Beint í efni

Feigð

Feigð
Höfundur
Stefán Máni
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2011
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Það er ekki beint jarðarfararstemning yfir skáldsögu Stefáns Mána, þó hún beri nafnið Feigð. Né er þetta föl og fá bók, titrandi eins og lauf í vindi. Vissulega er hún uppfull af ógn, en það sem einkennir verkið mest er kraftur, þungur taktur, öflugur sláttur sem birtist bæði í efnistökum og textanum og gerir það að verkum að lesandi hálfpartinn dáleiðist á stundum og hjartað byrjar að hamast. Að þessu leyti minnir hún á bestu bók Stefáns Mána, Skipið (2006), þó aðalpersónan sé reyndar fengin úr annarri bók, Hyldýpi (2009).

Áður en ég byrja að lýsa kostum verksins ætla ég að gerast dálítið kategórísk og taka fram að ég myndi ekki segja að Feigð sé betra verk en Skipið, þó hún sé vissulega kraftmeiri en Hyldýpi, en þrátt fyrir marga kosti fannst mér sú saga ekki nægilega vel heppnuð. Ég ætla því að koma því strax að hér að mér finnst Feigð ekki gallalaus bók, í henni eru óþarflega melódramatískar senur sem ég get ekki útskýrt nánar án þess að gefa of mikið upp. En vissulega má einnig segja að tilfinningasemi geti virkað sem öflugt mótvægi við öllum þeim karlhormónum sem í það heila einkenna verkið. Og talandi um karlhormóna þá verð ég líka að játa að ég er að verða svolítið þreytt á steratröllum í skrifum Stefáns, sjálfsagt eru þetta heillandi menn en sem persónur í skáldskap verða þeir nokkuð einhæfir. Og þá er ég búin að koma því frá.

Eins og áður sagði er það krafturinn sem grípur í Feigð, en hann birtist með tvennum hætti; annarsvegar í náttúruöflunum, hafinu, veðurfarinu og snjóflóðinu, og hinsvegar í aðalpersónunni Herði Grímssyni, sem er tröllvaxinn maður, bæði hár og sterklega vaxinn. Hann er í raun á allan hátt ‚larger than life‘, ýktur karakter með sítt rautt hár og íklæddur skósíðum leðurfrakka. Sömuleiðis eru gjörðir hans yfirgengilegar, allt frá því að hann fer hamförum í björgunarstarfi eftir snjóflóðið í fyrsta hluta bókarinnar til lokahlutans þegar hann fer hamförum yfir vesturhluta landsins. En þetta er ekki allt, því þrátt fyrir að vera tröll að burðum er Hörður veikur fyrir, þjáist af astma og sóríasis og er hvað eftir annað felldur af höfðuðóvini sínum, steratröllinu Símoni dópsala.

Feigð gerist að hluta til á Vestfjörðum, nánar tiltekið á Súðavík, og að hluta í Reykjavík. Í fyrsta hlutanum kynnumst við Herði og föður hans, sem í félagi við skipstjórann Pétur sökkva bát til að ná í tryggingafé. Feigðin gerir strax vart við sig, því Pétur ferst óvart með bátnum. Lát Péturs er reiðarslag fyrir konu hans og dóttur, eiginkonan fer yfrum á geði og dóttirin María missir tökin á tilverunni á annan hátt. Eftir snjóflóðið taka þau Hörður saman um tíma, en hún vill meira en hann getur boðið (lesist: dóp) og leitar á náðir Símons.

Nokkrum árum síðar erum við stödd í Reykjavík, en þangað hefur Hörður flutt og starfar sem rannsóknarlögreglumaður. Símon er líka fluttur í bæinn og stundar þar sín vafasömu viðskipti en erfitt reynist að sanna neitt misjafnt á hann þrátt fyrir að Hörður og félagar leggi sig alla fram – og rúmlega það, því ljóst er að Hörður er haldinn þráhyggju í þessu máli. Hér kynnumst við líka félaga Harðar, lesbíunni Þóru sem er nokkuð flottur karakter þó hún fái ekki mikið rými, og sambýliskonu hans Bíbí, sem er öllu klisjaðari persóna, hún er barnshafandi og sígrátandi.

Í þriðja hluta, sem gerist á fyrstu mánuðum eftir efnahagshrunið, er Hörður aftur fluttur til Súðavíkur með Bíbí og reynir að byggja upp nýtt líf. En að sjálfsögðu fer fátt eins og ætlað er.

Það er athyglisvert að hér sem fyrr sýnir Stefán Máni fram á að glæpasaga er ekki bara glæpasaga og hasar ekki bara hasar. Þó hluti verksins snúist um glæpamál þá er það í raun fjarri því að vera þungamiðja verksins, án þess þó að vera eitthvað aukaatriði. Enn á ný er erfitt að rökstyðja þetta án þess að gefa of mikið upp og því læt ég nægja að vísa í byggingu verksins, aðalpersónuna og beitingu tungumálsins, en í þessum þáttum myndast þessi sláttur og kraftur sem ég nefndi í upphafi, sem vissulega slær að hluta til sem hasar en að hluta til sem eitthvað allt annað.

Sagan er römmuð inn af tvennskonar hamförum sem gengu yfir Ísland, annarsvegar af völdum náttúrunnar og hinsvegar af völdum bankaræningja. Inni á milli eru svo minni umbrot af ýmsu tagi. Eins og áður segir á hafið sök á nokkrum, bæði í upphafi verksins og svo í draumum Harðar síðar, og veðrið leikur líka heilmikið hlutverk. Þessum náttúruöflum er svo teflt saman við vélbúnað og eru bílvélar sérstaklega fyrirferðamiklar. Í fyrsta hlutanum eignast Hörður amerískan kagga með öflugri vél og mikil áhersla er lögð á að tefla þessu tvennu saman, kraftmikilli kerrunni og tröllinu sem ekur; önnur ökutæki koma svo einnig við sögu og öllum er þeim lýst með samblandi af munúð og tryllingi. Þessar lýsingar allar skapa saman þennan þunga takt sem einkennir verkið, og má vel sjá merki um yfirvofandi feigð, eða ógnvekjandi dauðadans.

úlfhildur dagsdóttir, nóvember 2011