Úr Dauðasök:
Hann beið því ekki boðanna heldur sameinaðist hópnum sem var að mjakast út. Fyrir utan var nístíngskuldi svo fólkið flýtti sér að flugstöðvarbyggingunni um leið og það kom niður tröppurnar. Pendel sá stúlkuna hvergi fyrir utan svo hann fylgdi straumnum bara eftir. Fyrst var gengið inn langan gang og við enda hans var stór salur með bar og ýmsum verslunum. Er þangað kom fór Pendel strax að svipast um eftir stúlkunni og skyndilega sá hann hvar hún var. Hún hafði ekki farið með aðalhópnum heldur stóð hún ásamt fáeinum öðrum farþegum við vegabréfsskoðun í enda salarins, hinum megin við lágt grindverk.
Pendel snarbrá að vonum. Svo hún hafði þá aldrei verið á leiðinni til Ameríku heldur aðeins til Íslands. Þegar hann sá að hún komst óhindruð í gegnum vegabréfsskoðunina gerði hann sér grein fyrir því að Vogel mundi ekki hafa athugað flugáætlunina neitt nánar og því ekki gert neinar ráðstafanir á Íslandi, annars hefði hún strax verið stöðvuð.
Hann steig yfir grindurnar og flýtti sér að vegabréfsskoðuninni sem var orðin mannlaus ef undan var skilinn starfsmaður útlendingaeftirlitsins.
“Ég heiti Hans Pendel og er þýskur lögreglumaður,” hóf hann mál sitt á slæmri ensku, og síðan spurði hann:
“Talið þér þýsku?”
(s. 62-63)