Æviágrip
Friðrik Erlingsson er fæddur 4. mars 1962 í Reykjavík og útskrifaðist sem grafískur hönnuður frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1983. Hann var lagahöfundur og gítarleikari í hljómsveitunum Purrki Pillnikk frá 1981 – 1983 og Sykurmolunum frá 1986 – 1988, á plötunum Einn moli’ á mann og Life’s too good, og einn af stofnendum Smekkleysu.
Friðrik hefur starfað sem myndskreytir, texta- og hugmyndasmiður og hönnunarstjóri á ýmsum auglýsingastofum, en fyrsta skáldsaga hans, Benjamín dúfa, hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin 1992 og Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar 1994. Bókin hefur verið gefin út víða erlendis, þar á meðal í Bandaríkjunum, Ítalíu og Bretlandi. Hún var tilnefnd til Norrænu barnabókaverðlaunanna árin 1992 og 1995. Friðrik skrifaði einnig handrit að samnefndri kvikmynd sem hefur fengið verðlaun víða um heim.
Friðrik fékk Sérstök verðlaun evrópskrar dómnefndar (Special Prix de Jury) fyrir handrit að sjónvarpsmyndinni Góða ferð, Sveinn Ólafsson en samnefnd skáldsaga hans kom út 1998. Sagan var gefin út af Meadowside Children’s Books í Bretlandi 2006 undir heitinu Fish in the Sky og 2011 sama forlag gaf út skáldsöguna Bróðir Lúsifer, sem kom út á frummálinu árið 2000.
Friðrik hefur samið fjölda söngtexta. Má þar nefna „Í nótt” við lag Ingva Þórs Kormákssonar, sem Eivör Pálsdóttir flutti í undankeppni Eurovision 2003, og „Íslands barn”, „Vernd” og „Minning þín”, sem öll eru við lög eftir Gunnar Þórðarson. Auk þess hefur hann samið og þýtt texta fyrir helstu dægurlagasöngvara þjóðarinnar, til að mynda Guðrúnu Gunnarsdóttur, Sigríði Beinteinsdóttur, Björgvin Halldórsson, Leone Tinganelli svo og Borgardætur og Frostrósir.
Friðrik hefur skrifað handrit að sjónvarpsmyndum og kvikmyndum og kennt handritaskrif við Kvikmyndaskóla Íslands. Hann skrifaði handrit að fyrstu tölvugerðu teiknimyndinni, Litla lirfan ljóta, sem framleidd var af Caoz, en með því fyrirtæki hefur hann unnið handrit að tölvugerðri teiknimynd í fullri lengd, Þór í heljargreipum, sem var frumsýnd haustið 2011. Sú mynd er byggð á samnefndri bók Friðriks frá 2008, en önnur bókin um Þór. Leyndarmál guðanna, kom út haustið 2010.
Friðrik hefur þýtt tvær bækur sænsku skáldkonunnar Monu Nilsson-Brannstrom, Tsatsiki og Mútta og Tsatsiki og Pápi, en fyrir þá fyrrnefndu hlaut hann Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar í flokki þýðinga 2002.
Um höfund
Á vegamótum bernskunnar. Um verk Friðriks Erlingssonar
Höfundarverk Friðriks Erlingssonar er nokkuð margbreytilegt. Hann hefur samið dægulagatexta og þýtt aðra á íslensku. Þýtt barnabók, skrifað skáldsögur fyrir börn og fullorðna, en einnig kvikmyndahandrit, sjónvarpshandrit og ævisögur. Þá hefur hann gert myndskreytingar fyrir bækur. Þó svo verkefnaflóra Friðriks nái yfir ansi marga flokka þá er hægt að finna ákveðin meginþráð sem skáldverk hans virðast fylgja, þau eru yfirleitt annað hvort fyrir börn eða um börn. Þetta á ekki aðeins við um barnabækur hans, Benjamín dúfu (1992) (sem seinna var aðlöguð kvikmyndaforminu í samnefndri mynd Gísla Snæs Erlingssonar (1995) eftir handriti Friðriks), Afa minn í sveitinni (1988) og Annað sumar hjá afa (1993), heldur fjalla aðrar skáldsögur hans líka að verulegu leyti um börn. Aðalpersónurnar í Bróður Lúsífer (2000), og Góða ferð, Sveinn Ólafsson (1998) eru börn og unglingar. Þetta á líka við um Vetrareld (1995) að því leyti að framan af sögunni er fjallað um bernsku- og unglingsár aðalpersónunnar Lilju. Hún er sú eina af aðalpersónum þessarra skáldsagna sem við fylgjum eftir allt frá bernsku til fullorðinsára.
Persónur skáldsagna Friðriks eru flestar utangarðs að einhverju leyti. Titilpersónan í Góða ferð, Sveinn Ólafsson, er þó ósköp venjulegur þrettán ára strákur sem tekur upp á því að hætta í skólanum til þess að hugsa sín mál:
Auðvitað er allt satt í þessu bréfi; ég get ekki farið í skólann, það er sannleikur. Ég hvorki get né vil. Eina lygin er sú að það var ekki mamma sem skrifaði bréfið heldur ég. En það myndi heldur enginn taka mark á því sem ég segði svo þetta er eina leiðin sem ég hef til að kaupa mér frið, kaupa mér tíma til að hugsa málið. Það er allt og sumt. Kannski fer ég aftur í skólann einn góðan veðurdag og þá verður þetta bréf löngu gleymt og mamma mun ekkert um það vita. (119-120)
Sveinn yfirgefur sem sagt samfélagið / skólann til þess að finna sjálfan sig eða einhverja merkingu í lífi sínu. Fyrst hafði hann ætlað að deyja en hættir svo við það. Í tilvitnuninni hér að framan kemur fram að hann er ekki að yfirgefa samfélagið fyrir fullt og allt, enda snýr hann að lokum aftur.
Þetta er bara meðvituð ákvörðun um að hann þurfi tíma til að finna sjálfan sig.
Persónurnar í Bróðir Lúsífer eru langflestar utangarðs eins og Sveinn, en þó er sá munur á að þær taka ekki eins meðvitaða ákvörðun um að yfirgefa samfélagið, heldur æxlast hlutirnir frekar þannig. Aðalpersónan er unglingurinn Hinrik Vilhjálmur Ríkarður Karl sem er alltaf kallaður Lúsífer vegna þess hversu ljótur hann er. Hann bjó hjá mömmu sinni og þegar hann var yngri ætlaði hann alltaf að hjálpa henni, en vegna stríðni og aðkasts verður hann sífellt erfiðari, þar til hún verður að senda hann frá sér. Hversu ljótur hann er og illa talandi gerir það að verkum að hann á erfitt með að komast inn í samfélagið, hvort sem um er að ræða borgina eða sveitabæinn sem hann er sendur á þegar mamma hans getur ekki haft hann lengur. Lúsífer langar til að falla inn í hópinn, vera venjulegur og þess vegna verður hann upp með sér ef einhver gerir svo lítið að tala við hann:
Lúsífer haltraði á eftir þeim og var að hugsa um Skugga sem hafði komið til hans og talað við hann eins og venjulegan mann, spurt hvað væri austur og hvað norður. Það var góð tilfinning að hafa getað svarað honum næstum hiklaust. Það var líka gaman að vita eitthvað sem Skuggi vissi ekki; hann hafði spurt eins og þetta væri leyndarmál sem þeir áttu saman, Skuggi og Lúsífer. (26)
Þessi tilfinning endist þó aldrei lengi og hann verður illskeyttari við hver vonbrigði. Þráin eftir að komast inn í samfélagið á ekki bara við um Lúsífer heldur flestar persónurnar í sögunni. Meginsögusviðið er bóndabær á stað sem kallaður er Helvíti, staður þar sem engin af persónunum vill vera. Þær hafa lent þar, ekki vegna vals, heldur hafa hlutirnir æxlast þannig að þær virðast dæmdar til að komast aldrei inn í samfélagið að fullu.
Það er vafamál hvort Lilja í Vetrareldi velur sér einangrun eða ekki, en hún virðist alltaf kunna best við sig einhvers staðar á mörkunum. Í bernsku er hún hænd að fyllibyttu þorpsins sem helst enginn vill tala við og virðist með því finna til meiri samkenndar með utangarðsmanninum en öðrum.
Eftir að til Reykjavíkur kemur gerist hún ballettdansari og verður þar með hluti af vissu samfélagi, sem hún smám saman einangrast frá þegar hún veikist. Þrátt fyrir að hún eigi son gæti hún allt eins verið án fjölskyldu, því hann reynir að komast hjá því að hitta hana. Fólk hættir að sjá hana og hún nálgast það að vera ósýnileg. Þegar hún dettur á svelli nærri lokum bókarinnar og brýtur annan fótinn tekur enginn eftir henni:
Slydduflygsurnar hröpuðu letilega í kringum hana og yfir hana á meðan bílarnir brunuðu framhjá, ósýnilegri á milli skaflanna [. . .] Hún heyrði ógreinilegar raddir fólks á götunni, fótatak á gangstéttum en það virtist allt vera að fjarlægjast. (319-320)
Lilja liggur í skafli í miðri borginni, en hún gæti allt eins verið úti í auðninni, því enginn sér hana. Það er ekki fyrr en mörgum tímum eftir að hún dettur að Tómas tekur loks eftir henni, en það er alls óvíst hvort hún muni lifa af þrátt fyrir að hafa fundist.
Barnabækur Friðriks fjalla ekki um slíka einangrun. Bækurnar Afi minn í sveitinni og Annað sumar hjá afa fjalla um strák sem fer í sumarfrí til afa síns. Þeir eru ekki utan samfélagssins, þeir eru bara úti í sveit og mjög ánægðir með það. Staðurinn er því síður en svo líkur því „Helvíti“ sem Lúsífer býr í.
Þeir strákurinn og afi kunna vel við félagsskap hvors annars, meðal annars vegna þess að þeir eru að sumu leyti líkir. Strákurinn sem segir söguna í Annað sumar hjá afa segir til dæmis um afa sinn: „Hann var nefnilega prakkari í sér og hálfgerður krakki inn við beinið“. (6)
Benjamín dúfa fjallar um stráka sem stofna riddarareglu til að berjast gegn ranglæti með réttlæti. Þannig afmarka þeir sér svæði, fólk kemur og horfir á þá skylmast, en þeir eru þó ekki utangarðs. Þeir verða þvert á móti hetjur samfélagsins sem þeir búa í og það má jafnvel segja að þeir verði miðpunktur þess þegar þeir hefjast handa við að safna peningum fyrir Guðlaugu sem missir heimili sitt í eldsvoða. Þeir þjappa fólkinu betur saman með þessu uppátæki sínu, vegna þess að allir leggjast á eitt við að hjálpa henni. Það kemur vel fram þegar Guðlaug fær húsið sem var byggt fyrir féð sem safnaðist í söfnun riddaranna:
Aftur var klappað og hrópað: Riddarar – riddarar – riddarar! Allt í einu fann ég hendur grípa um mittið á mér og okkur Róland og Balda var lyft upp og við bornir í gegnum hópinn til Guðlaugar. Hún faðmaði okkur að sér hvern á fætur öðrum, hló og brosti og grét en gat ekkert sagt nema: Elsku strákarnir mínir . . . elsku kallarnir mínir. (100-101)
Eitt af því sem tengir Benjamín dúfu við aðrar skáldsögur Friðriks er hversu nálægur dauðinn er. Köttur Guðlaugar er drepinn og það verður til þess að strákarnir taka málin í sínar hendur og hefna hans eins og riddurum sæmir. Seinna deyr einn strákanna, Baldur, fyrir slysni þegar riddaraleikurinn verður aðeins of raunverulegur. Í kjölfar dauðans koma svo alltaf breytingar. Regla rauða drekans er stofnuð eftir að kötturinn er drepinn og hún líður undir lok eftir að Baldur deyr.
Á sama hátt fylgja breytingar dauðanum í Vetrareldi og Bróður Lúsífer. Til dæmis má benda á að Lilja og mamma hennar taka sig upp eftir að pabbi Lilju deyr, en það á eftir að kollvarpa lífi hennar. Svipaðar breytingar er líka hægt að finna í lífi persóna í Bróður Lúsífer, en hins vegar er þetta dauðaþema ekki að finna í Góða ferð, Sveinn Ólafsson.
Ef grannt er skoðað má jafnvel sjá að dauðinn er að vissu leyti nálægur í Annað sumar hjá afa þar sem afinn og strákurinn sem segir söguna eru að veiðum og selkópur flækist í netinu hjá þeim. Þegar afi dregur hann upp í bátinn er hann meðvitundarlaus, en afa tekst að blása lífi í hann. Þannig er lífsháski til staðar, þó það sé ekki maður sem er í háska.
Eitthvað sem ógnar lífi eða heilsu má finna í flestum bókum Friðriks, meira að segja í Króni og Króna í Smáralandi (2000) þar sem aðalpersónurnar eru á flótta undan eyðsluklónni stórhættulegu. Þetta er barnabók sem á að kenna börnum að spara krónurnar sínar og þar eru ekki mennskar persónur í hættu, frekar en í Annað sumar hjá afa. Í barnabókunum er það bara í Benjamín dúfu sem mennskar persónur eru í lífsháska. Í öðrum skáldsögum Friðriks er háskinn ekki bara fólginn í einhverju sem ógnar lífi viðkomandi, heldur er oft um að ræða einhvers konar sálarháska. Persónurnar hafa til dæmis verulega tilhneigingu til þess að einangrast frá öðrum.
Það er eftirtektarvert hversu miklir einstæðingar persónur í skáldsögum Friðriks eru. Lúsífer í samnefndri bók er vissulega ekki föðurlaus því hann á sér þrjá feður, en enginn þeirra hefur samband við hann. Hann hefur alist upp hjá móður sinni þar til hún ræður ekki við hann lengur og hann er sendur í sveit til hjóna sem hafa tekið að sé vandræðabörn. Eftir að Lúsífer er kominn í sveitina flytur móðir hans til Danmerkur. Öll fjölskylda hans er því fjarverandi og hann er hálfgerður einstæðingur. Þetta er ekki alveg eins áberandi í öðrum skáldsögum Friðriks og Lúsífer er einangraðastur þessara persóna.
Lilja í Vetrareldi missir föður sinn á unga aldri, en báðir foreldrar hennar eru þó til staðar í upphafi, þrátt fyrir síendurteknar fjarvistir föður hennar. Eftir að faðir hennar deyr fer móðir hennar líka að hverfa frá henni inn í sig og deyr að lokum. Móðursystirin tekur hins vegar við hlutverki móðurinnar svo hún verður ekki sami einstæðingurinn og Lúsífer; ekki fyrr en síðar. Bæði í Vetrareldi og Bróður Lúsífer búa aðalpersónur með einstæðum mæðrum sínum. Þannig má segja að einstæðar mæður séu endurtekið stef hjá Friðrik, enda gildir það sama um Góða ferð Sveinn Ólafsson.
Staða Sveins er samt líklega best, því þrátt fyrir allt á hann báða foreldra sína að, þó svo þau séu skilin. Faðir hans hefur lítinn tíma fyrir hann, en þó er hann til staðar. Þessar þrjár persónur eiga það þó sameiginlegt að þær einangrast frá samfélaginu og fjölskyldunni, annað hvort varanlega eða tímabundið.
Í barnabókum Friðriks er lífið einfaldara og fjölskyldan frekar til staðar. Baldur í Benjamín dúfu býr vissulega hjá einstæðri móður sinni, en hinir og þar á meðal titilpersóna bókarinnar búa allir hjá báðum foreldrum sínum. Í bókunum Afi minn í sveitinni og Annað sumar hjá afa koma bæði mamma og pabbi strákins með hann til afa. Lífið er einfalt hjá stráknum í þessum bókum, og litlar líkur á að hann missi tökin á tilverunni og jafnvel þó svo það gerðist er alltaf einhver til staðar, til dæmis afinn.
Í Benjamín dúfu er lífið aðeins flóknara og aðalpersónurnar missa jafnvel tökin á tilverunni um tíma eftir að Baldur deyr. Að missa tökin á tilverunni er síendurtekið stef hjá Friðriki í skáldsögum hans. Að einhverju leyti virðist þetta alltaf tengjast barnæskunni og því væri hægt að álykta sem svo að viðfangsefnið sé oftast breytingin frá barni til fullorðins. Barnið verður að losa takið á öryggisneti barnæskunnar til að standa á eigin fótum.
Spurningin er þá bara hversu vel það tekst.
© Hákon Gunnarsson, 2002
Greinar
Um einstök verk
Benjamín dúfa
Gintarè Adomaitytè: „Kas ten, gelmèse? Nejaugi audros? : zvilgssnis i Islandu vaikku literatûra“
Krantai: Meno kultûros zurnalas 2009, 1. tbl. bls. 39-41.
Silja Aðalsteinsdóttir: „Ný riddarasaga“.
Tímarit Máls og menningar 54. árg., 1. tbl. 1993, s. 102-105
Bróðir Lúsifer
Lanae Hjortsvang Isaacson: „Brodir Lusifer“
World literature today, 76. árg. 2002, s. 195
Hliðargötur
Lanae Hjortsvang Isaacson: „Hliðargötur“
World literature today, 76. árg. 2002, s. 18-19
Ragnheiður
Ásta Andrésdóttir: „Skálholt’s star-crossed lovers“
Iceland Review 2014, 52. árg., 2. tbl. bls. 10.
Benedikt Jóhannesson: „Heimilisbölið er þyngra en tárum taki: enginn slítur úr sér hjartað“
Vísbending 2013, 31. árg., 48. tbl. bls. 6-8.
Tsatsiki og mútta
Anna Heiða Pálsdóttir: „Tsatsiki og mútta“
Börn og menning, 17. árg., 2. tbl. 2002, s. 18-19
Þór í heljargreipum
Brynja Baldursdóttir: „Eilíft stríð milli góðs og ills“ (ritdómur)
Börn og menning 2009, 24. árg., 1. tbl. bls. 24-5.
Helga Birgisdóttir: „Hvað er málið með menn og guði?“ (ritdómur)
Spássían 2010, 1. árg. (vetur) bls. 36.
Þór: Leyndarmál guðanna
Ragnhildur Blöndal: „Ofurtöffarinn Þór“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Greinar og viðtöl við Friðrik hafa einnig birst í dagblöðum, sjá t.d. Gagnasafn Morgunblaðsins
Verðlaun
Verðlaun og viðurkenningar
2002 - Barnabókaverðlaun Fræðsluráðs Reykjavíkur: Tsatsiki og Mútta eftir Monu Nilsson-Brännström (þýðing)
1993 - Barnabókaverðlaun Skólamálaráðs Reykjavíkur: Benjamín dúfa
1992 - Íslensku barnabókaverðlaunin: Benjamín dúfa
Tilnefningar
1994 og 1995 - Norrænu barnabókaverðlaunin: Benjamín dúfa
Benjamín dúfa
Lesa meiraÞór: Leyndarmál guðanna
Lesa meiraÞór - Í Heljargreipum
Lesa meiraBenjamin Dove (hljóðbók)
Lesa meiraZalozba Grlica
Lesa meiraFish in the Sky
Lesa meiraBenjamin Dove
Lesa meiraBenjaminas Balandis
Lesa meiraLa larva fea
Lesa meira
Glæstar vonir
Lesa meiraBaskerville hundurinn
Lesa meiraDrakúla
Lesa meiraDrakúla – hljóðbók
Lesa meiraRómeó og Júlía
Lesa meiraFýkur yfir hæðir
Lesa meiraFýkur yfir hæðir - hljóðbók
Lesa meiraInnrásin frá Mars
Lesa meiraInnrásin frá Mars - hljóðbók
Lesa meira