Æviágrip
Kjartan Ragnarsson er fæddur 18. september 1945 í Reykjavík. Hann lauk prófi frá Leiklistarskóla Leikfélags Reykjavíkur árið 1966 og var síðan í framhaldsnámi í leiklist í Póllandi 1969 til 1970. Kjartan var leikari og leikstjóri hjá Leikfélagi Reykjavíkur frá 1966 um langt árabil. Hann hefur einnig leikstýrt mikið hjá Þjóðleikhúsinu og Nemendaleikhúsinu. Kjartan og Sigríður Margrét Guðmundsdóttir áttu hugmyndina að uppsetningu Landnámssetursins í Borgarnesi og opnaði það undir þeirra stjórn vorið 2006.
Kjartan fór fljótlega á ferli sínum sem leikari að skrifa leikrit og hefur hann leikstýrt flestum verkum sínum sjálfur. Meðal leikrita eftir Kjartan má nefna Saumastofuna, Blessað barnalán, Týndu teskeiðina og Nönnu systur sem hann samdi í samvinnu við Einar Kárason. Kjartan samdi einnig leikritin Peysufatadaginn og Dampskipið Ísland fyrir Nemendaleikhúsið. Kjartan hefur gert fjölmargar leikgerðir eftir bókum, s.s. Ofvitann eftir Þórberg Þórðarson, Ljós heimsins og Höll Sumarlandsins eftir Halldór Laxness, Djöflaeyjuna eftir Einar Kárason og Evu Lunu eftir chileönsku skáldkonuna Isabel Allende. Í samvinnu við Sigríði Margréti Guðmundsdóttir gerði Kjartan einnig leikgerðirnar að Grandavegi 7 eftir Vigdísi Grímsdóttur og Sjálfstæðu fólki eftir Halldór Laxness en sú leikgerð var sýnd í tveimur hlutum undir heitunum Bjartur og Ásta Sóllilja.
Kjartan hefur unnið mikið á Norðurlöndunum og leikstýrði m.a. Kirsuberjagarðinum, Stræti, Mávinum og Þremur systrum hjá nemendaleikhúsi Leiklistarskólans í Malmö, Platonov hjá Borgaleikhúsinu í Malmö og Grandavegi 7 við Borgarleikhúsið í Gautaborg. Ennfremur leikstýrði hann leikritinu Ég er meistarinn eftir Hrafnhildi Hagalín Guðmundsdóttur í Gdansk í Póllandi.
Frá höfundi
Pistill frá Kjartani Ragnarssyni
Það sem ég skrifa hefur allt verið fyrir leikhús. Leikhúsið er minn miðill og vinna að handritum hefur alltaf verið einskonar undirbúningur fyrir að færa síðan sýningu á svið. Jafnvel þegar aðrir hafa leikstýrt handritum sem ég hef skrifað, þá hefur afstaða mín til handritsins, meðan skrifin fóru fram, verið sú að ég muni síðan eiga eftir að leikstýra handritinu. Ég ímynda mér að ég geti ekki skrifað texta fyrir sýningu án þess að vera að „leikstýra“ framvindunni um leið í huga mér. Ég er fyrst og síðast leikstjóri og vinna í handriti er ófrávíkjanlegur þáttur í undirbúningi leikstjórans.
Mér finnst að leikhúsið hafi verið að draga þann lærdóm af vinnu sinni við hliðina á kvikmyndunum að handritsvinna og leikstjórn séu ein samhangandi heild. Hvort sem höfundur og leikstjóri eru eini og sami maðurinn eða ekki, þá þarf hugmyndavinna þessara aðila að renna saman í eitt. Skrif fyrir leikhús er aðeins byrjun á löngu ferli sem er ekki lokið fyrr en með frumsýningu.
Af þessu mótast öll afstaða mín til texta og skrifa fyrir leikhús.
Kjartan Ragnarsson, 2001
Um höfund
Vandi þess að vera sæmileg manneskja. Um leikrit Kjartans Ragnarssonar
Kjartan Ragnarsson kvaddi sér fyrst hljóðs sem leikskáld á kvennaárinu 1975 með leikriti sínu Saumastofunni sem samið var sérstaklega í tilefni ársins. Í kjölfarið hafa fylgt ellefu sviðsverk, eitt sjónvarpsleikrit, eitt útvarpsleikrit auk níu leikgerða á skáldsögum höfunda á borð við Halldór Laxness, Þórberg Þórðarson og Vigdísi Grímsdóttur. Fyrstu leikrit hans voru samin í gaman- eða farsastíl, en þrátt fyrir gamansemina mátti þó greina vissa gagnrýni á ríkjandi gildismat samfélagsins. Með fjórða leikriti sínu, Snjó (1980), skrifaði Kjartan í fyrsta sinn alvarlegt verk þar sem ekki var stuðst við kímnina til að létta efnið.
Verk Kjartans bera þess glöggt vitni að vera skrifuð af leikhúsmanni sem þekkir miðil sinn vel. Þannig er hugmyndaflug hans þegar kemur að formi, efnistökum og sviðslausnum óþrjótandi. Oftast nær hefur hann sjálfur leikstýrt frumuppfærslum leikrita sinna og hefur hann gert ýmsar tilraunir í uppsetningum sínum og leitað leiða til að láta umgjörð sýninganna endurspegla inntak verkanna. Þetta var t.d. afar skýrt þegar hann leikstýrði Skilnaði (1982), því þar lét hann leika verkið á salargólfi Iðnó með áhorfendur á fjóra vegi kringum sviðið svo það líkti eftir hnefaleikakeppni enda fjallar verkið um átök kynjanna.
Kjartan er húmanisti og gæddur ríkum mannskilningi sem endurspeglast í verkum hans. Hann virðist næmur fyrir hinu skoplega í fari mannsins án þess þó að vera blindur á galla hennar. Hann er óvæginn við að gagnrýna samfélag sitt og gildismat nútímafólks. Í mörgum verka sinna er hann að kljást við grunnspurningar á borð við hverjar skyldur okkar eru við aðra og við okkur sjálf. Hann tekur ítrekað á vanda kvenna við að hljóta viðurkenningu, jafnrétti til náms og raunverulegt frelsi innan samfélagsins til að raungera manneðli sitt. Honum virðist einfaldlega verið hugleikið hversu erfitt það sé að vera sæmileg manneskja. Samtímis hefur hann þó óbilandi trú á mannskepnunni á öld lífsleiða og hótfyndni.
Saumastofan er leikrit með söngvum sem lýsir lífi sex kvenna og fleira starfsfólks á saumastofunni Saumum. Slegið er upp afmælisveislu í vinnutímanum í tilefni af sjötugsafmæli Siggu og í veislunni losnar um málbeinið á konunum sem fara að segja hver annarri frá lífshlaupi sínu í tali og tónum. Meðan starfsfólk saumastofunnar segir eða syngur sögu sína bregða hinar persónur leikritsins sér í gerfi til að leika söguna sem verið er að segja hverju sinni. Inn í gamanið blandast svo umræðan um hlutverk kvenna í samfélaginu svo og spurningin um vald eða valdaleysi kvenna. Siggi forstjóri vill t.d. meina að konur hafi lægri laun en karlar einfaldlega af því að konur standi ekki saman. Ef þær raunverulega vildu gætu þær auðveldlega bætt ástandið. Hann telur auk þess að ástæða þess að fáar konur séu í háum embættum stafi af því að konur vilji ekki vera í ábyrgðarstöðum því annars væru þær búnar að gera eitthvað í sínum málum.
Næstu tvö leikritin sem fylgdu í kjölfarið voru farsinn Blessað barnalán (1977) og grályndi gamanleikurinn Týnda teskeiðin (1977). Í Blessuðu barnaláni fylgjumst við með því hvernig Inga, elsta dóttir Þorgerðar, grípur til örþrifaráða til að fá systkini sín fjögur til að koma og heimsækja aldraða móður þeirra í hinsta sinn. Henni gremst svo að þau skuli ekki vilja gefa sér tíma til að koma í heimsókn að hún, eftir að hafa sent móður sína í orlofsferð, sendir þeim öllum skeyti með orðsendingu um að móðir þeirra sé dáin. Systkinin koma strax til að vera viðstödd jarðarförina og sölu hússins. Þorgerður, sem veit ekkert um tiltæki elstu dóttur sinnar, kemur hins vegar heim fyrr en til var ætlast þar sem henni leiddist svo í ferðinni og ákvað því að strjúka. Inga neyðist til að segja henni hvernig er í pottinn búið en þegar hún vill segja systkinum sínum allt af létta bannar móðirin henni það þar sem hana langi til að dulbúast og heyra hvað börnin hafa um hana að segja. Áður en yfir lýkur er búið að blanda sóknarpresti og lækni staðarins inn í atburðarásina svo og sjálfum biskupi Íslands. Eins og í sönnum farsa veltur allt á misskilningi og ærslagangi sem að lokum leysist á farsælan hátt. En þó allt sé sett fram í gríni má þó greina vissa ádeilu á framferði barnanna sem ekki gefa sér tíma til að sinna aldraðri móður sinni í lifanda lífi en eru svo búin að ráðstafa sínum hluta arfsins löngu fyrir sjálfa jarðarförina.
Gamanið kárnar hins vegar enn til muna í næsta leikriti Kjartans, Týndu teskeiðinni, þar sem deilt er á tvöfalda siðgæði reykvískra borgara af öllum stéttum. Í húsi nokkru búa tvenn hjón, á efri hæðinni hin nýríku Júlla og Aggi, sem lifa í skjóli auðmannsins Boga og konu hans, Ástu, og í kjallaranum alþýðuhjónin Begga og Baldi. Agga til mikillar gremju takast ástir milli dótturinnar á hæðinni, Jóu, og sonarins í kjallaranum, Rúnars, sem þykist vera eldharður kommúnisti. Drykkjusvolinn Baldi ryðst inn í samkvæmi fólksins á efri hæðinni og tekst þeim ekki að koma honum út með góðu. Ekki vill betur til en að þau drepa hann fyrir slysni og ákveða svo samvisku sinnar vegna að leyna manndrápinu. Gengur atburðarás leiksins fyrst og fremst út á hvernig eigi að koma líkinu undan svo grunur falli ekki á hin virðulegu hjón. Þau ákveða að fela líkið í frystukistu Júllu og Agga en neyðast fyrst til að verka líkið og hlýst af því afar grótesk sena þar sem fína fólkið er útatað í blóði upp fyrir axlir kastandi milli sín hauskúpu fórnarlambsins. Á sama tíma og virðulegu hjónin leyna Beggu sannleikann um dauða manns hennar gera þau sér mikla rellu út af silfurteskeið sem hún stal frá þeim. Með hótunum og mútum tekst þeim svo að gera ekkju og son Balda samsek og áður en yfir lýkur eru allar persónur leiksins orðnar annað hvort að þjófum eða morðingjum auk þess sem öll mannleg gildi virðast föl ef svo ber undir. En glæpir fólksins eru ekki án afleiðinga og brátt bætist við annað morð og mannát. Leikurinn er afar vel saminn gamanleikur, sem verður jafnvel farsakenndur á köflum. Grínið er heldur betur grátt og sannkölluð gróteska að mörgu leyti.
Í kjölfarið komu fjögur leikrit þar sem kvaddi við mun alverlegri tón hjá Kjartani. Í Snjó fjallar hann á afar opinskáan og einlægan hátt um dauðann og allt sem lætur manneskjuna finna til vanmáttar síns í lífinu. Tekið er á þörf nútímafólks til að afneita veikleika sínum og takmörkunum. Við fylgjumst með dauðastríði héraðslæknisins Einars sem er veill fyrir hjarta. Honum til aðstoðar eru komin hjónin Haraldur og Lára sem bæði eru fyrrverandi nemendur hans. Lára og Einar taka upp ástarsamband og Haraldur tekur upp ástarsamband við Dísu, húshjálp Einars, svo í raun eru tveir ástarþrihyrningar í gangi. Lára á raunar ýmislegt óuppgert við Einar frá því að hún var nemandi hans því hann lagði hana beinlínis í einelti í Háskólanum og varð þess óbeint valdandi að hún hrökklaðist frá námi. Að mati Láru lét hann hana gjalda þess að hún væri kona þar sem hann taldi hana ekki eiga heima í jafn karllegu námi og læknisfræðin er. Spurningin um stöðu konnunar innan samfélagsins, rétt hennar og tækifæri til að mennta sig og skylda hennar annars vegar við sjálfa sig og hins vegar við aðra er þema sem við rekumst aftur á í leikritnu Jói (1981), sem án efa er eitt besta leikrit Kjartans. Á yfirborðinu fjallar það um vanda samfélagsins við að bjóða þroskaheftum og aðstandendum þeirra ákjósanlegasta aðstoð, enda var verkið tileinkað ári fatlaðra, en tekist er á við mun fleiri vandamál í verkinu.
Lóa og Dóri eru ungt par á framabraut, hún sem sálfræðingur, hann sem listmálari. Hún er nýbúin að hljóta þriggja ára styrk til framhaldsnáms í Þýskalandi og hann er að undirbúa sína fyrstu sýningu. Þegar móðir Lóu fellur skyndilega frá standa þau allt í einu frammi fyrir því að passa Jóa, þroskaheftan bróður Lóu. Jói er uppkominn maður sem alla tíð hefur búið í skjóli móður sinnar og vill alls ekki fara á hæli. Hann er barnslegur í öllu framferði en á sama tíma fullburða karlmaður líkamlega með sömu kenndir og þrár og aðrir. Hann er því ekki bara saklaust barn, eins og sést bersýnilega þegar hann reynir að nauðga Maggý, konu Bjarna. Faðir Lóu og bróðirinn Bjarni fara þess á leit við Lóu að hún gæti bróður síns og fórni þar sem öllum skyldum hennar við sjálfa sig. Eftir að hafa reynt það um tíma ákveða Lóa og Dóri um síðir að gera samkomulag við Jóa um að þau fari út til Þýskalands og hann verði á hælinu í þrjú ár, en að þeim tíma liðnum muni þau taka hann til sín aftur. Í samtölum sínum við dúkkuna Súperman sjáum við hvernig Jói sættir sig loks við að fara tímabundið inn á hælið. En þó Lóa og Dóri reyni að finna skástu lausnina á vandanum þá virðist Lóu ljóst að trúnaðurinn milli þeirra hefur verið brotinn. Kjartan virðist á því að okkur beri raunverulega að gæta bróður okkar sama hvaða fórnir við þurfum að færa.
Í framhaldi af Jóa kom tilraunaverkið Skilnaður þar sem hjónabandið var aftur til skoðunar. Fylgst er með konu sem einn góðan veðurdag fær þær fréttir frá eiginmanni sínum að hann sé að fara frá henni til að taka saman við viðhaldið sitt. Hún þarf því að læra að fóta sig í tilverunni á nýjan leik. Í gegnum leikritið tekst henni að endurvinna sjálfstraust sitt með þeim afleiðingum að þegar eiginmaðurinn um síðir vill snúa aftur heim hefur hún ekki áhuga á að taka aftur við honum. Í sviðslýsingu er gert ráð fyrir að verkið sé leikið á hringsviði með áhorfendur á fjóra vegu þannig að umgjörð verksins undirstriki innihaldið á áþreifanlegan hátt.
Í leikritum sínum Peysufatadegi (1981), Landi mins föður (1985), Dampskipinu Íslandi (1991) og Gleðispilinu (1991) skrifar Kjartan um fólk og jafnvel atburði á ákveðnum sögulegum tímum. Í Peysufatadegi dregur Kjartan upp mynd af reykjavíkursamfélaginu árið 1937 þegar nasisminn tröllreið öllu og mikil pólitísk átök áttu sér stað. Í Landi míns föður er á afar gamansaman en um leið kaldhæðinn hátt fjallað um það hvernig Íslendingar högnuðust á stríðinu og öðluðust loks langþráð sjálfstæði. Dampskipið Ísland gerist um borð á skipi sem er á leið til Íslands árið 1919 og er fast í hafís undan strönd Íslands í þrjá daga. Persónurnar um borð í skipinu mynda eins konar þverskurð af samfélaginu. Gleðispilið fjallar um frumkvöðul íslenskrar leikritunar og leiklistar, Sigurð Pétursson, höfund fyrstu leikritanna Hrólfs og Narfa. Sigurður var opinn fyrir lýðræðisstefnum og straumum sem bárust frá Frakklandi og lá ekki á skoðunum sínum í baráttunni fyrir sannleika, jafnrétti og bræðralag við afar dræmar undirtektir í konungsveldinu. Hann áleit leikhúsið sinn vettvang til að endurreisa sjálfsvirðingu og tungu íslensku þjóðarinnar.
Í nýjasta verki sínu, Nönnu systur (1996) sem Kjartan skrifaði í samvinnu við Einar Kárason, er fjallað á farsakenndan hátt um samskipti fólks í leikfélagi í sjávarplássi á landsbyggðinni. Leikurinn gerist allur að kvöldi til í skemmu nokkurri sem verið að er breyta í leikhús. Þangað koma óvænt tvær konur og verða þess valdandi að hlutir koma upp á yfirborðið sem betur hefðu mátt kyrrt liggja. Við kynnumst séra Jens Skúla sem heldur miskunnarlaust framhjá konu sinni Gerði, sem er útgerðarforstjóri staðarins og fyrirlitin af hinum vinnandi stéttum bæjarins. Í verkinu kristallast átök milli efnastéttar og verkalýðsins, auk þess sem konur staðarins reyna um stundarsakir að gera uppreisn gegn hinu karllega samfélagi. Um síðir leysast þó öll átok og allt fellur í ljúfa löð.
Kjartan hefur sýnt það og sannað að hann er afar fjölhæft leikskáld. Hann hefur skrifað alvarleg verk jafnt sem farsa og farist það allt vel úr hendi. Flest verka Kjartans eru raunsæisleg með veigamiklum undantekningum þó. Þrátt fyrir að Kjartan hafi notast við stílfærslu í nokkrum verka sinna hefur hann aldrei sýnt því áhuga að koma sér upp sínum sérstaka stíl. Hann hefur fyrst og fremst látið efni verkanna ráða stílnum hverju sinni, enda er stíll bara ákveðin skipulagning á efninu sem hann vill koma á framfæri. Þó Kjartan hafi hin síðari ár í æ ríkari mæli snúið sér að því að leikgera frægar skáldsögur við miklar vinsældir er vonandi að hann gefi sér tíma til að semja fleiri leikrit.
© Silja Björk Huldudóttir, 2001
Greinar
Almenn umfjöllun
Snæbjörn Arngrímsson: „Rætt við Kjartan Ragnarsson“
Bjartur og frú Emilía, nr. 3, 2. tbl 1991, s. 67-72.
Um einstök verk
Eva Luna
Hólmfríður Garðarsdóttir og Hrund Ólafsdóttir: „Eva Luna“ [leikdómur]
Vera, 13. árg., 1 tbl. 1994, s. 30-32.
Saumastofan
Elfa Björk Gunnarsdóttir: „Tvö leikrit“ [einnig um leikritið Fimm konur]
19. júní, 26. árg. 1976, s. 16-21.
Elísabet Þorgeirsdóttir, Auður Magndís Leiknisdóttir, Þorgerður Þorvaldsdóttir: „Saumastofan – fyrr og nú: þrjár ritnefndarkonur fóru í leikhús“
Vera, 24. árg, 1. tbl. 2005, s. 12-13.
Skilnaður
Kristín Ástgeirsdóttir: „Ókönnuð undirdjúp“
Vera, 2. árg., 1982, s. 36.
Silja Aðalsteinsdóttir: „Alltaf ein, það er best“
Tímarit Máls og menningar, 43. árg., 4. tbl. 1982, s. 397-401.
Rauða spjaldið
Lesa meiraTvö hús
Lesa meiraSjálfstætt fólk - Ásta Sóllilja
Lesa meiraSjálfstætt fólk - Bjartur
Lesa meiraGrandavegur 7
Lesa meiraNanna systir
Lesa meiraLeikritin Djöflaeyjan og Íslenska mafían
Lesa meiraEva Lúna
Lesa meiraGleðispilið
Lesa meira