Beint í efni

Eyru Busters

Eyru Busters
Höfundur
Maria Ernestam
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Sigurður Ólafsson

Eva er kona á sextugsaldri sem lifir friðsælu lífi í gömlu sumarhúsi á vesturströnd Svíþjóðar ásamt sambýlismanni sínum. Hún heldur lauslegu sambandi við vini sína til margra áratuga og reynir að rækta sambandið við börnin sín og barnabörn. Allt er því í föstum skorðum. Svo virðist alla vega vera, séð utan frá.

Þegar hún fær fallega dagbók í afmælisgjöf frá barnabarni sínu byrjar hún nefnilega að ljúka upp Pandóruboxi fortíðarinnar og þá kemur ýmislegt misfagurt upp á yfirborðið. Við fáum að kynnast æsku með ráðríkri og afar kaldlyndri móður sem aldrei sýnir dóttur sinni nokkra ást eða alúð. Raunar má segja að móðirin geri flest til að gera líf stúlkunnar nánast óbærilegt. Við kynnumst líka föður sem vissulega er mun hlýrri og ástríkari manneskja en er fjarrænn í foreldrahlutverki sínu, eins og gekk og gerðist með marga feður fyrri tíma.

Eva þarf að takast á við allt þetta ein og óstudd. Í raun er hún einna helst drifin áfram af þeim ásetningi að einn daginn, þegar hún hefur öðlast nógu mikinn styrk, þá muni hún koma móður sinni fyrir kattarnef.

Öllu þessu er lýst í Eyrum Busters, skáldsögu hinnar sænsku Mariu Ernestam sem Margrét Ísdal hefur nú þýtt yfir á íslensku. 

Eyru Busters er vel uppbyggð saga sem hámarkast í snjöllum hvörfum undir lok bókarinnar. Nálgun sögunnar minnir um margt á sögu Håkans Nessers, landa Ernestams, Kim Novak baðaði sig aldrei í Genesaret-vatni (sem kom út á íslensku 1999). Í báðum sögum er glæpurinn yfirvofandi en þó ekki það alltumlykjandi að hægt sé að flokka þær með glæpasögum. Annað sem þær eiga sameiginlegt, þó það sé kannski ekki aðalatriði, er að sögumenn eru fólk á svipuðum aldri sem lætur hugann reika aftur til sama tímabils og sviptir þar hulunni af gömlum leyndarmálum. Sænsk sveitastemning um sumar er líka allt um kring þó að það endurspeglist kannski ekki beinlínis í „sól í hjarta, sól í sinni“ sögupersónanna.

Eyru Busters er vel skrifuð saga, frásögnin er hnökralaus og höfundurinn hefur augljóslega góð tök á því að búa til plott. Ýmsum afdrifaríkum atburðum er lýst og framvindan er á margan hátt afar snjöll. Að því sögðu vantar engu að síður eitthvað til að lyfta sögunni upp, það dregur hana til að mynda niður hvað persónurnar eru einhliða og klisjukenndar. Vonda en guðdómlega fallega mamman, sem lætur allt líta vel út út á við en er algjört hex innan heimilis, er dæmi um slíkt og það hefði gefið sögunni mun meiri dýpt að gera manneskjur eins og hana margbrotnari. 

Sagt er frá því á bókarkápu að til standi að kvikmynda söguna og kemur það ekki á óvart. Söguþráðurinn í þessari tæplega 400 síðna skáldsögu hentar nefnilega einkar vel sem efni í kvikmyndahandrit, eða jafnvel enn fremur í dæmigerða dramatíska sjónvarpsþáttaröð. 

Sigurður Ólafsson, desember 2010.