Beint í efni

Horfðu á mig

Horfðu á mig
Höfundur
Yrsa Sigurðardóttir
Útgefandi
Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2009
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Glæpasögur Yrsu Sigurðardóttur hafa frá upphafi einkennst af því sem kalla mætti samslátt hins forneskjulega, í formi hins yfirnáttúrulega, og hins nútímalega, en sögurnar gerast allar í samtímanum. Yrsa er sú eina af íslenskum glæpahöfundum sem hefur markvisst notað sér þjóðsagnaarf til að gæða sögur sínar dálitlum aukahryllingi og að því leyti standa sögur hennar nærri hrollvekjunni. Vissulega reynast myrkraverkin í flestum tilfellum eiga sér eðlilegar skýringar og þar fetar Yrsa í fótspor höfunda gotnesku skáldsögunnar, sem á átjándu öld spiluðu einmitt mjög á þessi mörk hins yfirnáttúrulega með því að láta allskyns dularfulla atburði gerast, en finna þeim svo að lokum raunsæar skýringar. Ekki stóðust þó allar þessar skýringar og í sumum tilfellum var ekki endilega reynt að láta þær standast. Gotnesku skáldsögurnar urðu síðan uppspretta frægrar kenningar bókmenntafræðingsins Tzvetans Todorovs um fantasíu. Samkvæmt Todorov felst fantasían ekki í hinu ævintýralega eða óröklega, heldur einmitt í efanum um hvort eitthvað yfirnáttúrulegt hafi gerst, bilinu milli skýringarinnar og atburðarins, ef svo má segja.

Eitt frægasta dæmið um þessa kenningu Todorovs er saga bandaríska rithöfundarins Henry James, The Turn of the Screw frá 1898, en þar er sagt frá barnfóstru sem heldur að fyrri fóstra barnanna og vafasamur félagi hennar ásæki börnin handan grafar. Það er þó aldrei ljóst hvers eðlis málið er, því ýmislegt í sögunni bendir til að allir þeir sem upplifa draugaganginn, börnin sem segjast sjá draugana, og fóstran sem á við tilfinningaleg átök að stríða, séu ekki sérlega áreiðanlegir sögumenn.

Það er ýmislegt í nýjustu glæpsögu Yrsu, Horfðu á mig, sem kallast á við þessa þekktu draugasögu. Þar segir einmitt frá barni sem virðist ásótt af draugi fyrrum barnfóstru sinnar, en sú hafði látist í hörmulegu slysi einmitt þegar hún var á leiðinni í barnapössun. Stúlkan var keyrð niður af ókunnum ökumanni sem síðan hvarf af vettvangi og fannst aldrei.

Þetta er þó ekki það mál sem lögfræðingurinn Þóra er að fást við. Hún hefur verið ráðin af dæmdum barnaníðingi til að taka upp mál ungs manns með Downsheilkenni sem var fundinn sekur um að brenna sambýli sitt til grunna með þeim afleiðingum að fimm manns létust. Báðir eru þeir vistaðir á réttargeðdeildinni á Sogni en þar fæst barnaníðingurinn meðal annars við að gera við gamlar tölvur. Nútímatækni kemur víða við í sögunni, en sambýlið var sérlega vel búið ýmiskonar tækni til að aðstoða hina fötluðu og allt spilar þetta afar vel saman í áhrifamikilli og skemmtilegri glæpasögu, sem er án efa besta saga Yrsu til þessa.

Samband Þóru og hins þýska Matthews virðist nú vera orðið nokkuð stabílt, þó það setji vissulega strik í reikninginn að foreldrar Þóru, sem hafa misst allt í kreppunni, flytji inn í bílskúrinn til þeirra. En það þýðir þá að Matthew tekur heilmikinn þátt í rannsókninni með ágætis árangri. Þóra virðist eiga gott með að setja sig inn í heim hinna fötluðu. Hún hefur sérstakan áhuga á einhverfum pilti sem fórst í eldinum, enda má segja að hún hafi nokkra reynslu af slíku, því snyrtimennska Matthew nálgast það að vera sjúkleg. Hún áminnir sig stöðugt um að sýna ekki fordóma en fordæmir mjög þá sem það gera, og þrátt fyrir að þessi umræða um fordóma sé stundum á mörkum þess að vera siðapredikun þá vegur dálítið næf sjálfsrýni Þóru upp á móti.

Inn í málið blandast svo sögur annarra meðlima sambýlisins, auk starfsfólks, en í ljós kemur að ekki er allt sem sýnist þar. Það er sérstaklega fjölskylda hins einhverfa sem vekur athygli Þóru, en faðir hans er áhrifamikill í pólitík. Ungur útvarpsmaður fær óþægilegar upphringingar í þátt sinn. Stúlka sem liggur lömuð á spítala kemur líka við sögu og þannig spinnur höfundur vef ólíkra aðila sem virðast fastir í neti undarlegra atburða. Í bakgrunninum er svo kreppan, en sambýlið er staðsett í einu af hálfbyggðu hverfunum sem græðgisvæðingin setti af stað. Þannig er hinum fötluðu skapað táknrænt umhverfi, utan alfaraleiða, en annars er blessunarlega lítið gert úr því að velta sér uppúr neinskonar kreppu-uppgjöri.

Lausn málsins er síðan hæfilega óvænt og þar koma margir þræðir saman á sannfærandi hátt þó sjálfur bruninn sé kannski ekki nægilega vel skýrður. Það kemur þó ekki að sök því svo margt annað er fimlega leyst og útskýrt. Í lokin erum við svo samt skilin eftir með dálítinn efa - eða hvað?

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2009