Æviágrip
Kristian Guttesen fæddist þann 29. maí árið 1974 í Danmörku og ólst þar upp en flutti til Íslands 11 ára gamall. Hann var við nám í Bretlandi á árunum 1995-9 og útskrifaðist með BS-próf í hugbúnaðarverkfræði frá University of Glamorgan í Wales. Síðar lauk hann MA-prófi í ritlist, MA-prófi í heimspeki og viðbótardiplómu í kennslufræðum við Háskóla Íslands. Kristian er nú í doktorsnámi við University of Birmingham í Englandi, þar sem hann leitar leiða til að efla siðferðisþroska nemenda á unglingastigi grunnskóla með aðstoð ljóðlistar.
Fyrsta ljóðabók Kristians, Afturgöngur, kom út árið 1995 og í kjölfarið hafa fylgt fjölmargar ljóðabækur, síðast Englablóð og Hendur morðingjans, sem báðar komu út árið 2016. Kristian var tilnefndur til íslensku þýðingaverðlaunanna fyrir þýðingu sína á skáldsögu Carl Frode Tiller Brekkan árið 2007. Þá hefur hann komið fram og lesið upp á ljóðahátíðum bæði hérlendis og á erlendri grundu.
Verk Kristians hafa verið þýdd á fjölda tungumála, þar á meðal albönsku, dönsku, frönsku, spænsku og úkraínsku. Úrval ljóða Kristians í enskri þýðingu kom út undir titlinum Lady of the Mountain and Other Poems árið 2017.
Frá höfundi
Reynslusögur, stílæfingar, heilræði og útúrdúrar. Var það eitthvað fleira?
Ég var á að giska tvítugur. Ég sendi Gísla Sigurðssyni, þáverandi ritstjóra Lesbókar Morgunblaðsins, ljóð til birtingar. Hann birti þau sum hver, ef ekki öll, þó stundum eftir að hafa breytt þeim lítillega eða „fært til betri vegar“, eins og það kallaðist.
Semdu ljóð. Í því eiga eftirfarandi orð að koma fyrir: Tré, stígur, dreki.
Um svipað leyti – þetta var fyrir tíma netvæddrar símaskrár – hringdi ég heim til skáldkonu sem hafði nýlega gefið út sína fyrstu bók (1994) og spurði hana beint út hvaða kröfum handrit þyrfti að uppfylla til að tímabært þætti að gefa það út. Þá hafði ég verið að yrkja í ritlistarhópi í Verzlunarskólanum í nokkur ár. (Þar hittumst við vikulega nokkrir nemendur ásamt frábærum kennara, honum Þórði, og lásum yfir ljóð hver annars og gagnrýndum.) Svör hennar voru á þá lund að mér var ekki til setunnar boðið og stefndi á útgáfu árinu á eftir.
Þér stendur til boða að senda bréf aftur í tímann. Skrifaðu þér sjálfri (eða sjálfum) fyrir 10 árum bréf. Nú skaltu skrifa sams konar bréf – en það sendist 20 ár fram í tímann.
Fyrsta ljóðabókin sem ég eignaðist var Yfir heiðan morgun. Ég kunni ekki deili á höfundinum, en staldraði við mörg ljóðanna í bókinni, las þau aftur og aftur og reyndi að skilja þau á mismunandi vegu. Hver var hún t.d. konan í þessu ljóði, sem e.t.v. fjallaði um brostna ást?
Hvort sem ég hef verið í förum
höfin milli landa eða staddur
í fjarlægum álfum hefur mér aldrei
fundizt langt hingað.
En héðan hefur mér jafnan þótt langt
þangað sem Hildur gekk að sofa.
Sennilega var það bara dæmi um óleysanlega spennu, sem aftur má heimfæra á ýmislegt, eins og til dæmis ást.
Íslenskukennarinn minn í gagnfræðaskóla var ströng en sanngjörn kona. Hún lagði fyrir okkur verkefni um Jónas Hallgrímsson. Það þótt erfitt og illleysanlegt. Raunar svo svæsið að það gat næstum enginn neitt í því. Mér hafði dottið í hug það snjallræði að fara með það á elliheimilið þar sem mamma vann og biðja vistmennina um aðstoð. Hinir krakkarnir í bekknum spurðu kennslukonuna hvort ég fengi ekki bara mínus í kladdann fyrir svona svindl. Hún svaraði: „Jah, hann hafði þó alla vega vit á því að sækja sér hjálp!“
Ritaðu ævisögu þína í 6 orðum.
Því næst skaltu endurskrifa hana í 2 orðum.
Í einu orði?
Þau ár sem ég sat ritlistarhópinn í Verzlunarskólanum vonaðist ég alltaf til að geta einhvern tímann lagt fram ljóð sem yrði samþykkt athugasemdalaust af hópnum. Það tókst raunar aldrei og það var fyrst löngu seinna sem ég skildi að lærdómurinn hefði einmitt falist í þeim endalausu athugasemdum sem þar komu fram og í því að endurhugsa, endurskoða og endurrita eigin ljóð. Þangað til ég sjálfur væri sáttur við útkomuna. En það var akkúrat viðmiðið sem skáldkonan hafði ráðlagt mér að styðjast við forðum.
Síðla árs eftir að fyrsta bókin mín kom út hringdi skáldkonan, sem í fyrra símtali hafði hvatt mig til dáða, og óskaði mér til hamingju með bókina og þá jákvæðu athygli sem hafði fylgt í kjölfarið. Hún kvaðst ánægð með að hún hefði haft áhrif á útgáfuferlið.
Gefðu út bók á eigin kostnað. Ef þú getur selt Dr. Gunna hana, þá eru þér allir vegir færir.
Kristian Guttesen, janúar 2018
Greinar
Um einstök verk
Mótmæli með þátttöku – bítsaga
Hjalti Snær Ægisson: „Um ljóðabækur ungskálda frá árinu 2004: Nokkrar glæfralegar athugasemdir“
Són, 3. hefti 2005 (3. árg.) bls. 141-59. Hægt er að lesa greinina hér á tímarit.is.
Hrafnaklukkur
Haukur Þorgeirsson: „Hrafnaklukkur [ritdómur]“
Són, 16. hefti 2018 (16. árg.) bls. 164-165.
Verðlaun
Tilnefningar
2007 – Íslensku þýðingaverðlaunin: Brekkan (Skråninga) eftir Carl Frode Tiller
Hrafnaklukkur
Lesa meiraLady of the Mountain and Other Poems
Lesa meiraHendur morðingjans
Lesa meiraEnglablóð
Lesa meiraElífðir: úrval ljóða 1995-2015
Lesa meiraÍ landi hinna ófleygu fugla
Lesa meiraPoems from Echo One
Lesa meiraVegurinn um Dimmuheiði
Lesa meiraGlæpaljóð
Lesa meira
Brekkan
Lesa meira