Beint í efni

Fótbolti, fjölskylduflækjur og fjölbreytni

Fótbolti, fjölskylduflækjur og fjölbreytni
Höfundur
Gunnar Helgason
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2024
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
Kristín Lilja

Gunnar Helgason hefur verið áberandi frá því snemma á tíunda áratugnum og hefur náð að festa sig í sessi sem skapandi kraftur bæði á sviði leiklistar og barnabókmennta. Þúsaldarbörnin eru eflaust flest sammála um það að hann og Felix Bergsson séu með betri stjórnendum Stundarinnar okkar fyrr og síðar. Gunnar hefur komið víða við á ferli sínum sem leikari og alltaf hefur hans aðaláhersla verið á efni fyrir börn. Það sama er uppi á teningnum þegar horft er yfir rithöfundarferil Gunnars. Eftir að hann útskrifaðist úr leiklistarskólanum gaf hann út bækurnar um Gogga og Grjóna (Goggi og Grjóni 1992 og Goggi og Grjóni vel í sveit settir 1995). Eftir þessar fyrstu bækur einbeitti Gunnar sér um tíma að leiklistinni en gaf þó út eina bók um Grýlu árið 1997.

Árið 2010 tók hann stórt skref yfir í heim barnabókaskrifa og setti sér það markmið að gefa út eina bók á ári. Síðan hefur hann verið einn afkastamesti barnabókahöfundur hér á landi og staðið við loforðið, og stundum gott betur en það. Gunnar tengist persónunum sem hann skapar sterkum böndum og lætur hann ekki duga að skrifa staka bók um neinar persónur heldur samanstendur höfundarverk hans af nokkrum bókaflokkum þar sem sömu sögupersónurnar koma fyrir. Hér verður athyglinni beint að þremur stærstu bókaflokkum Gunnars – Fótboltasögunni miklu, Stellubókunum og ADHD-bókunum.

Fótboltasagan mikla

Árið 2011 kemur Víti í Vestmannaeyjum, fyrsta bókin í Fótboltasögunni miklu út. Í bókaflokknum, sem nú telur fimm bækur, fylgja lesendur Jóni Jónssyni (Nonna) og félögum hans í Þrótti frá því að þeir eru níu ára, og keppa á Peyjamótinu í Eyjum, fram á unglingsárin. Bækurnar eru, eins og titill bókaflokksins gefur til kynna, fótboltabækur og verð ég að viðurkenna að það er viðfangsefni sem hefur ekki heillað mig mikið fram að þessu. En þó að fótboltinn fái vissulega mikið pláss í bókunum nær Gunnar að gera aðra fleti atburðarásarinnar mjög áhugaverða og samspil þeirra og fótboltans gera það að verkum að lesendur verða alveg jafn spenntir fyrir framvindu sögunnar og atburðarrásinni inni á vellinum.

Nonni segir söguna sjálfur og Gunnar útfærir það með því að láta Nonna sjálfan vera „höfund“ bókanna. Þannig rifjar hann upp fyrri atburði með tilvísan til bókanna sem útgefinna verka en ekki bara minninga úr lífi sínu. Lesendur grípa niður í líf hans á fótboltamótum svo það líður oft langur tími á milli bókanna þar sem ýmislegt hefur átt sér stað í lífi Nonna og félaga.

Með þessum bókum hóf Gunnar tímabilið þar sem hann einbeitir sér að skrifum fyrir börn og unglinga. Tveir áratugir voru þá liðnir frá bókunum um Gogga og Grjóna, sem fjölluðu um tvo átta ára stráka og ævintýri þeirra í blokk á Háaleitisbrautinni. Í Fótboltasögunni miklu heldur Gunnar áfram að skrifa um stráka, en það má velta því fyrir sér hvort bækurnar séu eingöngu ætlaðar drengjum. Í fyrstu mætti halda að bækur um stráka í fótbolta höfði lítið til stúlkna, en Gunnar tryggir að fjölbreyttar raddir fái að heyrast í bókunum.

Til að mynda er systir Nonna, Eyvör, lykilpersóna í sögunum sem nær langt í fótboltanum, kemst í landsliðið og í atvinnumennsku. Strákarnir líta allir mikið upp til Eyvarar og hún bjargar liðinu oft á ögurstundu. Gunnar hefur þannig sterka kvenpersónu í sögunum, sem sýnir að fótbolti er ekki bara leikur strákanna og í raun ná stelpurnar í sögunni jafnlangt eða lengra í íþróttinni en margir drengjanna. Gunnar vekur þá máls á því hvernig kvennaboltinn fái ekki jafn mikið pláss og peninga og karlaboltinn. Í síðustu bókinni, Barist í Barcelona breytir Gunnar frásögninni og gefur Rósu, kærustu Nonna, einnig sögumannsrödd. Þá eru persónurnar orðnar fimmtán ára og frásögnin hefur þroskast með þeim þannig að það gefur skemmtilega nýja vídd að fá sjónarhorn Rósu inn í myndina.

Að setja fótboltann í forgrunn sögunnar er snjallt hjá Gunnari því með því nær hann til lesendahóps sem stendur höllum fæti þegar kemur að lestri, nefnilega drengja. Fótboltinn laðar þennan markhóp að en sögurnar sjálfar fara langt út fyrir völlinn og taka á alvarlegum málefnum.

Meginþráðurinn í gegnum allar bækurnar fimm er saga Ívars, vinar Nonna. Þegar þeir hittast fyrst á Peyjamótinu eru þeir mótherjar – Nonni spilar með Þrótti og Ívar með ÍBV. Fljótlega kemur í ljós að ekki er allt með felldu heima hjá Ívari. Með hjálp Eyvarar og félaga sinna í Þrótti tekst Nonna að bjarga Ívari úr erfiðum heimilisaðstæðum hjá drykkfelldum og ofbeldisfullum föður sínum. Í kjölfarið byrjar betra tímabil í lífi Ívars, þar sem hann flytur til afa síns og ömmu í Reykjavík og fær að æfa fótbolta með Þrótti. Þó honum líði vel þar upplifir hann mikla tilfinningalega togstreitu. Hann saknar pabba síns og vonar að hann geti náð bata svo þeir feðgar geti sameinast á ný. Saga Ívars er þó ekki laus við áföll. Eftir hörmulegt bílslys þar sem amma hans deyr er Ívar sendur í fóstur á Akranes. Þar með verða þeir Nonni aftur mótherjar og Ívar spilar með ÍA á ReyCup í Rangstæður í Reykjavík.

Undir lok bókaflokksins er líf Ívars farið að taka betri stefnu. Tóta, föður hans, tekst að koma sér á beinu brautina og reynist strákunum vel á Gothia Cup í Gula spjaldinu í Gautaborg. Þó að Nonni sé sá sem segir söguna og lesendur sjái hann vissulega þroskast mikið í gegnum bækurnar fimm er það saga Ívars sem er í forgrunni og gefur Fótboltasögunni miklu dýpt og gerir bækurnar meira en „bara“ fótboltabækur.

Að því sögðu eru margir aðrir léttari þræðir og þó undirtónninn sé oft dökkur nær Gunnar að létta stemminguna með húmor og æsispennandi fótboltaleikjalýsingum. Meira að segja undirrituð sem hefur lítið vit á fótbolta var orðin æsispennt yfir lifandi lýsingunum og lærði ýmislegt nýtt um íþróttina. Gunnar nær að flétta inn ýmsum fróðleik um fótbolta eftir því sem færni Nonna í íþróttinni eykst. Þannig læra lesendur hvernig rangstæðureglurnar eru og muninn á nærstöng og fjærstöng en það sem er ekki minna mikilvægt beinir Gunnar athyglinni að því hvernig bæði leikmenn og áhorfendur eigi að haga sér á fótboltamótum.

Við skrif bókanna hefur Gunnar átt í afar farsælu samstarfi við Rán Flygenring. Rán hannar kápurnar og þó Fótboltasagan mikla sé ekki jafn ríkulega myndskreytt og sumar bækur Gunnars spila teikningar Ránar hlutverk í myndrænni framsetningu atburðanna. Aftast í hverri bók má finna myndræna lýsingu á eftirminnilegum atburðum úr fótboltaleikjunum sem Gunnar lýsir í textanum. Þessar myndlýsingar gera þessi augnablik enn áþreifanlegri fyrir lesendur. Þar að auki er að finna kort af sögusviði hverrar bókar og skemmtilegar myndir af aðalpersónunum

Stella

Eftir að hafa einbeitt sér að Nonna og fótboltanum í nokkur ár vendir Gunnar kvæði sínu rækilega í kross og byrjar að skrifa um unglingsstelpuna Stellu og klikkuðu fjölskyldu hennar. Bækurnar, sem nú eru orðnar tíu talsins, fjalla um Stellu, sem er tólf (alveg að verða þrettán) í fyrstu bókinni, Mamma klikk (2015), og hennar skrautlegu fjölskyldu. Hver og ein bók í bókaflokknum ber nafn sem vísar í ákveðna sögupersónu í fjölskyldu Stellu og þó að atburðir hverrar sögu fjalli mikið til um þá persónu sem titillinn vísar til er það alltaf Stella sem segir söguna og er aðalpersónan.

Gunnar nær vel að sýna ýkt hugarfar unglingsstelpunnar Stellu og þó það komi í ljós undir lok Mömmu klikk að Stella noti hjólastól, fá lesendur það aldrei á tilfinninguna að hún sé annað en venjuleg (dáldið ýkt) unglingsstelpa. Fötlun Stellu hefur engu að síður áhrif á marga þræði sögunnar eins og þegar Stella þarf að fara í aðgerð og er skiljanlega mjög hrædd við það eða þegar hún fer að keyra fjórhjól því hún getur ekki keyrt krossara eins og Bella kærasta stóra bróður hennar sem hún lítur mjög upp til. Þess utan er Stella týpískur unglingur, á bestu vinkonur, eignast kærasta, á ótrúlega krúttleg yngri systkini, eldri bróður sem glímir við tölvufíkn og hrikalega klikkaða mömmu og ömmu.

Lesendur fá að fylgjast með Stellu takast á við unglingsárin og eins og manneskjur á þessum mótunarárum er Stella oft ansi sjálfhverf og hugsar ekki alltaf rökrétt. Hún vill þó oftast breyta rétt og er mikið í mun að hjálpa fólkinu í kringum sig þó hennar eigin hagsmunir séu oft ansi ofarlega á forgangslistanum. Til dæmis þegar hún ákveður að verða heimsfræg á samfélagsmiðlum og dregur ömmu sína og Hanna kærastann hennar inn í þá hringiðu þó þau hafi engan áhuga á því. Hún er oft leitandi og reynir að vera eitthvað annað en hún er, eins og þegar hún gerir allt eins og Bella því hún lítur mjög upp til hennar. Samskipti hennar við Þór, sem verður að lokum kærastinn, eru oft alveg hrikalega vandræðaleg og reglulega fer allt í háaloft með ansi skrautlegum atburðum í fjölskyldunni.

Heimilislíf Stellu er í senn sprenghlægilegt og farsakennt. Matarboð og veislur leysast upp í vitleysu og misskilning, jólaundirbúningur í fjarveru húsmóðurinnar er mjög kaótískur og brúðkaup foreldra Stellu endar í tvíburafæðingu í heita pottinum. Persónugalleríið er mjög litríkt og í kringum Stellu og fjölskyldu hennar ríkir stöðugt fjör og hringiða kómískra atburða. Bækurnar um Stellu bera sterkan leikrænan blæ, sem speglar vel bakgrunn Gunnars í leikhúsinu. Þetta birtist í lifandi frásögn, hröðum vendingum og vel útfærðum persónum sem minna um margt á karaktera úr góðri gamanleikjasýningu.

Lesendur fá að sjá Stellu þroskast og mótast en sú vegferð er langt frá því að vera bein lína upp á við. Oft höldum við að Stella sé að þroskast og taka lífið í sátt bara til þess að sjá hjá henni mjög órökréttan hugsanagang á næstu síðu. Í síðustu bókinni um Stellu, Stella segir bless (2024), lendir Stella í óhappi þegar hún dettur meðan hún gengur við hækjur. Hún er stödd á spítalanum og virðist ekki ætla að láta slysið mikið á sig fá „Ég brosti til foreldra minna sem horfðu ástúðlega á mig, þó að það tæki í saumana. Ég var svo heppin að eiga svona góða foreldra. Ég var svo heppin í lífinu“ (49). Strax á næstu síðu fær Stella þær fréttir að hún muni líklega ekki getað gengið við hækjurnar aftur. Við þessar fréttir dembist Stella ofan í hrikalegt þunglyndi og ranghugmyndir. Hún er strax búin að gleyma öllu því sem gerir hana heppna í lífinu.

Bókaflokkurinn er þroskasaga Stellu sem er orðin sextán ára þegar sögunni lýkur og þó hún sé ekki orðin fullþroskaður einstaklingur má samt sjá mikla breytingu frá fyrstu bókinni. Í Mömmu klikk reynir Stella á eftirminnilegan hátt að breyta Katrínu, mömmu sinni og gera hana venjulegri. Að lokum lærir hún að elska mömmu sína eins og hún er. En samband Katrínar við sína eigin móður, Hólmfríði ömmu Köben, er flókið. Hólmfríður flutti til Kaupmannahafnar þegar Katrín var unglingur og hefur þar lifað ansi líflegu listamannslífi síðan. Þetta sár í sambandi þeirra mæðgna hefur aldrei gróið en í næstsíðustu bókinni um Stellu, Amma slær í gegn (2024) ákveður Hólmfríður að flytja aftur til Íslands til að rækta sambandið við dóttur sína og fjölskyldu. Aðferðin sem Hólmfríður kýs til að tilkynna þetta er hluti af listgjörningi sem felur í sér að falsa eigin dauðdaga sem hrindir af stað bráðfyndinni atburðarás.

Í Stella segir bless er Katrín komin á breytingaskeiðið og auk þess að starfa sem óperusöngkona og ala upp fimm börn á hún erfitt með að venjast því að hafa mömmu sína í kringum sig reglulega. Hún bregður því á það ráð að reyna að breyta mömmu sinni alveg eins og Stella reyndi með hana í fyrstu bókinni. Það er svo Stella sem bendir henni á að þetta sé óþarfi og Katrín og Hólmfríður finna frið í þessum nýja veruleika. Með þessu sýnir Gunnar vel hvernig Stella hefur þroskast og lokar sögunni með því að vísa aftur í upphafið á skemmtilegan hátt.

Fötlun Stellu er ekki eina viðkvæma málefnið sem Gunnar snertir á í bókaflokknum. Vinir Stellu eru af ólíkum uppruna og kynhneigð marokkóskrar vinkonu hennar, Fatimu, og hvernig fjölskylda hennar tekur henni, kemur við sögu. Foreldrar hennar eiga erfitt með að sjá hvernig dóttir þeirra getur verið samkynhneigð þegar þau eru viss um að slíkt falli ekki að trú þeirra. Stella reynir að telja þeim hughvarf en að lokum er það brotið samband Katrínar og Hólmfríðar sem sannfærir móður Fatímu um að ekkert sé þess virði að missa sambandið við dóttur sína.

ADHD

Nýjasti bókaflokkur Gunnars eru ADHD bækurnar sem fjalla um Alexander Daniel Hermann Dawidson, hálf pólskan hálf íslenskan dreng sem býr með föður sínum í Breiðholtinu. Það kemur lesendum lítið á óvart að Alexander er með ADHD og litar það frásögnina á afar skemmtilegan máta. Bækurnar bera allar keimlíka titla sem hefjast á orðunum „Bannað að…“ en Alexander lifir eftir mjög föstum og settum reglum og venjum sem hjálpa honum að fóta sig í samfélagsgerð sem er ekki sniðin að hans taugatýpu. Fyrirfram stilltar vekjaraklukkur og tékklistar hjálpa honum að muna hversdagslegustu hluti á meðan pabbi hans vinnur myrkranna á milli. Skýr rammi og svarthvítar reglur hjálpa Alexander þegar óreiðukenndar hugsanir hans taka yfir. Lesendur fá oft að skyggnast inn í kaótískt innra samtal Alexanders þar sem hugsanirnar fljúga í allar áttir.

Af hverju glápti pabbi á mömmuna? Þetta eru geggjaðir hlaupaskór. Nei, er símabúð hérna? Hvað er Pakman að gera í Smáralindinni? Þetta eru bestu skór sem ég hef átt. Af hverju á ég ekki síma? Núna heldur Pakman að ég sé alveg kolklikkaður. Hleyp ég hraðar í þessum skóm? Já, alveg rétt. Ég týndi símanum. (Bannað að eyðileggja 97)

Þó að þessir hugsanaflaumar séu oft fyndnir, veita þeir einnig innsýn í það hvernig ADHD mótar persónu Alexanders og hvernig hann tekst á við veröldina. Sjónarhorn sögunnar er að mestu leyti hjá Alexander en stundum skiptir það skyndilega yfir á aðrar sögupersónur. Í fyrstu er þetta dálítið ruglandi fyrir lesandann en þessi stíll passar að lokum vel við óreiðukennda atburðarásina.

Mamma Alexanders er fjarverandi og alveg þangað til undir lok fyrstu bókarinnar vita lesendur ekki hvað hefur orðið af henni en þá kemur loks í ljós að hún er látin. Kaflinn þar sem lesendur fá  að vita það er tilfinningaþrunginn og rammar inn baráttu Alexanders við sorgina. Hann og pabbi hans hafa í raun ekki lifað lífinu til fulls síðan hún dó. Þeir eru hættir að hlæja og lifa í síendurtekinni rútínu án þess að takast á við missinn. Alexander hefur misst sambandið við vini sína og þó pabbi hans sé honum góður er hann líka að syrgja. Í sameiningu finna þeir lífsgleðina á ný og þar hefur innkoma Sóleyjar „Pakman“ Pakpao og mömmu hennar í líf þeirra mikið að segja. Í gegnum bækurnar þrjár fá lesendur að fylgjast með fjölskyldum Alexanders og Sóleyjar sameinast þegar foreldrar þeirra fella hugi saman.

Sóley, sem er af tælenskum ættum, býr með mömmu sinni, yngri systur og bæði ömmu sinni og langömmu. Þessi kvenleggur er ansi skrautlegur og Máney litla systir Sóleyjar, sem er líka með ADHD, blótar eins sjóari og það má ekki líta af henni í eina sekúndu. Það kemur því ekki á óvart að þegar Alexander á að passa Máneyju fer allt í rugl og vitleysu og hún teiknar risastóra mynd af fjölskyldunni á stofuvegginn með naglalakki. Amma og langamma Sóleyjar eru ekki síður litríkar persónur.

Fleiri krakkar af erlendum uppruna fléttast inn í atburðarásina eins og Osman bekkjarbróðir Alexanders og Sóleyjar sem kemur frá Sierra Léone og Vola sem flýr stríðið í Úkraínu til Íslands. Saga Vola er mjög átakanleg og þar sýnir Gunnar enn og aftur hvernig hann forðast ekki að taka alvarleg málefni fyrir í bókum sínum þó þær séu ætlaðar börnum.

Persónugalleríið er því afar fjölbreytt og Gunnar gefur fjölmenningunni mikið pláss með því að hafa texta á alls kyns tungumálum fléttaðan inn í samtöl persónanna. Þannig sjá lesendur setningar á pólsku, tælensku, kríó og úkraínsku fléttaðar inn í íslenska textann. Gunnar er greinilega meðvitaður um þá staðreynd að börn á Íslandi hafa sífellt fjölbreyttari bakgrunn og með því að ekki bara hafa þau sem hluta af sögunni heldur einnig gefa tungumálunum pláss undirstrikar hann mikilvægi þess að ólíkir menningarheimar með ólík tungumál geta fundið samhljóm og jafnvel orðið fjölskyldur.

Rán Fygenring myndskreytir ADHD bækurnar og gerir það listavel. Teikningarnar eru svarthvítar og minnir stíllinn á teikningar barna á grunnskólaaldri þó þannig að listfengi hennar skín í gegn. Myndirnar bæta miklu við frásögnina og undirstrika oft kaótíkina sem býr innra með Alexander og brýst oft út í atburðarás sögunnar.

Heildstætt höfundarverk

Þó hér hafi athyglin verið á þessum þremur bókaflokkum langar mig að minnast stuttlega á tvö önnur verk Gunnars. Í fyrsta lagi myndabókina Drottningin sem kunni allt nema… (2021) þar sem Gunnar og Rán Flygenring leiða aftur saman hesta sína, nema nú eru það myndir Ránar sem eru í aðalhlutverki. Bókin segir frá Bambalínu drottningu sem kann allt nema einn hlut. Lesendur fylgjast með drottningunni sinna sínum konunglegu skyldum og framkvæma ótrúlegustu hluti (þó hún sé sjálf á barnsaldri). Hún heldur ræður, lagar hestvagna, les sögur og klippir á borða. En alltaf er ýjað að því að þó hún sé svona dugleg sé einn hlutur sem hún kann ekki. Í lokinn kemur í ljós að sá hlutur er að skeina sér. Þessi stutta og ríkulega myndskreytta saga slær alltaf í gegn á mínu heimili og eru það bæði sniðug og hröð saga Gunnars og bráðskemmtilegar myndir Ránar sem gera það að verkum. Myndirnar spanna allar opnurnar og textinn er fléttaður inn í þær. Á myndunum eru mörg smáatriði og lesendur reka stöðugt augun í eitthvað nýtt þó bókin sé lesin endurtekið eins og oft vill verða með vel heppnaðar myndabækur fyrir yngstu lesendurna.

Í öðru lagi eru það rottubækurnar, Draumaþjófurinn (2019) og Barnaræninginn (2020) sem skera sig úr að því leyti að þær fjalla ekki um venjulega íslenska krakka heldur um rottur og samfélagsgerð þar sem ójöfnuður ríkir. Rottunum í Hafnarlandi er rækilega skipt í mismunandi hópa og hafa ekkert með valið að segja sjálfar. Étararnir hafa allt of mikið fyrir sig og láta safnarana safna fyrir sig mat sem þeir fá lítið af sjálfir. Síðan eru það bátarotturnar sem er meinaður aðgangur að Hafnarlandi. Skipting þegnanna í Hafnarlandi speglar því stéttaskiptingu og ójöfnuð í samfélagi manna og veruleiki flóttafólks endurspeglast í meðferð Hafnarlandsrottanna á bátarottunum. Þessi viðfangsefni ríma við mörg önnur viðfangsefni sem Gunnar tekur á í bókunum sem hér hefur verið fjallað um en boðskapurinn er ekki jafn augljós fyrir unga lesendur þar sem sögusviðið er þetta uppspunna Rotturíki. Þrátt fyrir það eru ýmis höfundareinkenni Gunnars til staðar, atburðarásin er hröð og spennandi og alltaf stutt í húmorinn.  

Höfundarverk Gunnars Helgasonar er virkilega heildstætt og á nokkrum stöðum fléttar hann söguheimum saman svo lítið beri á. Þannig rekast Alexander og pabbi hans á Stellu og mömmu hennar þar sem hún syngur óperuaríur í Smáralindinni og bæði Siggi, litli bróðir Stellu, og Máney syngja lög úr Draumaþjófnum í sínum eigin útgáfum af mikilli innlifun.

Að lokum er vert að nefna hvernig Gunnar hefur lagt sig fram við að vekja áhuga barna á lestri. Hann gerir það ekki aðeins með því að skrifa spennandi og fjölbreyttar bækur fyrir börn, heldur einnig með því að heimsækja skóla og lesa upp úr verkum sínum fyrir unga lesendur. Nýjasta bókin hans, Læk, er frábært dæmi um slíkt framtak. Hún inniheldur átján smásögur sem byggðar eru á hugmyndum barna á mið- og unglingastigi í grunnskólum Hafnarfjarðar. Börnin lögðu fram hugmyndirnar, Gunnar og Bergrún Íris Sævarsdóttir skrifuðu sögurnar, og hafnfirsk börn myndskreyttu síðan verkið. Með þessu skapa Gunnar og Bergrún virka þátttöku barna í bókmenntasköpuninni, sem eykur ekki aðeins áhuga þeirra á bókum heldur einnig líkurnar á því að þau verði áhugasamir lesendur til framtíðar.

Gunnar nálgast viðkvæm samfélagsleg málefni af virðingu og innsæi. Hvort sem það er heimilisofbeldið sem Ívar verður fyrir, fötlun Stellu eða áfallasaga Vola í kjölfar stríðs verða þessi erfiðu málefni hluti af hversdagslífi persónanna hans. Þessi nálgun gerir þau aðgengileg og mannleg fyrir lesendur sem geta séð sig speglast í veruleika persónanna. Gunnar nær að hafa jafnvægi milli alvöru og léttleika og þannig tryggja að frásögnin nær að draga lesendur inn án þess að verða niðurdrepandi. Þetta gerir sögurnar á sama tíma áhrifaríkar og skemmtilegar.

Bækurnar átján í þessum þremur bókaflokkunum eiga það sameiginlegt að fjalla um venjulega íslenska krakka. Gunnari tekst með verkum sínum að varpa ljósi á það hversu fjölbreyttur hópur börn og ungmenni geta verið -  þau eru fótboltakrakkar, fósturbörn, í hjólastól, með ADHD, af fjölbreyttum uppruna og öll lenda oft og iðulega í ótrúlegum og bráðfyndnum aðstæðum á vegferð sinni.
 

Kristín Lilja, nóvember 2024