Framan á íslenskri útgáfu skáldsögunnar Laugardagur eftir Ian McEwan er vitnað í orð Silju Aðalsteinsdóttur, ritstjóra TMM (Tímarit Máls og menningar): “”Það óviðjafnanlega við bækur McEwans er að þær uppfylla bæði flettiþörf og þörfina fyrir að hugsa og finnast maður hafa breyst, jafnvel þroskast, við lesturinn.”” Ég hafði ekki tekið sérstaklega eftir þessari tilvitnun þegar ég las bókina, var reyndar bara að reka augun í hana núna, þarsem ég sit við tölvuna með bók McEwans á borðinu. Almennt séð væri þetta ágæt lýsing á upplifun minni af bókum McEwans hingað til (ég hef þó ekki lesið þær alveg allar), þær eru bæði einstaklega lestrarhvetjandi auk þess að kalla á linnulausar vangaveltur. Ég hafði hlakkað mikið til að lesa Laugardaginn, geymt mér hana til góðs tíma eins og oft er um bækur góðkunningja bókmenntagagnrýnandans, og gladdist því mjög þegar von var á henni í þýðingu. Lesendur eru væntanlega farnir að átta sig á að niðurstaðan var ekki sú sem ég vænti: mér fannst Laugardagurinn eiginlega alls ekki góð bók. Þó er því ekki að neita að hluti orða Silju stendur, þörfin fyrir að hugsa var jafnvel meiri en oft áður (reyndar hef ég þá tilhneigingu að hugsa meira um vondar bækur en góðar, en það er vinnusjúkdómur). Og þó ég telji mig kannski ekki breytta manneskju eftir lesturinn verð ég að viðurkenna að ég fann mig knúna til að velta nánar fyrir mér ýmsum viðhorfum mínum, sem ég hafði hingað til tekið sem frekar gefin og aðgengileg.
Laugardagur gerist, eins og titillinn gefur svo afskaplega vel til kynna, á einum laugardegi í lífi enska heilaskurðlæknisins Henry Perowne, nánar tiltekið þann 15. febrúar 2003. Hann vaknar óvænt eldsnemma um morguninn og verður vitni að brennandi flugvél sem flýgur yfir Lundúnarborg og stefnir á Heathrow. Auðvitað eru hryðjuverk það fyrsta sem honum dettur í hug en einn af þráðum verksins eru vangaveltur um stríðsreksturinn í Írak, þá rétt óhafinn, en nokkuð ljóslega yfirvofandi. Síðar um morguninn situr hann í fína bensinum sínum og ekur þvert um borgina til að spila skvass með samstarfsmanni sínum og lendir þá í vægum árekstri, sem fljótlega snýst uppí annað og verra, því í hinum bílnum eru þrír þrjótar sem eru ekki par sáttir. Læknirinn sleppur undan þeim þegar hann greinir einkenni sjaldgæfs taugasjúkdóms í leiðtoganum, sá vill ekki að vinirnir komist að veikindunum sem honum finnast lítillækkandi. Reyndar svo að um kvöldið ræðst hann inn í hús Perowne fjölskyldunnar og hefur í hótunum. Inní þetta blandast svo vangaveltur um og samskipti við fjölskyldu læknisins, konu, tvö börn, móður og tengdaföður.
Segja má að sagan sé byggð upp eins og smásaga, en þær eru einmitt dæmigerðar fyrir þennan þrönga ramma þarsem einhver atburður varpar ljósi á allt líf söguhetjunnar. Hér fáum við innsýn í fremur hamingjuríkt líf nokkuð dæmigerðs hvíts gagnkynhneigðs karlmanns af efri-miðstétt, hann er vel efnaður og vel lukkaður í sínu starfi og lífi, hjónabandið er gott og byggist á jafnræði, eiginkonan er lögfræðingur og vinnur álíka mikið og hann, börnin eru bæði listræn og vel gefin og hjónin hafa vandað sig við uppeldi þeirra. Helsta vandamálið er móðirin, en hún er með alzheimers og veikindi hennar hvíla þungt á syninum - allavega á laugardögum sem eru heimsóknardagar. Tengdapabbinn er drykkfellt og frægt ljóðskáld sem einnig getur verið erfiður, en það er minniháttar mál. Perowne er, að hætti margra menntamanna úr sinni stétt, fremur ábyrgt hugsandi maður, hann lætur sig jafnrétti og mannvirðingu varða, reyndar svo að þegar hann losar sig undan því að vera barinn í spað með því að henda sjúkdómsgreiningu framan í árásarmann sinn, þá iðrast hann þess nokkuð, því með því hafi hann komið óheiðarlega fram, misnotað aðstöðu sína og því kennir hann sjálfum sér um innrás hins.
Þessar vangaveltur um samviskubit og ábyrgð hinna betur settu gagnvart hinum verr settu er að mínu mati lykilþema bókarinnar og kallast á við stríðsumræðuna sem er gegnumgangandi. Perowne á í vandræðum með viðhorf sitt til stríðsins, annarsvegar er hann, með sín mannvænu viðhorf, á móti stríði en hinsvegar hefur hann gert aðgerð á og kynnst manni sem þurfti að þola pyntingar undir stjórn Saddams Hussein og því er honum lítt um stjórn hans gefið.
Og hér var ég kölluð út til ýmissa vangaveltna. Undanfarið hefur verið nokkuð vinsælt að taka í gegn það sem kallað hefur verið hugsjónir hippakynslóðarinnar, eða hugmynda-arfur 68-kynslóðarinnar og eru verk franska rithöfundarins Michel Houellebecq líklega þekktust fyrir slíkt, en af íslenskum verkum má nefna skáldsögur Auðar Jónsdóttur, Stjórnlaus lukka (1998) og Fólkið í kjallaranum (2004). Auður nálgast viðfangsefnið útfrá kynslóðaskiptum og einstaklingnum og dregur fram mjög áhugaverða fleti á umræðunni, en lætin í Houellebecq gerðu það að verkum að ég snerist öndverð gegn hans gagnrýni. Hinsvegar fann ég mig skyndilega og óvænt í liði með Houellebecq eftir að hafa lesið Laugardaginn, það er að segja, þarsem gagnrýni franska rithöfundarins náði ekki að sannfæra mig (mér fannst hún eiginlega aðallega dálítið barnaleg) tókst þeim breska að láta mig snúast öndverð gegn húmanisma 68 kynslóðarinnar. Lýsingar hans á því hvernig læknirinn góði og göfugi er upptekinn af réttindum og skyldum - til dæmis hvað varðar jafnrétti kynjanna - jafnframt því að vera stoltur af sínum listrænu börnum og jafnvel öfunda þau fyrir að vera svona ‘frjáls’, fóru þveröfugt ofaní mig og ég upplifði hans viðhorf sem menningarhroka en ekki manngæsku. Nú er mér ekki alveg ljóst hvort slíkt hafi mögulega verið ætlun höfundarins, ég á einfaldlega erfitt með að samþykkja að væmin endalokin geti verið laus við íróníu, en þó... Allavega hlýt ég að spyrja mig hvort þessi óvænta uppákoma inn í hið kyrrláta hversdagslíf vel heppnaðrar fjölskyldu geti virkilega átt að sannfæra lesanda um að heilaskurðlæknirinn sé í réttu liði? (Ýmislegt, þar á meðal væntingar hans til jákvæðrar útkomu stríðsins, sem augljóslega höfðu ekki gengið eftir þegar bókin er skrifuð árið 2005, bendir til þess að hæpið sé að halda fyllilega með Henry. Annað sem gerði það að verkum að ég efaðist um stöðu aðalpersónunnar var að meðan ég las Laugardag las frænka mín Frankenstein og undraði sig ákaflega á því að í hvert skipti sem sá góði læknismenntaði maður stóð frammi fyrir ákvörðun þá valdi hann rangt. Ég gat ekki annað en borið saman rangar ákvarðanir og grandaleysi Henrys saman við rangar ákvarðanir og grandaleysi Viktors (en besti vinur hans hét einmitt Henry) og þannig spiluðu þessi tvö þekktu verk enskra bókmennta saman á áhugavekjandi hátt.)
Hvernig sem það allt nú var, þá stendur eftir að mér fannst bókin einfaldlega leiðinleg. Svo að ég man varla eftir öðrum eins hremmingum við það að komast í gegnum eina bók. Nákvæmar lýsingar á hugsunum og gjörðum heilaskurðlæknisins voru hreinlega að drepa mig úr leiðindum, svo, að það tók mig slétta viku að komast í gegnum verkið. Ekki er þó þýðingu Árna Óskarssonar um að kenna, en ég las hálfa bókina á ensku og hinn helminginn á íslensku og var ekki fjarri því að hún skánaði þegar hún var komin á íslensku.
Svo að ég taki upp þráðinn frá upphafsorðum þessa pistils þá finnst mér alltaf áhugavert að kanna hvernig umsagnir og umhverfi hefur áhrif á lestrarupplifunina. Önnur umsögn, að þessu sinni aftan á bókinni, vakti líka mjög lyst mína (en hana hafði ég lesið utaná ensku útgáfunni líka): “”Skáldsaga um heilasérfræðing eftir höfund sem sérhæfir sig í mannshuganum”” er haft eftir Sunday Times. Þriðju umsögnina las ég í Guardian-pistli um Booker-verðlaunin (en Laugardagur var á lista þar, þó ekki ynni hún) þarsem ónefndur rithöfundur (dáldið sár) talaði fjálglega um hvað bækurnar sem komust á Booker-listann væru lélegar og nefndi Laugardag sérstaklega sem dæmi. Ég tók þetta ekki alvarlega þá, örugg í trausti mínu á hæfileikum McEwan, en verð nú að endurskoða það viðhorf mitt. Svo þannig séð má kannski segja að ég hafi “breyst, jafnvel þroskast, við lesturinn.”
Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2006