Beint í efni

Fallið

Fallið
Höfundur
Þráinn Bertelsson
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Ingvi Þór Kormáksson

Það verður ekki af Þráni Bertelssyni skafið, að hann þorir. Hann þorir að gangast við brestum sínum og sjúkdómnum sem framkallað hefur þessa bresti og brotalamir í karakternum. Líklega eru fáir fullkomnir en ekki sætta sig allir við það eða viðurkenna það. Alkóhólisti sem náð hefur þeim árangri að hætta neyslu gerir sér kannski betur grein fyrir því í hverju skapgerðarveilur hans eru fólgnir en margur annar. Það er nefnilega liður í batanum að gangast við því sem er mönnum fjötur um fót.

Í bók sinni Fallinu gengur höfundur út frá því að eðlilegast sé fyrir alkóhólista að leita eftir vímu, drekka eða dópa. „Alkóhólistar drekka öðru vísi og meira en þeir sem ekki eru alkóhólistar. Fólk getur fengið sér í glas af margvíslegu tilefni en aðeins alkóhólistar drekka eins og alkóhólistar og það gera þeir vegna þess að þeir eru alkóhólistar.“

Tilgangur þessarar bókar er að vera eins konar skýringarrit um alkóhólisma, að svo miklu leyti sem hægt er að útskýra þennan lúmska sjúkdóm kenndan við Bakkus. Hann er náttúrlega af guðlegum uppruna og við erum öll guðs börn. Eða hvað? Af hverju fara þá sumir flatt á því að neyta þessarar guðsgjafa sem sumir vilja kalla svo, þessara jarðargæða. Vín er partur af tilveru okkar, „þú vínviður hreini“, kannabis- og marijúanaplöntur, valmúinn sem einnig ber hið ágæta íslenska heiti, svefngras. Allt eru þetta náttúruafurðir sem aukið geta mönnum velsæld og hamingju eða virkað sem læknislyf. Hvað klikkar hjá ákveðnum hópi fólks? Eftir lesturinn má ætla að einhverjir verði einhverju nær um hvert þráin í hugbreytandi efni getur leitt þann sem ber í sér alkagenin. Og auðvitað má svo sem vinna sig „upp í“ eða „niður í“ alkóhólisma með drykkjuskap, hassreykingum og töfluáti en raunar hafa fæstir eðlilegir einstaklingar áhuga á því. Þeir hafa stopptakkann í lagi. Stopptakkinn eða slökkvarinn hjá alkóhólistanum virkar ekki eða sjaldan. Takkinn sem slekkur á þorstanum eða slekkur þorstann er sjaldnast í sambandi.

Höfundur leggur áherslu á sjúkdómshugtakið í frásögum sínum. Eftir mikla neyslu er alkóhólistinn haldinn sjálfsfyrirlitningu, óútskýrðum ótta við allt og ekkert sem getur hæglega breyst í dramb þótt furðulegt sé. Sjúkdóminum er hægt að halda niðri með vissum meðölum sem beinast helst að andlegu lífi og vissulega merkilegt að hægt sé að vinna á efnafræðilegu ójafnvægi líkamans – og heilans – með andlegum aðferðum. Svo má deila um hvort sá árangur sem næst verði til í eigin krafti sjúklingsins eða fyrir tilverknað æðri máttar. Meðferð, AA-fundir, tólfsporakerfið, hugleiðsla og samneyti við aðra í sömu stöðu virka allavega vel til að halda sjúkdóminum niðri. Hann getur þó blossað upp ef ekki er að gætt og farið eftir vissum reglum í daglegu lífi. Þá geta jafnvel virðulegir þingmenn átt það til að loka að sér og leggjast í koju á hóteli í útlöndum til þjónkunar við Bakkus. Það er ekki mikill sjarmi yfir því. Það er ekkert sérlega skemmtilegt við það að vera alkóhólisti sem fallerast.

Þetta var kannski hálf aumingjalegt fall hjá Þráni þarna í Færeyjum. Lítið fútt í því og einmitt það kann að hafa orðið honum til bjargar ásamt öðru. Hjálparhellur brugðust við og hann sjálfur gerði sér grein fyrir hvað klukkan sló. Lengra fyllerí hefði getað gert það erfiðara að koma til baka. Vonleysi getur heltekið menn í þessum kringumstæðum, sektarkennd og skömm staðið í vegi fyrir að mönnum takist að rétta af kúrsinn. Það er ekki óalgengt að föll endi með sjálfsvígi. Það má því hiklaust ætla að höfundur bókarinnar hafi verið hársbreidd frá dauðanum þrátt fyrir þetta fremur kurteislega kojufyllerí. Það getur nefnilega verið dauðans alvara að detta í það.

Auk sögu Þráins fljóta með nokkrar stuttar og skondnar sögur af meðferðarsystkkinum hans á Vogi og lýsingar á lífinu þar. Sumum finnst það kannski undarlegt að höfundur skuli spauga með þennan alvarlega sjúkdóm, alkóhólisma, en stanslaus harmur getur orðið ansi eintóna, og aðstæður og uppákomur þær sem alkóhólistar gjarnan lenda í eru oft í meira lagi fyndnar. Þráinn er snillingur í þessari góðlátlegu kímni sem einhvern veginn upphefur mannlega þáttinn og gerir bókina svo læsilega. Dauðans alvara verður að fyrirtaks skemmtun.

Ingvi Þór Kormáksson, október 2011.