Úr Ég man ekki eitthvað um skýin:
(ferja)
himinninn vekur mig
með höggi
milli augnanna
*
himinninn vekur mig
enginn máni
engar stjörnur vísa mér veginn
hálfopnar dyrnar
nálgast mig
*
himinninn vekur mig
á ferjunni
hún snýr í hafnarmynninu
skugginn af höfði mínu
fer um salinn
andlit af andliti
uns stefnan er tekin suður
að hann staðnæmist á manninum
andspænis mér
og við siglum aftur á bak
til borgarinnar
frá borginni
*
himinninn vakti mig
um kvöld á þilfarinu
fjöllin voru gegnsæ og hafið slétt
ekki eins og núna
(og farþegi)
(s. 11-12)