Úr Bréfbátarigninginni:
Úr sögunni „Vængmaður”
Í rauninni er ég fremur jarðbundinn maður, en ég á tvo árganga af Populær Mekanik, sem ég skoða oft í einverunni á kvöldin og rakst þar á þessa bráðsnjöllu teikningu af vængjum sem ég svo smíðaði úr naumum efniviði. Dálítið síðan smíðinni lauk, en það var ekki fyrr en í haust að ég fór að nota þá að ráði.
Í rökkri spenni ég á mig vængina, opna glugga á hanabjálkanum. Glerhiminn tekur við mér. Á fluginu er ég stundum með eitthvað að lesa, oftar en ekki Stjörnufræði Björns Jenssonar Latínuskólakennara, gamalt kver í fjólubláum lúðum spjöldum. Vængirnir eru svo hugvitssamlega hannaðir að handleggir eru að mestu frjálsir, og ég er með lítið vasaljós, rýni í kverið, glöggva mig hikandi á stjörnumerkjum, bæri vængina ofurhægt.
Það er engin hollusta í að fljúga strax eftir kvöldmat, svo ég læt fara vel um mig fram undir miðnætti heima, horfi svolítið á sjónvarp, helli upp á hverja kaffikönnuna af annarri, og þegar tími er kominn til að ganga upp stigann er ég orðinn glaðvakandi, hvert skilningarvit vel á verði.
Bærinn er ekki stór. Hálfsofandi strax um tólfleytið. Að vísu stingast bláir glampar hér og þar út í myrkur, og þar sem ég sé glætu leggst ég á glugga. Stundum er dálítill hvinur frá vængjunum þegar ég lendi. En hér um slóðir er sjaldan logn og enginn tekur þyt við glugga alvarlega.
Fyrir kemur að ég sunki fyrirvaralaust niður um tugi metra sé ókyrrð í lofti og er rétt að segja brotlentur á bárujárnsþökunum sem tindra dauft í hálfmánanóttinni. Undir þökunum liggur fólk og dreymir. Mig dreymir örsjaldan. Sef lítið, tek mér stuttan blund heimkominn úr næturferðum og búinn að brjóta vængina snyrtilega saman ofan í leðurkassa. Svo vakna ég og dreg skellinöðruna út úr jarðhýsi sínu, ek hjálmlaus út malarveginn áleiðis til bæjarins. Ég bý í stóru húsi sem gnæfir eitt á klettahæð um það bil kílómetra fyrir innan byggðina. Klettahæðin rís úr mýrlendri sléttu.
Ég vinn í prentsmiðju.
(s. 95-97)