Beint í efni

Megas

Æviágrip

Megas (Magnús Þór Jónsson) er fæddur í Reykjavík 7. apríl 1945. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík. Árið 1971 hélt hann til Oslóar í háskólanám í þjóðháttafræði. Hann var þá þegar farinn að fást við lagasmíðar og textagerð og 1972 kom út fyrsta plata hans. Aðstandendur hennar voru íslenskir stúdentar í Noregi og hét platan eftir skáldinu. Árin 1968 og 1970 komu út tvö hefti með textum, nótum og teikningum eftir Megas. Margt af því efni sem þar birtist átti síðar eftir að rata inn á plötur höfundar. Árið 1973 gaf hann heftin tvö (Megas I og Megas II) út aftur endurskoðuð fyrir ögn stærri lesendahóp og bætti þriðja heftinu við (Megas III). Fimm plötur bættust við á áttunda áratugnum.

Í kjölfar tónleikaplötunnar Drög að sjálfsmorði (1979) tóku við nokkur ár þar sem Megas lét lítið á sér kræla opinberlega. Hann vann verkamannavinnu og var síðan í myndlistarnámi í MHÍ. Árið 1983 kom hann aftur fram í dagsljósið með hljómsveitinni Íkarus auk þess sem hann söng lag inn á plötu með Bubba Morthens. Árið 1986 gaf Megas síðan út sína fyrstu hljómplötu í sjö ár og þar að auki kom út heildarplötusafn hans með nýrri viðbót. Upp frá því hefur hann sent frá sér plötur reglulega og hafa nú breiðskífur hans nálega fyllt annan tuginn. Tónlist Megasar nýtur nú almennt mikillar virðingar. Til marks um það má nefna að níu plötur hans voru á lista yfir hundrað bestu plötur síðustu aldar á Íslandi í bókinni Eru ekki allir í stuði? (2001).

Megas hefur samið töluvert af „prósa“. Framan af birtust sögur eftir hann í ýmsum blöðum og tímaritum en árið 1990 kom út eftir hann og Þórunni Valdimarsdóttur skáldævisagan Sól í Norðurmýri: píslarsaga úr Austurbæ. Fyrsta skáldsaga Megasar, Björn og Sveinn – eða makleg málagjöld, leit svo dagsins ljós 1994. Eftir hann liggja einnig leikverk, smásögur, þýðingar og staðfærslur, upplestrar og fleira. Ljóða- og söngvasafn hans kom út árið 1991.

Megas býr í Reykjavík.