Um þýðinguna
Titill á frummáli: Barnas Beste. Safn sagna fyrir börn eftir ýmsa höfunda. Einar Bragi þýddi.
Úr Barnagamni
Gúllíver kemur til risalands e. Jónatan Swift (brot)
Risinn snarstansaði og litaðist um, uns hann kom loks auga á mig, þar sem ég lá á jörðinni. Hann hugsaði ráð sitt hikandi, líkt og þegar maður ætlar að taka upp viðsjált smádýr án þess að gefa því færi á að klóra eða bíta, eins og ég hef stundum gert við hreysiketti heima á Englandi. Lokst hætti hann á að taka um mittið á mér aftan frá með vísifingri og þumalfingri. Hann lyfti mér upp og hélt mér aðeins tvo metra frá sér til að geta skoðað mig vandlega.
Þó ég sárkenndi til í síðunni, hafði ég góðu heilli vit á að fara ekki að streitast á móti, meðan hann hélt mér í 60 feta hæð frá jörðu, því hann hefði þá getað misst mig. Hið eina sem ég áræddi að gera var að horfa til sólar, fórna höndum sem í bæn og segja nokkur orð auðmjúkum hryggðarrómi, eins og við átti í þessari aumlegu aðstöðu. Ég óttaðist, að hann kynni þá og þegar að fleygja mér frá sér, eins og við erum vön að gera við ógeðsleg kvikindi, sem við viljum helst drepa. En til allrar hamingju virtist hann ánægður með hegðun mína, fór að líta á mig sem furðuveru og var steinhissa á að heyra mig mæla greinileg orð, þó hann skildi þau ekki.
(s. 40-41)