásögur og ljóð
Meðal fyrstu birtu og útgefnu verka Andra Snæs eru ljóð og smásögur. Ljóðabókin Ljóðasmygl og skáldarán kom út árið 1995, Bónusljóð og Engar smá sögur árið 1996. Síðan þá hafa Bónusljóð verið endurútgefin tvisvar, annars vegar árið 2003 og þá með undirtitlinum 33% meira og síðan árið 2017 með undirtitlinum 44% meira. Bókin hefur í báðum tilfellum verið aukin og endurbætt, sérstaklega önnur útgáfan en hún er í kringum þriðjungi lengri en sú upprunalega. Í seinni útgáfum hefur ýmsu verið breytt og nokkrum ljóðum bætt við. Þannig er inngangsljóðið í seinni útgáfunum, „Homo Consumus“, til dæmis nýtt ljóð sem undirstrikar líkt og fleiri af nýju ljóðunum firringu nútímamannsins frá uppruna matarins. Í ljóðinu brunar maður um ganga Bónus með innkaupakerru og safnar að sér mat, líkt og frummaðurinn sem safnaði nauðsynjum í töluvert öðruvísi umhverfi. Hliðstæðurnar eru kómískar og furðulegar en sýna á sama tíma hversu langt við erum komin frá uppruna okkar.
Aðrar viðbætur eru meðal annars aðlögun ljóða að nútímanum, en þrátt fyrir að fyrsta útgáfan sé ekki ýkja gömul hefur ýmislegt breyst og það er athyglisverð stúdía að skoða breytingarnar, til dæmis er FM 989 í fyrstu útgáfu breytt í FM 957 í þeim seinni og kílóverðið á vínberjum í ljóðinu sem í seinni útgáfum heitir „Æsóp“ hefur hækkað úr 699kr/kg í 1699kr/kg!
Í einhverjum tilfellum hefur titlum verið bætt við ljóð eða breytt og vísa nú beint í ákveðna vörutegund, eins og ljóðið sem nú heitir „Ísfugl“:
Ísfugl
Ekki ég
voru síðustu orð
litlu gulu hænunnar
(Bónusljóð, bls. 44)
Bein vísun í vörumerki kallar fram ákveðnar myndir í huga lesandans og tengir við raunveruleikann, vísunin í þessu tilfelli í söguna af litlu gulu hænunni setur bæði titilinn og ljóðið sjálft í allt annað samhengi. Gagnrýni á firringuna er skýrust í ljóðasyrpunni „Borðbæn I-III“
Borðbæn II
(önnur leið til affirringar)
og ég þakka þér Billy Joe í Nebraska fyrir hveitið,
ég þakka þér Hamel í Naputtmaal fyrir kryddið
ég þakka þér Geiri á Hólmaborginni fyrir ýsuna
ég þakka þér Árni í Hraunkoti fyrir mjólkina
án ykkar væri ég
DAUÐUR.
Smásagnasafnið Sofðu ást mín, kom út árið 2016 og er safn sjö raunsæislegra smásagna. Sögurnar eru persónulegar og einlægar og töluvert jarðbundnari en þær sem birtast í fyrra smásagnasafni höfundar. Hér er fjallað um ýmsar hliðar lífsins, um vináttu, ást og drauma en líka um firringu, svik og sorg. Viðhorf og sjálfsmynd eru skoðuð frá ýmsu sjónarhorni og hvernig fortíðin og umhverfið mótar okkur. Sögurnar eiga margt sameiginlegt með ljóðum höfundar, stíllinn er persónulegur, léttur og fullur af myndmáli, en oft verður í smásögunum líkt og í ljóðunum óvæntur viðsnúningur í lokin sem gerir að verkum að merkingin verður allt önnur en sú sem hún virtist í upphafi.
Sögurnar eru af ýmsum toga. Fyrsta sagan, „Randafluga“ segir frá jeppaferð fjölskyldu upp á hálendið, sögumaðurinn er barn sem er með foreldrum sínum og systkini á ferð um hrjóstrugt landslag. Sagan segir ekki aðeins af upplifun barnsins á þessu ferðalagi, hossinu í aftursætinu á jeppanum og suðinu í útvarpinu, heldur lýsir aðalpersónan samskiptum foreldra sinna, skoðunum þeirra og viðhorfi annarra til þeirra, allt með augum barnsins. Yfir öllu liggur andi áttunda og níunda áratugarins og nostalgía svífur yfir vötnum.
Næsta saga, „Rex“, er af allt öðrum toga. Þar segir frá æskufélögum sem hittast aftur á fullorðinsárum, eftir að hafa ekki sést síðan þeir voru börn. Þeir eru afar ólíkir og lifa ólíku lífi, annar þeirra starfar sjálfstætt sem listamaður en hinn er „bissnessmaður“ sem svífst einskis. Valdaójafnvægið frá því í æsku fylgir þeim og hefur ennþá áhrif á samskipti þeirra en „bissnessmaðurinn“ Atli er frekar ógeðfelldur, siðblindur og stjórnsamur. Aðeins tvær af sögunum, „Rex“ og „Wild boys“, tengjast beint í gegnum persónur sagnanna en sjónarhornið í þeim er gjörólíkt. Í „Wild boys“ er sett fram annað sjónarhorn á Atla og viðskiptafélaga hans, siðblinda glaumgosa sem valta yfir allt og alla. Sagan er sögð frá sjónarhorni Brynju, eiginkonu Atla, sem er klofin í afstöðu sinni til lífsins sem þau lifa. Titilsagan „Sofðu ást mín“ er svo ástarsaga þar sem sögumaðurinn rifjar upp hvernig ástarsamband hans hefur þróast og hvernig elskendurnir hafa fjarlægst. Ástin hefur kulnað og hann leitar að orðum til að lýsa tilfinningum sínum.
Í „Legoland“ veitir höfundur innsýn í hugsanir sínar um sitt eigið líf og segir frá fjölskylduferð til Legolands í Danmörku, draumaferð hans sem barns sem farin var á fullorðinsárum með fjölskyldu og vinafólki í skugga andláts góðs vinar. Pælingar um lífið og tilveruna, fortíðina og framtíðina eru í fyrirrúmi. „Hamingjusagan“ myndar áhugavert mótvægi við bæði „Wild boys“ og „Sofðu ást mín“. Sagan er sögð í viðtalsstíl þar sem eiginmaður segir frá ástarsambandi sínu og eiginkonu sinnar. Viðmælandinn, eða lesandinn kannski, skilur ekkert af hverju hann er að deila þessu með sér ef þetta er ekki vandamál. En skýringin er einföld frá sjónahorni aðalpersónunnar:
...svo finnst mér allar bækur fjalla um óhamingju, svik, vonbrigði og dauða og greddu sem beinist í vitlausa átt svo ég varð bara að fá að segja einhverjum frá þessu
(Sofðu ást mín, bls. 130).
Í sögunni kemur fram alger andstæða við gervi-glanslífið og afmennskunina sem Brynja upplifir í sambandi sínu við Atla. Lokasagan „2093“ lýsir lokar svo hringnum og segir frá einlægu sambandi langafa og barnabarnabarns, þar sem afinn liggur á dánarbeðinu og barnið rifjar upp líf afans og þá lífsspeki sem hann hefur deilt með barninu.
Að lokum
Þó að verk Andra Snæs nái yfir ýmsar tegundir bókmennta eiga þau ákveðna þætti sameiginlega. Fjölbreytileiki í framsetningu og formi, lifandi og hugmyndarík notkun á tungumálinu og óvenjulegt sjónarhorn eru öll áberandi óháð bókmenntaformi og öll til þess fallin að auðga textann með mörgum lögum af merkingu. Myndmál þar sem hversdaglegir hlutir eru settir í óvæntar aðstæður og vísanir þar sem þekkt atriði úr bókmenntahefðinni, ævintýrum, ljóðum og fleiru gefa aukna dýpt leiða af sér áhugaverðan og lipran texta, sem krefst þátttöku og hugsunar lesandans en er á sama tíma fullur af húmor og léttleika.
María Bjarkadóttir, 2019
Greinar
Almenn umfjöllun
„Börnin og góðærið.“ Viðtal við Andra Snæ.
Uppeldi, tímarit um börn og fleira fólk, 13. árg., 2. tbl. 2000, s. 51-52.
Oliver Lowenstein: „Ice and Fire“
Blueprint 2014, 7. tbl. bls. 152-66.
"Vil ekki eyða tíma fólks." Viðtal við Andra Snæ
Spássían, 2013, 4. árg. (haust/vetur), s. 27-31
Um einstök verk
Bónusljóð
Kolbeinn Soffíuson: „Ljóð sem neysluvara: um Bónusljóð eftir Andra Snæ Magnason“
Tímarit Máls og menningar 2008, 69. árg., 4. tbl. bls. 49-56.
Draumalandið
Bjarni Harðarson: „Að gera ekkert“
Þjóðmál, 2. árg., 3. tbl (haust) 2006, s. 20-23
Björn Bjarnason: „Kostur til vinstri“
Þjóðmál, 2. árg., 3. tbl. (haust) 2006, s. 7-11
Björn Þorsteinsson: „Leitin að draumnum“ (ritdómur)
Hugur 2007, 19. tbl. bls. 183-6.
Hilmar Gunnþór Garðarsson: „Draumaland“
Bókasafnið 2008, 32. tbl. bls. 57.
Magnús Þór Snæbjörnsson: „Er Draumalandið sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð?“
Skírnir 2007, 181. árg., haust, bls. 464-95.
Þorsteinn Siglaugsson: „Virkjanasálfræði“
Þjóðmál, 2. árg., 2. tbl. (sumar) 2006, s. 92-95
Engar smá sögur
Berglind Steinsdóttir: „Ofskynjanir“
Tímarit Máls og menningar; 58. árg., 1. tbl. 1997, s. 117-121
LoveStar
Berglind Steinsdóttir: „Hugmynd tekur völdin. Um LoveStar eftir Andra Snæ Magnason.“
Tímarit Máls og menningar, 64. árg., 2. tbl. 2003, s. 28-31.
Elva Simundsson: „Lovestar : by Andri Snær Magnason“ (ritdómur)
The Icelandic Connection 2013, 65. árg., 3. tbl. bls. 140-1.
Sagan af bláa hnettinum
Inga Ósk Ásgeirsdóttir: „Flugfrelsi?“
Börn og menning, 15. árg., 1. tbl. 2000, s. 10-12
Anna Heiða Pálsdóttir: „Den lystige globetrotter.“
Nordisk Litteratur, 2000, s. 19-21
Guðlaug Richter: „Farvegur til að segja eitthvað sem virkilega skiptir máli.“ Viðtal við Andra Snæ.
Börn og menning, 17. árg., 2. tbl. 2002, s. 4-6.
Sofðu ást mín
Þorgeir Tryggvason: „Áfangaskýrsla“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2017, 78. árg., 2. tbl., s. 135-140.
Guðmundur Vestmann: „Þá var það blátt á litinn“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Tímakistan
Dagný Kristjánsdóttir „Tímakistan krosslesin“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2015, 76. árg., 1. tbl., s. 129-133.
Vera Knútsdóttir: „„Sá sem sigrar tímann mun glata heiminum““
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Greinar og viðtöl við Andra Snæ hafa einnig birst í dagblöðum, sjá t.d. Gagnasafn Morgunblaðsins
Verðlaun
2021 - Tiziano Terzani verðlaunin, alþjóðleg bókmenntaverðlaun veitt á Ítalíu: Um tímann og vatnið
2020 - Rithöfundasjóður Ríkisútvarpsins
2019 - Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana: Um tímann og vatnið (í flokki fræði- og handbóka)
2014 – Barnabókaverðlaun skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur: Tímakistan
2013 – Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana fyrir bestu íslensku táningabókina: Tímakistan
2013 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Tímakistan (í flokki barna- og unglingabóka)
2006 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Draumalandið: sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð (í flokki fræðirita og bóka almenns efnis)
2006 – Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana: Draumalandið (í flokki handbóka og fræðibóka)
2006 – Fyrstu verðlaun fyrir tillögu að nýjum höfuðstöðvum Íslansbanka á Kirkjusandi. Ásamt Arkitektúr.is og Einrúm arkítektar. Þáttur Andra var að leita að heimspeki hússins, sögulegum tengingum og tengslum við umhverfið.
2003 – Menningarverðlaun DV í bókmenntum: LoveStar
2002 – Bókaverðlaun starfsfólks bókaverslana: LoveStar
2002 – Vestnorrænu barnabókaverðlaunin: Sagan af bláa hnettinum
2000 – Heiðursverðlaun Janusz Korczak: Sagan af bláa hnettinum
1999 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Sagan af bláa hnettinum
Tilnefningar
2021 - Norrænu bókmenntaverðlaunin: Um tímann og vatnið
2019 - Tilnefning til viðurkenningar Hagþenkis: Um tímann og vatnið
2018 - Tilnefning til Tähtifantasia verðlaunanna í Finnlandi: Tímakistan
2016 - Grand Prix de l’Imaginaire, besta furðusagan í franskri þýðingu: LoveStar
2014 – Vestnorrænu barnabókaverðlaunin: Tímakistan
2013 – The Philip K. Dick Award: LoveStar
2003 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: LoveStar
The Casket of Time
Lesa meiraZaman sandiği
Lesa meiraLoveStar
Lesa meiraTímakistan á kínversku
Lesa meiraLo scrigno del tempo
Lesa meiraLúbovdzezda
Lesa meiraTímakistan í kóreskri þýðingu
Lesa meira