Bio
Kristín Ragna Gunnarsdóttir was born in Reykjavík, May 2, 1968. She is a writer, artist, literature scholar, curator and teacher. Kristín studied graphic design and fine arts at the The Icelandic College of Art and Crafts, graduating in 1992. She completed a B.A. in comparative literature – minoring in creative writing – from The University of Iceland in 2006, having taken one year as a guest-student at The University of Kopenhagen. In her dissertation Kristín Ragna discussed the art of picture books for children, focusing on the interaction between words and images. In addition to this she holds an M.A. in creative writing, from The University of Iceland, 2016.
Kristín has lectured on creative writing at The University of Iceland and held courses on illustration in children‘s books at the Iceland Arts Academy, in addition to supervising dissertations. She has also hosted various courses and workshops at The Reykjavík School of Arts, among others. Kristín Ragna has written articles about illustrations and visual literacy for literature and cultural journals.
As a curator Kristín has worked a lot with Norse mythology. She curated the exhibition Barnabókaflóðið (The Children’s Book Flood) for the Nordic House in 2018. This exhibition travelled around the Baltic countries in 2020-2021. In addition to this Kristín has exhibited her work in numerous solo and group exhibitions, home and abroad.
Kristín has designed and illustrated numerous books and educational computer games. Furthermore, she has designed and illustrated two tapestries based on Icelandic Sagas, The Saga of Njáll and The Settlement Saga (focusing on the women). The former was embroidered at the Saga Centre in Hvolfsvöllur and the latter is now a part of The Scottish Diaspora Tapestry.
Kristín has received the Icelandic illustration Award, Dimmalimm in 2009 and 2012 for her illustrations in Norse mythology books Örlög guðanna (The Fates of the Gods) and Hávamál (Sayings of the High One).
Homepage : krg.is
Um höfund
Tilbrigði við klassísk stef — Höfundarverk Kristínar Rögnu Gunnarsdóttur
Inngangur
Kristín Ragna Gunnarsdóttir hefur sem barnabókahöfundur og myndhöfundur sérhæft sig í úrvinnslu á norrænni goðafræði sem er allt í senn frumleg, nútímaleg, fróðleg, skemmtileg og spennandi. Fyrstu bækur Kristínar Rögnu falla þó ekki innan þessa ramma, þær eru Kata og ormarnir (2004) og Kata og vofurnar (2005). Kötu-bækurnar eru smábækur sem gefnar voru út af Menntamálastofnun þar sem unnið er með samspil texta og mynda. Sama ár og seinni bókin um Kötu kom út kom einnig út fyrsta barnabókin af þremur sem Kristín Ragna gerir í áhugaverðu samstarf við textahöfunda þar sem fjallað er um íslensku goðsagnirnar og þær endursagðar. Þetta eru Völuspá (2005) og Hávamál (2011) sem hún gerði með Þórarni Eldjárn og Örlög guðanna (2008) sem hún vann með Ingunni Ásdísardóttur. Kristín Ragna byggir svo á þessum þremur verkum og frumtextunum, sérstklega Völuspá, Hávamálum og Snorra-Eddu í þeim fimm myndskreyttu barnabókum sem hún hefur gefið út á síðustu jafn mörgum árum hjá Bókabeitunni. Bækurnar hafa bæði texta og myndir og Kristín Ragna er höfundur beggja og þær eru gæddar þeim eiginleika góðra barnabóka að lesendur á öllum aldri geta notið lestursins. Höfundarverk Kristínar Rögnu ber sterk einkenni hennar sem myndlistamanns og hún leikur sér með tengingar bókmenntaarfsins og nútímans sem og tenginga á milli verkanna sem verða meira áberandi og áhugaverðari eftir því sem höfundarverkið stækkar. Kristín Ragna tekur fyrir stór málefni og flóknar tilfinningar í bókum sínum þar sem hún tengir nútímafrásagnir við sagnahefðina. Í meðförum Kristínar Rögnu er bókmenntaarfinum stillt upp sem spegli á nútímann á máta sem er gagnrýninn og einkennist á sama tíma af kímnigáfu höfundarins sem skilar sér í ánægjulegum lestri fyrir unga sem aldna.
Sögur Kristínar Rögnu eru greinilega skrifaðar fyrir nútímabörn enda eru aðalpersónurnar fulltrúar nýrra kynslóða þó að arfleifðin sé alltumlykjandi. Í fyrsta þríleiknum, Úlfur og Edda: Dýrgripurinn (2016), Úlfur og Edda: Drekaaugun (2017) og Úlfur og Edda: Drottningin (2018), ferðast stjúpsystkinin og titilpersónurnar frá Skálholti nútímans yfir í goðheima þar sem þau hitta kunnuglegar persónur goðafræðinnar og lenda í ævintýrum. Nornasaga er seinni sería Kristínar Rögnu og sem stendur eru tvær bækur komnar út í henni. Í Nornasögu teflir höfundurinn fram nýrri aðalpersónu sem ber nafnið Katla Þórdísar- og Ugludóttir og bækurnar um hana eru Nornasaga: Hrekkjavakan (2019) og Nornasaga 2: Nýársnótt (2020) og væntanleg bók mun bera undirtitilinn Þrettándinn. Sennilegt verður að teljast að Nornasögu-bækurnar verði einnig þrenning þar sem Kristín Ragna heldur tryggð við töluna þrjá samkvæmt fornri hefð – þrenningar eru áberandi í öllu höfundarverkinu og í þriðju bókinni um Úlf og Eddu er á margvíslegan máta dregin athygli tölunni. Katla er bæði aðalsögupersóna og sögumaður Nornasögu-bókanna. Hún lendir í hringiðu óvæntra atburðarása og þarf að redda málunum með hjálp fjölskyldu og vina, sérstaklega vinar síns Mána. Þau þurfa í bókunum að kljást við persónur sem koma úr goðsagnaheiminum og valda usla í Reykjavík nútímans. Í fyrri seríunni er myndefni svart-hvítt og skýrt afmarkað, afmörkunin er sérstaklega áberandi í fyrstu bókinni, en í bókunum um Kötlu er myndefni í lit og því gefið meira pláss, meðal annars með stöku opnumyndum. Myndir, bakgrunnar og öll útlitsleg hönnun bókanna móta mjög heildarmynd þeirra.
Úlfur og Edda: Dýrgripurinn
Skálholt er miðlægt í þríleiknum um Úlf og Eddu. Með staðsetningunni tengir Kristín Ragna nútímaheiminn við miðaldir í gegnum forleifarnar í Skálholti. Í bókaflokkinum gegnir amma Eddu og nafna mikilvægu hlutverki sem fornleifafræðingur í Skálholti. Formáli fyrstu bókarinnar, Dýrgripsins, segir frá því þegar amma Edda er sem stúlka með föður sínum í fornleifauppgreftri í Skálholti árið 1954. Hún finnur mun sem mótar bæði líf hennar og bókaflokkinn. Fornleifauppgröfturinn í Skálholti árið 1954 skipar því mikilvægan sess í bókaflokknum öllum. Í heimsókn til ömmu Eddu dragast stjúpsystkinin inn í atburðarásina og ferðast í annan heim. Fornmunurinn sem amma Edda finnur er hringur úr brísingameni Freyju og á aðalsögutímanum er meinvaldur bókaflokksins mættur í Skálholt til að stela hringnum af ömmu. Þar er á ferð er ein margslungnasta og lævísasta persóna goðafræðinnar, Loki. Hæfileikar hans til hamskipta gera hann að sérlega erfiðum andstæðingi eins og stjúpsystkinin fá að finna fyrir. Í fyrstu bókinni kynnumst við Loka einmitt í dulargervi þar sem hann gengur undir nafninu Guðbrandur:
Hann er allt í öllu hérna. Það er eins og hann sé af öðrum heimi, hann kemst yfir svo margt [...] Hann er í öllum nefndum og ráðum; Sóknarnefndinni, Sumartónleikanefndinni, Skólafélaginu, Siðanefndinni, Náttúruverndarnefndinni, Ferðamannaráðinu, Svínaræktarfélaginu, Loftgæðaráði, Skálholtsnefndinni, Fornleifanefndinni og Byggingarráðinu [...] svo er hann náttúrulega að láta endurbyggja sjálfa Þorláksbúð.
(Dýrgripurinn, 20-21)
Edda, sem er vísindahneigð eins og amma sín, púslar saman vísbendingum tengdum hvarfi hringsins sem leiða hana á slóðir Loka og þegar hann hverfur niður göng í Þorláksbúð elta stjúpsystkinin hann yfir í heim goðanna. Þar hitta þau ýmsar goðsagnapersónur, meðal annars Freyju sem tekur ástfóstri við Eddu, en einnig Þór, Sif, Heimdall, Angurboðu og eitt af þremur afkvæmum hennar og Loka, Fenrisúlfinn. Úlfur vingast við hann og fær að losa sverðið sem æsir festu í gini úlfsins, sem Úlfur kallar jafnan Fúffa. Eins og kristallast í samskipum Úlfs og Fúffa þá nálgast mennsku börnin aðrar persónur af góðmennsku og hin góðu verk þeirra í goðheimum eru endurgoldin sem gerir þeim kleift að komast þau aftur heim í lok bókar. En í goðheimum læra þau ýmislegt um sig sjálf og hvort annað sem og um breyskleika goðanna:
„Goðin virðast vera voða mikið fyrir að eigna sér menn, úlfa og jötna,“ sagði Edda. „Þau hengja hausa upp á vegg og loka menn inni í dýflyssu og binda dýr við helli ...“ (179)
Í bókinni eru stjúpsystkinatengslin í forgrunni og áhersla lögð á flókið samband þeirra Úlfs og Eddu. Stjúpsambandið er grundvallað á missi Eddu á móður sinni sem dó úr krabbameini þegar Edda var fimm ára og unnið er með sorgarferli Eddu í gegnum bókaflokkinn eins og nánar er fjallað um í lok umfjöllunar um síðustu bókina í röðinni, Drottninguna. Fyrir vikið á Edda á erfitt með að samþykkja Úlf sem bróður og leggur ríka áherslu á eignarhald á fjölskyldumeðlimum sínum, þegar Úlfur stingur upp á að þau sýni „ömmu Eddu kortið“ sem þau finna og vísar þeim leiðina í goðheima segir hún: „Við sýnum ömmu minni ekki neitt.“ (27) Síðar í bókinni skiljast leiðir þeirra þegar þau fara að rífast og snúast hvort gegn öðru og það síðasta sem Úlfur segir við Eddu áður en hún arkar í burt frá honum er „þú ert ekki einu sinni einn þriðji systir mín. Það skiptir mig sko engu máli hvað þér finnst“ (98). Áður en bókinni lýkur gera þau sér þó grein fyrir mikilvægi sambandsins og því að þau tilheyra hvort öðru því þrátt fyrir allt eru þau í sömu fjölskyldu.
Úlfur og Edda: Drekaaugun
Drekaaugun snúast öðru fremur um söguna af ráni Iðunnar af jötninum Þjassa í arnarlíki en Loki spilar sitt hlutverk í þeirri sögu eins og svo mörgum. Formáli Drekaaugnanna gerist árið 1200 og þar er Margrét oddhaga að skera út rostungstönn í krók fyrir messustaf Páls biskups en bagallinn fannst í uppgreftrinum í Skálholti. Loki kemur í dulargervi og gerir við Margréti skipti á taflmönnum sem hún hefur skorið út og tveimur bláum gimsteinum en hann tekur auðvitað fleiri taflmenn en Margrét samþykkti að skipta á áður en hann hverfur í reykjarmekki. Í aðalfrásögninni stelur Loki bagalinum af Þjóðminjasafninu, kemur sökinni á ömmu Eddu áður en hann hverfur með gimsteinana, sem eru tár Þjassa, til goðheima. Í bókinni fer amma Edda sjálf á eftir Loka niður göngin í Þorláksbúð, sem er orðin að lundabúð, og systkinin elta hana. Í bókinni hitta þau meðal annarra fyrir Iðunni, Óðin, Frigg, Níðhögg, Hel, sem einnig er afkvæmi Loka og Angurboðu, og einnig syni Loka með eiginkonu hans Sigyn, Narfa og Vála. Jafnframt verða á vegi systkinanna örlaganornirnar þrjár, Urður, Verðandi og Skuld. Þau ferðast til Niflheima, sem er „ruslageymsla goðanna“ og til Heljar í leit að ömmu sinni en Iðunn sendir ömmu Eddu þangað því lífsviðhorf ömmu og tal um gagnsemi jógaiðkunar fór fyrir brjóstið á Iðunni:
Hún hefði getað eyðilagt stöðu mína meðal goðanna. Þau munu aldrei fá að heyra orð hennar um að aldur sé afstæður og snúist bara um hugarfar. Amma þín er farin til Heljar.
(Dreakaaugun, 116)
Í bókinni er áfram unnið með vensl Úlfs og Eddu, til dæmis sagt um rún Úlfs að hún tákni „blóðbræðrabönd eða eitthvað svoleiðis. Rúnin hlýtur að eiga við stjúpsystkinablóðbönd líka“ (212). Þannig eru dregnar hliðstæður á milli valinna eða skapaðra vensla fólks á miðöldum og samsettra fjölskyldna dagsins í dag. Stjúpsystkinin verða viðskila í öllum bókunum og lenda bæði saman og einsömul í ævintýrum sem tengjast svo að lokum, þau kynnast mismunandi persónum og stundum þeim sömu á ólíkum tímum í atburðarásinni. Í gegnum bókaflokkinn læra Úlfur og Edda að þeim gengur betur þegar þau vinna saman. Ákveðin stef eru endurtekin í öllum bókunum og í þessari hjálpa börnin Níðhöggi að losna við brotna tönn sem kallast á við þegar Úlfur losaði sverðið úr Fenrisúlfi í þeirri fyrstu og í þeirri síðustu gera þau svo Miðgarðsorminum greiða.
Úlfur og Edda: Drottningin
Í Drottningunni er unnið með þrenndir, hún er síðasta bókin í þríleiknum um þau Úlf og Eddu og í henni kemur í ljós að von er á nýjum fjölskyldumeðlimi, systkini sem mun binda þau enn traustari böndum. Í bókinni hitta þau fyrir þriðja afkvæmi Loka og Angurboðu, Miðgarðsorminn, sjávarguðina Rán og Ægi sem og dvergana í svartálfaheimi. Formáli bókarinnar segir aftur frá Margréti hinni högu og gerist seinna sama ár og formáli annarrar bókarinnar, þ.e. 1200, og þá er nýjum taflmönnum stolið frá henni en þjófurinn virðist ekki vera Loki heldur ung kona sem vísar til Ránar sem yfirboðara síns. Margrét hin haga hyggur að „þessi þjófur, líkt og sá fyrri, sé ekki af þessum heimi“ (Drottningin, 9). Drottningarnar í bókinni eru þrjár og söguþráðurinn hverfist um þær.
Í nálgun sinni á fornleifauppgröftinn og fornmunina vinnur Kristín Ragna með hugmyndir um bagallinn sé eftir íslenska konu, Margréti hina högu í Skálholti. Kristín Ragna gefur aukinheldur Margréti heiðurinn af taflmönnum, meðal annars hinum svokölluðu Lewis-taflmönnum. Þannig notar Kristín Ragna skáldskapinn til að halda uppi myndlistararfleifð íslenskra kvenna enda eru tilvísanirnar í menningararfleifðina í bókaflokknum ekki bundnar við ritað orð. Kristín Ragna hefur sjálf haldið í heiðri listsköpun kvenna með refilsaumi. Kristín Ragna hefur hannað refla þar sem íslendingasögur eru færðar í myndir og saumaðar út með þessum forna útsaumi sem þekktist á miðöldum.
Persónur sem Úlfur og Edda hitta í öðrum heimi eru ekki bara goðin heldur líka þrælar þeirra, skrímslin, dvergar og svo framvegis, þau kynnast og tengjast persónum af ýmsum sviðum tilverunnar. Ímyndir eru áberandi stef í bókaflokknum, persónur eru margar hverjar að reyna að viðhalda ímynd sinni en sýna börnunum aðrar hliðar á sér og það á m.a. við um þau systkinin Fenrisúlfinn, Hel og Miðgarðsorminn.
Bæði bókaflokkurinn um Úlf og Eddu og Nornasögu-bækurnar eru sjálfsögulegar, þ.e. bækurnar fjalla meðal annars um sköpun sína og hliðarsögur bókanna birtast í þeim sjálfum. Dagbók Eddu er metatextaleg því þar skrifar hún um ævintýrin sem þau Úlfur lenda í, og eru sömu ævintýri og bókaflokkurinn lýsir og í fyrstu bókinni um Kötlu skrifar Katla söguna sjálf. Hönnun Úlfs og Eddu: Dýrgripsins dregur einnig fram sjálfsögulegar tengingar bókaflokksins eins og nánar verður vikið að hér að neðan. Dagbók Eddu er rauð eins og Dýrgripurinn og titill bókarinnar vísar ekki bara til hringsins úr Brísingarmeni Freyju því dagbókin er dýrgripur Eddu og það síðasta sem móðir hennar gaf henni. Í bókina ritar Edda bréf til móður sinnar þar sem hún segir frá þeim atburðum sem fyrir hana koma og þar tekur hún niður rúnir og galdra sem hún lærir í ævintýrunum. Í síðustu bókinni er hún farin að nota hana minna: „Bókin var orðin nokkuð þvæld eftir flakk milli heima og Edda var nánast hætt að rita bréf til mömmu sinnar í hana.“ (24) Undir lok þríleiksins notar Edda blaðsíðurnar úr dagsbókinni sem brauðmola til að varða leið þeirra systkinanna og fórnar þar öllum blaðsíðunum nema opnunni með skilaboðunum frá mömmu hennar. Dagbókin kjarnar úrvinnslu Kristínar Rögnu á söknuði og sorgarferlinu sem er fyrirferðamikil í þríleiknum.
Úlfur og Edda í myndum
Enda þótt aðaláherslan í Úlfi og Eddu sé á skrifaðan texta er augljóst að með myndunum styður Kristín Ragna við textann og miðlar persónusköpun. Þar sem og í textanum vísar hún einnig í menningararfleifð Íslendinga. Í myndrænni endursköpun Kristínar Rögnu á efni goðafræðinnar beitir hún nokkurskonar klippimyndastíl þar sem texti og myndir blandast saman og gamalt og nýtt mætist. Myndirnar í Úlfi og Eddu eru svarthvítar og þríleikurinn hefur einkennandi útlit sem sver sig í ætt við fyrri myndskreytingar hennar um goðsagnirnar.
Í bókunum um Úlf og Eddu eru persónur kynntar til sögunnar með andlitsmynd og persónusköpun fer því jöfnum höndum fram í texta og mynd. Sumar persónur eru kynntar til leiks oftar en einu sinni, til dæmis Úlfur og Edda og fjölskylda þeirra sem eru kynnt í upphafi hverrar bókar. Aðrar persónur fá endurteknar kynningar þar sem útlit þeirra og jafnvel nöfn breytast í gegnum sögurnar, þetta á sérstaklega við um Loka sem er fyrst kynntur sem Guðbrandur (20) og fær svo aðra kynningarmynd í sínu venjulega formi (143).
Í annarri bókinni er hann svo gamall maður í fyrstu kynningarmynd sinni þegar æsirnir neita honum um epli Iðunnar (101) en stuttu síðar hefur honum tekist að komast yfir ávöxt (107).
Í þriðju bókinni er Loki bara kynntur einu sinni enda ekki kynntur í hami leðurblökunnar sem laumaði sér með Úlfi og Eddu til mannheima í lok annarrar bókar. Á myndinni er þó eitt mikilvægt atriði sem er ör eftir sárið sem leðurblakan fékk þegar Loki reyndi að stinga af frá fjölskyldunni á Hótel Sögu. Örið hjálpar Eddu við að átta sig á hvenær Loki í dulargervi reynir að blekkja þau systkinin.
Einnig eru láréttar myndir fyrir ofan titla hvers kafla. Myndirnar sýna lykilatriði úr hverjum kafla og nokkrar þeirra prýða einnig kápur bókanna í formi frímerkja, þannig dregur Kristín Ragna skemmtilega fram möguleika hins myndræna. Stöku stærri myndir prýða einnig bækurnar í flokknum, þ.á.m. kort af Íslandi og goðheimum, teiknuð upp af Eddu.
Fyrsta kápan í Úlfi og Eddu, Dýrgripurinn, er rauð eins og dagbók Eddu sem fylgir henni í gegnum bókaflokkinn og sem gegnir mikilvægu hlutverki í honum öllum eins og fjallað var um hér að ofan. Allar þrjár kápurnar á bókunum um Úlf og Eddu hafa miðlægan fornan gylltan hlut sem gegnir meginhlutverki í söguþræði hverrar þeirra. Hönnunin á bókakápunum dregur einnig fram fleiri mikilvæg stef úr bókaflokknum. Nafn Eddu er í ramma fyrir ofan undirtitilinn en „Úlfur og“ er skrifað á það sem lítur út fyrir að vera pappírsmerkimiði með gati sem er „límdur“ ofan á nafn Eddu, nokkurskonar viðbót sem kallar fram samband þeirra sem stjúpsystkina sem var fjallað um hér að ofan og sjálfsögulegar tengingar dagbókarinnar, sérstaklega við fyrstu bókina. Kinkað er aftur kolli til sjálfsögunnar á bakkápu bókanna þar sem Kristín Ragna er kynnt á sama hátt og persónurnar eru kynntar inní bókunum. Einnig eru svart-hvít frímerki með völdum kaflamyndum á kápunum. Áhrifin af þessum viðbótum á litaðar kápurnar er tilfinning fyrir því að kápan sé bæði þrívíð og marglaga sem kallast á skemmtilegan hátt á við innihaldið.
Nornasaga
Í Nornasögu-bókunum tveimur sem eru komnar út, Nornasaga: Hrekkjavakan og Nornasaga 2: Nýársnótt er sögusviðið Reykjavík og Kristín Ragna dregur fram norn úr Völuspá, Gullveigu, sem er óvættur bókanna og sleppir henni lausri í kunnuglegu borgarumhverfinu. Gullveig er reyndar fyrirferðameiri í fyrstu bókinni en þeirri sem er næst í röðinni því þar kemur seint í ljós að hún er líka á bakvið margvíslega atburði. Systur Gullveigar, þær Heiður og Angurboða, hafa líka hlutverkum að gegna í bókaflokknum. Í upphafi annarrar bókarinnar dregur Katla saman atburði þeirrar fyrri:
Upphafið má í raun rekja til hrekkjavökunnar – þegar ég snerti landakort á Listasafni Íslands og opnaði óvart galdragátt. Þá kom nornin Gullveig úr Múspellsheimi, uppfull af hefndarþorsta. Hún gerði Hallgrímskirkju að höll sinni, hélt Fullveldishátíð í Hörpu, lagði álög á fólk (meðal annars vin minn, Mána), breytti Sólfarinu í tívolískip og setti allt á annan endann með gylliboðum. Gullveig reyndi líka að brenna mig inni. En á Þorláksmessu hófst önnur atburðarrás ... sem gæti endað með látum.
(Nýársnótt, 7)
Hægt er að lesa ítarlega umfjöllun mína um Nornasögu: Hrekkjavökuna hér. Líkt og Edda sem skrifar um ævintýri þeirra Úlfs í dagbókina sína ritar Katla sjálf sína sögu. Þannig er Nornasaga einnig sjálfsöguleg því bækurnar fjalla um sköpun sína og draga athygli að skrifum slíkra sagna. Í fyrstu bókinni skrifar Katla söguna „því líf [hennar] liggur við“ (Hrekkjavakan, 7) og líkt og Edda safnar hún einnig þekkingu sinni, um rúnir, í bók sem hún kallar „Rúnakver Kötlu“ (Nýársnótt, 9).
Í Nornasögunni eru nútímatækni, drónar og samfélagsmiðlar áberandi og nútímalegar áherslur því fyrirferðarmeiri en í Úlfi og Eddu. Í Hrekkjavökunni dregur Kristín Ragna þráð frá neyslusamfélagi nútímans yfir í gullöld goðanna þegar þau gengu á náttúrugæði sín að áeggjan Gullveigar. Í seinni bókinni tekur Kristín Ragna umhverfisumræðuna enn lengra. Þar sem Angurboða gengur um sprettur skógur, jafnvel á Laugaveginum, og náttúran endurheimtir borgina þar sem hún fer um. Enn fremur er hrekkurinn sem Gullveig beitir borgarbúa í bókinni tengdur umhverfismálum, hún fær Heimavarnarliðið, sem er í raun „foreldrafélag Austurbæjarskóla og lúðrasveit“, til að ganga atbeina sinna undir því yfirskini að verkefnin séu fyrir loftslagsmálaráðuneytið. Gagnrýni á stöðuna í loftslagsmálum er skýr í orðum Kötlu:
Fullorðnu fólki er ekki treystandi fyrir alvarlegum málum. Loftslagsvandinn er gott dæmi um það.
(Nýársnótt, 178)
Katla þarf sjálf að leysa áskoranirnar sem koma upp í bókunum og tilvitnunina hér að ofan má því túlka sem svo að nýjar kynslóðir þurfi að takast á við vandann því hinir fullorðnu hafa ekki gert það.
Í lok fyrri bókarinnar spyrja bæði Katla og lesandi sig hversu mikið Katla á sameiginlegt með Gullveigu. Máttur þeirrar fyrrnefndu virðist nokkur þar sem hæfileiki hennar til að opna víddir, sem Gullveig smýgur í gegnum, tilheyrir nornum og völvum. Því vakna óhjákvæmilega spurningin um hver Katla sé eiginlega og hvaðan hún fái krafta sína. Katla á tvær mæður en faðernið er ráðgáta í fyrstu bókinni. Svarið við faðerninu kemur svo lesanda og Kötlu sjálfri mjög á óvart í annarri bókinni og tengir Nornasögu við fyrri bókaflokkinn: Í heimsókn Loka til mannheima að stela hringnum úr Brísingarmeni ömmu Eddu var Loki ekki bara í helstu nefndum í Skálholti heldur lagði hann einnig ástargaldur á Uglu mömmu Kötlu.
Myndir Nornasögu
Eins og áður hefur komið fram eru myndirnar í Nornasögu-flokknum í lit ólíkt myndunum í Úlfi og Eddu og þær eru einnig fyrirferðarmeiri svo Nornasögu-bækurnar eru enn ánægjulegri aflestrar og í raun listaverk út af fyrir sig. Auk þess er litagleðin meiri á kápum þeirra og Kristín Ragna vinnur með grunnlitina, bláan, rauðan og gulan á þar sem og inni í bókunum. Á kápum fyrstu bókanna tveggja er unnið með myndrænar hliðstæður, á kápu Nornasögu: Hrekkjavökunnar er Gullveig í ráðandi stöðu á bak við börnin tvö og á Nornasögu 2 er það Angurboða, systir Gullveigar og móðir þriggja afkvæma loka, sem er í svipaðri stöðu á kápunni. Kristín Ragna vísar á milli bókaflokkanna á kápu Nýársnæturinnar þar sem Miðgarðsormurinn birtist í litríkri útgáfu (155) af myndinni sem er í Úlfur og Edda: Drottningin (86).
Myndir bókanna tveggja í Nornasögu eru í ýmsum stærðum, frá heilum opnum niður í stakar blaðsíður og svo minni myndir, eins og andlitsmyndir af persónum líkt og í fyrri þríleiknum og saursíður bókanna eru undirlagðar persónugalleríi eins og því sem hér má sjá og er á aftara saurblaði Nýársnætur.
Í Nornasögu er einnig er að finna smáatriðamyndir af ákveðnum hlutum og dýrum sem koma við sögu. Þar er unnið með hliðstæður, tvífara og hamskipti á myndrænan hátt, til dæmis eru á kjölum bókanna tveggja sem komnar eru út ólík dýr sem eru samt sem áður sömu persónur, rotta á þeirri fyrri og hrafn á seinni.
Myndirnar afmarkast ekki við auða hluta á blaðsíðum því einnig er leikið með bakgrunn textans; í köflum sem eru sérstaklega mikilvægir er stundum litaður bakgrunnur og endurspeglar form bakgrunnsins oft efni textans. Litaður bakgrunnur er einnig þegar persónur galdra og í lokagaldaþulu annarrar bókarinnar koma saman mismunandi litaðir bakgrunnar sem áður birtust einir við.
Einnig er í bókunum stuðst við dagblaðaúrklippur sem brúa bilið á milli texta og mynda, sem reyndar skjóta einnig upp kollinum í bókunum um Úlf og Eddu og í þeirri sem er á næstsíðustu blaðsíðu lokabókarinnar eru upphafsstafir höfundar skrifaðir fyrir þeim. Í Nornasögu-bókunum er oftar stuðst við blaðaúrklippur en þar skapar Kristín Ragna blaðamann sem gegnir hlutverki í bókaflokknum. Í úrklippunum laumar höfundur inn vísbendingum um söguþráðinn sem eru oft skondnar. Tilvísanir í fyrri verk höfundar sem og önnur bókmenntaverk eru einnig áberandi í bókunum og í þeirri fyrstu birtir Kristín Ragna kápumynd Völuspár þeirra Þórarins Eldjárn og birtir einnig eina síðu úr bókinni í heild sinni, þá sem fjallar um þegar æsir brenndu Gullveigu (124-5). Katla styðst við bækur og upplýsingar úr þeim í bókaflokkinum og þær eru bæði kynntar í texta og með myndum af bókakápum.
Lokaorð: Tilvísanabrýr á mill heima
Kristín Ragna gerir efni fornbókmenntanna spennandi fyrir nýjar kynslóðir og tengir á milli þeirra og annars menningarefnis frá nýrri tímum. Hún styðst m.a. við textatengsl til að tengja sagnaheiminn forna við eitthvað sem aðalpersónurnar og lesendur þekkja: Harry Potter-bækurnar, Bróður minn ljónshjarta, Línu Langsokk, Rauðhettu og úlfinn og Hans og Grétu, auk þess sem klæðnaður Úlfs í gegnum bókaflokkinn felur í sér bókmenntavísanir, hann klæðist t.d. spædermangalla í fyrstu bókinni. Í Nornasögu: Hrekkjavökunni er einnig vísað í bandaríska dægurmenningu, meðal annars í formi hrekkjavökunnar sem flest börn í dag þekkja í gegnum bandarískar útgáfur hennar. Einnig er Katla klædd í gervi kvikmyndanornarinnar úr Galdrakarlinum í Oz þegar hún hittir Gullveigu fyrst en reyndar er einnig vísað í kvikmyndina í Úlfi og Eddu: Dýrgripnum (68). Það eru því ófáir menningarheimar sem eru tengdir í gegnum bækur Kristínar Rögnu. Í bókunum um Úlf og Eddu er Úlfur duglegur að vísa í verk J. R. R. Tolkiens sem var vel að sér í íslenskum goðsögum og höfundur lokar hringnum með textatengslunum í Drottningunni þegar einn af dvergunum í svartálfaheimi þylur upp nafnaromsu dverga kannast Úlfur við mörg nöfnin því hann „sá bíómyndina um Hobbitann“ (56).
Höfundarverk Kristínar Rögnu er að verða sífellt þéttari vefur tilbrigða og tenginga sem meira áberandi eftir því sem það stækkar. Í ljósi þess að von er á þriðju bókinni í öðrum þríleik hennar mega lesendur gera sér vonir um þann þriðja og það verður sérlega fróðlegt að sjá hvernig hún þróar Nornasögu og hvort fleiri bækur í svipuðum stíl fylgi á eftir. Sérgrein Kristínar Rögnu er að finna nýstárlegar leiðir til að nálgast sagnaarfinn og brúa bilið milli hans og nútímans í marglaga verkum sem vísa til fortíðar, nútíðar og framtíðar bæði í mynd og texta.
Elín Björk Jóhannsdóttir, mars 2021
Til þessara greinaskrifa hlaut Bókmenntavefurinn styrk frá
Awards
2015 - IBBY (International Board on Books for Young People) Iceland, a spring award for contribution to children's culture
2013 - Placed on the honorary list of IBBY Iceland for illustrations: Hávamál
2012 - Icelandic Illustration Award Dimmalimm: Hávamál
2010 - Special recognition by FÍT (The Association of Illustrators)
2009 - Icelandic Illustration Award Dimmalimm: Örlög guðanna
2009 - Special recognition by FÍT (The Association of Illustrators)
Nominations
2018 - The West Nordic Council’s Children and Youth Literature Prize: Úlfur og Edda: Dýrgripurinn
2018 - In Other Words: Úlfur og Edda: Dýrgripurinn
2017 - The Women's Literature Prize: Úlfur og Edda: Dýrgripurinn
2017 - The Nordic Council Children and Young People’s Literature Prize: Úlfur og Edda: Dýrgripurinn
2008 - The Icelandic Literature Award: Örlög guðanna
Nornasaga: Hrekkjavakan (Story of a Witch : Halloween)
Read moreÚlfur og Edda : Drottningin (Úlfur and Edda : The Queen)
Read moreÚlf a Edda: Ukradený kleenot
Read moreÚlfur og Edda : Drekaaugun (Úlfur and Edda : The Dragon's Eyes)
Read moreÚlfur og Edda: dýrgripurinn (Úlfur and Edda : The Precious)
Read moreLygnin
Read moreEngar ýkjur (No Exaggerations)
Read moreLokaorð (The Final Words)
Read more