Beint í efni

Friðrik Erlingsson

Æviágrip

Friðrik Erlingsson er fæddur 4. mars 1962 í Reykjavík og útskrifaðist sem grafískur hönnuður frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1983. Hann var lagahöfundur og gítarleikari í hljómsveitunum Purrki Pillnikk frá 1981 – 1983 og Sykurmolunum frá 1986 – 1988, á plötunum Einn moli’ á mann og Life’s too good, og einn af stofnendum Smekkleysu.

Friðrik hefur starfað sem myndskreytir, texta- og hugmyndasmiður og hönnunarstjóri á ýmsum auglýsingastofum, en fyrsta skáldsaga hans, Benjamín dúfa, hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin 1992 og Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar 1994. Bókin hefur verið gefin út víða erlendis, þar á meðal í Bandaríkjunum, Ítalíu og Bretlandi. Hún var tilnefnd til Norrænu barnabókaverðlaunanna árin 1992 og 1995. Friðrik skrifaði einnig handrit að samnefndri kvikmynd sem hefur fengið verðlaun víða um heim.

Friðrik fékk Sérstök verðlaun evrópskrar dómnefndar (Special Prix de Jury) fyrir handrit að sjónvarpsmyndinni Góða ferð, Sveinn Ólafsson en samnefnd skáldsaga hans kom út 1998. Sagan var gefin út af Meadowside Children’s Books í Bretlandi 2006 undir heitinu Fish in the Sky og 2011 sama forlag gaf út skáldsöguna Bróðir Lúsifer, sem kom út á frummálinu árið 2000.

Friðrik hefur samið fjölda söngtexta. Má þar nefna „Í nótt” við lag Ingva Þórs Kormákssonar, sem Eivör Pálsdóttir flutti í undankeppni Eurovision 2003, og „Íslands barn”, „Vernd” og „Minning þín”, sem öll eru við lög eftir Gunnar Þórðarson. Auk þess hefur hann samið og þýtt texta fyrir helstu dægurlagasöngvara þjóðarinnar, til að mynda Guðrúnu Gunnarsdóttur, Sigríði Beinteinsdóttur, Björgvin Halldórsson, Leone Tinganelli svo og Borgardætur og Frostrósir.

Friðrik hefur skrifað handrit að sjónvarpsmyndum og kvikmyndum og kennt handritaskrif við Kvikmyndaskóla Íslands. Hann skrifaði handrit að fyrstu tölvugerðu teiknimyndinni, Litla lirfan ljóta, sem framleidd var af Caoz, en með því fyrirtæki hefur hann unnið handrit að tölvugerðri teiknimynd í fullri lengd, Þór í heljargreipum, sem var frumsýnd haustið 2011. Sú mynd er byggð á samnefndri bók Friðriks frá 2008, en önnur bókin um Þór. Leyndarmál guðanna, kom út haustið 2010.

Friðrik hefur þýtt tvær bækur sænsku skáldkonunnar Monu Nilsson-Brannstrom, Tsatsiki og Mútta og Tsatsiki og Pápi, en fyrir þá fyrrnefndu hlaut hann Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar í flokki þýðinga 2002.