Æviágrip
Iðunn Steinsdóttir fæddist þann 5. janúar 1940 á Seyðisfirði. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1960 og kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1981. Iðunn vann hjá Skipaútgerð ríkisins frá 1960 til 1962 og starfaði síðan við grunnskólakennslu um nokkurra ára skeið og kenndi m.a. á Húsavík og við Laugarnesskóla. Frá 1987 hefur hún að mestu fengist við ritstörf.
Iðunn sat í stjórn Leikfélags Húsavíkur 1968 - 1972 og í stjórn Soroptimistaklúbbs Reykjavíkur 1989 - 1991. Hún var í ritstjórn blaðsins Börn og bækur 1985 - 1989 og í átti þátt í að ritstýra bókinni Dagamunur sem gefin var út í tilefni 70 ára afmælis Kvenfélagssambands Suður-Þingeyinga 1975. Iðunn var um árabil formaður Barna og bóka, Íslandsdeildar IBBY samtakanna.
Fyrsta verk Iðunnar er barnabókin Knáir krakkar sem kom út árið 1982 og síðan hefur hún sent frá sér fjölda barnabóka, meðal annars bækurnar um prakkarana Snuðru og Tuðru sem notið hafa mikilla vinsælda. Margar smásögur Iðunnar hafa birst í barnablaðinu Æskunni og hefur hún einnig samið sögur fyrir barnatíma útvarps og sjónvarps. Iðunn hefur samið handrit að sjónvarpsmyndum og þáttaröðum fyrir börn auk handrits að fræðslumyndinni Ég veðja á Ísland sem hún samdi fyrir Námsgagnastofnun. Hún hefur skrifað fjölda námsbóka fyrir grunnskóla og einnig samdi hún barnaefni fyrir Umferðaráð. Þá á hún fjölda söngtexta á hljómplötum. Iðunn hefur skrifað leikrit í samvinnu við systur sína, Kristínu Steinsdóttur rithöfund. Hún hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir ritstörf sín.
Frá höfundi
Frá Iðunni Steinsdóttur
Þegar ég var sjö ára ákvað ég að safna mér fyrir hjóli. Söfnunin gekk hægt og eftir árið var ég búin að öngla saman átta krónum, verði á girnilegum súkkulaðipakka í kaupfélaginu. Ég fór til mömmu og spurði hana hvort henni fyndist kannski að ég ætti bara að hætta að safna fyrir hjólinu og kaupa mér súkkulaði fyrir peningana. Henni fannst það sjálfsagt mál og hún sagði að ég skyldi fara með súkkulaðið afsíðis og borða það allt sjálf.
Ég laumaðist með góðgætið upp í svefnherbergi og lagðist í lokrekkjuna mína. Skammdegið var svart en ég kveikti ekki ljósið, lá bara í myrkrinu og borðaði eina lengjuna eftir aðra af súkkulaðinu. Og lét mig dreyma, spann upp sögur í huganum. Þær voru mest um okkur krakkana á Öldunni og ég var aðalpersónan í þeim öllum.
Næstu ár og áratugi hélt ég áfram að segja sjálfri mér frumsamdar sögur og þær voru snar þáttur í lífinu. Stundum voru það smásögur, stundum framhaldssögur, ég kallaði þær dagdrauma og fannst alltaf jafnnotalegt að hverfa til þeirra. Ég átti þá ein og í þeim gat ég haft allt eins og ég vildi.
Fyrir um það bil tuttugu árum fór ég að skrifa bækur og leikrit og nýlega rann það upp fyrir mér að dagdraumarnir voru horfnir. Löngu horfnir og ég hafði ekki einu sinni tekið eftir því. Ég reyndi að rifja upp hvenær ég hefði týnt þeim niður og komst næst því að það hefði verið um það leyti sem ég byrjaði að skrifa sögur sem birtust á prenti og ég deildi með öðrum.
Áhrif bernskuáranna eru sterk og varanleg, þau eru grunnurinn og þau eru undirliggjandi í bókunum mínum hvort sem ég vil eða ekki. Mamma var sagnaþulur og kunni gömul ævintýri sem höfðu varðveist í munnlegri geymd. Sum þeirra hef ég fundið skráð, önnur ekki. Þeirra á meðal eru tvö hin lengstu sem voru aðeins sögð ef mislingar eða álíka voðapestir hrjáðu heimamenn. Náttúran lifði í þessum ævintýrum, þau voru kvik af álfum og tröllum sem voru jafnraunveruleg og bændadæturnar og kóngssynirnir sem oftar en ekki voru í aðalhlutverkum.
Pabbi var sósíalisti og hugsjónamaður og lá ekki á skoðunum sínum. Tilfinningin fyrir því að allir ættu að fá jafnstóra sneið af köku sem verið var að skipta var hluti af andrúmsloftinu og gremjan áleitin yfir því hve misstórum bitum var oft deilt út á meðal manna. Amma var tengiliðurinn við Guð. Hann var næstum því áþreifanlegur í návist hennar. Hún hafði alla tíð treyst honum og hann brást traustinu aldrei. Ekki heldur á kreppuárunum þegar hún vissi ekki að kvöldi hvað hún ætti að setja á diskana hjá barnmargri fjölskyldunni næsta dag.
Ég var rúmlega fertug þegar ég byrjaði að skrifa bækur. Sú fyrsta varð til af því að ég var kennari og á þeim tíma voru auðlesnar bækur nálega óþekktar á Íslandi. Mig langaði að skrifa spennandi bók á svo léttu máli að krakkar sem voru orðnir tíu, ellefu ára en gátu bara stautað, gætu lesið hana. Bók sem þau gátu verið þekkt fyrir að láta sjá sig með, bók sem hinir krakkarnir vildu líka lesa. Þegar ég var einu sinni byrjuð gat ég ekki hætt, þetta var svo gaman.
Fyrstu árin stóðu ýmsir nemendur mínir á bak við sögupersónurnar en með tímanum hafa barnabörnin látið að sér kveða. Þannig eru til dæmis sumar sögurnar um Snuðru og Tuðru byggðar á ýmsum uppátækjum sonardætra minna þó að alltaf sé að sjálfsögðu aukið við um helming og rúmlega það. Svo koma ný barnabörn og þá verða fleiri Snuðru- og Tuðrusögur til. Það skiptir ekki máli hvort strákar eða stelpur eiga í hlut því að þær systur eru fullkomlega karlmannsígildi í allri sinni óþekkt.
Ég þykist vita að forsendur fyrir efnisvali rithöfunda séu margar og misjafnar og sjálf hef ég látið stjórnast af ýmsu í tímans rás. Maður á sín ákveðnu skeið í þessu eins og öðru í lífinu. Á einu þeirra leitaði ég til bernsku-og æskudaganna og skrifaði þrjár bækur sem gerast á eftirstríðsárunum. Sjálfsagt finnst börnum í dag ýmislegt skrítið sem var viðtekið fyrir hálfri öld. En ef vel tekst til getur það skrítna einmitt verið svo skemmtilegt.
Annað skeið á ferli mínum hef ég í huganum nefnt Heimsfrelsunarskeiðið. Á því skrifaði ég bækur sem skírskota til atburða úti í heimi, svo sem átakanna í fyrrum Júgóslavíu og ástandsins í Austur-Evrópu eftir sameininguna. Ég vildi vekja lesendur til umhugsunar um samskipti manna, gagnkvæma ábyrgð og gildismat.
Nú þykist ég hafa náð fullum þroska og skrifa bara um það sem mig langar til!
Bækurnar mínar eru skrifaðar fyrir breiðan aldurshóp og til komnar af ólíkum hvötum. Þó er það eitt sem einkennir þær, kannski ekki allar en flestar. Það er landslagið. Seyðfirsku fjöllin slógu hring um bernskudaga mína, há og svipmikil, hvert öðru fallegra. Sá sem er alinn upp innan þessara fjalla losnar aldrei við þau.
Fyrir nokkrum árum ætlaði ég að skrifa bók sem gerðist á sléttu. Ég var með söguþráðinn tilbúinn, persónurnar vandlega ígrundaðar og með það settist ég við skriftirnar. En eftir þrjá eða fjóra kafla hafði ég á tilfinningunni að ég næði ekki utan um það sem ég var að gera. Eitthvað var svo framandi að ég var nánast eins og gestur í minni eigin sögu. Ég velti þessu fyrir mér þangað til einn daginn að það rann upp fyrir mér ljós. Fjöllin vantaði. Ég fór aftur fram á blaðsíðu eitt og flutti sögusviðið í þröngan djúpan dal, umlukinn háum fjöllum. Og þar með náði ég tilfinningalegu sambandi við persónurnar. Ég flutti inn í dalinn til þeirra og gat fylgst með ferðum þeirra fram og aftur. Ég þekkti þær og skildi.
Þegar ég svo renndi augum yfir bækurnar mínar sá ég að þær voru flestar fullar af fjöllum. Þau voru bara svo sjálfsögð að ég hafði ekki tekið eftir þeim.
Árið 2002 er ég búin að stunda ritstörf í tvo áratugi við ýmis veðrabrigði. Stundum spyr ég sjálfa mig af hverju ég sé að þessu, af hverju ég hætti ekki og fari að gera eitthvað annað. Svarið liggur ekki á lausu.
Kannski kemur að því að ég hætti og fer aftur að segja sjálfri mér sögur.
Þá verð ég áreiðanlega aðalpersónan. Ég hef öðlast glæsileik æskunnar á ný og pabbi, mamma og amma verða með mér þegar ég, barna- og unglingabókahöfundurinn, stend brosandi á sviðinu og tek á móti Nóbelsverðlaununum. Mamma verður glöð og stolt. Pabbi kannski svolítið áhyggjufullur af því að verðlaununum er ekki jafnt skipt milli mín og kolleganna. En amma tekur öllu með stakri ró enda veit hún að þetta er engum öðrum en Guði að þakka.
Iðunn Steinsdóttir, 2001
Um höfund
Um verk Iðunnar Steinsdóttur
Iðunn Steinsdóttir hefur frá því að fyrsta bók hennar Knáir krakkar kom út árið 1982, verið afkastamikill barna og unglingabókahöfundur. Hún hefur skrifað bækur fyrir alla aldurshópa, allt frá myndabókum fyrir yngstu börnin upp í unglinga- og fullorðinsbækur. Bækur hennar hafa notið mikilla vinsælda og var bókin Gegnum þyrnigerðið sem kom út árið 1991, valin verðlaunabók Verðlaunasjóðs íslenskra barnabóka það ár.
Bækur Iðunnar fyrir yngri börn fjalla oft um krakka sem eru prakkarar og óþekktarormar en þar hafa verið vinsælastar upp á síðkastið bækurnar um systurnar óstýrilátu Snuðru og Tuðru. Uppátæki systranna eru margvísleg og systurnar ansi óþægar en mamma þeirra reynir eftir fremsta megni að láta þær læra af reynslunni frekar en að skamma þær. Uppátækin eru oft allsvakaleg, eins og þegar þær stöllur gefa öll föt móður sinnar í söfnun fyrir fátækt fólk í Afríku. Þær læra þó alltaf þá lexíu sem sagan ætlar þeim og allt endar vel. Iðunn hefur skrifað fleiri myndabækur fyrir börn, meðal annars Ég er húsið mitt (1999) þar sem aðalpersónan Steini lærir að umgangast líkama sinn og bera virðingu fyrir honum. Bókin er samstarf höfundar, sálfræðinga og grunnskólakennara og er henni ætlað að skapa umræðu milli þess sem les söguna og barnsins sem hlustar. Bókin á líka að vekja barnið til umhugsunar um líkamann og hvernig er farið með hann. Iðunn hefur einnig skrifað nokkrar lestrarbækur fyrir skólabörn en þar á meðal eru Bras og þras á Bunulæk sem kom fyrst út árið 1985, og víkingasagan Litlu landnemarnir (2001).
Ævar á grænni grein (1991, 1995) er bók fyrir yngri börn og fjallar hún um lítinn íslenskan strák sem flytur með foreldrum sínum til Frakklands þar sem fjölskyldan dvelur um tíma ásamt ömmunni og afanum. Ævari svipar til Snuðru og Tuðru að því leytinu til að hann er óþægur og uppátækjasamur en hann virðist þó ekki læra mikið af reynslunni, ólíkt systrunum. Ævar á erfitt með að aðlaga sig að nýju samfélagi og tungumáli, hann skilur ekki frönsku og þar af leiðandi ekki heldur það sem sagt er við hann í leikskólanum. Ævar er heldur ekki alltaf sáttur við að búa með ömmu sinni og afa, oft finnst honum of mikið af fólki í húsinu og hann vill heldur hafa foreldra sína út af fyrir sig. Uppátæki Ævars eru líkt og hjá Snuðru og Tuðru ansi ímyndunarrík, en Ævar tekur sjálfan sig og lífið öllu alvarlegar en systurnar.
Í bókunum Skuggarnir í fjallinu (1990) og Með bómull í skónum (1994) eru aðalpersónurnar nokkrir krakkar sem í fyrri bókinni eru að byrja í skóla. Bækurnar gerast í litlum bæ úti á landi á eftirstríðsárunum, og þurfa börnin að glíma við vandamál síns tíma, rétt eins og fullorðna fólkið. Tundurdufl finnst í fjöru, efni í jólaföt er af skornum skammti og fötin endurnýtt frá ári til árs. Bærinn er gegnsýrður af pólitík enda miklir umbrotstímar sem verið er að lýsa. Ekkert af þessu fer framhjá börnunum. Þau takast á við erfiðleika lífsins svo sem dauðann og hrekkjusvín, en eignast líka stöðugt nýja vini og læra meira á heiminn. Bækurnar hafa, eins og góðum barnabókum sæmir, boðskap fram að færa, en Iðunni tekst að láta hann ekki skyggja á söguþráðinn og börnin eru ósköp venjuleg börn, breysk eins og aðrir og geta ekki alltaf hagað sér eins og þau vita að þau eiga að gera, þó þau reyni sitt besta.
Í nokkrum af barnabókum Iðunnar er hversdagsheimurinn látinn víkja fyrir ævintýralegri heim. Fúfú og fjallakrílin (1983) og Fjallakrílin óvænt heimsókn (1984) eru slíkar ævintýrabækur en í þeirri fyrri verða fjallakrílin, sem eru furðuverur af ýmsum toga, að finna lausn á því hvers vegna ógurlegt myrkur skellur á þau af og til. Þau komast að því að ástæðan er sú að þau eru vond hvort við annað því myrkrið fer ekki aftur fyrr en sá eða sú sem gerði eitthvað rangt hefur bætt fyrir brot sitt. Skilaboð sögunnar til lesandans eru þau að allir verða að reyna sitt besta til að vera góðir við aðra og lifa í sátt og samlyndi við umheiminn. Í seinni bókinni fá fjallakrílin óvænta heimsókn. Til þeirra koma flóttakríli sem hafa þurft að flýja heimaland sitt vegna ógurlegs eldgoss. Svipaður boðskapur er á ferðinni hér, allir eru jafnir, hvaðan sem þeir koma og hvernig sem þeir líta út. Myrkrið mikla hjálpar aftur til við að kenna þeim þá lexíu, að taka tillit til náungans og hjálpa þeim sem eru verr staddir en þau sjálf. Barnabækur með boðskap vilja oft verða leiðinlegar og þurrar og predika yfir lesandanum en Iðunni tekst að komast hjá því og bækurnar eru skemmtileg ævintýri með svolítilli visku falinni á milli línanna.
Hið sama má segja um ævintýrabækurnar Gegnum þyrnigerðið (1991) og Fjársjóðurinn í Útsölum (1992) en sögusvið bókanna er í báðum tilvikum annar heimur en sá sem við lifum í og þekkjum. Í Gegnum þyrnigerðið er sögusviðið dalur sem skiptist í Austdal og Vestdal en í gegnum dalinn vex hátt þyrnigerði sem gerir íbúunum með öllu ókleift að komast á milli. Þyrnigerðið verður til fyrir illa galdra Óþyrmis, sem reisir múrinn. Austdælingar verða fátækir eftir tilkomu þyrnigerðisins og nánast öll uppskera þeirra fer til Óþyrmis. Vestdælingarnir halda aftur á móti áfram að lifa eins og þeir hafa alltaf gert en minningin um þá vini og ættingja sem þeir eiga í Austdalnum lifir áfram og verður að hetjusögum sem börnum er sagt fyrir svefninn.
Austdælingar gera að lokum uppreisn gegn Óþyrmi og þyrnigerðið fellur, og allt ætti að falla í ljúfa löð milli þeirra sem hafa verið aðskildir. Þrátt fyrir góðan vilja reynist frekar erfitt fyrir fólkið að laga sig aftur að hvoru öðru. Það eru á endanum börnin sem bjarga þjóðinni og koma henni í skilning um að svona er ekki hægt að lifa. Sagan er vísun í örlög Austur- og Vestur-Þýskalands og þá erfiðleika sem þjóðirnar þurftu að glíma við bæði fyrir og eftir fall Berlínarmúrsins, og gera reyndar enn í dag þrátt fyrir að meira en áratugur sé liðinn frá fallinu. Í sögunni býr von um betri og bjartari framtíð en þrátt fyrir það er hún raunsæ og gerir ekki lítið úr þeim erfiðleikum sem upp koma eftir fallið.
Söguþráðurinn í Fjársjóðurinn í Útsölum er svipaður og í Gegnum þyrnigerðið. Sagan fjallar einnig um erfiðleikana við að sameinast um eitt land og lifa þar í sátt og samlyndi þrátt fyrir að allir séu ekki eins. Í þessu tilviki gerist sagan í Útsölum, en þar búa saman Brekar og Marar, tveir þjóðflokkar sem eru afar ólíkir bæði í útliti og siðum. Sáttin og samlyndið í samfélaginu ríkir þó aðeins á yfirborðinu og þegar leiðtoginn deyr koma upp miklar og að lokum illvígar deilur um úr hvorum hópnum næsti leiðtogi skuli koma. Eins og í Gegnum þyrnigerðið eru það börnin sem eru von landsins, en hér eru aðalpersónurnar Brekinn Huldar og Marinn Björt. Þau búa við sömu götu og hafa verið bestu vinir frá því að þau voru lítil. Sjávarandi felur þeim það hlutverk að sameina þjóðina og finna fjársjóð sem muni bjarga málunum, en þeim virðist hlutverkið vera of stórt og of erfitt og átta sig ekki á því að það er vinátta þeirra sem er fjársjóðurinn. Með því að vera vinir þrátt fyrir erjur foreldra sinna og þrátt fyrir bönn þeirra, sýna þau að það er hægt að vera vinir þrátt fyrir að vera ólík. Boðskapur sögunnar er afar göfugur en aldrei vottar fyrir væmni og bókin er spennandi fram á síðustu síðu.
Börn sem bjargvættir eru algengt minni í bókum Iðunnar og þá ekki aðeins í þeim bókum sem hafa ævintýrablæ heldur einnig í raunsæislegri, eða hversdagslegri sögum hennar. Í Út í víða veröld (1997) er heimurinn fullur af tröllum og öðrum óvættum og þar verður lítill hópur barna, ásamt bæjarstjóra, sem er að mestu leyti gagnslaus, að bjarga bænum sínum frá hungursneyð. Hið sama er uppi á teningnum í fyrstu bók Iðunnar, Knáir krakkar (1982), sem gerist í öllu hversdagslegri nútímaheimi. Þar verða þrír krakkar að bjarga fuglseggjum af ýmsum toga úr klóm eggjaþjófa og varna því að þeir steli því sem börnunum finnst vera það verðmætasta sem landið á.
Olla og Pési (1987) er öðrum þræði sagan af vinunum Ollu, sem býr hjá þrem góðhjörtuðum feðgum á sveitbæ sem er í miðri borginni, og Pésa, strák sem er ættleiddur frá Afríku og elst upp hjá foreldrum sínum sem eru vel stæð, mjög hreinlát og afar nýtískuleg í hugsun. Þau eru bestu vinir og lenda í ótal ævintýrum saman, takast á við hrekkjusvín í skólanum og bófa í Viðey, þeim er rænt og haldið föngnum en bjargað aftur, og tekst á endanum að koma „pabba“ Ollu saman við bekkjarkennarann. Sagan er mjög spennandi, og heldur lesandanum algerlega við efnið, en er jafnvel svolítið hræðileg þegar börnunum er rænt.
Sagan er þó einnig sagan af því hvernig hið gamla og hið nýja mætast, sveitin og borgin, óhreina sveitastelpan Olla og gamaldags bændurnir sem ala hana upp, og hreini og velklæddi borgardrengurinn Pési og foreldrar hans. Viss sveitarómantík kemur fram í lýsingum á heimili Ollu, allir eru velkomnir þangað, maturinn er gamaldags og góður og heimilið hlýlegt þrátt fyrir að það sé ekki hreint eins og heimili Pésa. Uppeldið sem Pési fær og heimili hans er nánast dauðhreinsað í samanburði við Ollu og má sjá vissa gagnrýni á nútíma hugsunarhætti þar sem fólkið sjálft vill oft gleymast.
Unglingabækur Iðunnar eru frekar ólíkar barnabókunum. Tónninn í þeim er alvarlegri og þyngri og málefnin orðin fullorðinslegri. Boðskapurinn er ekki eins áberandi og hann er í barnabókunum, ef hann er þá yfirleitt til staðar. Frekar er fjallað um mismunandi unglinga og vandamál þeirra og lítið um bófaeltingaleiki og hetjuskap eins og í barnabókunum. Er allt að verða vitlaust (1993) er einmitt frekar alvarleg saga af Flóka, sem er föðurlaus og á drykkfellda móður og gengur þar að auki frekar illa í skóla. Áður en hann fer, ásamt tveimur öðrum krökkum, að vinna verkefni í skólanum með nýju stelpunni Olgu eru fáir sem nenna að tala mikið við hann. Olga kemur einnig frá heimili sem hún vill síður tala um en pabbi hennar er samkynhneigður og býr með öðrum manni og þó að Olga sé fyllilega sátt við það grunar hana að öðrum finnist það skrítið. Hópavinnan í skólanum sameinar krakkana, Flóki og Olga eru bæði tekin inn í hópinn þrátt fyrir að vera öðruvísi en flestir hinna, og samtímis komast hinir að því að allir eru ekki eins og ekki er ástæða til að dæma neinn fyrir að vera örðuvísi.
Víst er ég fullorðin (1988) gerist á eftirstríðsárunum og sögusviðið er, eins og í mörgum af bókum Iðunnar, smábær úti á landi. Unglingsstúlkunni Soffíu er lýst af mikilli næmni en bókin segir frá tíma í lífi hennar þar sem barnæskan og fullorðinsárin takast á. Soffía er fermd í byrjun bókar og telur sig þar með hafa stigið inn í heim fullorðinna. En ferðin yfir í fullorðinsheiminn er ekki eins sjálfsögð og auðfarin og hún heldur. Ýmist er litið á hana sem barn eða fullorðna, allt eftir því hvað hentar þeim fullorðnu hverju sinni. Þrátt fyrir að vera frásögn frá tíma sem er unglingum í dag framandi er sagan mjög hrífandi, lesandinn fær mikla samúð með Soffíu og á auðvelt með að lifa sig inn í aðstæður hennar.
Þokugaldur fjallar einnig um það að vera á mörkum þess að vera barn og fullorðinn en sagan segir frá unglingsstúlkunni Valnýju sem flytur til Íslands með foreldrum sínum eftir langa dvöl í Svíþjóð. Valný er reið yfir því að hafa þurft að flytja og það er ekki fyrr enn hún kynnist Friðrik, sem bjargar henni úr ógöngum, sem hún fer að kynnast krökkunum í bænum og eignast vini.
Tónlistin er Valnýju mjög mikilvæg og hefur dulrænan mátt í lífi hennar þar sem hún opnar fyrir eins konar glugga inn í fortíðina. Kvöld eitt sér Valný prestsdóttur, sem bjó í sama húsi og hún sjálf hundruðum ára áður, speglast í vatni og tekur að sér það hlutverk að komast að öllu sem hægt er um stúlkuna. Örlög þeirra tvinnast saman og persónurnar eru eins og spegilmynd hvorrar annarrar. Báðar eru fiðluleikarar og báðar þurfa þær að velja á milli ástarinnar og tónlistarinnar, að taka ábyrgð á sjálfum sér og ákvörðunum sínum og báðar há mikla innri baráttu um hvorn kostinn eigi að velja.
Haustgríma er eina skáldsagan sem Iðunn hefur skrifað fyrir fullorðna en hún er söguleg skáldsaga og gerist á víkingatímum. Sagan byggir á stuttu broti úr Droplaugarsona sögu. Hún fjallar um Arneiði, unga stúlku sem er ásamt móður sinni tekin sem þræll af víkingum og flutt til Noregs í ánauð. Í upphafi berst hún við þá niðurlægingu sem það felur í sér fyrir jarlsdóttur að vera gerð að þræl en þegar líður á sér hún að hennar kjör eru ekki svo slæm. Eigandi hennar er gamall maður, húsbóndinn á bænum og hefur engan áhuga á að nota hana til annars en barnapössunar og heimilisverka.
Sagan er á köflum frekar hrottaleg og ófagrar lýsingarnar á framferði víkinga og meðhöndlun þeirra á þrælum. Frásögnin er algerlega laus við rómantík, víkingarnir eru ekki hetjur, heldur hrottalegir ræningjar, morðingjar og nauðgarar en umbreytast þegar heim er komið í venjulega heimilisfeður. Þrátt fyrir þetta er það innra líf Arneiðar sem er mikilvægara i sögunni. Hún á erfitt með að sætta sig við hlut sinn og vera undirgefin eiganda sínum og líkar illa að vera óvarin og réttarlaus. Hún er ólík hinum þrælunum að því leyti að hún heldur sínum persónuleika og vilja. Tilgangur lífs hennar verður ekki eins og annarra að koma í kring hefnd, heldur að lifa af og halda reisn sinni.
Bæði barna- og unglingabækur Iðunnar eru yfirleitt spennandi og framvinda sögunnar yfirleitt passlega hröð. Lesandanum leiðist ekki lesturinn og vel er gengið frá öllum lausum þráðum. Persónurnar eru oftast frekar svipaðar milli bóka, yfirleitt eru aðalpersónurnar nokkrir krakkar, tveir eða þrír og vinir þeirra, og eru þær vel unnar og sannfærandi. Sögumaðurinn er í flestum barnabókunum aðeins eldri og vitrari en aðalpersónurnar en þó stendur hann þétt upp við þær og gerir aldrei lítið úr þeim eða hlær að þeim. Hann leggur ekki dóm á hegðun þeirra heldur viðurkennir að allir eru breyskir og geta ekki alltaf breytt rétt þrátt fyrir góðan vilja. Unglingabækurnar eru ólíkar barnabókunum að því leyti að þær fjalla aðallega um eina aðalpersónu og tilfinningar hennar. Sögumaðurinn er þétt upp við persónurnar í unglingabókunum og er jafningi þeirra og jafnaldri. Haustgríma er svo enn alvarlegri en unglingabækurnar, þar er ekkert dregið undan og hlutunum lýst umbúðarlaust.
Skáldskapur Iðunnar er eins og sjá má fjölbreyttur og einskorðast hvorki við viss málefni né vissa aldurshópa. Þó að fullorðins og unglingabækurnar höfði kannski ekki til barna, eru barnabækurnar alveg eins fyrir fullorðna og hinn fullorðni lesandi skilur ýmislegt sem barnið áttar sig ekki á. Vandamálin og atburðirnir sem teknir eru fyrir í hverri bók fyrir sig eru þó almennt slík að allir geta skilið þau, allir hafa einhverntímann þekkt hrekkjusvín, lent upp á kant við vini sína eða átt foreldra sem átta sig ekki á þeim.
© María Bjarkadóttir, 2003
Greinar
Almenn umfjöllun
Guðni Kolbeinsson: „Háskalegt að líta á börn eins og einhverja hálfvita.“
Viðtal. Börn og menning. 19. árg., 1. tbl 2004, s. 4-5
Páll Skúlason: „Að skrifa fyrir börn og fullorðna: rætt við Iðunni Steinsdóttur“ (viðtal)
Skjöldur 2008, 17. árg., 3. tbl. bls. 9-11.
Um einstök verk
Gegnum þyrnigerðið
Fanney Finnsdóttir: „Gegnum þyrnigerðið“
Vera, 11. árg., 1. tbl. 1992, s. 32
Haustgríma
Helgi Hallgrímsson. „Austfirsk saga um mikil örlög.“
Glettingur 12. árg., 2. tbl. 2002, s. 49-50
Kynjaverur í Kverkfjöllum
Helgi Hallgrímsson. „Kynjaverur í Kverkfjöllum.“
Glettingur, 14. árg., 2. tbl. 2004, s. 49
19. júní
Hlín Agnarsdóttir: „Kemur Nóra heim aftur?“
19. júní, 37. árg. 1987, s. 93-94
Þokugaldur
Kristín Birgisdóttir og Kristín Viðarsdóttir: „På tur. Islandske barne- og ungdomsböker 1996“
Nordisk blad, tidskrift för de nordiska IBBY-sektionerna, 5. árg. 1997, s. 18-27
Verðlaun
2008 – Draugasögusamkeppni Mýrarinnar og Forlagsins í tilefni hátíðarinnar Draugar úti í mýri, 3. verðlaun: „Allra sálna messa“
2007 – Heiðursfélagi Rithöfundasambands Íslands
2000 – Heiðurslaun Bókasafnssjóðs höfunda
1997 – Viðurkenning Hagþenkis: Námsefni í kristnum fræðum (ásamt Sigurði Pálssyni)
1994 – Viðurkenning Íslandsdeildar IBBY samtakanna: Er allt að verða vitlaust?
1991 – Heiðurslisti IBBY samtakanna: Gegnum þyrnigerðið
1991 – Íslensku barnabókaverðlaunin: Gegnum þyrnigerðið
1989 – Leikritasamkeppni Leikfélags Reykjavíkur, 3. verðlaun: Randaflugur (ásamt Kristínu Steinsdóttur)
1989 – Leikritasamkeppni Leikfélags Reykjavíkur, 2. verðlaun: Mánablóm (ásamt Kristínu Steinsdóttur)
1988 – Barnabókaverðlaun Fræðsluráðs Reykjavíkur: Olli og Pési
1986 – Smásagnasamkeppni Listahátíðar: „Aspadista og erfðagóss“ var valin til birtingar í bókinni Smásögur Listahátíðar
1986 – Leikritasamkeppni Ríkisútvarpsins, 1. verðlaun: 19. júní (ásamt Kristínu Steinsdóttur)
1984 – Samkeppni Námsgagnastofnunar um léttlestrarefni: Bras og þras á Bunulæk
Snuðra og tuðra í sólarlöndum
Lesa meiraSnuðra og tuðra taka til
Lesa meiraSnuðra og Tuða eiga afmæli
Lesa meiraSnuðra og Tuðra í sveitaferð
Lesa meiraHrólfs saga: fönnin hylur sporin
Lesa meiraLeitin að geislasteininum
Lesa meiraAllra sálna messa
Lesa meiraÆvar á grænni grein
Lesa meiraMánudagur - bara einu sinni í viku
Lesa meira
Fyrsta bókin um Sævar
Lesa meiraÍkorninn í skóginum
Lesa meiraÞað er mús í húsinu
Lesa meira