Hvernig skrifar maður um trámatíska atburði? Og hver má segja frá þeim? Og hver á að hlusta? Tvískipta konan, Gríms og Dísa, skrifar fyrrverandi elskhuga, sem gengur undir nafninu Kisi, bréf í nýjustu skáldsögu Vigdísar Grímsdóttur: Dísusaga: Konan með gulu töskuna. Dísu, sem fram af þessu á ferli Gríms hefur ekki fengið að halda á penna, er hleypt fram á ritvöllinn til þess að segja ‚sína‘ sögu, til að segja frá nauðguninni sem varð til þess að 10 ára klofnaði hún í tvennt:
Það var þá, þegar sársaukinn og dauðinn læstu klónum í mig og Guð hvarf úr lífi mínu í eitt skipti fyrir öll, sem hún svarta, freka og grimma Gríms varð til. Hún stóð þarna allt í einu fyrir framan mig í svörtum fötum, með glóandi augun og hörkulegu andlitsdrættina, og hún var með sverð í hendinni og klút um hárið einsog samúræi og hún sveiflaði sverðinu í kringum sig og sagðist skyldu bjarga mér úr helvítis andskotans málunum og hún skyldi sigra og ég skyldi halda kjafti og bíta á jaxlinn. (128)
Dísusaga er því saga þríhyrnings, tvískiptu konunnar og ástarviðfangsins, og saga af því að hætta að „halda kjafti og bíta á jaxlinn“, að rjúfa þögnina áratugagömlu, að segja sögu og skrifa til að bjarga lífi sínu. Saga Dísu staðfestir að hún sé til í heiminum, að hún hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi, að það hafi mótað allt hennar líf uppfrá því. Afneitun, þögn, skömm, skal aflétt.
Vísanir í veröld utan verks eru fjölmargar, ekki einungis í atburði og minningar úr fortíð, heldur er nafngreint fólk í fjölmörgum hlutverkum (einkum var áhrifamikil innkoma Matthíasar Viðars Sæmundssonar heitins undir lok bókar). Verkið hangir þannig á brún skáldsögu og endurminninga, form sem rödd Gríms gefur ekki mikið fyrir: „Verður þetta þá ein af þessum sjálfs-sjálfsævisögulegu skáldsögu-sögum sem allir eru að skrifa núna?“ (275) Það má til sanns vegar færa að þetta form hafi orðið fyrirferðarmikið í íslenskum bókmenntum uppá síðkastið. Sjálfsævisagan hefur gengið í gegnum fjölmargar sveigjur og beygjur og átt í margbrotnu sambandi við skáldskapinn frá upphafi vega. Í Frakklandi á áttunda áratug síðustu aldar fann Serge Dubrovsky upp heitið ‚autofiction‘ og fjölmörgum nöfnum hefur verið skellt á fyrirbærið síðan. Oddný Eir Ævarsdóttir og Eiríkur Guðmundsson hafa löngum verið á þessum slóðum í sínum verkum og Auður Jónsdóttir slóst í hópinn með Ósjálfrátt í fyrra. Í raun má segja að Jarðnæði Oddnýjar, 1983 Eiríks og fyrrnefnd bók Auðar séu öll í þeim flokki bókmennta sem mætti kalla höfundarmanifesto, eða verk sem reyna að svara spurningunni ‚hvernig varð/verð ég rithöfundur?‘ Þessi verk nota gjörólíkar aðferðir við að svara þeirri spurningu og nú bætist Vigdís Grímsdóttir í hópinn, reyndar stödd á öðrum stað á rithöfundarferlinum, með enn eina aðferðina.
Aðferðin sem beitt er byggist á samræðu, samræðu Dísu og Gríms, sem rífast og kýta um hvað má segja, hvernig má segja það og hvor þeirra eigi að segja frá. En samræðan er líka við Kisa, við fortíðina, við systkin og börn, við lesendur og jafnvel enn frekar við lesendur Vigdísar Grímsdóttur. Og það er samræðan sem ljáir verkinu spennu. Í æskuminningum fransk-rússnesku skáldkonunnar Nathalie Sarraute, Enfance, notar hún samræðuformið til að rifja upp bernskuna. Það er aldrei skilgreint hver ‚hin‘ röddin er en sú spyr erfiðra spurninga, grefur undan minningum, hugmyndum og tilfinningum um fortíðina. Hér er þessi tvískipting og samræða tekin alla leið og aðalpersónunni og sögumanni skipt í tvennt. Úr verður ákaflega skýr og áhrifamikil mynd af þeim margháttuðu áhrifum og erfiðleikum sem ofbeldisverkið skildur eftir sig. Meðal þess sem lagt er á börn í þessum aðstæðum er skömmin sem fylgir í kjölfarið; spurt er hvort tilkoma Gríms hafi bjargað lífi Dísu og, eins og hún heldur fram sjálf, hvort Gríms hafi tekist að jarða skömmina (121). En slíkt er vart mögulegt, Dísa segir hana hafa gert skömmina að sinni „af því að þú gast ekki betur, auðvitað veit ég að þú gast aldrei betur en þú gerðir“ (121-122). Eins og segir á einum stað: „svikin og svívirt börn fullorðnast aldrei alveg“ (123). Gríms óttast frásögn Dísu, hún hefur miklar efasemdir um stílinn, aðferðina, en ekki síður efniviðinn. Í upphafsköflunum, þar sem hún er sérlega fyrirferðarmikil, þar sem hún vill ekki sleppa takinu á pennanum, spyr hún hvort Dísa ætli virkilega að fara þessa leið „þar sem ég og ævistarf mitt er tekið á beinið?“ (53) Hún er ekki spennt fyrir blöndu skáldskapar og sjálfsævisögu, hvað þá fyrir hefðbundnari endurminningaformi: „ – Á nú að fara að skrifa um foreldra og systkini og alls konar leiki og störf og hinar og þessar upplifanir, ha, á nú að byrja á blíðurullunni og sólin skein í heiði-minningunum og blaðra um voðalegu sorgina sem seinna kom og um lífið sem þrátt fyrir allt er svo óvænt og skondið og undursamlegt á köflum?“ (104)
Trámasérfræðingar eru sammála um að tráma úr fortíð sé einstaklega erfitt að tjá og sumir ganga svo langt að halda því fram að helsta einkenni tráma sé að hörmulegir atburðir, sem eru algjörlega á skjön við allan veruleika, verða ekki tjáðir svo skiljanlegt sé. Hitt er hins vegar einnig lögð áhersla á, að ábyrgð þess sem hlustar sé mikil. Óttinn við viðbrögð annarra er nefnilega eilífur vandi þess sem fyrir atburðinum verður og þetta er einn lykillinn að verkinu – ein ástæðan fyrir því að Gríms tók yfir, ‚bjargaði‘ Dísu en um leið lokaði hana inni, læsti undir hrjúfu yfirborðinu. Það er alveg ljóst að atvikið mótaði ekki einungis persónuleika hennar og sálarlíf, heldur einnig skrifin. Engin skáld höfðu jafnmikil áhrif á skáldskapinn hennar og „tveir vondir menn höfðu fyrir fimmtíu árum þegar þeim tókst með illsku sinni og græðgi að tæma gleðina og traustið úr barnslegu brjósti mínu“ (131).
Dísusaga fjallar um afleiðingar ofbeldis, en hún fjallar líka um annars konar valdbeitingu, þ.e. valdið sem fullorðnir geta haft hver yfir öðrum. Valdið sem Kisi hefur yfir Gríms er einn af ásteytingarsteinum þeirrar Dísu. Gríms, töffarinn mikli sem ætlar að ráða við heiminn, ræður ekki við ástina, er niðurlægð og beygð samkvæmt Dísu, því ást Kisa á Gríms verður viðmið alls og takmarkið; takmark í lífinu og verkinu, eins og skýrt birtist þegar hún ávarpar Kisa:
Það má eiginlega segja að þú værir eina fjallið sem hana langaði til að klífa, eini sigurinn sem hana langaði til að vinna, eina bókin sem hana langaði til að skrifa, og þegar ég lít til baka og renni huganum yfir bækurnar sem hún hefur skrifað, þá sé ég svo glöggt að þær fjölluðu ekki bara um tvískiptinguna, þögnina og geðbilunina, einsog ég fullyrti hérna einhvers staðar áður, heldur líka um hina skilyrðislausu og fórnfúsu ást – og sú ást var, eins skringilega og það hljómar, einmitt eitt af því sem gerði þig endanlega og algjörlega afhuga henni. Ekki satt? (291)
Hin fórnfúsa ást sem viðfangið kærir sig ekki um verður endalaus uppspretta sársauka, einhvers konar framhald af sársaukanum úr bernskunni. Og þessi sársauki er grunnurinn að samræðunni sem knýr textann og samræðunni sem var kveikjan að verkinu, samtal við vinkonu hennar, Þóru Sigríði, sem leysti Dísu úr læðingi.
Útjaskaðasta klisja gagnrýnenda víða um heim er að segja bók vera ‚tour-de-force‘; mikið hefði nú verið ánægjulegt ef þessi orð hefðu verið spöruð örlítið í gegnum tíðina, því þá myndu þau lýsa þessu áhrifamikla verki einstaklega vel.
Gunnþórunn Guðmundsdóttir, desember 2013