Beint í efni

Einar Kárason

Æviágrip

Einar Kárason fæddist 24. nóvember 1955 í Reykjavík. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Tjörnina árið 1975 lagði hann stund á nám í almennri bókmenntasögu við Háskóla Íslands til 1978. Hann vann við ýmis störf meðfram námi til ársins 1978 en frá þeim tíma hefur hann verið rithöfundur að aðalstarfi.

Einar átti sæti í stjórn Rithöfundasambands Íslands á árunum 1984-1986, gegndi stöðu varaformanns 1986-1988 og stöðu formanns á árunum 1988-1992. Hann sat sem formaður Rithöfundasambands Íslands í stjórnum Bandalags íslenskra listamanna, Bókasambands Íslands, Fjölíss og IHM. Hann hefur átt sæti í stjórn Bókmenntahátíðar í Reykjavík frá 1985.

Einar tók að birta ljóð í tímaritum á árunum 1978-1980 en fyrsta skáldsaga hans, Þetta eru asnar Guðjón, kom út 1981. Tveimur árum síðar kom svo út fyrsta bókin í trílógíunni um lífið í einu af braggahverfum Reykjavíkur á eftirstríðsárunum, Þar sem djöflaeyjan rís. Hann hlaut Menningarverðlaun DV fyrir þá næstu, Gulleyjuna, 1986 en bókin var einnig tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs ári síðar. Fyrirheitna landið var síðan tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 1989. Leikrit byggt á bókunum var sett upp af Leikfélagi Reykjavíkur og sýnt við miklar vinsældir. Einar skrifaði jafnframt kvikmyndahandrit upp úr bókunum í samvinnu við Friðrik Þór Friðriksson leikstjóra og var kvikmynd hans, Djöflaeyjan, frumsýnd 1996. Einar og Friðrik höfðu áður unnið saman að handriti kvikmyndarinnar Skytturnar sem frumsýnd var 1987. Auk fjölda skáldsagna hefur Einar sent frá sér ljóðabók, smásagnasöfn og bækur fyrir börn, fyrsta barnabók hans, Didda dojojong og Dúi dúgnaskítur kom út 1993. Skáldsögur hans hafa verið þýddar á fjölmörg tungumál.

Ritþing um Einar Kárason í Gerðubergi 15. apríl 2008

Mynd af höfundi: Jóhann Páll Valdimarsson.