Beint í efni

Í síðasta sinn

Í síðasta sinn
Höfundur
Ágúst Borgþór Sverrisson
Útgefandi
Skjaldborg
Staður
Reykjavík
Ár
1995
Flokkur
Smásögur


Úr Í síðasta sinn:

Þau hittast alltaf á sömu kaffistofunni í iðnaðarhverfi í austurhluta borgarinnar. Einhvern tíma var það af góðri og gildri ástæðu en hann er búinn að steingleyma hver sú ástæða var. Og núna er það algjör óþarfi. Miklu nær væri að fara beint heim til hennar. Samt getur hann ekki hugsað sér að breyta þessu. Tilhugsunin ein vekur honum óskýranlega skelfingu. Honum finnst að allt þurfi að vera óbreytt frá einum fundi til annars. Veit ekki hvers vegna. En honum finnst þetta allt vera mannlaus og tímalaus veröld sem hann hefur skapað handa sjálfum sér og að hún þoli enga breytingu án þess að hrynja.

Stúlkan hefur aldrei hreyft neinum athugasemdum við þessu fyrirkomulagi en hún segir líka aldrei neitt. Segir bara ,,allt í lagi, þurrt og kuldalega þegar hann hringir í hana.

Hingað kemur enginn sem hann þekkir og hann kemur aldrei hingað nema til að hitta hana. Gluggarnir eru alltaf skítugir og ryklag hvílir yfir öllu eins og á yfirgefnum stað. Alltaf þessir sömu rauðu plastöskubakkar á borðunum. Endurtekningin slær á óróann í brjósti hans. Hingað koma menn sem vinna í nágrenninu, þögulir, sljóir af þreytu og lausir við alla forvitni. Þeir anga ýmist af svitalykt eða smurolíu. Af sumum finnst honum vera ryðlykt.

Þau tala ekkert saman. Hún situr reykjandi þegar hann kemur og virðir hann ekki viðlits. Hann sest hjá henni og þegir. Lendir í vandræðum með hendurnar á sér. Færir þær af borðplötunni niður á hnén og síðan aftur upp á borðplötuna. Virðir stúlkuna fyrir sér í laumi. Hún reykir og horfir út í loftið. Varalitur á filternum. Hún er í gallajakka og gallabuxum. Sítt, slétt hárið fellur niður á axlir, skollitað. Augun gráblá, andlitið laglegt en sviplaust. Lokaður svipur.

(9-10)

Fleira eftir sama höfund

Smásaga í Wortlaut Island

Lesa meira

Afleiðingar

Lesa meira

Tvisvar á ævinni

Lesa meira

Sumarið 1970

Lesa meira

Hringstiginn - og sjö sögum betur

Lesa meira

Síðasti bíllinn

Lesa meira

Eftirlýst augnablik

Lesa meira

Hliðarspor

Lesa meira

Fyrsti dagur fjórðu viku

Lesa meira