Úr Draugasinfóníunni:
Ísland verður aldrei samt
Ástandið á bókbandsstofuni versnaði dag frá degi. Mér hraus hugur við að stíga inn fyrir þröskuld fyrirtækisins því þar beið aðeins miskunnarleysi meistarans og niðurlæging mín.
Karl kastaði í mig ónotum allan liðlangan daginn og fann mér eingöngu verkefni sem áttu ekkert skylt við bókband. Mér varð ekki svefnsamt um nætur og dauðþreyttur drattaðist ég af stað á morgnana.
Dag einn þegar ég var í óða önn við að hlaða pappír í stæður inn í salnum, kom á stofuna öldurmannlegur, lágvaxinn maður, snyrtilega klæddur, á að giska sjötugur. Það rann upp fyrir mér að þar færi rithöfundurin frægi, Hallgrímur Hamarr. Hann tók í hönd Karls og rumdi af sárum þunga: „Þá er hann dáinn, blessaður.“
Það vafðist ekki fyrir neinum við hvern skáldið átti því allir viðstaddir höfðu heyrt klukknahljóminn sem barst um miðbæinn morguninn áður er kista Einars Benediktssonar var borin úr Dómkirkjunni.
„Já,“ svaraði Karl, dró djúpt að sér andann og drúpti höfði, virtist bugaður af harmi.
„Ísland verður aldrei samt,“ hvískraði Hallgrímur Hamarr miður sín og mændi döprum augum fram fyrir sig. „Hann fékk víst hægt andlát.“
Karl skipaði Bergi með handapati að hætta að skera pappa.
Það ríkti dauðaþögn um stund uns Hallgrímur sagði hægum rómi: „Ég ætla að halda svolitla minningarstund heima hjá mér annað kvöld.“ Hann leit angursömum augum yfir hópinn og sagð lát áður en hann kvaddi: „Ég yrði ykkur hjartanlega þakklátur ef þið sæjuð ykkur fært að koma.“
Í staðinn fyrir að skrækja á starfsfólkið í boðhætti bað Karl okkur stimamjúkum rómi um að halda áfram vinnu þar sem frá var horfið og að því búnu fór hann inn á skrifstofuna og tyllti sér við borðið. Hann tók penna í hönd og það sem eftir lifði dags sat hann í þungum þönkum og páraði á blað.
Bergur hafði ekki séð Karl jafn rólegan um margra ára skeið. Aðeins einu sinni hafði hann verið svo hægur og hljóðlátur í nokkrar vikur eftir að hann lokaðist inn á ljóslausum lagernum heila nótt og hélt að afturgöngur og plötupúkar sætu um sál hans í myrkrinu.
Að loknum óvenjulegum starfsdegi fylgdumst við Dagmar að niður Grjótagötu oní miðbæinn og ég spurði hvort hún ætlaði á minningarathöfnina.
„Við verðum að fara,“ svaraði hún ergileg, nánast vonsvikin. „Karl fyrirgæfi okkur aldrei að mæta ekki.“
„Hvar á Hallgrímur heim?“ spurði ég.
„Æi, á Sólvallagötu.“
(s. 46-47)