Beint í efni

Krydd lífsins

Krydd lífsins
Höfundur
Einar Örn Gunnarsson
Útgefandi
Sögur útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2024
Flokkur
Smásögur

Um bókina

Krydd lífsins er safn tólf smásagna sem allar gerast í nútímanum í höfuðborgum Norðurlanda, allt frá Nuuk til Helsinki. Sjaldnast er allt sem sýnist og hvaðeina getur umturnast eða afhjúpast í sviphendingu.

Hvað gerir staurblankur listfræðingur sem uppgötvar óvænt tvö verðmæt verk eftir Banksy á vegg bakhúss á Laugavegi? Hvort er verra að eiga mislukkaða tilveru eða öðlast nýtt líf sem fíkill á skandinavískar sjálfshjálparbækur? Geta bókmenntir hugsað? Hvað gerir læknir sem á harma að hefna þegar fjandmaður og örlagavaldur í lífi hans er borinn inn á bráðamóttökuna með öllu ósjálfbjarga?

Úr bókinni

EINN KALDAN VETRARDAG stormaði inn í móttöku fjárfestingafélagsins Icelandic Investment hávaxinn ungur maður sem hélt á stórum upprúlluðum teikningum og vildi ná tali af framkvæmdastjóranum. Maðurinn var ör í fasi, kvaðst heita Egill og vera með hugmynd að skipsskrúfu sem væri öflugri en aðrar skrúfur. Hann vildi bjóða okkur að kaupa hlut í sprotafyrirtæki sem hann hafði sett á laggirnar. Ósviknir lukkuriddarar höfðu ekki oft orðið á vegi mínum en náunginn kom mér sannarlega fyrir sjónir sem einn slíkur. Þykkt, rautt hárið náði langt niður fyrir eyru og kringlótt gleraugun gerðu hann líkastan viðkvæmu ljóðskáldi í útlitil. Jakkafötin voru greinilega ný og sá sem hafði valið þau þekkti augljóslega hvorki til smekkvísi, stærða né hlutfalla. Ermarnar of stuttar, jakkinn þröngur og bleikrósótt skyrtan passaði engan veginn við gráu, teinóttu fötin. 

  Þótt ekki væri vanalegt í fyrirtækinu að menn fengju fund með lykilstjórnendum samdægurs gerðist það þennan dag. Er ég hringdi í framkæmdastjórann Harald og lýsti frumkvöðlinum fyrir honum vaknaði forvitni hans samstundis. Hann vildi fyrir alla muni heyra hvað þessi sérvitringur hefði fram að færa. Kvaðst hann vera á leiðinni á skrifstofuna og bað okkur að hinkra við.

  Ég bauð Agli inn í fundarsal fyrirtækisins þar sem við settumst niður og fengum okkur kaffi. Salurinn var eingöngu búinn glæsilegum húsgögnum eftir þekkta skandinavíska hönnuði. Málverkin sem prýddu veggina voru eftir fremstu abstraktmálara Íslendinga, litrík og spontant expressjónísk verk en einnig þaulunnar strangflatarmyndir, einfaldar í forminu og heillandi. Haraldur átti heiðurinn af nýju útliti skrifstofunnar. Áður en hann tók við stöðunni hafði ekki verið málað innandyra í áratugi og öll teppi voru rykug og slitin. Pétur, aðaleigandi og stjórnarformaður fjárfestingafélagsins, lágvaxinn og þéttholda maður um fertugt, hafði keypt húsnæðið nokkrum árum áður á nauðungaruppboði. Í fyrstu áleit hann breytingarnar hálfgert bruðl en með tímanum lærði hann að meta þær. Í rauninni skildi hann ekkert í  „klessumálverkunum“ sem voru „ekki af neinu og smákrakkar gætu leikandi málað eitthað álíka“, eins og hann komst að orði. 

  Hámörkun ávöxtunar var hjartans mál Péturs. Á fáeinum árum hafði hann margfaldað eignir sínar með undraverðum hætti en það orð fór af honum að hann svifist einskis í viðskiptum. Hann fylgdist daglega með lokagengi allra sinna skráðu hlutabréfa, uppsveiflum og niðursveiflum. Ef bréfin færðust hressilega upp á við varð hann ofsakátur en þegar þau tóku dýfu dimmdi yfir svipnum og skapofsaköstin létu ekki á sér standa. Líf hans og geð sveiflaðist algjörlega í takt ið úrvalsvísitölur kauphallanna.

Agli var mikið niðri fyrir og hann talaði af ákefð. Meðan ég sat undir einræðu hans sannfærðist ég um að stressið fyrir að hitta Harald hefði hlaupið í raddböndin á honum. Hann greindi af ósvikinni innlifun frá margra ára þrotlausri og ólaunaðri vinnu við að hanna skipsskrúfu. En kostnaðurinn við smíði frumgerðarinnar og öflun einkaleyfis á skrúfutýpunni hafði orðið honum fjárhagslega erfiður. Nánir ættingjar og vinir reyndust þá vera þeir einu sem höfðu trú á hugmyndinni og létu honum fé í té. Í framhaldinu hafði Egill stofnað einkahlutafélagið Moonlight sem skráð var í Fyrirtækjaskrá sem Tunglskin ehf. - eftir fallegasta Dylan-laginu, að hans dómi. Egill var að flestu leyti trúverðugur og ég var ekki í vafa um að skipsskrúfan væri áhugaverð uppgötvun. Ég hlakkaði til að sjá útfræsluna og heyra álit Haraldar á hugmyndinni. Talandi Egils var nokkuð sérkennilegur en einlægnin olli því að eftir stutta stunda þótti mér sem við hefðum þekkst í mörg ár.

(s. 77-79)

Fleira eftir sama höfund

Draugasinfónían

Lesa meira

Benjamín

Lesa meira

Bréf til mömmu

Lesa meira

Næðingur

Lesa meira
ég var nóttin

Ég var nóttin: Reykjavíkursaga

Eftir langa leit að leiguherbergi býðst ungum lögfræðistúdent óvænt herbergi á furðulega lágu verði í stóru einbýlishúsi í Þingholtunum
Lesa meira

Tár paradísarfuglsins : bréf til mömmu

Lesa meira

Dýrmætasta leyndarmálið

Lesa meira

Gíslasaga

Lesa meira

Rojaus Paukscio Asaros

Lesa meira