Æviágrip
Birgir Sigurðsson fæddist 28. ágúst 1937 í Reykjavík. Að afloknu unglingaprófi fór hann á síld fimmtán ára gamall, stundaði síðan margvísleg störf til sjós og lands næstu ár þar til hann venti sínu kvæði í kross, tók landspróf og settist í Kennaraskóla Íslands. Að afloknu kennaraprófi 1961 varð hann blaðamaður á Tímanum til 1964. Þá tók við kennsla við Mýrarhúsaskóla til ársins 1967. Síðan fór hann til Amsterdam til söngnáms en það hafði hann stundað í Tónlistarskóla Reykjavíkur í fimm ár jafnhliða kennslunni.
Í Amsterdam sneri hann snögglega við blaðinu, byrjaði að yrkja, sagði skilið við sönginn og hélt heim til Íslands með ljóðabókina Réttu mér fána í farteskinu.Hann gegndi síðan skólastjórastöðu við Ásaskóla í Gnúpverjahreppi 1968-75 og aftur í Hrísey um tveggja ára skeið, 1977-79. Hann kenndi einnig við Þingholtsskóla í Kópavogi veturinn 1975-76. Birgir gegndi varaformannsstöðu Rithöfundasambands Íslands 1982-86, var forseti Bandalags íslenskra listamanna 1985-87 og sat í stjórn Listahátíðar í Reykjavík 1985-87 og Reykjavíkur menningarborgar Evrópu 2000.
Birgir skrifaði ljóð, skáldsögur, leikrit og rit almenns eðlis, s.s. um síldarævintýrin og Korpúlfsstaði. Hann fékkst auk þess við þýðingar og gerð heimildarmynda. Leikritið Dagur vonar vakti mikla athygli þegar það var frumsýnt í Iðnó en það var gefið út á bók árið 1987. Leikrit Birgis hafa m.a. verið sýnd hjá Leikfélagi Reykjavíkur, Þjóðleikhúsinu og Leikfélagi Akureyrar. Þau hafa einnig verið flutt í Ríkisútvarpinu. Erlendis hafa þau til að mynda verið sýnd í Los Angeles, London, Kaupmannahöfn, Álaborg, Þórshöfn, Vaasa og Stokkhólmi. Fyrsta skáldsaga Birgis, Hengiflugið, kom út 1993 en hann sendi síðar frá sér skáldsöguna Ljósið í vatninu (2000).
Birgir lést í Reykjavík 9. ágúst 2019.
Frá höfundi
Orð mitt allt
I
Brunnur minn er ekki uppspretta
brunnur minn er safnþró orða
er menn helltu í hlust mínaþví aðeins ég ausi
úr brunni mínum
í keröld manna
mun hann fyllturstaðið orð fær óbragð
svalar einskis þorsta
það ber sýkla
að vitum mannaII
þögn mín mótar orð
en geymir það ekki
geymi ég orðið
glata ég þögninnimeðan orðið er ómótað
bíð ég og þegi
fljótsagt orð
er fósturlátég klíp ekki af orði mínu
hálfsagt orð er engum
ætlað nema til hálfsIII
ég segi orð mitt allt
í skínandi fátækt
stendur það hjá þérsýndu mér orð þitt
segðu mér það allt
gerðu það okkar beggja
Úr ljóðabókinni Réttu mér fána (1968)
Ljóðið birtist í stað pistils að ósk höfundar.
Um höfund
Um verk Birgis Sigurðssonar
Birgir Sigurðsson er óumdeilanlega fjölhæfur rithöfundur og hefur hann reynt flest form sem slíkur. Sennilega eru það þó leikrit Birgis sem mesta athygli hafa vakið og er t.d. verk hans Dagur vonar eitt vinsælasta íslenska leikritið frá upphafi í flokki dramatískra verka. Birgir hefur notið hylli sem leikskáld og raunsæi verka hans fallið áhorfendum vel, leikrit hans hafa verið þýdd og sum leikin erlendis.
Það mikla umbrotaár 1968 kom út ljóðabók eftir Birgi sem, í anda þeirra tíma, heitir Réttu mér fána. Ljóðin eru á köflum glettin en þó um leið hápólitísk, segja má að Réttu mér fána sé forsmekkurinn að þeirri þjóðfélagsádeilu sem hvað sterkast átti eftir að birtast í fyrstu leikritum Birgis og svo síðar meir í skáldsögunni Ljósið í vatninu. Það er og athyglisvert að strax í fyrsta ljóði bókarinnar er að finna ákveðana vísun til leikritsins:
„en hið mikla svið
skógurinn sjálfur
vaxinn í líf þitt“
og síðar í bókinni er Birgir enn á „sviðinu“ í ljóðmáli sínu:
„þú gengur inn á sviðið
þér er í mun að skila
því er brjóst þitt geymir“.
Ef til vill má hér greina „stefnu“ þá er Birgir hefur tekið. Nokkru síðar eða árið 1974 birtust fleiri ljóð eftir Birgi í Á jörð ertu kominn, hér er um að ræða ljóðabálk sem mun hafa átt að hanga saman við kantötu eftir Gunnar Reyni Sveinsson. Yrkisefni Birgis er hér á svipuðum nótum og í fyrri ljóðabókinni, en skáldskapurinn hér er þó formfastari og greinilega í heilsteyptari farvegi.
Árið 1972 var haldin leikritunarsamkeppni hjá Leikfélagi Reykjavíkur í tilefni þess að félagið var 75 ára, þarna vann Birgir Sigurðsson til fyrstu verðlauna með verki sínu Pétur og Rúna. Verkið er í raun saga um langanir tveggja rómantískra ungmenna til þess að lifa á skjön við gildandi hefðir. Þau meta mest ástina og samlíðunina en tilheyra heimi lífsgæðakapphlaups, hraða og gengdarlausrar einstaklingshyggju. En bjartsýnisglæta kveiknar að lokum. Birgir rær á svipuð mið í næsta verki sínu Selurinn hefur mannsaugu en það var einnig frumsýnt hjá LR. Megin þema verksins var mjög til umfjöllunar á áttunda áratugnum, þ.e. flutningur sveitafólks til Reykjavíkur. Þetta er í raun afar merkilegt verk sem ekki hefur notið verðskuldaðrar athygli í gegnum tíðina; ástæðan er ef til vill sú að umgjörð verksins er afar raunsæisleg en Birgir leggur persónum sínum í munn, á löngum köflum, mjög óraunsæislegt ljóðrænt tungutak. Einmitt þessi andstaða magnar þann sprengikraft sem í verkinu býr og gæðir það ákveðnum töfrum. Gríðarlega beinskeytt ádeila Birgis í verkinu á lífsgæðakapphlaup og auðhyggju er grimm en ljóðrænn textinn mildar þó aðeins og hjálpar til við að skapa fullkomna andstæðu þess sem gagnrýnt er. Aldursleg lagskipting samfélagsins er greind af næmni í verkinu, unga fólkið Dengsi og Systa skapa von um afturhvarf til einfaldara lífs, Hans og Hanna eru kynslóðin sem fórnaði átthögum og betri gildum gamla tímans fyrir steinsteypta hamingju, en gamla konan móðir Hans er fulltrúi þess sem sett hefur verið til hliðar. Það má þó í gegnum ungu kynslóðina eyja von.
Þriðja leikrit Birgis er hinsvegar að hluta til sögulegt drama, Skáld-Rósa frumsýnt hjá LR 1977. Söguefnið er þó á nokkuð heillandi hátt í fullkomnum takti við það sem Birgir hafði verið að gera til þessa; í þeim heimi sem hér er lýst er nefnilega mjög mikil misskipting auðs og valda og Birgir leggur á það áherslu að innra ríkidæmi sé betra hinu veraldlega. Rósa vill ekki ganga þeim á hönd sem sitja í veraldlegu ríkidæmi, hún hefur dæmin fyrir sér um það að slíkt endi ekki vel því svo gerði Natan og svo gerði Páll Melsteð á undan honum. En Rósa öðlast von í lokin vegna þess að hún er hugsjón sinni trú.
Það er svo í Þjóðleikhúsinu að næsta verk Birgis er fært upp en það var Grasmaðkur árið 1983. Grasmaðkurinn má segja að sé leikrit um von, þar er kallað eftir friði til þess að mennirnir fái að dafna svo að þeir eigi von til þess að spjara sig í margslungnum heimi. Í verkinu er predikunum stillt í hóf en engu að síður er þjóðfélagslegur slagkraftur verksins þungur.
Leikfélag Reykjavíkur varð þeirrar ánægju aðnjótandi að frumsýna magnaðasta leikrit Birgis til þessa Dag vonar 1987. Dagur vonar er tileinkað minningu systur Birgis Sigríðu Freyju Sigurðardóttur, en brot úr ljóðum eftir hana eru á stundum lögð Öldu í munn í leikritinu:
ALDA: (fjarrænt en þó ekki eins og áður): Hún var nú stödd hjá tré
sem var fegurst allra trjáa. Það var eins og huggun sem sagði að enn væri til fegurð, þrátt fyrir allt. Og hún gaf sig á tal við lífið:
„Þú hefur gefið mér margt og sagt mér hvers virði allt er, en eitt met ég mest.“ – Lífið langaði þá til þess að vita hvað af þess miklu auðæfum væri dýrast. „Fagra líf,“ sagði hún, „ef mér væri ekki gefinn skilningur væri ég eins mikil þögn og dauðinn.“
Verkið er hádramatískur harmleikur en þó ekki í formi klassísks harmleiks vegna þess að orsakavaldur harmleiksins er óljós. Þó að ætla megi að Gunnar, greinilegur fulltrúi þess illa í leiknum, eigi þar drjúgan þátt. Geðveiki Öldu stafar þó ekki beint af hans völdum en veikindi hennar eru kannski þess valdandi öðru fremur að móðir hennar Lára hallar sér að Gunnari. Þarna liggur þó sú þverstæða að til þess að Alda megi eiga von um bata þarf Lára að losna við ódæðismanninn Gunnar. Enn á ný dregur Birgir upp flóknar aðstæður í mannlegum samskiptum sem ekki fæst einföld lausn á, en hann bendir jafnframt á að lausn getur verið tragísk. Ljóðræna verksins er oft á tíðum mögnuð og við lestur á verkinu geta leikir jafnt sem lærðir skynjað hversu mikið kjöt er á beinunum fyrir leikara að komast í þennan texta:
GUÐNÝ: Það er til land. Þar er hvítt fjall. Undarlegir lækir líða niður hlíðarnar á þessu hvíta fjalli. Þeir eru búnir til úr sannleika. Og fjallið er líka búið til úr sannleika. Og það er yndislegt fjall.
REYNIR: Land sem ekki er til. Fjall sem ekki er til. Sannleikur geðveikinnar.
GUÐNÝ: Land sem er til í hverjum manni. Fjall sem er til í hverjum manni.
Og sannleiksfuglinn syngur.
Birgir Sigurðsson er enn í samfélagsrýni í leikritinu Óskastjarnan sem frumsýnt var í Þjóðleikhúsinu 1998. Óskastjarnan er nútíma stofudrama úr sveit; Birgir leikur sér með andstæðurnar íslenska sveit annarsvegar og miðstöð afþreyingariðnaðirinns Hollywood hinsvegar. Mýtan um sveitalíf og vinnu sem andhverfann pól við listir og skemmtan myndar spennuna sem að stigmagnast í verkinu sem er í raun mjög hefðbundið í byggingu og notast við hefðbundin dramtísk brögð til þess að vinda sér áfram svo sem óþægilega atburði úr fortíðinni og hið sígilda dramatíska „val“. Líkt og í fyrri verkum Birgis staðsetur hann atburðarrásina í tíma með þeim hætti að skýrskota til samfélagsvandamála þess tíma sem um ræðir; í þetta sinn eru kröggur þær sem hefðbundinn landbúnaður hefur átt við að glíma sá útgangspunktur. Ekki bendir höfundurinn á neinar ákveðnar lausnir en sem fyrr þá bendir hann á að það sé hægt að vinna bug á vandamálunum, það sé von.
Tvær bækur hefur Birgir samið sem kalla mætti fræðibækur, býsna ólíkar innbyrðis en lúta hvorug ströngum lögmálum fræðibóka. Sú fyrri er viðameira verk, ítarlegra lesmál og vakti töluverða athygli er hún kom út 1989, þetta er Svartur sjór af síld og hefur undirtitilinn síldarævintýrin miklu á sjó og landi. Þessi bók er alhliða saga síldarverkunar og síldveiða við Ísland, hún er á stundum á mjög persónulegum nótum en annar staðar fræðileg úttekt. Styrkur bókarinnar er einmitt sá helstur að sameina fræðimennskuna og sagnagleðina sem einkennir oft stíl Birgis. Fimm árum síðar kom út bókin Korpúlfsstaðir: saga glæsilegasta stórbýlis á Íslandi. Hér rekur Birgir nokkuð ítarlega sögu Korpúlfsstaða, byggingasögu, byggingalist, búskap og mannlíf. Mikið er byggt á vitölum en einnig á eigin reynslu en Birgir dvaldi ungur um tíma á býlinu. Bókin er í stóru broti og í henni er fjöldi ljósmynda. Samnefndar heimildamyndir um sömu efni gerði Birgir fyrir sjónvarp.
Birgir sendi frá sér smásagnasafnið Frá himni og jörðu árið 1989, en smásögur eftir Birgi hafa og birst af og til á öðrum vetvangi. Það er frekar létt yfir þessum smásögum Birgis og á köflum eru sumar þeirra eins og litlir absúrd leikþættir.
Fyrsta skáldsaga Birgis Hengiflugið (1993) er mjög flókin saga sem skoðar samtíma sinn á mjög persónulegann hátt í gegnum manneskjurnar sem hún segir frá. Aðalsöguhetjurnar, Haukur og Inga, eru í raun einskonar kjarni sem ótal aðrar persónur hverfast um en um leið eru þau bækistöð höfundar; hann fer í leiðangra út frá þeim til þess að kanna ólíkustu þætti svo sem stjórnmál, innistæðulausan glamúr, lauslæti og sjósókn. Allir þessir leiðangrar spinna þann flókna vef sem sagan er, en það er ef til vill niðurstaða Birgis í sögulok að samtíminn sé orðin of flókinn og taki of stóran toll af okkur og að við teygjum okkur alltof langt í því að sýnast – við verðum að vefja ofan af, einfalda.
Árið 2000 kom út skáldsagan Ljósið í vatninu. Það er óhætt að segja að í þessari sögu hverfi Birgir aftur til fyrstu leikrita sinna hvað varðar söguefni, sérstaklega eru slegnir hér svipaðir strengir og í Selurinn hefur mannsaugu. En í raun þó með nokkuð öfugum formerkjum; hér snýr ungur maður aftur í sveitina sína eftir þung áföll í lífinu. Þetta er falleg saga, nokkuð pólitísk og lipurlega skrifuð; ljóðræna svipuð þeirri og sveif yfir vötnum í Selurinn hefur mannsaugu og Degi vonar undirstrikar hér fallegar náttúrulýsingar og aðrar máttugar myndir í textanum. En náttúrunni er ógnað í verkinu af geldum áformum um iðnvæðingu og um leið finnur lesandinn þann háska sem steðjar að ljóðrænum texta Birgis; glæsileg stílbrögð.
Birgir hefur að auki fengist töluvert við þýðingar og hefur m.a. þýtt leikrit eftir Sam Shepard, Arthur Miller og Tennessee Williams og skáldsögur eftir Doris Lessing. Birgir er einn þriggja sem önnuðust útgáfu á bókinni 60 valdar ljóðskákir stórmeistarans Davíðs Bronsteins árið 1974 en reyndar skrifar Birgir lítið í þá bók. Þá hefur Birgir látið sig ýmis mál skipta og skrifað greinar í blöð og tímarit, hann er orðfimur og sleipur í ritdeilum.
Þó svo að rithöfundarferill Birgirs Sigurðssonar sé margslunginn þá munu flestir á því að hæst hafi hann, til þessa, risið sem leikritaskáld.
© Guðmundur Brynjólfsson, 2003
Greinar
Almenn umfjöllun
Árni Ibsen: „Að eignast líf“
Tímarit Máls og menningar, 48. árg., 3. tbl. 1987, s. 290-9
Melkorka Tekla Ólafsdóttir: „Gegn lífleysinu : Um leikrit Birgis Sigurðssonar: Pétur og Rúna, Selurinn hefur mannsaugu, Skáld-Rósa, Grasmaðkur, Dagur vonar“
Lokaritgerð við Háskóla Íslands í almennri bókmenntafræði, Reykjavík, 1992. [Er til aflestrar á Þjóðarbókhlöðu.]
Um einstök verk
Hengiflugið
Gunnlaugur Ástgeirsson: „Ekki er allt sem sýnist, enginn er sá sem hann sýnist“
Tímarit Máls og menningar, 55. árg., 1. tbl. 1994, s. 101-4
Korpúlfsstaðir. Saga glæsilegasta stórbýlis á Íslandi
Guðmundur J. Guðmundsson: „Korpúlfsstaðir. Saga glæsilegasta stórbýlis á Íslandi“
Saga, 33, 1995, s. 269-272
Svartur sjór af síld
Hreinn Ragnarsson: „Svartur sjór af síld“
Saga, 28, 1990, s. 236-244
Hreinn Ragnarsson: „Enginn skyldi skáldin styggja: (athugasemd við athugasemd)“
Saga, 30. árg. 1992, s. 317-324
Dagur vonar
Sveinn Einarsson: „Dagur vonar“
Skírnir, 161. árg.,1987, s. 396-403
Prívat og persónulega
Lesa meiraEndurreisnin og almúginn
Lesa meiraLjósið í vatninu
Lesa meiraSú hundraðasta
Lesa meiraÓskastjarnan : Leikrit í fjórum þáttum
Lesa meiraKöttur á heitu blikkþaki
Lesa meiraGlerbrot
Lesa meiraKorpúlfsstaðir : saga glæsilegasta stórbýlis á Íslandi
Lesa meiraHengiflugið
Lesa meira
Langferð Jónatans
Lesa meira