Beint í efni

Duft

Duft
Höfundur
Bergþóra Snæbjörnsdóttir
Útgefandi
Benedikt bókaútgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2023
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Verónika er einkadóttir vellauðugra líkamsræktarfrömuða á Íslandi sem eru helteknir af yfirborðinu. En það sem marir undir seytlar samt óhjákvæmilega í gegn. Duft spinnur margslunginn vef um líf Veróniku og fjallar um líkindi truflaðrar fjölskyldu við sértrúarsöfnuð, og hvernig venjulegt fólk kemur sér í óvenjulegar aðstæður.

Úr bókinni

   En hreyfing var það sem hún elskaði. Þegar Halldóra hreyfði sig var hún ekki að hugsa um neitt og henni leið best þegar hún hugsaði sem minnst svo hún notaði launin sín til að borga leigu, kaupa mat og borga æfingagjöld í jazzballettskóla í nágrenninu. Svo fékk hún sér aukavinnu við að skúra í skólanum gegn því að fá að æfa ókeypis. Einn daginn lánaði vinkona hennar úr skólanum henni æfingaspólu frá Bandaríkjunum. AEROBIC DANCING stóð á spólunni. Hraðar hreyfingarnar og mjúkt flæðið heillaði Halldóru svo að hún lærði æfingarnar utan að. Svo fór hún að kenna vinkonum sínum æfingarnar og þær fengu lánað kjallaraherbergi í ballettskólanum. Smám saman kvisuðust út fréttir af eróbikk-tímunum og hópurinn stækkaði og stækkaði þar til Halldóra fékk leigðan sal og fór að rukka inn gegn því að helmingur ágóðans færi til skólans. Hún spilaði Boney M. og Abba af plötum og þurfti að hlaupa til og snúa plötunum við þegar þær kláruðust eða lögin voru of róleg.
   Á hverjum mánudegi og miðvikudegi var stærsti salurinn fullur af rauðum og sveittum konum á öllum aldri, það var biðröð fyrir utan salinn. Tímarnir gengu svo vel að Halldóra bætti við fleiri og fékk skólastjórann til að auglýsa tímana með sínum eigin í dagblöðum. VILTU MISSA AUKAKÍLÓIN? KOMDU Í ERÓBIKK DANS FYRIR DÖMUR!
   Nítján ára gömul var Halldóra farin að stjórna stærstu leikfimitímum í Reykjavík. Ballettskólinn malaði gull en samt var skólastjórinn afbrýðisöm. Er þetta ekki allt of mikill hasar? spurði hún og brosti strekkt á svip með stórar nasirnar þandar. Verða ekki slys á konum sem eru óvanar leikfimi þegar þær eru að hoppa svona?
   Halldóra leit ekki bara á sig sem einhverja heilalausa íþróttarottu, hún vildi breyta einhverju, hafa áhrif, hún vildi að rödd sín myndi heyrast víðar, að allir sæju að hún hefði meira að segja en HÓ og HA! Þess vegna tók hún þátt í starfi samtaka um stofnun fyrsta kvennaathvarfsins og þegar Halldóra var heima með mig litla fór hún að taka vaktir launalaust í athvarfinu þar sem hún var ekkert að kenna eróbikk hvort eð er. Mér hefur alltaf þótt best að hafa nóg að gera, en ég velti því stundum fyrir mér hvort ég hefði átt að vera með þig í þessu umhverfi, svona agnarsmáa, sagði hún lágt.

(s. 59-60)

Fleira eftir sama höfund

allt sem rennur

Allt sem rennur

á hverju ári sendir hún / fyrrverandi eiginmanni sínum skilaboð / ég lifi
Lesa meira

Svínshöfuð

Lesa meira

Daloon dagar

Lesa meira

Flórída

Lesa meira