Skáldsagan Rökkurbýsnir eftir Sjón í enskri þýðingu Victoriu Cribb (From the Mouth of the Whale) er ein tíu skáldsagna sem eru í lokaúrvali til IMPAC DUBLIN bókmenntaverðlaunanna. Bókin kom út í frumútgáfu árið 2008 en var gefin út í enskri þýðingu af Telegram 2011. IMPAC DUBLIN bókmenntaverðlaunin eru hæstu peningaverðlaun sem veitt eru fyrir stakt bókmenntaverk í heiminum, en verðlaunaféð nemur 100.000 evrum. Verðlaunin eru veitt fyrir skáldsögu á ensku, hvort sem er frumsamda eða í þýðingu. Bókasöfn víðs vegar um heim tilnefna til verðlaunanna og fimm manna dómnefnd skipuð alþjóðlegum rithöfundum og bókmenntafræðingum velur tíu bækur af þeim lista og síðan eina sem hlýtur verðlaunin. Borgarstjórinn í Dublin, Cllr. Naoise Ó Muirí kynnti úrvalslistann við hátíðlega athöfn þar í borg þann 9. apríl en verðlaunin verða síðan afhent þann 6. júní næstkomandi. Dublin er ein af Bókmenntaborgum UNESCO, líkt og Reykjavík. Eftirtaldar bækur eru tilnefndar: City of Bohane eftir Kevin Barry (Írland). The Map and the Territory eftir Michel Houellebecq (Frakkland). Gavin Bowd þýddi. Pure eftir Andrew Miller (Bretland). 1Q84 eftir Haruki Murakami (Japan). Jay Rubin og Philip Gabriel þýddu. The Buddha in the Attic eftir Julie Otsuka (Japan/Bandaríkin). The Tragedy of Arthur eftir Arthur Phillips (Bandaríkin). Swamplandia! eftir Karen Russell (Bandaríkin). From the Mouth of the Whale eftir Sjón (Ísland). Victoria Cribb þýddi . The Faster I Walk, The Smaller I Am eftir Kjersti Skomsvold (Noregur). Kerri A. Pierce þýddi. Caesarion eftir Tommy Wieringa (Holland). Sam Garrett þýddi. Við athöfnina sagði borgarstjórinn meðal annars: "Hér höfum við lista úrvalsbókmennta sem inniheldur fimm bækur í þýðingum sem lesendur hefðu að öðrum kosti ekki ef til vill ekki tækifæri til að lesa." Margaret Hays, borgarbókavörður í Dublin, sagðist himinlifandi að sjá svo margar bækur í þýðingum á listanum og hvatti lesendur til að njóta og gleyma sér í húmor, sorgum, sögu og fantasíu. Lesið meira um Sjón og Rökkurbýsnir á síðum hans á vefnum bokmenntir.is. Nánari upplýsingar um tilnefndu bækurnar og verðlaunin eru á vef IMPAC DUBLIN.
Rökkurbýsnir tilnefnd til IMPAC DUBLIN verðlaunanna
