Úr Ég um mig frá mér til mín:
3
Heim úr sveitinni og allt er aftur orðið nýtt. Þú ert í miðpunkti eins og Guð. Þegar þú talar er hlustað, óskir þínar uppfylltar. Strax næsta dag er nýjabrumið rokið af og þú ert fastur í sama hversdagsleik og hinir.
Hann fór að hitta Dodda. Þeir töluðu saman um daginn og veginn. Andri vildi fara í bíó en Doddi mátti ekki vera að því, hann og Kalli voru byrjaðir í hljómsveit. Andri fann að eitthvað hafði breyst á milli þeirra.
Ráfaði um, en gat ekki látið sig ríma við neitt. Strákar spiluðu fótbolta, krakkar ferðuðust um loftið í rólu og litlar þúfur sátu í sandkassa og átu sand. Hann passaði ekki lengur í þá leiki sem voru í gangi umhverfis. Ekki lengur viðeigandi að leika sér í bófahasar og bílaleik. Hann var hættur að vera barn án þess að vera fullorðinn. Eiginlega var hann ekki til.
Gagnfræðaskólinn átti að búa hann undir að gera gagn. Hann fór á hjólinu í skólasetninguna og varð sér til mínkunar, mynnkunnar, minnkunar, (skammar), allt af því hann hafði verið í sveit og var ekki búinn að fá línuna.
Á göngum Gagnfræðaskólans stóðu strákar og stelpur eins og kindur að skoða nýja sláturhúsið. Andri þekkti ekki kjaft, þetta var nýr skóli í nýju hverfi. Stelpurnar stóðu í dularfullum hópum, rúskinnaðar og túperaðar og voru ekki búnar að finna klósettin. Sumar voru ennþá tannlausar, aðrar á búllandi túr. Strákarnir voru sumir búnir að bæta við sig fimmtíu sentimetrum og strax byrjaðir að vaxa upp úr stökujökkunum sem mæður þeirra höfðu keypt á þá um morguninn. Raddirnar undarlegt sambland af hetju og grátandi konu. Sumir voru komnir með ló á efrivör.
“Sjá dagar koma, ár og aldir líða”. Skólastjórinn var einn af þessum ræðumönnum. Kaus helst að fylgja öllum augnablikum lífsins úr hlaði með ræðustúf, en nútíminn má ekki vera að því að hlusta. Helst í skólanum sem hann fékk útrás, þar gat hann sett menn við dyrnar. Ef eitthvað sérstakt kom upp á: þjóðhöfðingi skotinn, þjóðskáld hrökk upp af, nemandi tekinn drukkinn – þá gat hann talað heilu raðirnar í yfirlið. “Spurðu ekki hvað skólinn geti gert fyrir þig. Spurðu hvað þú getir gert fyrir skólann!”
Næst var gáfnapróf. Andra fannst hann geta svarað öllu nema “Strindberg”. “Finnst á Vestfjörðum,” skrifaði hann eftir umhugsun.
(s. 13-15)