Úr Eldi og regni:
Ryðst áfram. Í loftinu hundgá og öskur.
- Haldiði áfram, strákar. – Þú skalt ekki. –
- Látiði hann ekki sleppa, bölvaðan. – Ekki girnast. –
Stóðst ekki freistinguna.
- Hann er farinn að lýjast. – Skalt ekki gefast upp. –
Unnið í sjö ár. Varð að vinna önnur sjö til að eignast bóndadóttur. Gat ekki beðið. Hafði aldrei getað beðið. Fannst verst að festast. Hafði ekki spjallað stúlkuna. Hún vildi.
- Hann er brögðóttur andskoti. – Skalt halda þínu striki. – Óttast refsinguna. Dýflissuna. Einangrunina. Árin. Verður að komast undan. Finna gjótu. Fylgjast með hundunum þegar þeir hlaupa gjammandi framhjá.
- Hann er andskotans nauðgari. – Skalt ekki nást. –
Heyrir ekki hundgá og öskur.
Hrapar.
Hann er í breiðum skógivöxnum dal.
- furðulegt –
og feitar kindur á beit í kringum hann og þær fælast ekki, bíta þykkt grasið, líta upp andartak og virða hann fyrir sér
- kindur með mannsaugu –
og eftir dalnum rennur á.
(s. 43)