Beint í efni

Kristian Guttesen

Æviágrip

Kristian Guttesen fæddist þann 29. maí árið 1974 í Danmörku og ólst þar upp en flutti til Íslands 11 ára gamall. Hann var við nám í Bretlandi á árunum 1995-9 og útskrifaðist með BS-próf í hugbúnaðarverkfræði frá University of Glamorgan í Wales. Síðar lauk hann MA-prófi í ritlist, MA-prófi í heimspeki og viðbótardiplómu í kennslufræðum við Háskóla Íslands. Kristian er nú í doktorsnámi við University of Birmingham í Englandi, þar sem hann leitar leiða til að efla siðferðisþroska nemenda á unglingastigi grunnskóla með aðstoð ljóðlistar.

Fyrsta ljóðabók Kristians, Afturgöngur, kom út árið 1995 og í kjölfarið hafa fylgt fjölmargar ljóðabækur, síðast Englablóð og Hendur morðingjans, sem báðar komu út árið 2016. Kristian var tilnefndur til íslensku þýðingaverðlaunanna fyrir þýðingu sína á skáldsögu Carl Frode Tiller Brekkan árið 2007. Þá hefur hann komið fram og lesið upp á ljóðahátíðum bæði hérlendis og á erlendri grundu.

Verk Kristians hafa verið þýdd á fjölda tungumála, þar á meðal albönsku, dönsku, frönsku, spænsku og úkraínsku. Úrval ljóða Kristians í enskri þýðingu kom út undir titlinum Lady of the Mountain and Other Poems árið 2017.