Æviágrip
Pétur Gunnarsson fæddist 15. júní 1947 í Reykjavík. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1968 hélt hann utan til náms í Frakklandi og lauk Meistaraprófi í heimspeki (maitrise) frá Université d'Aix-Marseille árið 1975.
Pétur hefur tekið þátt í ýmsum samstarfsverkefnum, hann samdi t.d. leikritið Grænjaxlar árið 1977 fyrir Þjóðleikhúsið í samvinnu leikara og Spilverks þjóðanna. Hann samdi texta á breiðskífunni Lög unga fólksins sem út kom 1977 og barnaleikritið Krókmakarabærinn sama ár í samvinnu við Leiklistarskóla Íslands. Pétur hefur jafnframt unnið margvíslegt efni fyrir útvarp og sjónvarp. Hann skrifaði t.a.m. handrit að leikinni heimildamynd um Halldór Laxness 1988.
Pétur átti sæti í stjórn Alliance française á árunum 1977-1981, þar af sem forseti 1980 -1981. Hann sat jafnframt í stjórn félags áhugamanna um bókmenntir 1988 - 1990 og var í ritnefnd Tímarits Máls og menningar um árabil. Pétur var formaður Rithöfundasambands Íslands 2006 - 2010. Pétur hefur sent frá sér aragrúa greina um bókmenntir og menningarmál í fagtímaritum, skrifað um þjóðmál og menningarmál í dagblöð og haldið erindi á margvíslegum vettvangi.
Fyrsta ljóðabók Péturs, Splunkunýr dagur, kom út 1973 en áður höfðu birst ljóð eftir hann í Tímariti Máls og menningar. Skáldsagan Punktur, punktur, komma, strik leit svo dagsins ljós 1976. Þorsteinn Jónsson kvikmyndaleikstjóri gerði eftirminnilega kvikmynd eftir bókinni sem naut mikilla vinsælda. Bókin var sú fyrsta af fjórum um söguhetjuna Andra en síðasta Andrabókin, Sagan öll, var tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 1987. Ævisagu Péturs um Þórberg Þórðarson, ÞÞ - Í fátæktarlandi, hlaut Viðurkenningu Hagþenkis 2009. Pétur hefur einnig fengist við þýðingar og hlaut þýðing hans á Frú Bovary eftir Gustave Flaubert Menningarverðlaun DV 1996. Árið 2023 hlaut Pétur Íslensku þýðingaverðlaunin fyrir þýðingu sína á Játningunum eftir Jean-Jacques Rousseau.
Mynd af höfundi: Jóhann Páll Valdimarsson.
Frá höfundi
Af hverju skrifarðu?
Já, þessi spurning! Hvað skyldi maður hafa svarað henni oft og fróðlegt væri að sjá yfirlit yfir svörin eftir því hvernig vindurinn blés það og það sinnið.
Samt er þetta spurning sem ég hef aldrei spurt sjálfan mig. Áreiðanlega ein af þeim sem má ekki eiga sér neitt einhlítt svar. Það væri annað en gaman ef einhver spyrði ástina sína: af hverju elskarðu mig? Og fengi svar!
Eitt og annað má þó tína til, til að mynda er sennilegt að höfundurinn hafi á mótunarárum orðið fyrir reynslu af lestri sem hafi vakið honum löngun til að endurskapa töfrana sjálfur. Ég minnist hvítu bókahallarinnar í Þingholtsstræti og orðsendingarinnar dularfullu sem var límd inn á hvert bókarspjald: „Komi upp smitnæmur sjúkdómur á heimili lánþega ber að tilkynna það safninu tafarlaust.“
Hér með tilkynni ég hina smitandi lestrarfíkn: Enid Blyton og Fimm-bækurnar, Örn Klói með sinn íslenska Tarzan, Bláu bækurnar, Ódisseifskviða… Ég man eftir bókastafla við höfðagaflinn, margar af bókunum löngu útrunnar og teknar að safna óheyrilegum sektum.
Og ekki má gleyma bókabúðum sjötta og sjöunda áratugarins. Þá voru bækur ekki komnar í þessa órjúfanlegu verju sem nú tíðkast (til að koma í veg fyrir smit?) og maður gat með því að kaupa eina bók átt aðgang að öllum hinum bókunum í búðinni, ef maður aðeins gætti þess að brjóta hana ekki um kjölinn. Fljótlega komst maður upp á lag með að lesa bók eins og að horfa í gjá. Að lestri loknum var hlaupið með bókina niður í bæ og henni skilað fyrir aðra í einhverjar af hinum óteljandi bókabúðum miðbæjarins. Í þá tíð var fernt talið óteljandi á Íslandi: eyjarnar á Breiðafirði, hólarnir í Vatnsdalnum, vötnin á Arnarvatnsheiði og bókabúðirnar í miðbænum.
***
Um þessar mundir berst veruleikinn okkur í gegnum holskeflu net- og myndmiðla uns svo er komið að áhrifamiklir kenningasmiðir boða að hann sé gufaður upp eða öllu heldur tilbúningur á við hvern annan.
Í slíku gerningaveðri verður hlutskipti höfundarins að hæla niður þau verðmæti sem hann vill ekki sjá fjúka út í veður og vind. Viðnámið gegn gleymskunni. Að hugbúnaði okkar steðjar vírus sem enginn veit hvaðan kemur en er prógrammeraður til að þurrka út af eins mörgum skrám og mögulegt er.
Viðleitni höfundarins verður einskonar villuforrit sem miðar að því að koma í veg fyrir skemmdir, forða því að verðmæti glatist og samhengið rofni.
***
Við upphaf ferils finnst höfundinum að velgengni sé komin undir því að fá nógu góða hugmynd. Hann er eins og gullgrafari sem sigtar dögum saman rennslið í ánni í von um gullkorn. Eftir því sem fram í sækir finnst honum líkast því að hann sé staddur djúpt í iðrum jarðar og verði að halda á spöðunum ef honum á að endast ævin til að koma broti af þeim verðmætum sem hann þykist skynja upp í dagsljósið.
Pétur Gunnarsson, 2002
Um höfund
Hér að neðan má lesa greinar þeirra Gunnþóru Guðmundsdóttur og Rósu Maríu Hjörvar um verk Péturs Gunnarssonar.
„Svo lífið hverfi ekki sporlaust“: Um verk Péturs Gunnarssonar
Að fanga hversdagsleikann og koma honum á bók er margþætt viðfangsefni. Annars vegar getur það falist í því að reyna að lýsa því smáa í lífinu, þessu sem við tökum ekki eftir í daglegu amstri, en eru samt þræðir í þeim vef sem líf okkar myndar, þ.e.a.s. það ferli að búa til skáldskap úr hinu ofur venjulega. Hins vegar getur það falist í að finna skáldskapinn sem fyrir er í daglegu lífi, beina sjónum að kraftaverkunum sem felast í hversdeginum og gefa þeim merkingu. Í verkum sínum hefur Pétur Gunnarsson helgað sig þessu verkefni og öllum hliðum þess. Kannski má leiða að því líkum að val hans á verkum í tímamótaþýðingum hans hafi líka mótast af þessum áhuga: Flaubert (Frú Bovary) með sínar hversdagslegu sögupersónur (sem er ekki það sama og hvunndagshetjur) – og Proust sem reynir að varðveita hverja endurminningu, hvert brot af ævinni í verki sínu Í leit að glötuðum tíma. Þetta ferli lýsir ekki eingöngu einhvers konar bókmenntalegum áhuga á hversdeginum, eða því að höfundurinn hafi dottið niður á hentugt og gjöfult viðfangsefni, heldur virðist hér um að ræða mjög sterka þörf fyrir að koma í veg fyrir að lífið hverfi eða gleymist, og þessari þörf er reynt að svala með því að skrifa. Þetta kemur fram á margvíslegan hátt í verkum Péturs, í skáldsögum hans og „vasabókum“, en með vasabókunum hefur hann grundvallað form verkanna sérstaklega á þessum tilgangi – þar má líka segja að lesandi fái innsýn í hráefni skáldskaparins.
Í Persónum og leikendum segist Andri, söguhetjan í fjögurra bóka þroskasögu hans, ætla að skrifa skáldsögu og Bylgja spyr um hvað hún eigi að vera: „Aðeins skáldskapurinn getur forðað okkur frá því að deilast í æ minni menn, byrjaði Andri. Þörfin hefur aldrei verið jafn brýn að tengja saman þessi litlu brot sem veruleikinn hefur sundrast í og með því að lesa bókina rennur upp fyrir lesandanum samhengið. Við verðum að taka inn í skáldskap það sem við missum í veruleikaamstrinu.“ (Persónur og leikendur, s. 103).
Að vissu leyti má segja að eitt af hugðarefnum rithöfunda síðustu þrjátíu árin eða svo, séu tengsl skáldskapar og veruleika. Stundum hefur þetta birst í auknum áhuga á sjálfsævisöguforminu, þar sem er sérstaklega beint sjónum að því hvernig skáldskapur miðlar veruleika og stundum birtist það í verkum sem einblína á möguleika og takmörk skáldskaparins við að tengjast veruleikanum. Í verkum Péturs birtist þetta í skálduðum ævisögum, hvort sem það er uppvöxtur Andra í Punktur punktur komma strik (1976), Ég um mig frá mér til mín (1978), Persónum og leikendum (1982) og saga hans og Guðmundar Andra í Sögunni allri (1985); ævi fjölskyldu ef svo má segja í Hversdagshöllinni (1990) og Efstu dögum (1994), og loks er það ævisaga Íslands í fullum skilningi orðsins sem Pétur hefur hafið í Myndinni af heiminum (2000) – undantekningin væri þá líklega glæpasagan Heimkoma (1997) sem þó snertir á nokkrum hugðarefnum höfundarins.
Strax í fyrstu skáldsögum Péturs koma fram mörg hans helstu viðfangsefni og höfundareinkenni. Bækurnar um Andra eru umfram allt borgarbókmenntir. Borgin er ávallt í aðalhlutverki, því þótt það sé skroppið úr bænum og jafnvel í sumardvöl í sveit er sjónarhornið alltaf úr bænum. Borgin er sjálfsagður hlutur sem þarf ekki að skilgreina eða útskýra – það er þar sem hversdagurinn gerist. Áhugi á borginni sem sögusviði kemur líka skýrt fram í greinum hans um bókmenntir, til dæmis í greinasafninu Sykri og brauði (1987) þar sem hann hælir bók Hafliða Vilhelmssonar sérstaklega fyrir viðfangsefni hennar: „hversdagslegt borgarlíf“ (Sykur og brauð, s. 38). Ef einhvers konar samanburður á sér stað, þá er það ekki hin hefðbundna og margumrædda sveit og borg, heldur miklu frekar Ísland og útlönd. Þetta kemur skýrt fram í lýsingum á ferðalögum Andra og heimkomu. En það er í þeirri spennu þegar fólk kemur heim eftir langdvalir í útlöndum sem samanburðurinn fær um sumt sína dramatísku spennu og í Heimkomu (1997), birtist þetta mjög skýrt. Hér er ekki lýst ferð frá sveit í borg, nema í þeim skilningi að Ísland sé einnþá sveitin og útlönd endalaus stórborg, heldur er hér fjallað um Íslendinginn sem er orðinn útlendingur og þarf að sættast við þjóðina.
Annar þáttur í höfundarverki Péturs birtist strax í fyrstu skáldsögunum en það er vald hans á, leikgleði með, forvitni um og áhugi á tungumálinu – svo úr verður frjór, en léttur stíll sem kemur lesandanum sífellt á óvart. Hann er meistari orðaleikjanna: „Strindberg finnst á Vestfjörðum“ (Ég um mig frá mér til mín, s. 14), og hefur gaman að viðsnúningi tungumálsins, stundum bókstaflega eins og Svanur í Persónum og leikendum sem er sérstakur áhugamaður um það efni og snýr Marx í Schram. Pétur setur líka fram óvæntar tengingar á annan hátt, oft með persónugervingu og samlíkingum. Samband og líkindi með dýrum og mönnum nær oft fram skemmtilegri sýn á hvorutveggja og er það áberandi strax í fyrstu skáldsögu hans: „Kötturinn kom labbandi, nam staðar og hnusaði af þessu gúmmídýri með hor, rak loppuna tvisvar þrisvar í pollinn til að athuga hvort vatnið væri blautt: milljörð þróunarsaga dugði ekki til að hann gæti stimplað það inn í eitt skipti fyrir öll, hvað þá að hann gæti fengið sér vaðstígvél“ (Punktur punktur komma strik, s. 20-21). Orðaforði verka hans sækir í sannfærandi talmál sem er samofið sterku bókmáli og orðaforðinn ber því samtímanum vitni án þess að fylgja beinlínis tískusveiflum í slangri.
Andrabækurnar, sem fyrr voru nefndar, lýsa ákaflega skemmtilegri uppvaxtar- og þroskasögu, enda urðu þær fljótt mjög vinsælar og gerð var kvikmynd eftir þeim fyrstu. Undirtitillinn gæti vel verið „Hvernig maður verður til“, því þar er sérstaklega gefinn gaumur að tilurð sjálfsmyndar. Kannað er hvað verður úr efniviðnum sem er svo óljós til að byrja með og er varla til og virðist við það að breytast í kameljón á unglingsárunum, því eins og titillinn ber með sér er í Ég um mig frá mér til mín lýst stöðugri leit unglingsins að sjálfi, sem síðan í Persónum og leikendum verður að leit að skáldinu í sjálfinu, en allt er enn óljóst því „karakterinn strokast út á nóttunni“ (Persónur og leikendur, s. 22), og í Sögunni allri er persóna sem á bókstaflega við þetta vandamál að stríða vegna minnisleysis og gleymska hans gerir að verkum að hann þarf stöðugt að vera að búa sig til (Sagan öll, s. 269). Þessar vangaveltur um sjálfsleit og sjálfsmynd endurspeglast líka þegar fjallað er um muninn á skáldskap og veruleika. Í Hversdagshöllinni ræðir sögumaður hvernig bíómyndir leika líf okkar: „Á bíó er lífið loks eins og hugur manns [. . .] þetta líf sem við erum af veikum mætti að reyna að framkalla í görðum og ruslaportum og bak við hús – hér springur það út“ (Hversdagshöllin, s. 103-4). En bíómyndir eru samt á einhvern hátt ófullnægjandi: „Á bíó er lífið miklu kjarnyrtara en hversdagsleikinn. Samt á vissan hátt þrengra, til dæmis sést aldrei maður á klósettinu og sjaldan borðuð heil máltíð eða sofið út“ (Hversdagshöllin, s. 104).
Í Hversdagshöllinni segir að það séu bara járnbrautir og skáldsögur sem ganga eftir beinni línu, veruleikinn fari alltaf krókaleiðir (Hversdagshöllin, s. 152), og það eru þessar krókaleiðir sem Pétur kannar. Viðburðasnauður hversdagurinn heillar og Pétur lýsir því í greinasafni sínu Aldarför (1999) að hann haldi mest upp á janúar, febrúar, mars, því þeir séu hinir sönnu hversdagsmánuðir, (Aldarför, s. 7). Það er ekki endilega einfalt mál að festa hversdagsleikann á bók. Á því eru margvíslegar lausnir og möguleikar og áhugi Péturs er margþættur; hann frystir augnablikið, gerir tilraun til að „ná“ veruleikanum, og skrifa um hinn hversdagslega veruleika, en líka hið sérkennilega og einstæða og stórmerkilega í hinu smáa og síðast en ekki síst kannar hann hvar mörkin liggja milli veruleika og skáldskapar. Þessi margþætti áhugi sést til dæmis í titlinum á Hversdagshöllinni, en það orð hafði komið fyrir áður í höfundarverki hans, þar sem að Í Sögunni allri er fjölskylduheimilið kallað hversdagshöllin (21). Að mörgu leyti mætti halda því fram að Sagan öll sé hjarta verka Péturs og miðja hingað til, því þar má finna kjarnann af flestum þeim viðfangsefnum, formeigindum og stíleinkennum sem sjá má í mismunandi hlutföllum í öllum verkum hans. Þegar talað er um fjölskyldusögur er yfirleitt átt við verk sem rekja sögu nokkurra kynslóða í anda Galsworthy og Mann, en í Sögunni allri einbeitir Pétur sér að mestu að smæstu einingu hennar, hjónum með eitt barn, sem er í senn nútímabirting fjölskyldunnar og sú eining sem allir hinir angar fjölskyldunnar snúast um. Umræða um hversdagsleikann er fyrirferðarmikil, því hér höfum við söguhetju sem haldin er minnisleysi og verður því að skrifa allt niður til að halda því til haga, og svo vinnur hann heima, þar sem hversdagurinn sannarlega býr og þar sem hlúð er að því smáa. Það sem liggur einnig að baki kallinu um að frysta augnablikið er hræðslan við gleymskuna. Þessi hræðsla við gleymsku hefur ekki einungis hlotið einkalega skírskotun í nútímabókmenntum, heldur einnig pólitíska eftir seinni heimsstyrjöldina, það er kannski grunnur þess að minnislausi maðurinn Guðmundur Andri er ein áhrifamesta persónan í verkum Péturs. Hann bendir á að eitthvað sem skrifað er niður gerist aftur og aftur (Sagan öll, s. 266), og höfundurinn berst því gegn minnisleysi fyrir hönd okkar allra. Í Sögunni allri tekst Pétur fyrst markvisst á við hversdaginn, hversdaginn sem er fullur af kraftaverkum, (Sagan öll, s. 41). Þessi þörf fyrir að fanga augnablikið og koma í veg fyrir að það hverfi hefur líka í för með sér angist og ótta. Í Sögunni allri segir:
„Er ekki nóg að lifa bara til að lifa? Þarf að lifa til einhvers sérstaks? Lifa til að vélrita?
Ég er að taka til í stofunni, úti snjóar, Hringur þríhjólar hringi á stofugólfinu, upptekinn af listinni að hjóla. Hring eftir hring.
Að þetta mætti alltaf vara, hugsa ég og þreifa á hamingjunni, strax byrjaður söknuð yfir því að það skuli eiga eftir að líða.
Ætli sé áhrif frá bíó þessi hugmynd sem við yfirfærum yfir á lífið: atburðarás sem rennur í gegn með sjálfan mann í miðpunkti?
En það gengur ekki upp og mismunurinn milli veruleikans og hugmyndarinnar veldur vanlíðan. Við þurfum að búa okkur til Á HVERJUM DEGI! Það er alltaf verið að breyta handritinu. [. . .]
Þótt það taki enda, þótt það gengi mér úr greipum, þá er ég hér og nú með gólfkúst og fægiskúffu og Cheek to cheek á fóninum – hamingjusamur.
Og ekki orð um það meira!“ (Sagan öll, s. 268-9).
Pétur bendir líka á að skáldskapurinn er stundum óþarfur eins og í ferðalýsingu í Sykri og brauði (s. 65), þar sem veruleikinn er nægilegur í öllum sínum sérkennileika. Í „vasabókum“ Péturs (Vasabók 1989 og Dýrðin á ásýnd hlutanna 1991) er lofsöngur til augnabliksins, þar ætlar hann að handsama lífið á bók (Vasabók, s. 14), breyta því sem minnst og skilja skáldskapinn eftir og allan tilbúning, koma hversdeginum beint til skila. Vasabækurnar hafa nokkur einkenni dagbóka, að því leyti að þar er ekki verið að túlka atburði með hjálp eftirávitneskju, heldur er verið að halda skrá yfir það sem hversdagurinn býður uppá. Þær samanstanda af stuttum köflum, en stundum verður úr nokkurs konar atburðarás, eins og þegar segir frá utanlandsferð (Vasabók, s. 20-22). Við fyrstu sýn er því um nokkurs konar formleysi að ræða, en þegar nánar er að gáð birtast stef og eins konar viðlög, eins og tafl drengjanna í Vasabók. Í Dýrðin á ásýnd hlutanna segir Pétur hversdaginn mora í atburðum (s. 9) og lýsir því yfir að hann vilji gera allt að skáldskap (s. 17). Hlutverk vasabókanna er líka að varðveita augnablikið frá gleymsku, „svo lífið hverfi ekki sporlaust“ (Dýrðin á ásýnd hlutanna, s. 11), þess vegna þarf að hafa þær á sér, ekki er nóg að setjast og skrifa niður þegar heim er komið því það týnist alltaf eitthvað á leiðinni. Hér erum við sannarlega komin út fyrir mörk skáldskaparins og þessi verk lýsa sterkri þörf fyrir að beintengja textann við veruleikann.
Það er eitt æviskeið öðru fremur sem er í forgrunni í verkum Péturs og það er bernskan. Henni er lýst frá sjónarhorni barnsins, sem að sjálfsögðu hefur þann hæfileika að skynja kraftaverkin í hversdeginum. Mótvægið er síðan að skoða bernskuna frá sjónarhorni föður, sem horfir á barn sitt og reynir að túlka sýn þess og leiki, og reynir að sjá heiminn sem barn, til að finna í honum skáldskapinn, og segir hann í Dýrðin á ásýnd hlutanna „ef maður gæti skrifað eins og börn leika sér“ (s. 40). Stundum er fjallað um horfna bernsku, og stundum um bernskuna sem er allt um kring en við tökum sjaldnast eftir. Bernskan er ekki rómantíseruð á hefðbundinn hátt, og ekki gert lítið úr hættum hennar og óöryggi. Hins vegar er sýn barna á lífið sett fram sem mótvægi við því ástandi að taka lífinu sem sjálfsögðum hlut. Lokaorðum í Sögunni allri er beint til barns: „þú fylltir þennan kalda geim af lífi“ (Sagan öll, s. 273).
Verk sem þessi þar sem fjölskyldulíf og hversdagurinn eru í forgrunni, fá ekki dramatískt ris sitt úr sérkennilegum og óvenjulegum atburðum. Hins vegar er nóg um dramatík hversdagsins, og má þá helst nefna skilnað sem er nokkurs konar leiðarstef í verkum Péturs (sjá til dæmis Myndin af heiminum, s. 60). Það er þó nokkuð fjallað um feður sem standa að jafnaði utan við atburðarás hversdagsins og einingu fjölskyldunnar, „Pabbi er eins og bilaður boðháttur“ (Sagan öll, s. 147), segir í Sögunni allri, en þar er líka gefin mynd af annars konar föður, þess sem verður að miðju fjölskyldunnar.
Tengslum Péturs við íslenska bókmenntahefð er nokkuð öðruvísi háttað en maður ætlar við fyrstu sýn. Laxness er svo viðamikill í íslenskum bókmenntum að hjá Pétri kemur hann hreinlega fyrir sem persóna. Strax í fyrstu skáldsögunni bregður honum fyrir (Punktur punktur komma strik, s. 24) og í Persónum og leikendum, bókinni sem fjallar um að verða skáld, er hann stöðug nærvera: „staddur á tímabilinu Halldór Guðjónsson frá Laxnesi 1921“ (Persónur og leikendur, s. 10). Í því verki er það partur af því að verða íslenskur höfundur að ganga í gegnum laxnesskt tímabil.
Pétur hefur gefið út tvö greinasöfn, Sykur og brauð og Aldarför. Þar fæst ágæt innsýn í skáldskaparhugsun hans, bæði þar sem hann fjallar um eigin verk og annarra. Í Aldarför fjallar hann um Þórberg Þórðarson og segir meðal annars að „Suðursveitarbálkurinn er kennslubók í því hvernig hversdagslíf getur öðlast ævarandi líf í sögu“ (Aldarför, s. 105). Hann ber saman Þórberg og Proust og segir þá báða lýsa Paradís sem þeir hafa glatað, og ekki síður: „báðir látast vera að rekja kórrétta ævisögu og sefja lesandann til skilyrðislauss fylgilags, en skálda svo óhikað þegar þeim býður svo við að horfa“ (Aldarför, s. 127). Þegar allt kemur til alls kann Pétur alls ekki að vera arftaki Halldórs Laxness heldur miklu fremur Þórbergs Þórðarsonar – sem dæmi má nefna lýsingar á daglegu lífi, eins og þegar Þórbergur lýsir sínu daglega og viðburðalitla amstri í kaflanum „Rigningarsumarið mikla“ í Ofvitanum, eða þegar hann fléttar hið skáldlega í hversdaginn eins og í fundinum við elskuna í Íslenskum aðli. Hann var ekki síður brautryðjandi í skrifum um bernskuna í Sálminum um blómið, þar sem hversdagurinn er uppfullur af kraftaverkum.
© Gunnþórunn Guðmundsdóttir, 2002
Að tjá tilvist sína
Hér eru til umfjöllunar bækur Péturs Gunnarsonar á árunum 2002 – 2018 en þá komu út Leiðina til Rómar og Vélar tímans sem eru framhald af sagnabálknum Skáldsaga Íslands sem hófst árið 2000 með útgáfu bókarinnar Myndin af heiminum. Auk þess gaf hann út skáldsöguna Íslendingablokk (2012 ) og þrjár endurminningarbækur, Veraldarsaga (mín) aldarfarsbók (2013), Veraldarsaga mín – ævisaga hugmynda (2014) ) og Skriftir – örlagagletta (2016).
Ævisöguleg skrif
segðu eitthvað svo ég finni eitthvað
svo ég viti eitthvað
svo ég viti eitthvaðsvo ég sé eitthvað
Skriftir: örlagagletta, bls. 18
Þessar línur koma fyrir í endurminningarbók Péturs Gunnarsonar þar sem hann rekur ævi sína sem rithöfundur, frá því að hann hóf ferilinn sem ungt og upprennandi ljóðskáld og þar til dagsins í dag þar sem hann hefur fest sig í sessi sem framsækinn og áhrifamikill höfundur. Í ljóðinu sést greinilega hversu mikið vægi tjáningin, og þar með textinn, hefur í þeirri hugsun sem mótar höfundarverk Péturs á þessum árum. Það er ekki endilega það sem að maður segir sem skiptir máli, heldur hvernig það er sagt og það að segja eitthvað. Þannig er það sjálfur skáldskapurinn sem er þungamiðja þessara verka.
Á tímabilinu koma út þrjú ævisöguleg verk, Veraldarsagan (mín) aldarfarsbók (2013) Veraldarsagan mín (2014) og Skriftir: örlagagletta (2016). Það er mikilvægt að taka fram að hér er ekki um þrjár gjörólíkar bækur að ræða. Þetta er sama sagan: ævisaga Péturs með sérstaka áherslu á mótunarár hans. Munurinn á bókunum er nálgunin, annarsvega nálgast höfundur ævisögu sína út frá þeirri þróun á hugmyndafræði sem á sér stað á æviskeiði hans og hinsvegar skoðar hann líf sitt út frá listinni. Margt kemur fyrir aftur í bókunum, en það sem breytist er nálgunin. Þannig bera þessar ævisögur með sér eitt aðal höfundareinkenni Péturs Gunnarssonar, en það er einmitt þessi stöðuga endurnýting á efni sem birtist lesanda aftur og aftur í nýju samhengi eða með nýjum áherslum. Með þessu skapar höfundur ákveðin minni sem eru hluti af ritverkum hans. Þessi minni eru til staðar í öllum skrifum Péturs, ekki bara ævisögulegum skrifum hans. Sem dæmi má nefna Óla Torfa í Kaupmannahöfn sem birtist lesendum í þessum æviskrifum en er einnig vísað til í skáldsögunni Leiðin til Rómar (bls. 94). Þannig myndar bækur Péturs einskonar uppflettirit í ætt við höfundinn Jorge Luis Borges, sem hægt er að lesa á margvíslegan hátt.
Pétur lýsir því hvernig frásagnir verða til í Skriftum: örlagaglettu. En þar segir hann sögu af kunningja sem er í slæmu ásigkomulagi: „Mig tók þetta sárt, ég fann til með honum en um leið fann ég næstum óþægilega hvernig atvikið tók á sig mynd söguefnis. Samlíðan og ritvinnsla í sömu andrá“ (bls. 55).
Þannig raðar höfundur jafnóðum veruleikanum í frásagnir en verður fyrir vikið klofinn í nærveru sinni. Á annan bóginn er höfundurinn þannig meira til staðar en flestir aðrir í því sem á sér stað, en á hinn bóginn er hann víðs fjarri í huganum, upptekinn við að færa það í frásögn. Þessi lýsing á stöðu höfundar ber keim af einmanaleika sem er annars ekki áberandi í þessum verkum, þar sem höfundur fjallar um samferðafólk, ástvini og dýr. Hrafnhildur kona hans á þar heiðursæti og líf þeirra, frá tilhugalífi í Reykjavík til hreiðurgerðar í Aix-en-Provence, er lýst af mikilli hlýju og nærgætni. Hversdagurinn er það sem allt hverfist um í skrifum Péturs og gætir þar kannski áhrifa frá föður hans sem lagði metnað sinn í að móta umgjörð heimilisins:
„… eldhúsinnréttingin í risinu var listasmíð, að koma öllum þessum skápum og skúffum fyrir í jafnlitlu rými. Innréttinguna málaði hann kaffibrúna með ljósbláu og hvítu rósaflúri, endurtekið í hverri skúffu og skáphurð. Svo mikilvægt að ljá hinu hversdagslega fegurð“ (Veraldarsaga mín, bls. 131).
Gunnar, faðir Péturs, ætlaði sér að vera listmálari, en lífið tók völdin og í staðinn myndskreytir hann þann heim sem honum er gert að búa í og er þannig gott dæmi um list sem fær ekki að verða en er fangi hversdagsamstursins.
Borgin leikur líka ávallt stórt hlutverk í verkum Péturs, hvort sem það er Reykjavík fyrr og nú eða Aix-en-Provence þar sem hann nam heimspeki og hóf rithöfundarferilinn. Í lýsingum á Aix styðst höfundur mikið við málverk Cézanne og leyfir lesendum að ganga inn í þau.
Reykjavík birtist í verkunum bæði sem hún sjálf og sem andstaða þessara evrópsku borga. Pétur dregur upp einlægar myndir af hversdagslífinu hjá alþýðufólki í Vesturbænum. Af blankheitum, fótbolta og skólagöngu kynslóðanna. En er um leið að lýsa veröld sem var, ekki bara í þeim skilningi að þetta sé liðin tíð, heldur einnig vegna þess að um leið og höfundur stígur út úr þessari veröld, þá getur hann aldrei orðið hluti af henni aftur. Við það að búa erlendis öðlast hann aðra sýn á heimahagana. Það sést vel á þessari tilvitnun, hvernig hann upplifir borgarmenninguna í Reykjavík eftir dvöl erlendis: „Man eftir balli í Glaumbæ sem hafði verið fastur viðkomustaður menntaskólaáranna en virkaði nú eins og uppstoppað barnaafmæli“ (Veraldarsaga mín, bls. 15).
Það má ekki skilja það þannig að heimsborgarinn Pétur sé orðinn of stór fyrir Reykjavíkina sína. Það er svo langt því frá, hann heillast stöðugt af borginni og íbúum hennar og þessi verk búa yfir fjölmörgum lýsingum af þeim persónum sem gæða borgina lífi. Allir vel staðsettir í sínu rétta umhverfi; Steinar Sigurjónsson í bókabúð Máls og menningar, Alfreð Flóki á Bárugötu, Tómas Guðmundsson á skrifstofu Almenna bókafélagsins í Austurstræti og þar fram eftir götunum. Fyrir vikið verða þessar persónur ekki furðufuglar eða klippimyndir úr glanstímaritum, heldur birtast þær lesanda sem hluti af því samhengi sem þær lifðu og hrærðust í.
Einn maður er alltaf til staðar, þó að hann komi aðeins einu sinni fyrir í eigin persónu. Það er Nóbelsskáldið Halldór Kiljan Laxness. Hann er yfir og allt um kring. Pétur er 18 ára þegar Halldór hlýtur Nóbelsverðlaunin og segir meðal annars: „Í Brekkukotsannál Halldórs Laxness segir að loftið í bænum hafi verið hrannað af nafni heimssöngvarans Georgs Hanssonar. Sama gilti um Halldór, loftið var hrannað af honum“ (Skriftir: örlagagletta, bls. 45). Pétur segist líka sjálfur hafa viljað feta í fótspor hans, en við lestur þessara ævisögulegu skrifa er Þórbergur Þórðarson líklega lesanda ofar í huga.
Bókmenntir eru á þessum tíma stórpólitískt mál í landi, sem virðist aldrei ætla að brjóta af sér klakabönd eftirstríðsáranna. Pétur er að upplagi ekki mikill áhugamaður um pólítík, en hlutleysi er ekki í boði. Pétur þarf, eins og aðrir Íslendingar, að taka afstöðu til málefna samtímans, sem kljúfa þjóðina í herðar niður og valda stöðugum óróleika, jafnvel meiri en þekktist í Evrópu samtímans. Eða eins og hann lýsir sjálfur: „Að koma til Íslands var fyrir vikið eins og að lenda í hvirfilstrók mitt í umlykjandi logni, hvergi í Vestur-Evrópu, mögulega að undanskildu Vestur-Þýskalandi, var þjóðmálaumræða á viðlíka stigi“ (Veraldarsagan mín, bls. 99).
En það er ekki bara íslenskur raunveruleiki sem leiðir Pétur inn í heim stjórnmála. Heimspekin gerir það líka, á leslista er Marx og fyrr en varir er hann kominn á kaf í stjórnmálaheimspekina sem litar sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar. Gagnrýn hugsun og rökræður um hana þróast í einhverskonar keppnisíþrótt og skeggjaðir menn sitja tímunum saman á rökstólum með pípur á lofti. Í verkunum finnum við fyrir togstreitunni á milli þess að taka þátt í þessu karlasporti og meðvitundinni um fjarveru kvennanna. En þrátt fyrir að gera sér grein fyrir kvenmannsleysinu gerir höfundur lítið til þess að bæta það upp og fjallar að langmestu leyti um karlmenn. Hann lýsir því einlæglega hvernig textarnir smátt og smátt nálgast brún mannlegs skilnings og verða með Gillez Deleuze (1925 - 1995) og félögum svo torskildir að tungumálið nær ekki að miðla þeim.
Í Veraldarsögunni minni eru endurminningar birtar í bland við bréf og ljóð úr fyrstu ljóðabók Péturs, Splunkunýr dagur (1973). Þegar að er gáð þá fyrirfinnst munur á þroskaðri höfundar rödd Péturs Gunnarsonar og rödd hins unga Péturs sem veit ekki enn að hann verður höfundur. Í bréfunum frá Aix er meiri dramatík, átakalínurnar fyrirferðameiri, stærri tilfinningar. Í endurminningunum er hversdagsleikinn fyrirferðameiri, smáatriðin vega meira og allar litlu tilfinningarnar fá að njóta sín. Efnið er það sama, en framsetningin og áherslurnar breytast.
Skáldverk
„Ekkert heldur mynd sinni, en náttúran, hinn mikli endurskapari, býr alltaf til nýja líkami úr öðrum. En þið megið trúa því að ekkert glatast í heiminum, það breytist aðeins og endurnýjar ásýnd sína.“
Úr Ummyndunum Óvíds, 15. bók. Þýð. Kristjáns Árnasonar.
Í þessari tilvitnun birtist kjarninn í höfundarhugsun Péturs á þessum árum sem er hvað skýrust í verkinu Íslendingarblokk (2012) sem einmitt hefst á orðum Óvíds. Við erum stöðugt að endurnýta sama efnið. Þessa staðreynd er strax að finna í titli verksins sem má skilja sem bæði vísun í Íslendingabók Ara fróða og jafnframt í Íslendingabók Íslenskrar erfðagreiningar. Svo er nafn bókarinnar nákvæm lýsing á innihaldi hennar, þar sem hún fjallar um Íslendinga sem búa í blokk. Svona orðaleikur sem jaðrar við orðagrín er áberandi í skrifum Péturs. Textinn er mettaður af litlum tilvísunar útúrdúrum og orðaglensi. Þegar vel tekst til gerir það verkin lifandi og létt.
Í Íslendingablokk kynnumst við meðal annara Hreggviði og Indriða, þeir hafa misst eiginkonur sínar og eru komnir við aldur, takast á við lífið og biðina eftir að því ljúki. Glöggir lesendur kannast kannski við Hreggvið, en hann kemur fyrir í framhjáhlaupi í Myndinni af heiminum (bls. 34). Hann varð fyrir því þegar hann var sjómaður að sjá fljúgandi furðuhlut sem breytti lífi hans til frambúðar. Í þessu verki fær Hreggviður að njóta sín og við fáum alla söguna. Sögur af Indriða og Hreggviði fléttast saman við líf annarra íbúa í blokkinni og mynda skemmtilega og hugljúfa frásögn af íslenskum raunveruleika.
Þessi skrásetning af lífi Íslendinga inniheldur vissulega ekki atburði á borð við stofnun Alþingis eða kristnitöku því í nútímasamfélagi einstaklingshyggjunnar eru það litlu frásagnirnar sem skipta máli.
En þó að verk Péturs Gunnarssonar hverfist um hið smáa, veigrar hann sér aldrei við að sjá stóru frásögnina í minnstu brotunum. Það sést einna best í verkunum Myndin af heiminum (2000), Leiðin til Rómar (2002) og Vélar tímans (2004) eða Skáldsaga Íslands I -III. Þar er öll mannkynsagan undir, ásamt flestum öðrum frásögnum sem fyrirfinnast í öllum kimum mannlegrar þekkingar. Við það bætist svo samtími verkanna, sem viðmið fyrir lesanda, og þannig má segja að þó umfjöllunarefnið sé frá upphafi heimsins fram á 15. öld, þá haldi það áfram fram á okkar daga í samtali höfundar við lesendur. Pétur tekur sér stöðu á svipaðan hátt og miðaldaskáldin og byrjar á byrjuninni: „Í upphafi er þögn. Ekki svo mikið sem skrjáf í karamellubréfi, enginn sem ræskir sig eða hóstar, ekkert nema óendanlega smár og heitur orkupunktur sem þéttist og hitnar uns - verði ljós! - efnið ryður sér til rúms í sprengingu sem enn í dag lætur öll lýsingarorð fölna“ (Myndin af heiminum, bls. 7).
Það er algengt stílbragð í þessum verkum að höfundur brjóti fjórða vegginn, ávarpi lesandann og dragi veruleika 21. aldarinnar inn í verkið. Eins og sést í dæminu hér að ofan þar sem höfundur stillir samman karamellupappír og Miklahvell. Seinna í verkunum minnist hann á bæði Georg W. Bush og tvíburaturnana. Með þessu er lesandanum stöðugt gerð grein fyrir frásögninni og uppbyggingu hennar. En það gerir líka að verkum að verkin verða hluti af þeim tíma sem þau voru skrifuð. Höfundur er í Reykjavík í upphafi 21. aldar sem er vissulega nær okkur í tíma en evrópskar miðaldir, en engu að síður fyrir tíma Donald Trump og yfirtöku samfélagsmiðla. Í Vélum tímans er aðalpersóna Nathan Fróðason, en í Myndinni af heiminum og Leiðinni til Rómar er það Máni Ísaksson. Ef það er hægt að tala um aðalpersónu, því bækurnar flétta saman sögulegri skáldsögu með sögumanni og framvindu í bland við einskonar esseyjur um fræðin og tímann. Það glittir einstaka sinnum í þessar „aðalpersónur“, en þær bera ekki uppi textann nema að litlu leyti.
Í Myndinni af heiminum lýsir höfundur þróun heimsins fram að upphafi Íslandsbyggðar. Stíllinn er tær og höfundur heldur vel utan um lesanda. Leiðin til Rómar er mikið menningarsögulegt afrek og lýsir metnaði höfundar, hugmyndin um að tvinna saman sögu Íslands og evrópskrar menningar er skemmtileg en um leið mjög heimildaþung. Íslenska frásagnarhefðin með sinni ættfræði og örnefnum þvælist á köflum fyrir. En þegar vel tekst til er lesanda kippt inn í lifandi lýsingar á íslenskri sögu sem er af allt örðum toga en sú sem hann þekkir.
Vélar tímans hefst á yndislegri frásögn um Nathan Fróðason sem villist ásamt ungri stúlku um Suðurland í kjölfar svarta dauða. En þrátt fyrir hörmungarástand upplifa þau ásamt lesanda í örstutta stund íslenska náttúru sem einskonar paradís frelsis. Þessi lýsing er einstök í því hvernig hún fangar íslenska vorið og þessa óttablendnu ánægju sem náttúran býr yfir og hér sýnir Pétur Gunnarsson einstakan eigileika sinn til þess að umbreyta því hversdagslega í töfrandi frásögn. Stíllinn er tær og viðkvæmur en líka ósköp hversdagslegur og laus við tilgerð. Þegar líður á verkið taka hinar fræðilegu heimildir yfir og lesandi missir sjónar af þeim Nathani sem við kynnumst í upphafi. Það er hinsvegar engin ástæða til þess að örvænta því eins og farið hefur verið yfir hér að ofan er allt eins víst að við hittum hann aftur í öðru verki.
Þessar þrjár bækur eru gríðarlega metnaðarfullar og innihalda í raun alla sögu heimsins, en fyrir vikið er ekki auðgert að festa hönd á eiginlegt umfjöllunarefni þeirra. Það er hægt að líta svo á að Pétur sé með þessum verkum að gæða sagnfræðina lífi með skáldskap. En höfundur er samt ekki að leggja fram eina skýra útgáfu af mannkynssögunni. Í gegnum frásögnina opnar hann dyr, sáir efa og veltir vöngum. Og kannski er það einmitt það sem vakir fyrir höfundi, einhverskonar skáldleg afbygging á heimsmynd fræðanna?
Verk Péturs Gunnarssonar, hvort sem þau eru ævisöguleg eða skáldskapur, eru alltaf í tengslum við þróun hugmyndasögunnar og grundvallarspurningar heimspekinnar. Hver erum við og hvers getum við vænst af heiminum? Miklihvellur er í raun alltaf á bakvið frásagnirnar sem litast af tilraunum manna til þess að takast á við tilvist sína. En jafnframt ögrar höfundur bókmenntaforminu, teygir það og togar og reynir að hleypa í það lífi með nýjum aðferðum og blöndun við aðrar tegundir texta.
Rósa María Hjörvar, 2019
Greinar
Almenn umfjöllun
Eysteinn Þorvaldsson: „Að lesa ljóð og skilja: athugun á niðurstöðu grunnskólaprófs“
Skíma 1986 (2), s. 25 – 27
Helgi Skúli Kjartansson: „Í góðum höndum: sagnfræðin í sagnaflokki Péturs Gunnarssonar“
Tímarit Máls og menningar, 66. árg., 4. tbl. 2005, s. 108-114
Halldór Guðmundsson: „Milli Halldórs og Þórbergs. Pétur Gunnarsson á fremsta bekk íslenskra skálda“
Í Jón Karl Helgason og Torfi Tulinius (ritstj.): Af jarðarinnar hálfu. Ritgerðir í tilefni af sextugsafmæli Péturs Gunnarssonar. Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 2008, s. 118-125
Hrefna Haraldsdóttir: „Skáldatími: Pétur Gunnarsson“ (myndband)
Reykjavík: Hugsjón, 1998
Jón Karl Helgason og Torfi Tulinius (ritstj.): Af jarðarinnar hálfu. Ritgerðir í tilefni af sextugsafmæli Péturs Gunnarssonar. Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 2008
Jón Karl Helgason: „Splunkunýr höfundur. Mótunarár í Frakklandi“
Í Jón Karl Helgason og Torfi Tulinius (ritstj.): Af jarðarinnar hálfu. Ritgerðir í tilefni af sextugsafmæli Péturs Gunnarssonar. Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 2008, s. 19-31
Sigurður Pálsson: „Tilraun um textafrelsi og tvö ungmenni“
Í Jón Karl Helgason og Torfi Tulinius (ritstj.): Af jarðarinnar hálfu. Ritgerðir í tilefni af sextugsafmæli Péturs Gunnarssonar. Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 2008, s. 11-18
Snæbjörn Arngrímsson: „Rætt við Pétur Gunnarsson“
Bjartur og frú Emilía 1. tbl. 1991, s. 22-38
Soffía Auður Birgisdóttir: Tilraunir um veruleikann. Um huganir Péturs Gunnarssonar“
Í Jón Karl Helgason og Torfi Tulinius (ritstj.): Af jarðarinnar hálfu. Ritgerðir í tilefni af sextugsafmæli Péturs Gunnarssonar. Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 2008, s. 72-80
Soffía Auður Birgisdóttir: „Um innihaldsleysi: einkennist bókmenntaumræðan af ákveðnu innihaldsleysi á okkar dögum?“
Mímir 28. árg., 1. tbl. 1989, s. 5-9
„Skipst á skoðunum: Pétur Gunnarsson, rithöfundur, svarar spurningu blaðsins: Hvert er viðhorf þitt til almenningsbókasafna og bókavarða?“
Bókasafnið 7. árg., 1. tbl. 1983, s. 13
Torfi H. Tulinius: „Pétur Gunnarsson og list skáldsögunnar“
Í Jón Karl Helgason og Torfi Tulinius(ritstj.): Af jarðarinnar hálfu. Ritgerðir í tilefni af sextugsafmæli Péturs Gunnarssonar. Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 2008, s. 108-117
Torfi H. Tulinius: „Snorri og hans slægt i moderne nordisk litteratur“
Ordenes slotte (edited by Auður Hauksdóttir, Jørn Lund and Erik Skyum-Nielsen), pp. 31-38
Torfi H. Tulinius: „Pétur Gunnarsson (1947- )“
Icelandic Writers. Dictionary of Literary Biography, vol. 293, ritstj. Patrick J. Stevens, Detroit, Gale 2004, s. 283-294
Um einstök verk
Að baki daganna
Geirlaugur Magnússon: „Afturhvarf og endurkoma“
Tímarit Máls og menningar, 65. árg., 3. tbl. 2004, s. 119-122
Dýrðin á ásýnd hlutanna
Gunnþórunn Guðmundsdóttir: „Hversdagurinn á bók. Vasabók og Dýrðin á ásýnd hlutanna“
Í Jón Karl Helgason og Torfi Tulinius (ritstj.): Af jarðarinnar hálfu. Ritgerðir í tilefni af sextugsafmæli Péturs Gunnarssonar. Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 2008, s. 63-71
Efstu dagar
Guðrún Lára Pétursdóttir: „Sagan segir ... Um sagnfræði og raunveruleikastig í Efstu dögum“
Í Jón Karl Helgason og Torfi Tulinius (ritstj.): Af jarðarinnar hálfu. Ritgerðir í tilefni af sextugsafmæli Péturs Gunnarssonar. Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 2008, s. 95-107
Hjalti Hugason: „Símon og sr. Símon. Pælingar í Efstu dögum“
Í Jón Karl Helgason og Torfi Tulinius (ritstj.): Af jarðarinnar hálfu. Ritgerðir í tilefni af sextugsafmæli Péturs Gunnarssonar. Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 2008, s. 81-94
Hjalti Hugason: „. . .það er eins og sé ekkert pláss fyrir helgi í nútímanum . . ."
Tímarit Máls og menningar, 76. árg. 3. tbl. 2015, s. 18-38
Torfi H. Tulinius: „Skáldsagan sem bútasaumur“
Tímarit Máls og menningar 56. árg., 3. tbl. 1995, s. 115-119
Ég um mig frá mér til mín
Þórarinn Eldjárn: „Öndrur hinar nýjustu II“
Tímarit Máls og menningar 40. árg., 1. tbl. 1979, s. 124-126
Kristján Kristjánsson: „Andri og Guðmundur Andri. Það er spurningin“
Í Jón Karl Helgason og Torfi Tulinius (ritstj.): Af jarðarinnar hálfu. Ritgerðir í tilefni af sextugsafmæli Péturs Gunnarssonar. Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 2008, s. 32-41
Hversdagshöllin
Bergljót Soffía Kristjánsdóttir: „Að „lykta úr opinni Nifjakremsdós“. Um hugræna bókmenntafræði og Hversdagshöllina“
Í Jón Karl Helgason og Torfi Tulinius (ritstj.): Af jarðarinnar hálfu. Ritgerðir í tilefni af sextugsafmæli Péturs Gunnarssonar. Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 2008, s. 42-62
Íslendingablokk: tíðarandasaga
Auður Aðalsteinsdóttir: „Daufir karlar með sölnaða ritvélarborða“
Spássían 2013, 4. árg., vor/sumar, bls. 16-22.
Þorgeir Tryggvason: „Skrifaðu veröld“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2013, 74. árg., 4. tbl. bls. 127-30.
Persónur og leikendur
Matthías Viðar Sæmundsson: „Var það ekkert sárt?“
Tímarit Máls og menningar 45. árg., 1. tbl. 1984, s. 116-120
Kristján Kristjánsson: „Andri og Guðmundur Andri. Það er spurningin“
Í Jón Karl Helgason og Torfi Tulinius (ritstj.): Af jarðarinnar hálfu. Ritgerðir í tilefni af sextugsafmæli Péturs Gunnarssonar. Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 2008, s. 32-41
Punktur punktur komma strik
Kristján Kristjánsson: „Andri og Guðmundur Andri. Það er spurningin“
Í Jón Karl Helgason og Torfi Tulinius (ritstj.): Af jarðarinnar hálfu. Ritgerðir í tilefni af sextugsafmæli Péturs Gunnarssonar. Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 2008, s. 32-41
Sagan öll
Dagný Kristjánsdóttir: „Sagan öll : ritdómur“
Tímarit Máls og menningar 47. árg., 4. tbl. 1986, s. 512-521
Gísli Sigurðsson: „Ég að öllum háska hlæ“ – eða hvað? : um hugmyndir í bók Péturs Gunnarssonar, Sagan öll“
Teningur 2. árg., 2. tbl. 1986, s. 38-47
Sigurlaug Anna Gunnarsdóttir: „Að vera með minnið í bókum“
Ársrit Torfhildar 5. árg., 1991, s. 40-48
Kristján Kristjánsson: „Andri og Guðmundur Andri. Það er spurningin“
Í Jón Karl Helgason og Torfi Tulinius (ritstj.): Af jarðarinnar hálfu. Ritgerðir í tilefni af sextugsafmæli Péturs Gunnarssonar. Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 2008, s. 32-41
Skáldsaga Íslands
Friðrik Rafnsson: „Le peuple narrateur quelques aspects du roman Islandais contemporain“
Í Islande de glace et de feu. Arles: Actes sud, 2004
Helgi Skúli Kjartansson: „Í góðum höndum. Sagnfræðin í sagnaflokki Péturs Gunnarssonar“
Tímarit Máls og menningar, 66. árg., 4. tbl. 2005, s. 108-114
Torfi H. Tulinius: „Snorri og hans slægt i moderne nordisk litteratur“
Í Auður Hauksdóttir, Jörn Lund, Erik Skyum-Nielsen: Ordenes slotte: om sprog og litteratur i Norden. Reykjavík: Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, 2005, s. 31-38
Splunkunýr dagur
Kristján Jónsson: „Þangað til mun ég skjóta örvum mínum“
Tímarit Máls og menningar 35. árg., 1.-2. tbl. 1974;35, s. 119-122
Vasabók
Jón Karl Helgason: „8 sig að 9 : ritdómur um Vasabók“
Tímarit Máls og menningar 51. árg., 4. tbl. 1990, s. 103-105
Gunnþórunn Guðmundsdóttir: „Hversdagurinn á bók. Vasabók og Dýrðin á ásýnd hlutanna“
Í Jón Karl Helgason og Torfi Tulinius (ritstj.): Af jarðarinnar hálfu. Ritgerðir í tilefni af sextugsafmæli Péturs Gunnarssonar. Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 2008, s. 63-71
ÞÞ í fátæktarlandi
Gunnþórunn Guðmundsdóttir: „Bókalíf: Um nýleg íslensk æviskrif“ (ritdómur)
Skírnir 2008, 182. árg., haust, bls. 501-7.
Soffía Auður Birgisdóttir: „Saga Þórbergs: Þroskasaga einstaklings og samfélags“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2010, 71. árg., 1. tbl. bls. 130-6.
Þorleifur Hauksson: „Þórbergur í nýju ljósi“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2008, 69. árg., 2. tbl. s. 120-3.
ÞÞ í forheimskunarlandi og ÞÞ í fátæktarlandi
Soffía Auður Birgisdóttir: "Ég skapa - þess vegna er ég. Um skrif Þórbergs Þórðarsonar" (ritdómur)
Skírnir 2016, 54. árg., 2. tbl., bls. 189-194.
Gunnþórunn Guðmundsdóttir: „Brot úr ævi“ (ritdómar)
Skírnir 2010, 184. árg., vor, bls. 233-7.
Jón Ólafsson: „Pétur Gunnarsson, ÞÞ í fátæktarlandi; ÞÞ í forheimskunarlandi“ (ritdómar)
Saga 2010, 48. árg., 1. tbl. bls. 215-20.
Örlagagletta
Þorgeir Tryggvason: „Verðandi“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar, 78. árg., 1. tbl. 2017, s. 133-137
Verðlaun
2023 - Íslensku þýðingaverðlaunin: Játningarnar eftir Jean-Jacques Rousseau.
2011 – Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu: Fyrir ritstörf og framlag til íslenskra bókmennta
2009 – Viðurkenning Hagþenkis: ÞÞ – Í fátæktarlandi og ÞÞ – Í forheimskunarlandi
1999 – Stílverðlaun Þórbergs Þórðarsonar
1998 – Rithöfundasjóður Ríkisútvarpsins
1996 – Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Frú Bovary e. Gustave Flaubert (þýðing)
Tilnefningar
2007 – Íslensku bókmenntaverðlaunin (fræðibækur og bækur almenns efnis): ÞÞ – Í fátæktarlandi. Þroskasaga Þórbergs Þórðarsonar
2000 – Íslensku bókmenntaverðlaunin (fagurbókmenntir): Myndin af heiminum
1990 – Íslensku bókmenntaverðlaunin (fagurbókmenntir): Hversdagshöllin
1987 – Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Sagan öll
HKL ástarsaga
Lesa meiraPont pont vesszöcske
Lesa meiraHöfuðljóð
Lesa meiraSkriftir: örlagagletta
Lesa meiraVeraldarsaga mín – ævisaga hugmynda
Lesa meiraDas vierte Buch über Andri
Lesa meiraVeraldarsaga (mín): aldarfarsbók
Lesa meiraDie Rollen und ihre Darsteller
Lesa meiraÍslendingablokk (tíðarandasaga)
Lesa meira