Beint í efni

Ágúst Borgþór Sverrisson

Æviágrip

Ágúst Borgþór Sverrisson er fæddur 19. nóvember 1962 í Vesturbæ Reykjavíkur og ólst þar upp til átján ára aldurs. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1983. Hann stundaði þýsku- og bókmenntanám einn vetur í Berlín og annan í München. Árin 1990-1992 lærði hann heimspeki við Háskóla Íslands.

Starfsferill Ágústs Borgþórs hefur að miklu leyti einkennst af skrifum, t.d. blaðamennsku og kynningarskrifum. Hann hóf slíkan feril hjá Miðlun ehf. árið 1989, starfaði síðan sem prófarkalesari og textasmiður á Íslensku auglýsingastofunni og þaðan lá leiðin til þýðingastofunnar Skjals. Hann hefur auk þess haldið námskeið í smásagnaskrifum.

Ágúst Borgþór hóf að birta sögur í skólablöðum í M.R. en árið 1987 fékk hann birta smásöguna „Saknað“ í Tímariti Máls og menningar. Á þeim árum vann hann að sögum fyrir fyrsta smásagnasafn sitt og ljóðabókina Eftirlýst augnablik. Töluvert hlé varð á skrifum eftir þetta en samfelld smásagnaskrif hófust svo árið 1993. Ágúst Borgþór hefur síðan sent frá sér nokkur smásagnasöfn. Þá hefur hann gefið út nóvellur. Auk þess hafa verk hans birst í safnritum og tímaritum og hann hefur einnig verið ötull bloggari um langt árabil og birt fjölda pistla á þeim vettvangi. Ágústi hafa hlotnast viðurkenningar fyrir verk sín, meðal annars fyrstu verðlaun í smásagnakeppni Strik.is árið 2001.