Beint í efni

Harðskafi

Harðskafi
Höfundur
Arnaldur Indriðason
Útgefandi
Vaka-Helgafell
Staður
Reykjavík
Ár
2007
Flokkur
Skáldsögur

Um Harðskafa

Á köldu haustkvöldi finnst kona hangandi í snöru í sumarbústað sínum á Þingvöllum. Fátt virðist á huldu um andlát hennar en þegar Erlendur fær í hendur upptöku af miðilsfundi sem konan fór á skömmu fyrir andlátið kviknar hjá honum þörf til að kynna sér sögu hennar og komast að því hvers vegna lífi hennar lauk svo sviplega og hörmulega. Um leið leita á hann gamlar og óleystar gátur um horfið fólk og draugar úr hans eigin fortíð.

Úr Harðskafa

Þegar Erlendur vaknaði í morgunsárið varð honum aftur hugsað til gamla mannsins sem komið hafði að heimsækja hann á lögreglustöðina að spyrja frétta af syni sínum, næstum þremur áratugum eftir hvarf hans. Það var eitt af fyrstu málunum sem Erlendur hélt vakandi löngu eftir að aðrir höfðu gefist upp. Þá hafði Rannsóknarlögregla ríkisins aðsetur í iðnaðarhverfi í Kópavogi. Hann mundi eftir tveimur öðrum mannshvörfum frá líkum tíma sem hann rannsakaði ekki sjálfur en þekkti vel. Í öðru tilfellinu, einhverjum vikum fyrr, hélt ungur maður úr samkvæmi í Keflavík og ætlaði að ganga til Njarðvíkur en skilaði sér ekki. Þetta var um vetur og um nóttina skall á bylur. Leit var gerð að manninum og eftir þrjá daga fannst skór af honum niðri við fjöruborðið. Hann var á réttri leið en virtist hafa hörfað undan veðrinu í átt að sjónum. Ekkert spurðist til hans síðan. Hann var á skyrtunni þegar hann fór úr samkvæminu og ölvaður að sögn þeirra sem voru með honum að skemmta sér.

Hitt tilfellið var ung stúlka frá Akureyri. Hún stundaði nám í Háskólanum og leigði íbúð í Reykjavík en það var ómögulegt að segja nákvæmlega til um hvenær hún hvarf. Þegar leigusalinn hafði ekki fengið greitt mánuðinn á undan og fór til þess að rukka greip hann í tómt. Hún hafði ekki mætingaskyldu í skólanum, var að ljúka við ritgerð í líffræði, einkabarn og foreldrar hennar erlendis á tveggja mánaða ferðalagi um Asíulönd og voru aðeins í mjög stopulu sambandi við hana. Þegar foreldrarnir komu til baka og ætluðu að heimsækja dóttur sína í borginni var hún horfin. Leigusalinn opnaði fyrir þeim. Allt var með eðlilegum hætti í íbúðinni. Það var engu líkara en að hún hefði skroppið frá andartak. Skólabækur lágu opnar á borðum þar sem hún vann að ritgerðinni. Fáein glös voru í eldhúsvaskinum, hún hafði ekki búið um rúmið. Hún hafði verið í símasambandi við vinkonur sínar á Akureyri nokkru fyrr og tveir samstúdentar höfðu heyrt í henni og talið að hún hefði farið norður nokkrum vikum áður. Það styrkti þá kenningu að bílskrjóður sem hún átti, gamall Austin Mini, var einnig horfinn.

Erlendur fór fram í eldhúsið og setti yfir kaffi. Hann lét brauð í ristina og smurði þegar það var tilbúið, náði svo í ost og marmelaði. Hann leiddi hugann að því sem hann hafði heyrt á spólunni sem Karen hafði látið hann fá og velti því fyrir sér hvað hann ætti til bragðs að taka. Hann skildi betur hugarástand Maríu áður en hún fyrirfór sér.

(57-8)

Fleira eftir sama höfund

Todeshauch

Lesa meira

Glasbruket

Lesa meira

Grafarþögn

Lesa meira

Hiver Arctique

Lesa meira

L´homme du Lac

Lesa meira

La Femme en vert

Lesa meira

Manden i søen

Lesa meira