Af bókarkápu:
Mamma er upptekin og alveg hætt að brosa. Eitthvað verður að gera. En hvað? Tolli og Toddi vita það vel ...
Úr Gröllurum í gleðileit:
Þegar mamma sest fyrir framan tölvuna laumar Tolli nesti í ullarflókann hans Todda. Til öryggis stingur hann þangað líka háf, sparibauk og löngum stiga. Það gæti orðið snúið að finna eitthvað sem gleður mömmu.
- Kannski heyrir mamma illa?
- Við getum athugað hvort það séu til eyru í dótabúðinni.
- Heldurðu það?
- Ég sá að minnsta kosti eyru þegar við keyptum Kínverjana um daginn, Kínverjana sem við sprengdum á meðan mamma svaf, flissar Toddi.
Þeir finna fljótt eyru úr ekta plasti og fimm sinnum stærri en eyrun á mömmu.
- Frábært, jarmar Toddi.
- Dýrt, hvíslar Tolli og dregur fram sparibaukinn.
- Þetta var auðvelt. Þurfum við eitthvað fleira? spyr Tolli.
- Kökur, svarar Toddi. - Ef eitthvað fær mömmur til að brosa eru það gómsætar tertur.