Beint í efni

Sigurjón Magnússon

Æviágrip

Sigurjón Magnússon fæddist í Reykjavík 19. janúar 1955. Hann ólst upp í Vesturbænum og gekk í Mela- og Hagaskóla og síðan í M.R. Vistin þar varð ekki löng, en árið 1988 lauk hann stúdentsprófi frá öldungadeild M.H. og stundaði eftir það nám í íslensku og ensku við Háskóla Íslands. Þá hefur Sigurjón gegnt margs konar störfum í áranna rás, eða þar til hann sneri sér að skriftum eftir útkomu fyrstu bókar sinnar, meðal annars var hann barna- og unglingakennari, starfsmaður á drykkjumannaheimili og tryggingasali, svo eitthvað sé nefnt. Árið 1992 stofnaði hann bókaútgáfuna Ormstungu með mági sínum, Gísla Má Gíslasyni, og vann þar um skeið.
 
Fyrsta útgefna verk Sigurjóns er skáldsagan Góða nótt, Silja sem Bjartur gaf út árið 1997 og vakti hún verulega athygli. Síðan hefur hann sent frá sér sex skáldsögur, síðast Snjór í myrkri árið 2014. Góða nótt, Silja var gefin út í sænskri þýðingu árið 2000.

Sigurjón Magnússon býr í Kópavogi. Hann er kvæntur og á tvö börn.

Forlag: Bjartur