Beint í efni

Grámosinn glóir

Grámosinn glóir
Höfundur
Thor Vilhjálmsson
Útgefandi
Svart á hvítu
Staður
Reykjavík
Ár
1986
Flokkur
Skáldsögur

Úr Grámosinn glóir:

Hún reis á fætur án þess að sleppa taki á honum, og þegar handleggur hans féll slakur utanaf henni kastaði hún sér í fangið á honum, og tróð fæti milli samspenntra knjáa hans, og brauzt milli fóta honum með læri sitt; og kyssti hann ofsalega á hálsinn, án þess að hugsa að þar myndi marka fyrir; og þandi sig með kossum sínum um andlit hans allt; og þegar hún ætlaði að kyssa á augnalok hans, þá voru augun opin einsog hann væri búinn til að horfa inní leynda staði í myrkum hellum, eða skútum í ógnþrungnu bergi, hún snart augu hans varlega með tungu sinni.
Hún nam þá bragðið af þessum skyggnu ellegar blindu starandi augum ástvinar síns, meðan í djúpi hennar ómaði hrópið þögla sem bar nafn hans, og fyllti þessa miklu kirkju; og var svo sárt svo sárt, - það hlyti að hræra guð til að ganga útúr flokki höfðingjanna, og skilja þá eftir við máttlaus mótmæli og hneykslunaróp og vandlætingarsvip, og koma til að líkna þeim og fyrirgefa, og leyfa þeim það sem þeim var helgast, hvað sem hver segði; hvað sem þeir segðu sem voru alltaf utaní honum með þrástagl og ísmeygilegan málflutning nöldur og smjaður. Hún færðist í þessu kossafálmi að munni hans. En varir hans voru luktar og kaldar, einsog hann ætti engan vilja, sem hún gæti vakið og valdið. Engan vilja sem hún gæti numið í sitt vald, og stýrt.
Í þessari litlu umkomulausu kirkju í mikilli nóttinni.
Það lifði á einu kerti á dúkuðum skápnum fyrir innan gráturnar, undir altarismyndinni, þarsem staupið var geymt, og dúkurinn til að þerra það milli manna, og obláturnar.
Og er þeir mötuðust, tók hann brauð, blessaði það og braut það, og gaf þeim það og sagði: Takið, þetta er líkami minn.
Það fór ónotaleg tilfinnig um hana þegar hún hugsði um þessa hvítu kringlóttu plötu sem presturinn tók milli þumals og vísifingurs, og hún sá neglur hans breiðar og stuttar, hornkenndar, kvikuétnar, hönd erfiðis, og hafði næstum misst þetta sem átti að vera hold Jesú; hann færði það á tungu hennar útrétta, þurrt og bragðlaust, einsog það væri hringskorið útúr anorðningu rentukammersins.
Og hann tók bikar, gjörði þakkir og gaf þeim, og þeir drukku allir af honum. Og hann sagði við þá: Þetta er sáttmála-blóð mitt, sem út hellt er fyrir marga. . .
Þá var sem kertislogið magnaðist og lýsti altaristöfluna innst í þessu litla húsi. Hann stóð í stampi og blóðbogar nettir bunuðu úr síðusárinu og lófum, oní stampinn. Og blóðið svall um miðja leggi. Hann stóð í blóðsollinum miðjum.

(s. 71-72)

Fleira eftir sama höfund

Svipir dagsins, og nótt

Lesa meira

Fundur með Fellini

Lesa meira

Fjörkippur í þýzkum bókmenntum

Lesa meira

Halldór Laxness níræður, hylltur við opnun listahátíðar 1992

Lesa meira

Veröld sem var : þankar vegna sjálfsævisögu Stefans Zweig

Lesa meira

Hurtigt, hurtigt, sagde fuglen

Lesa meira

Glødende mos

Lesa meira

Gråmosen gløder

Lesa meira

Comptine matinale dans les brins d´herbe

Lesa meira