Hvíti tígurinn
Lesa meira
Hvíti tígurinn
Ég hef alltaf verið frekar blankur. Aldrei fátækur og aldrei skuldsettur eða liðið nokkurn einasta skort. Ég bara á lítið og eyði litlu. Svona hefur þetta verið öll mín fullorðinsár. Nema einu sinni í fimm mánuði. Þá varð ég auðugur og tilheyrði efstu stétt samfélagsins. Það breyttist reyndar ekkert hjá mér hvað peningastöðuna varðar. Ég skipti bara um staðsetningu, flutti tímabundið til Chile og allt í einu var ég ekki lengur aumur háskólastúdent. Sami peningur og áður fleytti mér í hæstu hæðir. Fyrir helming þeirra leigutekna sem ég fékk mánaðarlega fyrir ósamþykktu holuna mína í Þingholtunum gat ég splæst í penthás í flottustu blokk bæjarins niðri við aðaltorgið. Þar opnuðu þjónar hurðina fyrir manni og pössuðu að pöpullinn af götunni kæmist ekki inn. Ég ferðaðist á fyrsta klassa í lestum og hikaði ekki við að taka leigubíla með farangur örstuttar vegalengdir enda kostnaðurinn fyrir mig nánast enginn.