Svona tímabil fengu forfeður okkar að upplifa hér á Íslandi fyrir 1000 árum á þjóðveldisöld, sem með fullri virðingu fyrir nútímanum er örugglega mesta gróskutímabil sem þessi þjóð hefur gengið í gegnum. Ekkert framkvæmdavald til að leggja hömlur á sköpunargáfu einstaklingsins og athafnafrelsi. Hæfustu einstaklingarnir risu yfir fjöldann, það voru goðarnir, og þeir tóku við þeim sem til þeirra leituðu og sáu þeim fyrir vernd, en hlutu stuðning þeirra í staðinn. Þannig var þetta í Rússlandi. Þar komu fram á sjónarsviðið ungir menn og öflugir sem í gamla kerfinu hefðu í besta falli getað orðið einhvers konar kommissarar en gátu nú notað hæfileika sína til fulls. (316-17)
Sá sem þetta segir er einn af þeim íslensku bröskurum sem leggst í víking til Rússlands, í kjölfar falls kommúnismans, en hann bendir einmitt á hvað það tímabil hafi verið spennandi og möguleikaríkt, því þá hafi kapítalisminn verið "frjáls og óheftur af einhverju miðstýringarapparati" (316). Og það er þessi heimur, þessar nútímavíkingaferðir Íslendinga til Rússlands, sem liggur að baki sögu Þráins Bertelssonar, Dauðans óvissi tími. Þráinn nýtir sér reyndar sagnaarfinn á margvíslegan hátt með fjölmörgum vísunum í Íslendingasögur og atburði þeirra, svo ekki sé talað um fleygar setningar, en hann lætur ekki staðar numið þar heldur fléttar inn ýmsum öðrum vísunum í menningu og bókmenntir, lafði Macbeth á þarna smá innkomu, sömuleiðis þættirnir góðu Já ráðherra, og ekki má gleyma sögu Þráins sjálfs, Tungumál fuglanna, sem hann gaf út undir nafninu Tómas Davíðsson, en sá er einmitt ritstjóri dagblaðs í Dauðans óvissi tími…
En eins og fram kemur í tilvitnuninni hér að ofan er þessi leikur með vísanir meira en bara leikur, því hér er á ferðinni umhugsunarverð pólitísk pæling, um frelsi og fjármál, viðskipti og glæpastarfssemi. Hugum nánar að þessu með glæpastarfssemina – þetta er jú glæpasaga, og komum aftur að þessu með pólitíkina síðar.
Á yfirborðinu er um að ræða tvo glæpi í þessari glæpasögu; annarsvegar bankarán sem endar með morði, hinsvegar morðmál. Rannsóknarlögreglan, með guðfræðinginn Víking Gunnarsson í fararbroddi, rannsakar málin tvö, jafnframt því að standa í útistöðum og samningum við ríkislögreglustjóraembættið og nokkra ráðherra. Bankaránið er fremur einfaldur glæpur, unninn af ógæfumönnum, og spilast sá þáttur meira eins og þriller, því lesandi fylgist með þeim félögum og fylgist með leitinni að þeim. Morðið er hinsvegar öllu flóknara, en þar er á ferðinni hefðbundnari glæpaflétta, með vísbendingu úr óvæntri átt og allt það. Hinn myrti er besti vinur og starfsmaður hjá hinum nýríka bankaeiganda og athafnamanni, Haraldi Rúrikssyni, en hann er einmitt einn þeirra sem lagðist í nútíma víking til Rússlands og auðgaðist þar. Og þarf svosem ekki að hafa fleiri orð um það, né þær vísanir til íslensks viðskiptalífs sem þarna felast.
Hinsvegar er full ástæða til að hafa fleiri orð um þann þátt bókarinnar sem snýr að umræðu um íslenskt viðskiptalíf, því Þráinn lætur sér ekki nægja að taka út þær miklu breytingar sem orðið hafa í íslensku samfélagi síðustu árin vegna einkavæðingarinnar, heldur vísar hann einnig til umræðna um líftækni og verðbréfaviðskipti tengd slíkum fyrirtækjum. Þarna er því komin heilmikil úttekt, á íslenskum stjórnmálum og áhrifum þeirra á verslun og viðskipti. Það er alltsaman gott og gilt, en lesandi hlýtur þó að velta fyrir sér hvað þetta bankaránsdæmi sé að flækjast þarna. Og nú er ástæða til að fara dálítið á flug, því ég get ekki betur séð en að hér sé verið að draga upp skemmtilega hliðstæðu milli einkavæðingar og sölu á ríkiseignum til valdra einstaklinga og bankarána, að slík sala sé í raun ekkert annað en bankarán. Auk þess sem það er klár undirtónn í sögunni að allt þetta vafstur og áhersla á einkavæðingu ali á græðgi og auki á möguleikann á auðgunarbrotum á við bankarán (fyrst allt þetta pakk á svona mikinn péning, þá vil ég fá minn hlut líka), og annarri glæpastarfssemi. Því vil ég halda því fram að í raun sé um þrjá glæpi að ræða í sögu Þráins, og að þriðji glæpurinn sé viðskiptalífið í dag, einkavæðing og fjármálabrask ýmiskonar – og áhrif þess á einstaklinga.
Það er því heilmikið lagt undir í sögunni og við sjáum að vísanir í skoska leikritið og sjónvarpsþætti um stjórnmálamenn taka á sig aukið vægi í þessari fléttu um átök um völd.
Þetta gerir það á verkum að sagan virkar á stundum dálítið samsett, og á tímabili fannst mér eins og ég væri í raun að lesa tvær bækur, að ég hefði á einhvern Calvínó-ískan hátt hoppað yfir í allt aðra sögu í miðri setningu. Fyrsti hlutinn kynnir aðalpersónur til sögunnar, Harald og sögu hans, guðfræðilögreglumanninn og bankaræningjanna, auk þess að við fáum stutta kynningu á því hvað psýkópati sé, og kynnumst dæmum um slíka. Síðan koma glæpirnir og þá skiptir dálítið um stíl, háðið sem einkenndi lýsinguna á íslenskum stjórmálum og viðskiptum víkur fyrir hefðbundnari raunsæislegum glæpasagnatóni. En þó að þessi samsetningarbragur hafi aldrei alveg farið af, þá kemur límingin í ljós í lokin þegar ''þriðji'' glæpurinn kemur til. Ekki svo að skilja að þetta hafi nokkurntíma verið verulega truflandi, eða til skaða, því í heildina séð var lesningin skemmtileg, og hélt mér alltaf við efnið, þó mér fyndist það taka dálítilli stökkbreytingu, þarna um tíma. Ég get því ekki annað sagt að ég sé ánægð með afraksturinn og vona sannarlega að Þráinn haldi áfram að feta hinn þrönga stíg glæpanna.
Í lokin langar mig aðeins að taka upp þann pólitíska þráð sem nefndur var hér að framan en þegar ég var að lesa bók Þráins gat ég ekki annað en velt því fyrir mér að svo virðist sem það sé komið í hlut afþreyingarbókmennta að kommentera á samfélagsmál og pólitík. Ég hef reyndar oft talað um þetta áður, að höfundar eins og Arnaldur Indriðason nýti sér formið til að fjalla um samfélagið í nærmynd, ef svo má segja, en nú bregður svo við að hér er farið að taka á málum á mun breiðari grundvelli og takast á við þau af meiri festu, ef svo má segja. Í fyrra var dæmi um þetta í Svörtum englum Ævars Arnar Jósepssonar, en þar var tekin fyrir hið rafræna eftirlit sem minnir ískyggilega á svarstýnustu framtíðarsýnir vísindaskáldskapar, eins og til dæmis þá sem birtist í 1984 Georgs Orwells. Í þeirri skáldsögu stefndi eftirlitið ekki aðeins að því að kúga fólk til ákveðinnar hegðunar, heldur einnig temja hugsanir þess, tjáskipti og tilfinningar, en slíkt er óþægilega nærtækt þegar hversdagsleg samskipti í gegnum tölvupóst fara fram undir vökulu auga stóra bróður. Í ár sýnir Arnaldur enn og aftur fimi sína við að flétta mikilvæga umræðu inní glæpasögur sínar, en í Kleifarvatni fjallar hann um pólitík kaldastríðsins, átök og hugsjónir, og tekur einnig á umræðunni í dag um þetta pólitíska landslag ''fortíðarinnar''. Og í Dauðans óvissa tíma er Þráinn, eins og áður segir, að taka hressilega út það stjórnmálalandslag sem fylgir í kjölfar kalda stríðsins, og velta fyrir sér hvað sé eiginlega í gangi þar. Ég gæti nefnt fleiri dæmi, eins og til dæmis hvernig Stella Blómkvist hefur fjallað um verslun með konur, kynþáttahatur og fleira í sínum bókum, og aftur að núinu, hvernig Jökull Valsson byggir sína hrollvekju, Börnin í Húmdölum, á vangaveltum um örlög og andlega líðan þeirra sem verða undir í öllu góðærinu. En látum þetta nægja að sinni.
Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2004