Upphitun
Við erum stödd á upplestrarkvöldi á Loft Hosteli í Bankastræti í lok ágúst 2024. Viðburðurinn er upphitun fyrir Queer Situations, fyrstu hinsegin bókmenntahátíðina sem haldin er hér á landi, og fjölmargir rithöfundar, skáld og þýðendur stíga á stokk. Þeirra á meðal er Eva Rún Snorradóttir, ljóðskáld, leikskáld og prósahöfundur, sem skipuleggur hátíðina ásamt konu sinni, Höllu Þórlaugu Óskarsdóttur. Eva er kynnt á svið undir dynjandi lófaklappi en hún ætlar ekki að lesa upp kunnuglega texta úr eldri verkum heldur nýrri skáldsögu sem er væntanleg með haustinu. Já ókei, hugsar áhorfandi og hlakkar til óvissuferðar. Eva hefur skrifað talsvert um lesbískan veruleika og unnið með sjálfsævisögulegt efni í ljóðum og sögum. Sviðsverkið Góða ferð inn í gömul sár, sem sett var upp í Borgarleikhúsinu árið 2023, var af öðrum toga, pólitískt verk sem fjallaði um hinsegin sögu og tilveru fyrr og nú og byggði að hluta til á viðtölum. Í öllum þessum verkum er sársauki miðlægt þema en Eva býr líka yfir hnyttnum stíl og er fyndin. Við hverju má þá búast í þessari nýju bók? Óskilamunir (2021) var illskilgreinanlegt prósaverk sem hefði mögulega mátt markaðssetja sem skáldsögu en nýja bókin er samt sögð fyrsta skáldsaga höfundar. Kveður þar við nýjan tón?
Það er skemmst frá því að segja að fljótlega eftir að Eva byrjar að tala heyrist fliss. Hún segir áhorfendum að bókin heiti Eldri konur. Það er fyndið, ekki síst í samhengi kvennaásta, því hver kannast ekki við stelpuskot í garð kennslukonu, umsjónarkonu í frístundastarfi, kvenkyns yfirmanns eða ákveðnu, stuttklipptu konunnar sem les fréttirnar í sjónvarpinu? Eva les upp kafla þar sem sögukonan er stödd í barnaafmæli og kolfellur fyrir fjarskyldri frænku kærustunnar sinnar, fullorðinni konu „sem var vön að taka ábyrgð hvert sem hún fór, vön að sigla stemmningu í rétta höfn, afstýra hörmungum, taka utan um skipulag í minni- eða meiriháttar óhöppum og uppákomum, sætta, semja, sauma jólaföt, setja í pækil, halda öllum góðum, tengdum og nærðum“ (107–108). Sögukonan vill „bara setjast í fangið á henni og deyja þar“ en hemur sig og þakkar fyrir að ekki sé boðið upp á áfengi í þessu barnaafmæli eins og var svo oft gert í hennar eigin. Hún gefur frá sér lítið urr af hamingju þegar hún finnur ilmvatnslyktina af konunni og gerir sér upp áhuga á golfi til að vekja áhuga hennar. Salurinn á Loft Hosteli lifnar við, fólk veltist um af hlátri og tilhlökkun svífur í loftinu. Þessa skáldsögu verðum við að ná okkur í til að fá að hlæja meira.
Alvara lífsins
Nú þremur mánuðum síðar, þegar þessi umsögn er skrifuð, er skáldsaga Evu Rúnar löngu komin út og í ljós hefur komið að hér er ekki um neitt uppistand að ræða. Annar veruleiki blasir við og lesanda er ekki hlátur í hug. Vissulega er Eldri konur fyndin bók að því leyti að viðfangsefnið sem fangað er í titlinum, ástarþrá hinnar nafnlausu sögukonu í garð eldri kvenna, er skondið, en bara í smáum skömmtum líkt og kaflanum sem Eva las upp á Loft Hosteli. Skáldsagan samanstendur hins vegar af ellefu köflum sem allir eru merktir ártali og nafni konu og greina frá ólíkum tímabilum í lífi sögukonunnar þar sem hún fær þráhyggjukenndar hugsanir og tilfinningar í garð kvenna sem eru eldri en hún. Þessar konur eru ólíkar og tengjast sögukonunni á ýmsan hátt: ein er íþróttaþjálfarinn hennar og önnur leikskólakennari, nokkrar eru samstarfskonur og ein er dansari á strippstað; öðrum kynnist hún á reiðistjórnunarnámskeiðum eða varnarteymisnámskeiðum í gegnum félagsþjónustuna. Sumar verða elskhugar hennar en aðrar þekkir hún lítið sem ekkert. Engin gerir sögukonuna raunverulega hamingjusama enda sækir hún fyrst og fremst í sársaukann sem höfnun þeirra felur í sér — hún er föst í viðjum ástar- og kynlífsfíknar. Ein saga af þessu tagi getur framkallað hlátur en samlegðaráhrifin af ellefu köflum eru nöturleg, nánast óbærileg.
Við komumst enn fremur að því að sögukonan ólst upp við skelfilegar aðstæður: móðirin var ekki til staðar en barnið í umsjá móðursystur sinnar sem var fullkomlega vanhæfur uppalandi og sífellt á flótta undan afskiptum barnaverndar og lögreglu. Fíkn sögukonu í athygli og ást eldri kvenna á sér því augljósar sálfræðilegar rætur í tráma og vanrækslu sem hún varð fyrir í æsku og á unglingsárum. Það er ekkert fyndið við það.
Tvöfalt sjónarhorn á sársaukann
Eldri konur eru fremur stutt bók, aðeins rúmlega 150 blaðsíður. Stíllinn er einnig knappur og einkennist af stuttum setningum og efnisgreinum. Inni á milli kaflanna sem bera nöfn kvennanna sem sögukonan fær á heilann eru stuttar frásagnir hennar sem eru ekki bundnar ákveðnum ástarviðföngum. Enn fremur birtast á milli sumra kaflanna stuttir skáletraðir textar sem eru eins konar sviðsettar senur þar sem konurnar — fíkniefnið — renna saman í eitt í huga sögukonunnar. Frásögnin er öll í fyrstu persónu og sjónarhornið er tvöfalt, það er að segja bæði hjá sögukonunni í fortíðinni, á þeim aldri sem hún var þegar atburðirnir gerast, og í nútíðinni. Nútíðarsögukonan hefur lagt á sig mikla sjálfsvinnu og reynt allt hvað hún getur til að greiða úr flækjum æsku sinnar og sigrast á ástarfíkninni sem hefur gert henni erfitt fyrir að minnsta kosti frá unglingsárum. Nútíðarsjónarhornið er því greinandi en fortíðin fléttast inn í frásögnina þar sem orðalagið er gjarnan markað af hrifningunni og þráhyggjuhugsununum sem heltóku hana:
Þegar Rannveig talaði fannst mér hún beina orðum sínum til mín þó svo að vaktherbergið væri fullt af konum. Hún sagði frá því að um helgina hefði hún farið í Rúmfatalagerinn að kaupa sæng í gestaherbergið því að tengdamóðir hennar myndi dvelja hjá þeim þriðju hverju viku. Hún var lengi að hugsa um hvaða sæng hún ætti að taka og ákvað svo að taka sumarsæng, horfði á mig. Hún þorði ekki að taka vetrarsæng því þá væri hún að segja að þetta ástand yrði ekki leyst þegar veturinn kæmi, sagði hún og hló. Hinar hlógu með. Ég brosti til hennar og kinkaði kolli. Hún er góð manneskja. Hún er að tala um sængur við mig, hún vill skapa spennandi hugrenningatengsl. Við tvær saman í rúmi. (14–15)
Nútíðarsjónarhornið kemur skýrast fram í milliköflunum þar sem sögukonan setur reynslu sína í samhengi við sálfræðikenningar og segir frá tilraunum sínum til að komast yfir þráhyggjuna:
Það er sársaukafullt að komast yfir þær. Sjálft bataferlið. Að gleyma þeim. Að finna máttinn dofna. Finna þær smátt og smátt hverfa úr huga mér. Ég reyni að halda í þær. Kalla fram andlit þeirra sem ég hef ekki séð lengi. Hugsanirnar um þær eru orðnar minningar sem ég get ekki bara yfirgefið. Sakna taksins sem ég er að losna undan. Óttast tómið sem kemur í staðinn. (113)
Þetta tvöfalda sjónarhorn skapar sterka tengingu við sögukonuna og veldur því að lesandinn getur bæði samsamað sig henni í æsku og á fullorðinsárum; bæði þráhyggjunni og sjálfsvinnunni. Þetta er vel gert hjá Evu Rún og stíll hennar er líklega stór þáttur í því hve vinsæl Eldri konur hefur verið í þessu jólabókaflóði og þeim góðu dómum sem bókin hefur hlotið. Frásögnin er einlæg á fallegan og sársaukafullan hátt en líka írónísk því sögukonan hefur húmor fyrir sjálfri sér og gerir sér grein fyrir því að tilfinningaflækjur hennar og fíknihegðun er órökrétt í augum margra.
Hið venjulega líf
Þráhyggja fyrir tiltekinni „tegund“ fólks er viðfangsefni sem dansar á ýmiss konar siðferðislegum mörkum. Bók um sambærilegt efni sem bæri titilinn „Ungar konur“ væri nokkuð örugglega óþægileg og líklega óviðeigandi, allavega ef aðalpersónan væri karl, og „Asískar konur“ væri algjörlega ótæk. Í skáldsögu Evu Rúnar er hins vegar lykilatriði að sögukonan og ástarviðföng hennar eru af sama kyni og hún leitar upp fyrir sig í samfélags- og valdastiganum; konurnar sem hún fær á heilann standa betur að vígi en hún og það er aldrei inni í myndinni að hún misnoti þær. Öðru máli gegnir hins vegar um kærusturnar. Kaflar bókarinnar bera ekki nöfn þeirra enda eru þær ekki fíkniefnið, eldri konur, heldur jafningjar sögukonunnar og tilfinningar hennar til þeirra eru af allt öðrum toga. Hjá þeim finnur hún hlýju og öryggi og hið borgaralega fjölskyldulíf sem þær bjóða upp á heillar hana og skelfir í senn. Það þarf kannski ekki að koma á óvart að hún á erfitt með að láta slík sambönd ganga og bregst trausti kærastanna ítrekað.
Stéttarstaða sögukonunnar er áhugaverð að því leyti að ég man ekki eftir mörgum íslenskum skáldverkum þar sem aðalpersónan er kona úr fátækri og brotinni fjölskyldu sem þar að auki er hinsegin og vex úr grasi sem „white trash“, eins og henni er bent á síðar meir. Í Kiljunni 21. nóvember síðastliðinn nefndi Ólína Þorvarðardóttir að Eldri konur minnti sig á smásögur Ástu Sigurðardóttur og sá samanburður er að mörgu leyti réttmætur. Sögukonur Ástu eru aldrei samkynhneigðar en þær eru hinsegin í víðum skilningi af því að þær passa aldrei inn í nein samfélagsnorm og eru eilíflega jaðarsettar af því að þær stjórna ekki tilfinningum sínum og hegða sér ekki eins og þær eiga að gera, einmitt af því að þær koma ekki úr millistéttinni sem býr til normin. Hinseginleiki sögukonunnar í Eldri konum er sömuleiðis ekki það sem jaðarsetur hana — í þessari skáldsögu er samkynhneigð ekki sérstaklega til umfjöllunar að öðru leyti en því að hún er sjálfsagður þáttur í lífi aðalpersónunnar og þar með vissulega alltumlykjandi — heldur allt hitt. Hana langar til að verða „venjuleg“ en getur það ekki og raunar virðist hún berjast gegn því, kannski einmitt af því að hún var alin upp utan hins normatíva samfélags og kann ekki allar reglurnar sem millistéttarkrakkarnir drekka með kókómjólkinni.
Friðsemd
Í fyrstu skáldsögu Brynju Hjálmsdóttur, Friðsemd, mætir okkur sömuleiðis sérstök aðalpersóna, ólík flestum sem ég man eftir. Eftirminnileg er hún kannski ekki í augum annarra persóna, hún Friðsemd, sem eins og nafnið gefur til kynna er hlédræg, heimakær og dálítið kvíðin kona sem vill hafa stjórn á aðstæðum og halda sig utan hringiðunnar, en hún birtist lesandanum engu að síður sem óvæntur andblær. Hún elskar konur heitt en þó á annan hátt en sögukonan í Eldri konum, enda er hér um skáldverk af allt öðru tagi að ræða: framtíðarsögu sem fjallar um glæp og byggir markvisst á, og skopast að, glæpasögum sem formi og grein.
Skáldsagan Friðsemd gerist á Íslandi í óljósri en líklega ekki mjög fjarlægri framtíð þar sem yfirborð sjávar hefur hækkað mjög og haft veruleg áhrif á hinn byggða heim. Strandlengja Íslands hefur gerbreyst, Suðurlandsundirlendið er sokkið í hafið og nú kallað Glataða landið. Bráðnun jökla hefur haft áhrif á jarðskorpuna og jarðskjálftar eru víða mikil ógn. Eftir standa blómlegar byggðir á eldri og traustari stöðum, svo sem Austfjörðum, en söguhetjan og móðir hennar flúðu einmitt óöryggið á Selfossi og komu sér fyrir á Eskifirði í skjóli Hólmatindsins. Sagan gerist hins vegar að mestu leyti í Hveragerði, sem er orðinn strandbær, en þar gerast voveiflegir atburðir: besta vinkona Friðsemdar, Fatima, fellur fram af kletti og hverfur í hafið. Flestum virðist að um slys sé að ræða en Friðsemd finnur á sér að ekki sé allt sem sýnist og hefur rannsókn á málinu. Augu hennar beinast fljótlega að starfsemi gerspillts risafyrirtækis, SELÍS, sem hefur reist starfsstöðvar sínar í fjallshlíð ofan við Hveragerði, sér í lagi forstjóranum, Eldberg Salman Atlasyni.
SELÍS stendur fyrir „Samsteypu um eðlisbreytingar á láglendi Íslands“ og er eitt af mörgum róttækum, sumir myndu segja snargölnum, nýsköpunarverkefnum Eldbergs en um leið það sem hefur fleytt honum lengst. Fyrirtækið, sem eigandinn segir að sé „nýsköpunarver“, hefur það að markmiði að bjarga láglendinu frá áframhaldandi hækkun sjávar. Nákvæmlega hvernig og með hvaða aðferðum er leyndarmál sem kemur upp á yfirborðið í einkar dramatísku lokaatriði bókarinnar. Eldberg er hreinræktaður skúrkur, á því leikur aldrei neinn vafi, og persóna hans, fyrirætlanir og starfsemi fyrirtækisins er írónísk ádeila á ýmislegt í samtíma okkar. Hann pakkar hugmyndum sínum, sem í ljós kemur að eru stórhættulegar, inn í orðfæri sem selur á tímum hamfara og loftslagsbreytinga: hann segir fyrirtæki sitt stunda „róttæka landgræðslu“ með það að markmiði að „varðveita landmassa á Íslandi og standa vörð um hag þjóðarinnar“; um sé að ræða „brautryðjandi frumkvöðlaverkefni með fókus á sjálfbærni, grænar lausnir og græn viðskipti“ (58). Allt er þetta kunnuglegt nú þegar ljóst er að frasar á borð við „kolefnisjöfnun“ og „grænar lausnir“ vísa ekki endilega til aðgerða sem gera raunverulegt gagn heldur skaffa tilteknum einstaklingum gróða og völd.
Skáldsaga Brynju er því talsvert pólitísk, eins og framtíðarskáldskapur er jafnan, en ádeilan er þó alls ekki plássfrek. Í forgrunni sögunnar er annars vegar aðalpersónan Friðsemd, þroskasaga hennar og vináttusambönd, og hins vegar glæpasagan sem bókmenntaform og gildi afþreyingar, lestrar og sköpunar. Og hvort tveggja er þrælhinsegin.
Vináttan
Samband Friðsemdar og Fatimu er afar náið. Þær eru andstæður; Fatima er ör og ævintýragjörn, falleg og vekur athygli hvar sem hún fer, en Friðsemd er hlédræg og varkár. Þær kynntust í námi í Kaupmannahöfn og þrátt fyrir ólíkindin, eða kannski einmitt vegna þeirra, tengdust þær sterkum böndum. Friðsemd flutti síðar heim til Eskifjarðar til að sinna móður sinni en Fatima hélt áfram ævintýralífi sínu, hóf að skrifa glæpasögur í Danmörku og varð metsöluhöfundur. Friðsemd las yfir handritin og þýddi bækurnar á íslensku og varð þannig fjárhagslega háð vinkonu sinni. Við sviplegt andlát Fatimu stendur Friðsemd því eftir ein og atvinnulaus; Fatima var nánasti aðstandandi hennar og lífsförunautur.
Þrátt fyrir að bindast böndum sem eru sambærileg við parsamband voru konurnar tvær aldrei elskendur. Friðsemd er nefnilega „ekkert fyrir rómantík“ (18) og hrífst ekki kynferðislega af öðru fólki. Um miðbik sögunnar veltir hún fyrir sér tilfinningunum sem krauma á milli nýrra vinkvenna sem hún hefur eignast í Hveragerði, Olive og Kolbrúnar. „Ég horfði á þær og vissi að svona myndi ég aldrei horfa á neinn, ekki nákvæmlega svona, ég var bara ekki þannig gerð og fengi aldrei slíkum spilum úthlutað“ (121). Hér er sem sagt komin eikynhneigð og eirómantísk aðalpersóna, sjaldséð hrafnategund í flóru íslenskra bókmennta.
Á sama tíma er sjóðheitur erótískur þráður milli vinkvennanna en hann liggur um skáldaðar lendur glæpasagnaseríu Fatimu um Advocat Larsen, sem er af grænlenskum og dönskum ættum og heitir fullu nafni Simone Pilunnguaq Larsen. Advocat Larsen minnir dálítið á Stellu okkar Blómkvist, í það minnsta er hún gallhörð týpa sem sefur jafnt hjá körlum sem konum:
Advocat Larsen [...] vinnur fyrst og fremst sem verjandi en bregður sér í öll hlutverk. Hún er líkt og rannsóknarlögreglukona, njósnari, verjandi, saksóknari og blaðakona – allt í einum sexý pakka. Hún er löng og íturvaxin, með stór og mjúk brjóst og svart glansandi hár, grásprengt á hárréttum stöðum, sem hún bindur aldrei í greiðslu heldur leyfir að flæða niður fallegar axlirnar. Augu hennar eru djúp og dökk og full af dulmögnuðu innsæi. Hún er alltaf óaðfinnanlega klædd, í sígildum en um leið framsæknum stíl, sem rammar inn framúrskarandi vaxtarlagið. Þegar hún gengur inn í herbergi fer það ekki fram hjá nokkrum manni, menn setur hljóða. Satt að segja ekki allskostar ólík Fatimu sjálfri, svona að þessu leyti. (19–20)
Friðsemd lifir í heimi þessara sagna og sækir þangað þekkingu og reynslu sem hana skortir í tilbreytingasnauðu lífi sínu, ekki síst þegar hún tekur til við að leysa gátuna um dauða Fatimu. Hún gerir sér grein fyrir því að persónurnar í bókunum eru skáldskapur en ekki alvöru fólk; en samt: „Svona veit maður í heilanum en í hjartanu virka hlutirnir öðruvísi. Í hjarta mínu voru persónurnar eitthvað meira. Veigamikill hluti af lífi mínu“ (49). Þess vegna sér Friðsemd ekkert því til fyrirstöðu að setja á ferilskrá sína að hún hafi reynslu af húsvörslu og jafnvel lögmennsku, því hún þekkir slík störf úr skálduðum heimum vinkonu sinnar. Hið sama má segja um erótíkina; hana þekkir Friðsemd mætavel og tengir greinilega við Fatimu þótt hún sé ekki hluti af lífi hennar í raunheimum.
Femínísk paródía
Það ætti ekki að hafa farið framhjá neinum að í skáldsögu Brynju eru Fatima og Friðsemd í hlutverki rithöfundar annars vegar og lesanda og þýðanda hins vegar. Fatima skapar og framkvæmir á meðan Friðsemd les, styður og miðlar, að því er virðist á passívan hátt. Fatima og sagnaheimur hennar er allt sem Friðsemd á en það er ekki gagnkvæmt; Fatimu virðast allir möguleikar standa opnir. Við andlát hennar verða hins vegar vatnaskil í lífi Friðsemdar sem beina athygli lesenda um leið að sambandi höfundar og lesanda og hrista upp í tvíhyggjuhugmyndum um virka sköpun og passífan lestur. Skáldsagan er þannig þroskasaga Friðsemdar þar sem hún stígur út úr örygginu og hlutleysinu og verður að lokum höfundur eigin glæpasögu þar sem hún sjálf er í aðalhlutverki.
Þessi þroskasaga er kannski ekki sérstaklega frumleg, ekki fremur en formgerðin sem skáldsagan og persónur hennar byggja á. Friðsemd er paródía þar sem gert er grín að klisjum og dramatík glæpasögunnar en hún er um leið óður til afþreyingarbókmennta – femínískur óður. Fatima og Friðsemd ræða gjarnan skáldskapinn í bréfum sem þær skrifa hvor annarri og þar ver Fatima klisjurnar sem hún skapar:
Í raunveruleikanum eru sakamál ekki leyst. Þau rata ekki einu sinni á borð yfirvalda. Að sakamál séu leyst er fantasía og fantasían er það sem við þurfum. [...] við viljum bara heyra sömu söguna. Aftur og aftur.
Það voru ekki einhverjir grískir lendaskýlumenn með skorpin typpi sem fundu upp skáldskaparfræðin. Það voru mömmur okkar, það voru ömmur okkar, sem svæfðu okkur með sögum. (80–81).
Að lokum
Stutta svarið við spurningunni sem lögð var fram í upphafi, hvort það kvæði við nýjan tón í Eldri konum miðað við höfundarverk Evu Rúnar, er í flestum grundvallaratriðum nei. Hún vinnur áfram með lesbískar ástir og sjálfsævisögulegt efni; þótt þetta sé skáldsaga hefur Eva greint frá því að hún hafi sjálf verið með þráhyggju af svipuðum toga og sögukonan sem enn fremur er á svipuðum aldri og höfundurinn. Hinsegin pólitík skín líka í gegnum Eldri konur þótt óbeint sé því það er ekki á hverjum degi sem kvennaástir í svo fjölbreyttri mynd eru aðalumfjöllunarefni íslenskrar skáldsögu. Sérstaklega er eftirtektarvert hversu gallaðar og breyskar konurnar og ástir þeirra fá að vera en um leið sympatískar og órafjarri neikvæðum, fordómafullum staðalmyndum.
Friðsemd er hins vegar nýtt og óvænt innlegg í höfundarverk Brynju Hjálmsdóttur, sem áður hefur sent frá sér tvær ljóðabækur. Það er lítil ljóðræna í þessari framtíðarglæpasögu en textinn er lipur og vel skrifaður. Friðsemd er, eins og Eldri konur, femínískt skáldverk þar sem hinseginleiki og ódæmigerð kvennasambönd eru í forgrunni og því kynjapólitískt á sinn hátt. Aðalpersónurnar eru fjarri því að vera klisjur, þótt þær vinni við að skapa þær, heldur einkar eftirtektarverðar konur og ekki síður sérstakt par. Loks er þessi skáldsaga, líkt og saga Evu Rúnar, þrælfyndin með harmrænum undirtón, sem er þó ekki persónulegur heldur snýst um framtíð mannkyns og mögulegan heimsendi. Getur það verið fyndið? má spyrja. Ég býst við að svarið sé að húmor sé oft og tíðum lífsnauðsynlegur.
Ásta Kristín Benediktsdóttir, desember 2024