Reykjavík : Almenna bókafélagið, 1993. Uglan, 1995, 1997, 1998
Úr Englar alheimsins:
En svo kom guð.
Hann sagði mér að ég væri síðasti maður jarðarinnar, að ég ætti að hefja smíðar og breyta herberginu mínu í örk.
„Hvernig?” spurði ég.
Hann sagði að það væri ekkert mál en að ég yrði að hafa með mér konu.
Þá skrifaði ég konunni í næsta húsi nýtt bréf: „Ég hef ákveðið að þiggja boð þitt um holdlegt samræði. Þér er velkomið að koma yfir til mín og þú þarft ekkert að hugsa um manninn þinn. Hann er uppspuni frá rótum. Viljirðu heldur skriflegan samning er hann einnig í boði.”
Ég áleit að þessi örk yrði ekki svo ólík sjóræningjaskipi í laginu, en guð hafði sagt mér að í flóðinu myndi ég sigla burt með húsið einsog bát í eftirdragi.
Þarna verða káetur og kojur og kýraugu út í veröldina.
Nú rifjuðust upp fyrir mér gamlar bíómyndir um skipsþræla, sem gleymdu að taka af sér armbandsúrin áður en þeir stukku inn í fortíðina.
Ég er búinn að taka niður hansahillurnar og flytja skrifborðið frá veggnum.
Mig klæjar svo mikið í höfðinu að ég fer fram og krúnuraka mig.
Í ganginum mæti ég pabba. „Verður þú um borð?” segi ég, en pabbi ansar engu.
Hann er þreytulegur.
Hvað er klukkan?
Er dagur, nótt eða kvöld?
Febrúar eða mars?
Ég heyri að frammi hringir dyrabjallan. Mamma opnar. „Þetta vil ég ekki hafa.”
Ég þekki skrækan róm konunnar í næsta húsi.
Hún lætur mömmu fá bréfin.
Ég heyri áhuggjufullar raddirnar frammi. Ég veit að það á að fara að gera eitthvað í málunum. Ég er farinn að finna lyktina af KGB-mönnunum.
Herstöðvaandstæðingar hvetja til mótmæla gegn mér. Þeir nota NATO sem yfirvarp til að mótmæla fæðingu minni.
„Palli minn! Við viljum aðeins hjálpa þér. Svona Palli minn, opnaðu. Þú spilar svo hátt. Krakkarnir geta ekki lært.”
Ég slekk á öllu.
En þögnin er aðeins tómarúm á milli tveggja styrjalda.
Seinna fer ég fram. Það er myrkur. Allt slökkt.
Fólkið er greinilega flúið. Þeir ætla að umkringja mig.
En ég verð fyrri til.
Ég verð farinn.
Ég var berfættur og í stutterma bol.
Ég hélt að það væri nótt en þetta var snemma morguns.
Ég hljóp út rennblauta gangstéttina.
Úti var dimmt og kalt.
(s. 143-144)
X
1
Nú þegar endalokin nálgast, múrarnir hrynja og tjöldin falla, segi ég hreint út: Ég hef lifað undir fullu tungli, ferðast um himinhvolf og undirdjúp.
Ég hef elskað, ég hef hlegið, ég hef grátið og nú þegar tárin streyma og allt er svo gaman, segi ég: Ég gerði það á minn hátt.
Nei, þessi gröf er ekki nógu djúp til að rúma tilfinningar okkar allra.
Þið konur og karlar sem stukkuð niður í hyldýpið.
Þið regnvotu dagar sem grétuð á rúðunum.
Ó hve nöturleg hún er, þessi braut þjáninganna, hve fátt er eftir og lítið til.
Eilíf er þagnarnótt.
(s. 201)