Æviágrip
Kristján Kristjánsson er fæddur á Siglufirði 9. febrúar 1960. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1981 og stundaði nám í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands 1982-86. Hann hefur unnið margvísleg störf, m.a. við sjómennsku og kennslu og hann var um tíma skjalavörður Héraðsskjalasafns Akraness. Kristján rekur nú bókaútgáfuna Uppheima á Akranesi.
Fyrsta bók Kristjáns var ljóðabókin Svartlist (1984). Síðan hafa komið út eftir hann fleiri ljóðabækur og skáldsögur auk leikrita sem Skagaleikflokkurinn á Akranesi hefur sett upp. Kristján var bæjarlistamaður Akraness 2002.
Kristján Kristjánsson býr á Akranesi. Hann er kvæntur og á þrjá syni.
Um höfund
Um verk Kristjáns Kristjánssonar
Lífið spannar spöl ... um þessar mundir
Röddin í höfundarverki Kristjáns Kristjánssonar treður marvaðann og berst við að halda hljómi sínum á floti. Mig undrar hversu lítið hefur farið fyrir Kristjáni öll þessi ár sem liðin eru frá fyrstu útgefnu bókinni hans, árið 1984. Fyrst gaf hann út tvær ljóðabækur, og plagsiður okkar Íslendinga er að gefa þeim lítinn gaum. Ljóðabækur eru líka í eðli sínu innhverfari en skáldsögur og annað hvort ratar ljóðið til sinna eða það heldur kyrru fyrir. Látum því Svartlist og Dagskrá kvöldsins liggja á milli hluta en Minningar elds voru gefnar út 1989 og ég man að ég furðaði mig á því strax þá að ekki væri meira látið með bókina sem er seiðandi mjög, og með afhjúpandi endi. Það erfiðasta einmitt við að fjalla um skáldsögur Kristjáns er að í þeim öllum varpar endirinn ljósi á söguþráðinn allan. Maður verður því að hafa sig allan við til að koma ekki upp um eitthvað sem gerir væntanlegum lesendum lesturinn leiðari.
Ef ég ætti að fella palladóm yfir höfundarverkinu myndi ég segja að ljóðin væru ort í döprum skugga eftirstríðsáranna þótt langt sé um liðið frá 6. ágúst 1945 þegar sprengjunni var varpað á Hírósíma og að aðalpersónur skáldsagnanna ættu heldur erfitt uppdráttar og væru umkomulausar í skugga uppvaxtar síns. En það væri auðvitað einföldun enda sendi Kristján frá sér 4 ljóðabækur og 3 skáldsögur á árabilinu 1984-1997.
Eitt má þó með sanni segja um allar bækur Kristjáns Kristjánssonar; þær eru þaulunnar, hver ein og einasta. Þær eru unnar af mikilli vandvirkni sem er auðvitað ótvíræður kostur, lífshlaup skáldsagnapersónanna stenst og allt hnígur í fyrirframákveðna átt, en á sama tíma tapast þá mögulegt spontanítet, þ.e. öll óvænt, sjálfsprottin framvinda. Hér verður ekki bæði sleppt og haldið.
Byrjað á ljóðum
Svartlist kemur út árið1984, árið örlagaríka sem George Orwell skrifaði um árið 1949 (en þar segir: If you want a picture of the future, imagine a boot stamping on a human face--for ever, þ.e.: Viljirðu sjá framtíðina fyrir þér skaltu ímynda þér stígvél í andliti manns – um aldur og ævi). Svartlist virðist reyndar skráð á tvo höfunda, Kristján og svo Aðalstein Svan sem teiknar myndir með ljóðunum. Ljóðin fjalla um ókunnugleika þess sem reynir að fóta sig í óvissum heimi, heimi sem er annar í dag en var í gær, heimi sem búið er að splundra, heimi sem býður helst upp á depurð og fjarlægð, heimi sem leyfir ljóðmælanda ekki að vera með.
Ég veit
hvert ljóðið felluren þekki ekki hafið
ég þekki
eitt andlit speglast
í fljótinuen veit ekki hver það er.
(Ég veit, bls. 10)
Ókunnugleikinn er algjör; tíminn er heldur ekki með honum í liði, e.t.v. runninn niður í stundaglasið, og færir honum ekki liðna tíð á nýjan leik. Liðið er liðið þótt mönnum geti reynst erfitt að sætta sig við það, endirinn standi í manni og hugsjónirnar felli blöðin í lok sumars. Helstu þyngsli Svartlistar felast samt í miðhluta bókarinnar þegar síðari heimsstyrjöldinni eru gerð skil, fáránleika stríðsins, óþörfu mannfalli og þegar skaðlegri bombu er varpað á Pearl Harbor. Það rifjar skáldið upp á 24. afmælisdegi sjálfs sín, eflaust til að varpa enn frekara ljósi á smæð hins einstaka. Hvers er maður megnugur þegar allur heimurinn leikur á reiðiskjálfi, eða öllu heldur: Hve mikils má maður sín gagnvart atburðum sem urðu 14 árum áður en maður fæddist? Samt vill maður axla ábyrgð og skipta máli...
Þá kemur e.t.v. til kasta framtíðarinnar og hver og einn getur spurt sig: Hvernig ætla ég að láta til mín taka? Mun ég geta hindrað næsta stríð, næstu átök, árásir, afhroð?
Í Dagskrá kvöldsins frá 1986 kveður við aðeins annan hljóm. Hann er ágengari, eins og ljóðmælandi ætli ekki að láta hafa sig að fífli öllu lengur – og þó, Sísífús er hættur að velta hnullungnum upp brekkuna til þess eins að sjá hann velta niður brekkuna aftur. Sísífús er sestur fyrir framan sjónvarpið þar sem svo marga aðra er að finna, hlutlausa þátttakendur lífsins sem horfa á það líða hjá. Fólk óttast ekkert eins mikið og tilgangsleysi lífs síns en lætur það svo duga, lætur duga að óttast, og grípur ekki inn í eigið líf með neinum hætti. Svo er því allt í einu lokið og dauðinn tekur við, endanleg lok lífsins, og þá er ekkert að óttast lengur. Í lok Dagskrár kvöldsins er kominn meiri hraði, greinarmerkjum er sleppt, ljóðmælandi er stundum kvenkyns og yrkisefnið er dauðinn. Í Fimm á blaðsíðu 41 er komist næst því að fólk eigi í samskiptum og talað sé tæpitungulaust:
það deyr einhver
næstum því í hverri viku núorðið
sem ég þekki og verður að segjast
einsog það er ég er dauðhrædd við
dauðann hann vitjar mín oft þegar
illa stendur á hann sendir mér
skeyti stundum en það er eitthvað
í mér sem lætur ekki að stjórn og
hniprar sig svona saman ef ég hugsa
um það skiljanlegt þú getir ekki
skilið að mig kenni til ef ég hugsa
um að einhvern tíma mun ég hætta að
finna til en (hvað ertu að fara) en
verður að segjast einsog er ég er
hrædd við dauðann
Dauðinn er stórmál og á eftir að koma oftar við sögu í höfundarverki Kristjáns.
Svo kemur skáldsaga
Í fyrstu köflum Minninga elds veit maður í raun ekki hver talar, um hvern eða hvert förinni er almennt heitið. Reglulega er skipt milli 1. og 3. persónu, og jafnframt sveiflast tíminn stöðugt milli áratuga. Það er mikil kúnst að tefla saman ólíkum sjónarhornum og ólíkum tímaskeiðum þannig að lesandi verði samt ekki til lengdar örvæntingarfullur heldur lesi áfram og glöggvi sig smátt og smátt á ólíkum röddum textans í nútíð og fortíð. Þeirri kúnst býr Kristján yfir.
Í fullkomlega óáhugaverðu lífi sínu er Axel aðalpersóna bókarinnar. Sem unglingur kemur hann norður til Hafnarvíkur á mótunarárum Maríu sem á frænku í plássinu. Hvaða þokkalegur unglingspiltur sem er hefði getað orðið viðfangsefni Maríu sem í óþökk sinni er send til Hafnarvíkur á hverju sumri til að vera hjá Maríu frænku sinni. Og Axel var einfaldlega flekaður af jafnöldru sinni í krummaskuði fjarri nafla alheimsins en málið var aðeins flóknara af því að María frænka átti soninn Orra sem hafði verið leikfélagi Maríu litlu sumurin á undan og Orri var ekki eins og fólk er flest; Orri var „á eftir“ og átti aldrei sjáanlega samleið með jafnöldrum sínum. Hann er líka u.þ.b. helmingi eldri en Axel og María sem finna félagsskap hvort í öðru sem Orri fær enga hlutdeild í. Og Orri er kveikjan að því sem enginn sá fyrir í þessu skammvinna en gneistandi ástarævintýri.
Atburðarás Minninga elds markar ekki nein sérstök tímamót; tveir unglingar rata saman sumarbút en ytri aðstæður, einkum það að Axel flytur aftur suður, stía þeim í sundur. Margur unglingurinn hefur velst í hlöðu stöku sumarkvöld án þess að það hefði sérstakan eftirmála. Í lok þessa ævintýris fer hins vegar Axel aftur suður, stundar sitt nám, útskrifast úr háskóla, fær vinnu og eignast íbúð. Allt þetta gerist í skugga sumarsins sem hann var táldreginn af Maríu, hann nær engum innri friði við sjálfan sig og virðist bara þreyja þorra lífs síns. Pabbi hans hafði verið prestur og sem slíkur gert vissar kröfur til hegðunar einkabarnsins. Hann dó hins vegar um það leyti sem Axel útskrifaðist úr menntaskóla. Mamma hans hafði verið sinnulítil en við það að maðurinn hennar dó fór hún að gera meiri kröfur til Axels, meiri kröfur um viðvist og tilfinningalega aðhlynningu, en áður hafði hún verið ansi afskiptalítil með allt slíkt. Að sumu leyti finnst mér það ekki ganga alveg upp því að presturinn, maður hennar, hafði ekki verið svo afgerandi og þrúgandi að það útskýrði neina grundvallarbreytingu. Þegar Axel er löngu vaxinn úr grasi heldur hann áfram að koma alltaf á sunnudögum til hennar í mat og einu sinni – einu sinni á 15 árum kannski – kemur hann of seint og kemst ekki til að boða forföll og þá mislíkar henni heiftarlega. Mér finnst það ekki ná alveg í gegn.
Ástæðan fyrir því að hann kom þarna of seint í dýrmætar kjúklingabringur móðurinnar var einmitt Orri sem er algjör stjórnborði í lífi Axels síðari árin. Eftir að Axel fór frá Hafnarvík var vinskap þeirra Orra lokið, og vegna Maríu lauk þeim vinskap á mjög eldfiman hátt. Mjög mörgum árum síðar fær Axel slíkar fréttir af Orra að samviska hans vaknar af dvala og honum rennur blóðið til skyldunnar; hann sinnir sjúklingnum Orra af natni og meiri óeigingirni en nokkur í kringum þá fær skilið. Orri er mjög illa farinn, rænulítill, minnislaus sjúkrahússmatur sem fær við annað áfall minnið á nýjan leik og þá breytist hið tíðindalitla líf Axels svo um munar.
Ytri atburðarás bendir eindregið til að sagan snúist um Axel og Orra en hið innra skiptir bara máli hvernig Axel reiðir af. Hvernig uppeldi fékk hann, hvað mótaði hann sem ungling, hvernig vann hann úr mótunarárum sínum og hvernig reiðir honum af, ágætlega gefnum manninum með hina þokkalegustu menntun? Hvað kúgar hann, fortíðin, samviskan, mamma blessunin? María, frænka Orra, rekst á Axel í eitt skipti löngu eftir að sumarævintýri þeirra lauk og þá fær lesandinn augnablikshraðferð inn í hugskot Axels. Annars er hann sýndur utan frá og Orri innan frá, innan frá eftir föngum því að hið innra býr lengst af ekkert annað en óminnishegrinn sem fjarlægur atburður kom þar fyrir.
Eins og komið hefur fram skiptist sjónarhorn Minninga elds milli Axels í 3. persónu og Orra í 1. persónu, og jafnframt er rápað milli sumarsins forðum í Hafnarvík og langtum tímafrekari samtíma. Áður var aðallega einn punktur, einn atburður sem breytti öllu, en í nútímanum er ástandið viðvarandi lína, Axel í vinnu sem hann rétt svo heldur út, sjússar sig fyrir svefninn til að sofna til að vakna næsta dag, með mömmu sem heimtar af honum svo og svo mikla viðvist, ótti við að tengjast fólki of náið; status quo til margra ára. Á sama tíma er Orri vistaður úti í horni af því að hann hefur ekkert að gera á bersvæði. Í viðtali frá þessum tíma sagði höfundur að söguna hefði mátt skrifa öðruvísi, línulega í réttri tímaröð, og sú leið hefði hugsanlega getað orðið rétt. Hann valdi hins vegar þessa leið og hún var a.m.k. líka rétt því að um leið og maður er farinn að átta sig á hver talar og hugsar hverju sinni verður spennandi að fylgjast með hægri framvindunni, þroskasögu Axels, afdrifum Orra, afhjúpuninni og hugsanlegum endalokum. Þegar yfir alla söguna er litið er hún býsna döpur, fólk á bágt, lífið leikur það grátt, allir eru fórnarlömb og síður gerendur í eigin lífi – og ég ítreka að mig furðar hversu lítið var látið með hana 1989. Aðalsteinn Svanur Sigfússon hannar líka útlit þessarar bókar og nær enn að fanga innihald textans í merkingarbæra forsíðu.
Aftur yfir í ljóðin
Ekki er allt sem sýnist í speglinum er meginniðurstaða bókarinnar Spegillinn hefur ekkert ímyndunarafl. Þar með er búið að gera lítið úr titlinum en almennt verð ég að segja að titlar ljóðanna bæta heilmiklu við innihald þeirra. Það er fjarri því að vera algilt þegar ljóð eiga í hlut og þess vegna finnst mér enn frekar ástæða til að nefna það hér þessum ljóðum til hróss.
Í „Undir 4 augu“ (34) er hugmyndinni um brigðulleika spegilsins gefið undir fótinn, minnir á Dorian Gray sem breyttist sjálfur ekki neitt, bara ljósmynd af honum. Hvað mætir manni í speglinum – mynd af manni eins og maður er, eins og maður vildi vera eða eins og maður á eftir að verða? Sýnir spegillinn fram á hrörnun sem felur í sér þann harmleik að lífinu muni á endanum ljúka eða getum við séð eitthvað jákvæðara, uppbyggilegra, út úr spegilmyndinni? „Við Suðurgötu“ (13) felur í sér minnisvarða um lokið ástand, og er spegilmynd lífsins sem er liðið. Í legsteinunum speglar maður líf hinna látnu, eða hvernig væri lífið að því loknu ef enginn væri minnisvarðinn um það?
Í Speglinum eru skil milli ímyndunar og veruleika óljós, mörk milli lífs og dauða, vöku og svefns, vöku og draums, enda virðist ljóðmælandi ósjaldan skrifa að handan. En við erum jú hér, ekki satt, og þá verður að renna þessum heimum einhvern veginn saman. Einhvern veginn verða þeir að mætast og spegillinn er hér látinn marka skilin. Í „Helgidögum í silfrinu“ (30) á sér stað samtal við spegilinn en, óvei, ólán mikið, spegillinn hefur enga tjáskiptahæfni, hann hefur ekkert ímyndunarafl!
Fleiri skáldsögur
Söguþráður Fjórðu hæðarinnar er fjarska einfaldur, rétt eins og í Minningum elds. Aðalefni bókarinnar eru vangaveltur sögumanns, Heimis Stefánssonar, um uppvöxtinn í þorpinu, samskipti við fóstbróðurinn Jóhann Svavar, afdrif hans og svo eigið líf. Það er seilst til fortíðar og sagan byrjar á þeirri afhjúpun að fjórðu hæðinni á bókasafnshúsinu í þorpinu þar sem hann ólst upp er ekki til að dreifa! Hann á mjög afgerandi minningar um þetta hús sem pabbi hans byggði og hann sjálfur starfaði svo mikið í en þegar á hólminn kemur hefur hann í huga sér byggt heila hæð til viðbótar ofan á húsið. Ef minni hans bregst á þessum vettvangi, hvernig getur hann þá treyst því í öðru tilliti? Hvernig getum við reiknað með því að hann muni óáþreifanlegri og e.t.v. mikilvægari hluti rétt ef hann er svona yfirgengilega sannfærður um að stjórnsýsluhúsið sé fjórar hæðir en ekki þrjár?
Heimir er mikill bókabéus og getur valið sér líf í ljósi áhuga síns á bókum. Fóstbróðir hans, jafngamall honum næstum upp á dag, kemur inn á heimili hans og foreldranna þegar þeir eru báðir fjögurra ára. Fóstbróðirinn er frá fyrsta degi mjög ákveðinn og óánægður með hlutskipti sitt, brýtur og slær, neitar að borða og vill almennt ekki vera til friðs. Hann valdi ekki þessa foreldra, en þau gátu í raun valið og höfðu valið hann. Að fáum dögum liðnum sáu þau samt eftir vali sínu en þegar fram liðu stundir lærðist þeim að þykja vænt um hann. Fóstbræðurnir Heimir og Jóhann Svavar voru alla tíð eins og hvítt og svart en þeim lærðist líka að bera umhyggju hvor fyrir öðrum, það var þrátt fyrir allt einfaldara að friðmælast heilt yfir en fjandskapast alla tíð.
Heimir er aðalpersónan, segir söguna sem hnitast um hann og fortíð hans, samskipti við Jóhann Svavar, Eirík gamla bókavörð, foreldrana og litla bæinn í nágrenni Akureyrar. Á blaðsíðu 144 er samt fyrirvaralaust skyggnst inn í huga Jóhanns Svavars á örlagastundu. Sá atburður setur spor í sálarlíf Heimis og síðar telur hann sig skilja breytni Jóhanns vegna vitneskju sem Heimir bjó ekki yfir á þeirri stundu. Rétt eins og í Minningum elds kemur nefnilega dulítið upp úr dúrnum í lokin sem skýrir hegðun framar í bókinni. Og Heimir varð að kljást við fortíðina, vinna á henni einhvers konar sigur til að geta horfst í augu við framtíðina. Í lok bókar er hann keikur og mikils vísari, sáttur við hnökrótt minni sitt og tilbúinn að loka dyrunum fyrir aftan sig.
Í Ári bréfberans er jafnframt litið um öxl en þar er fortíðin mun nær í tíma en í hinum skáldsögunum. Fortíð Jónasar er svo nálæg að hún rennur saman við nútíð hans, einkum þegar hann endurritar ársgamlar dagbókarfærslur til að glöggva sig á lífi sínu eftir slysið, lífi sínu eftir þá dauðastund sem varð umflúin. Þar sannast samt að gleymt er þá gleypt er. Ef maður færir ekki til bókar hvað maður gerði, og hvernig manni leið á meðan, er maður skömmu síðar búinn að grafa atburðinn og líðanina í óminnisdjúpinu. Mælandi Árs bréfberans telur sig hafa skriflegt alræðisvald yfir lífinu af því að dauðanum tókst ekki að knésetja hann þegar þeir horfðust í augu. Saga bréfberans spannar árið sem kemur fram í titlinum, og hún er skrifleg. Jónas féll marga metra ofan af palli í byggingarvinnu og hefði með réttu ekki átt að lifa fallið af. Hann brenglast þó við það og einhver heilbrigður hluti hans lifir það ekki af. Leið hans til að bregðast við minnisleysinu í kjölfarið er að halda dagbók, svo smásmugulega nákvæma dagbók að minnir á ferðamenn sem upplifa allt í gegnum myndavélarlinsur og gleyma að njóta augnabliksins meðan það varir. Allt bókfærir hann út í hörgul. Samt er það svo að þegar dagbókin skemmist í flutningum og margt verður ólæsilegt sér hann að þeir dagar sem hann skrásetti eru um margt ónákvæmir, og heilu dögunum sleppti hann þrátt fyrir allt. Mínútu fyrir mínútu getur maður náttúrlega ekki haldið til haga þótt hann hefði feginn viljað reyna það.
Aðaláhugamál hans eftir slysið er dauðinn, hann lifir bókstaflega fyrir dauðann, í skugga hans sem og ljóma. Allt miðast við dauðastundina sem leið hjá og hún upphefur Jónas eins og hann upphefur hana. Hann er svolítið klikk og minnir t.d. á söguhetjur Tára paradísarfuglsins eftir Einar Örn Gunnarsson og Myrkravélar eftir Stefán Mána. Allir þessir ungu sögukarlar eru sannfærðir um yfirburði sína og almætti, ekkert fær skákað þeim þegar líf og dauði eru bara strengir í gegnum lófa þeirra. Val þeirra stendur um það hvort þeir nýti sér valið eður ei.
Þegar Jónas fellur úr stillansinum dettur manni í hug að fallið sé hugmyndalegs eðlis, hann missi fótanna á huglægan átt um leið, sbr. hugmyndir Alberts Camus um hið tilvistarlega fall. Fall Jónasar að ofan er e.t.v. hugmyndalegt fall hans frá guði og þá er tilvist hans eftirleiðis í guðlausum heimi, heimi án tilgangs, án upphafs og enda, án almennilegs minnis því að minninu tapaði þó Jónas klárlega. Þegar Jónas festist í ástandinu, hvalnum sínum, virðist öll nótt úti og hans leið til að endurheimta mögulegan lífsvilja er að tefla lífinu í tvísýnu og finna viljann til að halda því áfram. Að auki féll Jónas fyrir einhverju öðru, e.t.v. Erlu sem glímir á allt annan hátt við dauðann af því að hann er í nálægri framtíð hennar. Erla heyr vonlausa baráttu við krabbamein sem hefur tekið sér bólfestu í líkama hennar en Jónas á í þessari innri togstreitu við sinn eigin ódauðlega djöful. Ranghugmyndir hans eru samt svo svaðalegar að það er með öllu óljóst hvort samskipti hans við Erlu eru eins náin og hann lætur í veðri vaka.
Hvert er þá megininntak Árs bréfberans? Höfundur þakkar í upphafi bókar nokkrum rithöfundum og heimspekingum sem hafa ugglaust lagt honum til vangaveltur um dauðann og eðli lífsins. Dauðinn er sögumanni hugleikinn og hann er yrkisefni bókarinnar. Dauðahugmyndin drífur lífið áfram.
... og enn ljóðabók
Nýjasta bók Kristjáns er þegar orðin sex ára gömul, Vistarverur sem komu út árið 1997, tveimur árum á eftir Ári bréfberans. Vistarverur byrja á frásögn af manni sem rifjar upp strandferðir bernsku sinnar. Þótt því verði ekki neitað að stemmning ríki í ljóðunum í fyrsta hlutanum sem öðrum hlutum er þar meira lagt upp úr línulegri frásögn en áður, ljóðmælandi speglar sig í sjónum sem er þar tengiliður við bernskuna. Í höfundarverkinu öllu eru óljós mörk nálægðar og fjarlægðar, veruleika og óraunveruleika, minnið er brigðult og varla treystandi á fortíðina. Minnið er skeikul skepna og hér hefur því vafalaust tekist að gylla fortíðina í nístandi ljósi nútíðar. Í framhaldinu er ljóðmælandi ljósfælinn og íhugar hvort hamskipti séu ásköpuð, hvort maður hafi eitthvað með það að gera hvort skrápurinn utan á manni þykknar og tapar næminu eða ekki. Þunn og viðkvæm húðin hleypir of miklum sársauka að, lífið verður of brothætt, maður sjálfur of auðvelt skotmark. Best er að byggja um sig veglegan varnargarð. Í hvernig vistarverum er heppilegast að hreiðra um sig? Í Tveimur gluggum (35) er talað um að lífið spanni spöl sem gerir okkur endalaust meðvituð um að lífið er bara skammvinnt ævintýri. Svo er undir okkur sjálfum komið hvernig við göngum þennan spöl. Eða hvort.
Gegnumgangandi þema hjá Kristjáni er spegillinn, mynd hans og ópersónuleg nánd. Í kaldri ásjónu spegilsins mætast tveir heimar, og fjarlægjast að sama skapi enda hrindir yfirborð spegilsins frá. Yfir öllu höfundarverkinu hvílir ró, yfirvegun og æðruleysi þess sem fær ekki umflúið örlög sín. Dauðahugsunin vakir, fortíðin er fylgin sér og æsingarleysið er algjört. Og mér finnst ennþá daprast hversu óendanlega hljótt er um lágværa en merkingarbæra skáldið Kristján Kristjánsson.
© Berglind Steinsdóttir, 2003
Greinar
Um einstök verk
Ár bréfberans
Eiríkur Guðmundsson: „Ofbeldi tímans: hugað að nokkrum skáldsögum ársins 1995“
Andvari, 121. árg., 1996, s. 138-59
Fjórða hæðin
Rúnar Helgi Vignisson: „Ójöfnur í tímanum“
Tímarit Máls og menningar, 55. árg., 3. tbl. 1994, s. 115-19
Minningar elds
Kristján B. Jónasson: „Sviðnar minningar“
Tímarit Máls og menningar, 51. árg., 3. tbl. 1990, s. 100-103
Verðlaun
2002 - Bæjarlistamaður Akraness
2020 - Menningarverðlaun Akraneskaupstaðar, ásamt konu sinni Margréti Þorvaldsdóttur
Hlutskipti
Lesa meiraSkagaleikflokkurinn 30 ára: 1974-2004
Lesa meiraFréttaannáll 2003: árið 2003 á Akranesi í máli og myndum
Lesa meiraOrka í aldarfjórðung
Lesa meiraLjósmyndir Árna Björnssonar
Lesa meiraMaurabúið hennar Söru
Lesa meiraFjölbrautarskóli Vesturlands 1977-2002: 25 ára afmælisrit
Lesa meiraBæjarstjóri í blíðu og stríðu
Lesa meiraÉg er friðsamur maður: skáldið og skólastjórinn Ingi Steinar Gunnlaugsson tekinn á beinið
Lesa meira