Úr Hnattflugi:
Millilending I
Þar sem ég hef ekki séð ykkur lengi
sker og hamrar
er rétt að ég kasti á ykkur kveðju
þið hafið ekkert breyst
komið vel undan vetri og ísalögum
hvað er annars títt af hvítabjörnum
og öðrum farfuglum
nú það er ekkert annað
bara gestkvæmt
væri ekki einmitt tilvalið að ég fengi að gista
eins og tvær þrjár nætur með haustinu
ég er á leiðinni suður
gott að birgja sig upp af hrúðurkörlum og sölum
áður en haldið er utan á ný
II
Mest þykir mér til þess koma
þúfur og jöklar
hversu vel þið haldið lagi
þrátt fyrir húðrok og hraglanda
er bilbug hvergi að finna
kúpt bök eins og steypt í mót
í nokkrum stærðum
verst þið fáið engan frið
stöðugt er krafsað og í ykkur spyrnt
þið ættuð að reyna að koma upp skiltum:
hætta mannýg fjöll ganga laus í girðingunni
- það ætti að halda vörgunum frá
þeir eru læsir
III
Svo lengi
greinar og lyng
hef ég beðið þess að finna angan ykkar
dreymir iðulega
spilltan berjasafa og mjúka köngla
héðan í frá ætla ég alltaf að hafa ykkur meðferðis
um skrjáfandi eyðimerkur
dimma skóga og ryksuguð stræti
reglulega skal ég nema staðar
draga upp úr mal mínum litfögur laufblöð
stilka og annað lostæti
vefja úr þeim enniskrans og setja upp
til varnar sólsting
og vasaþjófum
(s. 65-67)