Úr Nonni og Selma: Fjör í fyrsta bekk:
Þegar krakkarnir komu inn úr frímínútunum beið Kristín skólastjóri í stofunni þeirra. Flestir krakkarnir í skólanum voru svolítið smeykir við Kristínu því hún stormaði um gangana og skammaði nemendur fyrir að mæta of seint eða bora í nefið. Svo var hún bæði helmingi feitari og hundrað sinnum eldri en Anna Fríða. Já, Anna Fríða hefði eiginlega getað horfið inn í Kristínu, þær voru eins og álfkona og tröllskessa þar sem þær stóðu þarna hlið við hlið í stofunni.
Kristín beið eftir að allir væru sestir í sætin sín. Svo sagði hún bekknum að veskið hennar Önnu Fríðu væri týnt. Hún sagðist vona að enginn hefði stolið því en kannski hefði einhver tekið það óvart. Ef það hefði gerst væri hægt að skila veskinu í póstkassa skólans. Þá yrði ekkert meira gert í málinu. Annars yrði hún að hringja á lögregluna.
(bls. 43)