Það er kannski ekkert skrítið að Kristmann Guðmundsson skuli verða kveikjan að skáldsögu. Aldamótin eru enn í algleymingi í íslenskum bókmenntum. Það eru uppgjör hvert sem litið er og af einhverjum ástæðum vilja menn helst gera upp skáld. Saga Kristmanns Guðmundssonar er líka einhver sú ævintýralegasta í íslenskri bókmenntasögu. Ungur gaf hann út eina ljóðabók á íslensku, flutti svo til Noregs og tókst þar að slá í gegn sem rithöfundur. Verk Kristmanns voru þýdd á fjöldamörg tungumál og hann naut hylli víða um lönd. Á fjórða áratugnum fluttist hann svo til Íslands og bjó hér til dánardags. Einkalíf Kristmanns var umtalað, hann giftist alls 9 konum og kjaftasögurnar sem gengu um hann og ýmiskonar uppátæki hans í einkalífinu má margfalda með að minnsta kosti þeirri tölu. Það er í sjálfu sér umhugsunarvert að Kristmann er einn þeirra höfunda sem má búa við það að flestir hafa miklu meiri áhuga á lífi hans og ferli en á þeim skáldverkum sem hann lét eftir sig. Ennþá hefur enginn orðið til þess að reyna að rétta Kristmann við í bókmenntasögunni, enda væri það ekki auðvelt verk - eftir okkar tíma mælikvörðum hafa langflest verka hans elst illa og standa sem steinrunnar minjar um sinn tíma og siðferði hans.
Borgir og eyðimerkur nýjasta bók Sigurjóns Magnússonar hefur undirtitilinn Skáldsaga um Kristmann Guðmundsson. Hún er þó ekki uppgjör við Kristmann, en kannski tilhlaup að uppgjöri við orðspor hans hingað til. Borgir og eyðimerkur hefst þar sem Kristmann stendur í miðjum réttarhöldum árið 1964. Þetta eru ein frægustu réttarhöld íslenskrar bókmenntasögu og í raun voru þau rammi um hatramma menningarbaráttu; baráttu milli hægri og vinstri vitanlega, en ekki síður milli kynslóða; hinna róttæku módernista Birtingskynslóðarinnar annars vegar og Kristmanns sem fulltrúa borgaralegra afla og gamalla gilda í menningarlífinu hins vegar.
Í sögunni fylgjum við Kristmanni á ferð hans til Hveragerðis dag einn þegar réttarhöldin standa sem hæst. Hann er í ferð á gamlar slóðir til að finna ró. Tveir staðir í Hveragerði tengjast honum sérstökum böndum, annars vegar húsið og skrúðgarðurinn sem hann bjó í sjálfur, hins vegar Hamarinn yfir bænum þangað sem hann hefur leitað áður á erfiðum stundum. Líkt og svo margt annað í lífi Kristmanns ber þessi skrúðgarður nú fá merki fyrri glæsileika og fáir muna dýrð hans. Við fylgjum Kristmanni um bæinn jafnframt því sem hann rifjar upp fortíðina, bæði nýliðna atburði og feril sinn í evrópskum og íslenskum bókmenntum. Móttökur Íslendinga þegar hann kom til landsins eru honum ofarlega í huga og margt það sem hér er rifjað upp skrifaði Kristmann um sjálfur í sjálfsævisögum sínum.
Réttardramað sem er bakgrunnur sögunnar er ekki til lykta leitt, enda er það í sjálfu sér aukaatriði. Þetta er ekki átakasaga heldur fyrst og fremst mannlýsing og sem slík er hún ágætlega heppnuð. Hún er vel skrifuð, í svolítið gamaldags en vönduðum stíl sem litar söguna af þeim tíma sem hún lýsir. Frásagnaraðferðin finnst mér hæpnari. Sagan er sögð í þriðju persónu af sögumanni sem stendur þétt upp að Kristmanni og túlkar allt eins og hann. Þessi saga á það þannig sameiginlegt með fyrri sögum Sigurjóns, Góða nótt Silja og Hér hlustar aldrei neinn, að vera nær alveg laus við íroníu, það myndast engin spenna milli sögumannsins og Kristmanns eða sögumannsins og söguhöfundar.
Borgir og eyðimerkur segir þeim lesanda sem hefur einhverja nasasjón af ferli og verkum Kristmanns Guðmundssonar ekkert nýtt. Hún er ekki túlkun, ekki endurmat á skáldinu eða verkum þess heldur einfaldlega sviðsetning á Kristmanni eins og maður þekkir hann af hans eigin skrifum. Þeim sem ekki þekkja til verka Kristmanns birtir hún mynd af beiskum manni sem hefur mátt þola mikið mótlæti og látið það skemma sig, hann vekur vissulega samúð, en er samt furðu fjarlægur. Og af því að það vantar spennu í frásögnina milli efnisins og framsetningarinnar, íroníu, fjölröddun eða eitthvað það sem getur helypt púðri í textann, verður bókin eins og sjálfsmynd listamannsins sem gamals manns - máluð af einhverjum öðrum.
Jón Yngvi Jóhannsson, desember 2003