Um bókina:
Víkingur Gunnarsson, yfirlögregluþjónn hjá rannsóknardeild Lögreglunnar í Reykjavík þarf að upplýsa hrottaleg morð, bankarán og fleiri glæpi. Þessir blóðugu atburðir eiga rætur að rekja til fortíðar þegar íslenskur athafnamaður stofnaði skipafélag sem fór á hausinn. Hann rís upp aftur og fer í víking í austuveg; kemur þaðan með mikil auðæfi og kaupir Þjóðbanka Íslands. Er rússneska mafían komin á kreik á Íslandi? Hér er sagt frá því hvernig hefnd getur tekið á sig ýmsar myndir.
Sjá umfjöllun um Dauðans óvissa tíma
Úr Dauðans óvissi tími:
Tvíeyki
Reykjavík, 5. júní 2004
ANDVAKA? hugsaði Víkingur. Vonandi er það ekki að byrja. Hann var að velta því fyrir sér að kveikja og lesa sér meira til um geðvillingana sem Þórhildur hafði sagt honum að væru á ferli í náttmyrkrinu því að það er jafnspennandi að lesa um óhugnanlegt athæfi og það er andstyggilegt að standa augliti til auglitis við hið illa og ummerki þess.
Hann hlustaði á reglulegan andardrátt Þórhildar og tók að einbeita sér að því að reyna að anda í takt við hana. Það mistókst reyndar, en mestu máli skipti að hann sofnaði út frá því að reyna.
Hann sofnaði án þess að hafa lesið sér til um það banvæna samspil sem hefst þegar tveir geðvillingar koma saman og mynda tvíeyki.
Eins og þegar Dick Hickock og Perry Smith hittust og samhæfðu kraftana með afleiðingum sem Truman Capote segir frá í bók sinni Með köldu blóði.
Eins og þegar Þorgeir Hákonarson og Þormóður Bjarnason hittust og síðar verður sagt frá.
Eða líkt og gerðist í Prag snemma vors 1994 þegar Rússinn Vasilí Ívanovitsj Basmanov hitti tékknesku fegurðardísina Petru Vlkovu á diskóteki og hún fylgdi honum heim á Hótel Intercontinental á Moldárbökkum og gisti hjá honum um nóttina.
Tíu árum síðar voru Vasilí og Petra ennþá óaðskiljanleg.
Það haust lá leið þeirra til Íslands.
(s. 27)