Ég lenti í mjög skemmtilegri umræðu um helgina, umræðuefnið voru sænskir krimmar. Allar skoðanir stönguðust á, þó sýndist mér að ég, gagnrýnöndin sjálf (sem ætti, samkvæmt teoríunni að sigla einhvern gullinn meðalveg þekkingar og ánægju), væri hvað mest þversum. Ég bið því lesendur að taka öllu því sem hér fer á eftir með fyrirvara.
En ég er sumsé nýbúin að lesa tvo sænska krimma, Fimmtu konuna eftir Henning Mankell og Dauðadjassinn eftir Arne Dahl. Mankell er orðinn gamall í hettunni, góðkunningi íslenskra glæpasagnalesenda og allt það, traustur maður, sem margir hafa lýst leiða sínum á, þó aðrir séu hrifnir. Dahl er hinsvegar nýr maður inn á senuna, hefur hvarvetna hlotið mikið lof og þykir vera arftaki Sjöwall/Wahlöö. Í stuttu máli sagt þá held ég enn með þeim gamla en hugnaðist ekki sá nýji.
Fimmta konan segir frá því að í kjölfar síðustu rannsóknar eru allir þreyttir í Ystad og því koma ný raðmorð ekki beint eins og kölluð. Ekki síst vegna þess að erfitt reynist að finna tengsl á milli hinna myrtu. Morðin eru sérlega grimmúðleg, eitt fórnarlambið fellur ofaní dýragildru og er stjaksett á oddhvössum bambusstöngum, annað er svelt þartil það örmagnast og síðan bundið við tré og kyrkt. Líkt og í fyrri bókum Mankells fáum við innsýn í heim morðingjans og vitum því alltaf aðeins meira en löggan, sem skapar áhugaverða spennu innan sögunnar. Og svo fáum við auðvitað að vita heilmikið um líf lögregluforingjans Wallanders og eins og í fyrri bókum þá spinnur sagan þræði sína útfyrir Svíþjóð. Það er því svosum fátt sem kemur á óvart, en þó er alltaf einhver fróun í svona formúlu, þegar hún er þetta vel gerð. Annað sem ég kann alltaf vel við hjá Mankell er hversu ‘kvenlegur’ hann er, án þess þó að vilja vega hér að karlmennsku karlsins. Ef ég væri ekki svona hrædd við að nota útjöskuð orð sem þykja orðið hallærisleg myndi ég segja að í sögum hans mætti finna einhverskonar ‘kvenlega vitund’. Allavega datt ég auðveldlega inn í heim Wallanders, kíkti inn í skúffur og skápa hjá honum, og fylgdist af athygli með framgöngu mála, allt mér til mikillar ánægju.
En ánægjan, hún var sumsé allminni þegar kom að Dauðadjassinum. Sagan segir líka frá raðmorðum, að þessu sinni á þekktum körlum í sænsku viðskiptalífi. Lögreglumaðurinn Paul Hjelm hefur nýlega bakað sér vandræði innra eftirlitsins með því að ráðast einn til inngöngu í gíslamáli, en er með góðri hjálp skellt inn í nýjan sérhóp sem á að fást við þessi mál. Meðlimir koma úr ýmsum áttum og líkt og hefðin segir til um í sænskum sögum þá er bæði einkalíf aðalsöguhetjunnar og starf lögreglumannanna til umræðu.
Hér er í raun allt það sem ég fíla við norræna krimma, en einhvernveginn lifnaði þetta aldrei fyrir mér. Þó er þarna margt áhugavert á ferðinni, dæmi um það er hversu lítið er gert til að skapa samúð með fórnarlömbunum, tónlistarhlutinn - leitin að dauðadjassinum - er dáldið flottur og einnig er umræðan um samfélagsbreytingar og breytingar á orsökum morða sniðug, en Hjelm uppgötvar að sum fórnarlömbin eru meðlimir í leynifélagi og um stund virðist lausnin liggja þar. En þrátt fyrir þetta fannst mér vanta eitthvað. Mögulega er vandamálið aðalpersónan Hjelm sem mér fannst óttalega lítið áhugaverður. Annað vandamál er að þýðingin virðist dálítið stirð á köflum sem tafði lesturinn og ónáðaði innlifunina í söguna. Þetta er auðvitað ekki bara sök þýðandans heldur virðist hér hafa vantað mikið uppá yfirlestur og það sama má reyndar segja um Fimmtu konuna, en þar er of mikið af meinlegum prentvillum, sem eru bæði asnalegar og stuðandi. Þarf virkilega að taka það fram að það þurfi að sýna glæpasögum sömu virðingu og fagurbókmenntum þegar kemur að frágangi? Það er ekki einsog það séu eitthvað fáir sem lesa þetta. Og þeim lesendum ber að sína virðingu.
Úlfhildur Dagsdóttir, júlí 2005