Úr Hótelsumri:
Einkennilegt með þennan litla bæ; mér finnst ég þekkja svo fáa hér núna þótt ég hafi verið hérna þegar ég var lítill. Eru allir fluttir burtu, eða dánir? Hvað verður um fólk þegar maður flytur úr fæðingarbæ sínum? Kannski eru flestir bara til í huga manns, og leysast sundur þegar maður fer.
Á sunnudagsmorgni rölti ég framhjá litlu kirkjunni. Það er morgunmessa og fólkið tínist inn í guðshúsið. Ég horfi á gamalmennin silast inn um dyrnar, kannast varla við nokkurn þeirra. Í þessari kirkju sótti ég sunnudagaskóla og fékk fullt af Jesúmyndum, sem voru forverar fótboltamyndanna. Jesús á fjallinu. Jesús í Grasgarðinum. Jesús að lækna sjúka. Jesús að bursta tennurnar. Nei annars, það var víst engin þannig mynd.
Kirkjudyrnar lokast. Daufur orgelómur berst um steinda glugga út á götuna við litla torgið, ásamt söngli skjálfandi radda sem óttast dauðann.
(s. 73-4)