Myndir: Erla Sigurðardóttir
Úr Hundakexinu:
Bjössi lá á milli uppsleginna tréveggja. Maggi lagðist flatur og teygði hendina niður. Bjössi náði ekki að grípa í hana. Hann var fastur þarna niðri.
„Ég verð að hlaupa og sækja einhvern,” sagði Maggi og rauk af stað.
Á leiðinni var Maggi að hugsa um að tala við bifvélavirkjana í bílskúrnum, því hann vissi að mömmu hans var illa við að þeir væru að príla í nýju húsunum. Það var stranglega bannað. En hurðin á bifvélaverkstæðinu var læst. Bifvélavirkjarnir voru í mat eða höfðu farið eitthvað. Maggi var neyddur til að flýta sér heim og sækja mömmu sína. Maggi hljóp í hendingsköstum. Buxnaklaufin var enn opin.
„Opin búð! Opin búð!” hrópuðu tvær stelpur að honum.
Maggi lét sem hann heyrði ekki í þeim, stökk upp tröppurnar og hringdi bjöllunni eins ákaft og hann gat. Loks urgaði í dyrasímanum. Hann hljóp upp stigann og hentist inn. Maggi var lafmóður, hjartað sló hratt og hann vissi varla hvernig hann átti að koma orðum að því sem hann ætlaði að segja. Mamma hans varð fyrri til.
„Þú ert búinn að vekja hann litla bróður þinn með þessum látum...” sagði hún.
Maggi heyrði orgin í litla bróður sínum.
„...og sjá á þér útganginn,” náði mamma hans að segja, „með galopna klauf!”
Maggi leit niður fyrir sig. Hann sá bolinn, sem stakkst út um buxnaklaufina.
„Hann Bjössi datt oní húsið,” sagði hann.
„Datt oní húsið?”
„Já, ég sneri mér við og þá var hann bara horfinn.”
„Datt hann niður af húsinu?”
„Nei, oní það.”
„Guð minn góður! Voruð þið að príla uppi á þaki? Hann hefur dottið...”
„Nei, þú veist,” náði Maggi að grípa fram í, „á milli hjá spýtunum, þar sem steypan kemur.”
„Og hvar er hann nú?” sagði mamma hans.
„Hann er þar enn,” sagði Maggi og röddin í honum var skringileg, eins og hann ætlaði að fara að syngja eða segja eitthvað skrýtið.
„Guð minn góður...”
Mamma hans flýtti sér í kápuna, pakkaði litla bróður hans á augabragði niður í burðarrúm og saman lögðu þau af stað.