Um bókina
Kristófer hyggst loka veitingastað sínum í miðbæ Reykjavíkur vegna veirunnar, eftir áratuga farsælan rekstur. Sama dag berst honum óvænt vinarbeiðni á Facebook – og tíminn nemur staðar. Það er líkt og áratugirnir gufi upp og hann hverfi aftur um fimmtíu ár, standi við læstar dyr um morgun í London – þegar hann uppgötvaði að þau voru farin. Hann leggur af stað í ferð yfir þveran hnöttinn. Og um leið heldur hann á vit minninga um ástir, fornar og nýjar, leynd og eftirsjá eftir því sem hefði getað orðið, hugsjónir og veruleika, en undir kraumar spurning sem hefur leitað á hann í hálfa öld: Hvers vegna fóru þau án þess að kveðja?
Úr bókinni
Ég útskýrði erindi mitt. Hann virti mig fyrir sér og var að því kominn að afskrifa mig eftir því sem hann sagði síðar en hætti við af einhverjum ástæðum.
Geturðu komið klukkan tíu í fyrramálið? spurði hann. Við getum talað saman þá.
Ég játaði því en hafði engan hug á að mæta daginn eftir heldur ætlaði ég að segja félögum mínum að mér hefði verið hafnað. Það hefði átt að nægja til að stinga upp í Jóa og koma honum í skilning um að hæðni hans biti ekki á mig, skoðanir hans kæmu mér ekki við, mér fyndist hvaða starf sem væri skárra en hagfræðin sem var hans ær og kýr.
Ég var meira að segja tilbúinn með orðin þegar ég opnaði dyrnar en gekk þá beint í flasið á henni. Þau hurfu samstundis úr heilabúinu og eitthvað annað kom í staðinn, einhver hljóðlaus hvellur því ég kipptist við þótt hvorugt okkar segði neitt og hafði ekki einu sinni rænu á að biðja hana afsökunar eða halda hurðinni opinni fyrir hana. Hún leit framan í mig eins og hún hefði komið auga á eitthvað spaugilegt og brosti svo um leið og hún skaust inn.
Ég hugsaði um hana það sem eftir var dags og líka þegar ég var lagstur upp í um kvöldið og þegar ég vaknaði morguninn eftir í kyrrlátri rigningu. Ég rifjaði upp brosið og handarhreyfinguna þegar hún strauk hárið frá enninu og beið þess að ég viki úr dyrunum, strauminn sem fór um mig þegar hún smeygði sér framhjá mér. Við höfðum hvorugt sagt orð. Hún hafði horft í augu mér.
Ég vissi að mér var ekki sjálfrátt. Ég óttaðist það en gat ekki talað mig til. Það eru milljónir manna í borginni, sagði ég við sjálfan mig. Karlar og konur. Milljónir. En svo hvíslaði önnur rödd að mér andartaki síðar: Það eru líka milljónir stjarna á himninum en bara líf á einni þeirra.
En ég var ekki að hugsa um alheiminn þegar ég vaknaði þarna um morguninn heldur rann það upp fyrir mér að það væri allsendis óvíst að ég ætti eftir að sjá þessa stúlku aftur. Af einhverjum ástæðum hafði ég slegið því föstu að hún ynni á staðnum eða væri þar heimagangur en nú sá ég að ég hafði náttúrulega ekkert fyrir mér í því. Það greip mig óskiljanleg örvænting þegar ég uppgötvaði þetta enda var ég næstum því kvíðafullur þegar ég lagði af stað í viðtalið á Nippon.
(s.74-75)